5. desember 2011

Bókamerki

Fyrir skömmu birtist athyglisverður pistill hér á Druslubókum og doðröntum þar sem fjallað var um stellingar við lestur uppi í rúmi. Meðan ég renndi yfir greinina og stórfróðlegar umræðurnar fór ég að velta fyrir mér lestrarvenjum mínum á kvöldin og áttaði mig þá á að enn var svigrúm til mikilvægra rannsókna í kringum efnið. Nefnilega: hvað gerir maður þegar maður er búinn að liggja dágóða stund í læstri hliðarlegu og njóta góðrar bókar en finnur augnlokin þyngjast og ákveður að nóg sé komið í bili? Maður leggur jú frá sér bókina en hvernig fullvissar maður sig um að maður finni sömu blaðsíðu hratt og örugglega þegar maður tekur til við lesturinn að nýju?

Til þess gerð bókamerki eru auðvitað seld víða í ýmsum útgáfum en einhvern veginn hefur mér aldrei hugnast neitt slíkt. Yfirleitt eru þau of stór og groddaleg, já bara allt of óþjál fyrir minn smekk. Ég á að vísu einhver fín bókamerki en ég hef gjarnan stungið þeim handahófskennt inn í doðranta í bókahillunni og leyft þeim að rykfalla þar. Á mínum yngri árum stundaði ég það mikið að brjóta upp á hornin á blaðsíðunum og tók mjög nærri mér þegar gefið var í skyn að slíkt væri ill meðferð á bókum. Á einhverjum tímapunkti hefur áróðurinn þó náð til mín því ég get ekki hugsað mér að gera þetta lengur. Hins vegar á ég það enn til að hvolfa bókunum opnum á náttborðið. Gallinn við það kerfi er hvað það er óáreiðanlegt. Það þarf ekki annað en að eitthvert barnanna ákveði að hoppa í rúminu eða hressilega vindhviðu inn um gluggann, bókin hrynur í gólfið og allt er unnið fyrir gýg.

Það sem hefur orðið ofan á hjá mér undanfarin ár er að stinga ómerkilegum lestarmiðum inn í bækurnar. Ástæðan er kannski sú að ég á mínar bestu lestrarstundir í stopulum lestarferðum milli heimabæjar míns og höfuðborgarinnar. Þetta eru einu stundirnar sem ég sit ein í algjöru næði (það segir kannski eitt og annað um heimilislífið hjá mér að yfirfullir lestarvagnar teljist náðugir) og hef tíma og orku til að lesa meira en fimm línur í einu. Lestarmiðann þarf ég svo auðvitað að hafa uppivið þannig að ég geti sýnt hann þegar miðavörðurinn mætir svo ég hef hvort tveggja á borðinu fyrir framan mig, bók og miða, og þegar komið er á áfangastað kemur það af sjálfu sér að skella þessu tvennu saman. Miðinn fylgir svo bókinni yfirleitt áfram, jafnvel alla leið aftur upp í hillu, svo í framtíðinni geta fjarlægir afkomendurnir mínir tímasett með sæmilega áreiðanlegum hætti hvenær ég las hvaða bók. Mér þykir dálítið vænt um þessa lestarmiðahefð. Það hefði verið svo týpískt fyrir mig að gera ótrúlegt mál úr þessu með bókamerkin og ákveða að ég þyrfti sjálf að teikna eða, sem verra væri, sauma(!) svoleiðis grip uppfullan af „táknrænu og persónulegu gildi“. Þess vegna er ég svo ánægð og þakklát fyrir að hafa bara haldið mig við þennan ómerkilega og fullkomlega óhátíðlega sið.

Síðustu 3-4 bækur hef ég að vísu brotið lestarmiðaregluna og notað krumpaðan og rifinn miða sem dóttir mín skrifaði „Heimsins besta mamma“ á og fylgdi upphaflega með gjöf frá henni. Eins og miðinn er sætur er ég dálítið hrædd um að ég sé komin á hættulega braut. Ég óttast að þetta litla, krúttlega og persónulega bókamerki sé bara fyrsta skrefið í þróun sem endi í einhverjum trylltum metnaði. Ég sé fyrir mér bútasaumað bókamerki með áfestum skrappmyndum, fótaförum allra barnanna minna í þrykki og uppáhaldsljóðinu mínu handbróderuðu í – og innlögn á heilsuhæli í kjölfarið.

9 ummæli:

  1. Ferlega er þetta skemmtilegur pistill.

    Ég nota mjög gjarnan lestar- og strætómiða þegar ég er í útlöndum og finnst einmitt mjög gaman að rekast á þá inn í bókunum síðar og fá smá flassbakk í ferðalögin.

    Ef ég les bók fljótlega strax eftir að ég keypti hana nota ég kassakvittunina oft sem bókamerki. Þær hafa líka þetta skemmtilega dokúmentaríska gildi en því miður er blekið oft agalega lélegt og máist fljótt út.

    Lengi vel fannst mér glæpsamleg tilhugsun að brjóta upp á hornin en ég hef slakað heilmikið á í þeim efnum allra síðustu árin. Sennilega var kveikjan að því að ég fór að leyfa mér þetta stórskemmtilegur pistill sem ég las einu sinni þar sem umgengni fólks við bækur var greind í tvo flokka eftir því hvort hún einkenndist af hirðlegri eða líkamlegri ást (ég þarf endilega að skrifa um greinasafnið þar sem þessi pistill birtist einhvern tíma við tækifæri).

    Oftast nota ég þó gula miða (post-it). Þeir hafa þann stóra kost að haldast kyrrir á sínum stað - ja, nema þeir séu orðnir gamlir og ofnotaðir og límið ónýtt.

    SvaraEyða
  2. Úúúúú, skemmtilegur pistill! Ég jesúsa mig þegar ég sé einhvern brjóta upp á hornin, finnst það næstum eins og að krota í bók - sem er líka óleyfilegt! En ég legg hins vegar bókina hiklaust uppglennta á náttborðið (eða gólfið, ef náttborðið er ofhlaðið), þannig að það er klárlega eitthvert ósamræmi í gangi hér. Iðulega lokast bækurnar aftur, af einhverjum orsökum, en ég er óhugnanlega minnug og góð í að finna rétta staðinn.

    Bókamerki nota ég samt líka oft. Breskir vinir mínir eru voðalega duglegir að nota bókamerki og ég hef fengið nokkur mjög lekker í jólagjöf þaðan. Uppáhaldsbókamerkið er hins vegar eftir bróður minn sem teiknaði það, litaði og gaf mér í jólagjöf fyrir nokkrum árum.

    SvaraEyða
  3. Ég skrifa í bækurnar, brýt upp á hornin, les í baði og allskonar. Svo gef ég bækurnar til góðgerðarstofnana þegar flæðir út úr hillunum. Mér finnst bækur vera til að nota.

    SvaraEyða
  4. Ég braut uppá hornin í bókum sem krakki og unglingur en las svo einhvern pistil um að það væri ægileg meðferð á bókum svo ég hætti því. Ruglið sem hægt er að innræta manni! En skrifa hiklaust og nótera í mínar eigin bækur, en þoli ekki þegar fólk gerir það í lánsbækur og bókasafnsbækur. Nota annars það sem hendi er næst sem bókamerki, er með svartan borða í þeirri sem ég er að lesa núna, eitthvað svona sem sett er í flíkur til að hengja þær upp.

    SvaraEyða
  5. Ég nota líka allskonar sem bókamerki - innkaupalista, umslög og blýanta til dæmis.
    Fyrir svolitlu síðan keypti ég notað eintak af Listinni að elska, eftir Erich Fromm, með mjög miklum undirstrikunum og athugasemdum í ýmsum litum. Það varð til þess að ég las allar minningargreinar um manneskjuna sem bókin var merkt og komst að ýmsu forvitnilegu.

    SvaraEyða
  6. Ég nota allskona miða - en ég verð að viðurkenna að þegar ég horfi á myndina dauðlangar mig í töff útsaumað bókamerki...

    SvaraEyða
  7. Sjónræn staðfesting kemur ekki til mín fyrr en í annarri tilraun, en sleppum því.

    Ég hef alltaf heyrt það kallað að setja hundseyra á blaðsíðuna eða bókina ef brotið er upp blaðsínuhornið þar sem maður er staddur í bókinni.

    Les mest bókasafnsbækur og hika ekki við að setja hundseyru á þær.

    Ef bók er lögð einhvers staðar opin skiptir í mínum huga mestu hvort hún er upp í loft eða á grúfu og er hægt að fjölyrða mikið um það.

    Sæmundur

    SvaraEyða
  8. Í einni af bókum Braga Ólafssonar (man ekki hvaða - líklega Hvíldardögum?) rifjar aðalpersónan upp atvik úr gagnfræðaskóla þar sem persónan, drengur, hafði brotið upp á blaðsíðuhorn til að merkja sér stað. Kennarinn varð þessa var og spurði svo allur bekkurinn heyrði:"Hafið þér horn í síðu bóka?". Svo hlógu allir nema drengurinn, sem kveikti ekki á perunni fyrr en einhvern tímann í frímínútunum.

    SvaraEyða
  9. Hvernig gat ég gleymt hinu skemmtilega orði "hundseyra"? Svona er maður orðinn málskertur. Nú mun ég óspart nota þetta góða orð.

    SvaraEyða