9. nóvember 2011

Veður af graðhesti

Það var algjör tilviljun að ljóða- og ævintýrakverið Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur rak á fjörur mínar þetta haustið; ég hefði örugglega aldrei rekist á það ef önnur druslubókadama hefði ekki gaukað því að mér. Þetta er lítil, ferköntuð bók í glansandi bleikri kápu með gylltum stöfum, skemmtilega extravagant hönnun og sannarlega ekki það sem ég hefði almennt búist við af Sæmundi, útgáfufélagi Sunnlenska bókakaffisins! (Myndin hér til hliðar sýnir glansáferðina alls ekki nógu vel.) Sigríður hefur áður gefið út ljóðabókina Einnar báru vatn, sem ég komst að því að er í sömu glansbleiku kápunni, þó með svörtum stöfum – höfundarverk Sigríðar hlýtur að skera sig mjög úr í bókahillum.

En bókin heitir sumsé Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf og samanstendur af sjö erótískum ljóðum og einu ævintýri. Ég verð að segja að mér finnst erótíkin bara frekar vel heppnuð, sem er ekki lítill sigur, hún er eitthvað svo vandmeðfarin og verður auðveldlega áreynslukennd og tilgerðarleg. Hér er erótíkin prakkaraleg og opinská og snýst mjög um það hvað það er þrúgandi að leggja hömlur á kynferðið, eins og er auðvitað ekki síst gert í tilfelli kvenna. Mér finnst hin frelsandi erótík konunnar stundum eiga það til verða hálfvæmin – einhver svona Píkusögufílingur – en þessi er alveg laus við það.


Ævintýrið í bókinni fjallar um kóng og drottningu í ríki sínu, dóttur þeirra Ingibjörgu og Þorstein karlsson sem vill giftast henni. Á þeirri vegferð má segja, ekki að öllu leyti í bókstaflegri merkingu, að Þorsteinn taki alla meðlimi kóngafjölskyldunnar í óæðri endann. Ævintýrið er skemmtilegt en ég er hrifnari af ljóðunum. Þau eru blátt áfram og töff og hefðu kannski bara mátt vera fleiri. Ég held að línan „Hann penslar á mér skautið með limkollinum“ (9) sé einhver besta „mynd“ sem ég hef lesið í mjög langan tíma, ég er búin að vera með hana algjörlega á heilanum.

Sigríður er bóndi, en þess sér víða merki í fyrri bókinni og líka aðeins í þessari. Til dæmis í ljóðinu Gangmál (46-47), sem er mjög fallegt; þar finnur ljóðmælandi til með rauðu merinni sinni þegar hún fær „enga þjónustu / hvergi veður af graðhesti“. Það er auðvitað frekar óvenjulegt að maður rekist á glansbleikar ljóða- og ævintýrabækur frá bændum, ég viðurkenni að ég þurfti að minna sjálfa mig á að fyrir alls ekki svo löngu síðan voru langflest skáld á Íslandi bændur. Í því ljósi er merkilegt hvað maður heggur eftir því í fullkomlega nútímalegri bók að finna þar myndmál og vísanaheim landbúnaðar og sveita. Þegar bókin er svo í ofanálag eftir konu og inniheldur erótík með femínískum undirtóni er það ansi hreint hressandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli