Hausthefti Barna og menningar kemur út í vikunni. Blaðið er í þetta sinn helgað litla og stóra skrímslinu hennar Áslaugar Jónsdóttur, bókagerðarkonu, en sex bækur um þau hafa þegar komið út í samstarfi við norrænu höfundana Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Kristín Ragna Gunnarsdóttir teiknari og bókmenntafræðingur fjallar um myndmál í skrímslabókunum og Helga Birgisdóttir doktorsnemi í íslenskum bókmenntum tekur fyrir skrímsli og ótta. Í blaðinu er einnig viðtal Helgu Ferdinandsdóttur druslubókadömu og ritstjóra Barna og menningar við Áslaugu Jónsdóttur um tilurð litla og stóra skrímslisins og óvenjulegt samstarf þriggja höfunda. Skrímslin eru á leiðinni upp á svið Þjóðleikhússins í vetur og segir Áslaug frá því hvernig þessar loðnu verur hafa tekið í það brölt.
Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur um Gríshildi góðu, kvenhetju úr íslenska sagnaarfinum og nafnleysi kvennanna sem héldu þeim arfi á lofti. Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur um Fluguna sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur sem hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Einnig er uppfærsla Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz leikrýnd af Sigurði H. Pálssyni.
Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og er til sölu í Bóksölu stúdenta og bókabúð Máls og menningar, laugavegi 18. Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum (International Board on Books for Young People) og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.
Gaman! Ég elska litla skrímslið og stóra skrímslið og myndi kaupa þetta blað þótt ekki væri nema fyrir kápuna.
SvaraEyðaÞað er miiiklu betra að gerast bara áskrifandi, sko B-)
SvaraEyðaJá, ég skal skammast til þess!
SvaraEyða