11. desember 2011

Bókasöfn á gististöðum 10, og tvær bækur um mýs

Liðnir eru nú nokkrir mánuðir frá síðustu færslunni í flokknum Bókasöfn á gististöðum, enda minnkar flakkið á fólki oft umtalsvert yfir vetrarmánuðina. Ég brá hins vegar undir mig betri fætinum í desemberbyrjun og eyddi heilli netlausri viku á Ströndum, sem gestur í hinu ágæta lista- og fræðimannahúsi Skelinni á Hólmavík. Þar svamlaði ég í heitum potti og dagskrá Ríkisútvarpsins til skiptis, tók þátt í jólaleik kaupfélagsins og gleymdi að kaupa rækjurnar frá Hólmadrangi, sem annars er algjört möst.

Í Skelinni er margt bóka þótt ég hafi reyndar komið með svo mikið af bókum með mér að ég hafi ekki nýtt mér þær sem fyrir voru neitt að ráði. Fletti reyndar í nokkrum matreiðslubókum frá 9. áratugnum, sem er genre sem ég finn mig eiginlega knúna til að fjalla um síðar í sérstakri færslu (dæmi: hakkhringur, bakaður í kökuformi). Helsta einkenni bókakostsins í húsinu er sennilega fjölbreytnin, sem sést ágætlega á þessari mynd sem ég tók af handahófi af bókaröð í gluggakistu:

Hér eru praktískar handbækur á borð við Garðagróður og Íslenska flóru, reyfarar sem ég hefði kannski látið freistast af ef ég væri ekki búin að lesa Stieg Larsson og deildi andúð annarra druslubókakvenna á Camillu Läckberg, ferðabók um Kína, íslenskar samtímabókmenntir, meðal annars frá Ströndum, heildarsafn Ólafíu Jóhannsdóttur á sínum stað, og fulltrúar hinna Klassísku höfunda eru Jules Verne og Aldous Huxley. Og Tauben im Gras eftir Wolfgang Koeppen, sem ég þekkti ekki en er búin að gúgla núna og væri klárlega til í að tékka á seinna á mér aðgengilegra tungumáli en því upprunalega. Og svo auðvitað gemsastrumpur sem vakir yfir öllu.

Dvölin fyrir vestan vakti svo líka minningar um aðrar bækur sem ég var búin að steingleyma því að væru til. Á Hólmavík komst ég, borgarbarnið, nefnilega í fyrsta skipti í almennilega nálægð við þá ágætu tegund músina. Sem við ræddum þessa tilteknu mús okkar á milli, „hvað ætli hún geri núna“, „ætli hana langi ekki í súkkulaði“, fannst mér skyndilega bergmála í höfði mér einhvers konar ímynduð ræða músarinnar og það með ákveðnu orðfæri og stíl sem ég gat varla verið að skálda upp úr sjálfri mér svona tilefnislaust. Ég heyrði fyrir mér músaryfirlýsingar á borð við „þau geta sko aldeilis ekki tekið frá mér súkkulaðið og haldið að það hafi engar afleiðingar“ og „hún langamma mín, sem var heimilisvinur á Fljótum fyrir réttri öld, hefði aldrei samþykkt svona vitleysu“.

Ég áttaði mig fljótlega á því að þessi rödd var ættuð úr barnabókum sem ég las þegar ég var lítil og fjölluðu um tvær mýs, lífsbarning þeirra og viðskipti við mannfólkið. Ég þurfti að gúgla mig áfram þegar heim var komið til að rifja upp hvað þessar bækur hétu, mundi bara að önnur þeirra var blá: þetta reyndust vera bækurnar Skotta og vinir hennar og Skotta eignast nýja vini eftir Margréti E. Jónsdóttur, og þær komu út seint á 9. áratugnum enda finnur herra Gúgúl engar kápumyndir. Þær eru meðal annars taldar upp á þessari krúttlegu síðu Bókasafns Kópavogs þar sem hægt er að leita uppi barnabækur sem fjalla um tilteknar dýrategundir, og það er greinilegt að músin er vinsælt umfjöllunarefni. Ég hef bækurnar ekki innan handar og get því ekki litið í þær til að staðfesta eða afsanna þá tilfinningu mína að þær hafi verið ógurlega skemmtilegar - enda væri það kannski ekkert sniðugt - en það var gaman að draga þær svona gleymdar upp úr sarpinum samt sem áður. Og næst þegar ég hitti fyrir mús mun ég vonandi taka því af aðeins meiri rósemd en í síðustu viku, orðin algjörlega forhert og búin að rifja upp gömul kynni af vinkonunum Skottu og Bollu (það var hún sem var alltaf að vitna í langömmu sína).

2 ummæli:

  1. Já, þessar bækur las ég líka og hélt upp á! Bolla var mín eftirlætispersóna í bókunum. Ég held sveimérþá að a.m.k. fyrri bókin sé til hérna niðri í bókasafni foreldranna. Var ekki einhver fugl sem hékk mikið með þeim vinkonum?

    SvaraEyða
  2. Gaman að einhver annar skuli muna eftir þeim líka! Bolla var klárlega einna skemmtilegust - og jú, ég er ekki frá því að það hafi verið einhver fugl á vappi og gott ef það var ekki ákveðin togstreita milli hans og Bollu. Eða hvort hún var alltaf að plata hann upp úr skónum...

    SvaraEyða