18. desember 2011

Góðir lesendur

Af skáldverkum Vladimírs Nabokov hef ég bara lesið Lolitu, og bara einu sinni – en ég var mjög hrifin af henni og ætla alltaf að lesa hana aftur. Af öðrum verkum Nabokovs las ég sjálfsævisöguna Speak, Memory, líka bara einu sinni. Nú er ég að lesa bókmenntafyrirlestra sem Nabokov hélt í Wellesley og Cornell háskólunum á árunum kringum 1950 og komu út á bók undir heitinu Lectures on Literature árið 1980, þremur árum eftir dauða hans. Í fyrsta fyrirlestri bókarinnar, sem birtur er undir titlinum „Good Readers and Good Writers“, staðhæfir Nabokov ýmislegt um lestur og lesendur og meðal annars þetta: „Curiously enough, one cannot read a book: one can only reread it. A good reader, a major reader, an active and creative reader is a rereader.“ Nabokov hefur verið yfirlýsinga- og alhæfingaglaður í meira lagi, bæði af eigin skrifum að dæma og annarra um hann. En auðvitað eru skáldverk lítils virði án lesenda og hressandi að minna lesendurna á að ekki bara höfundarnir heldur einnig þeir sjálfir geti verið góðir, skapandi, eða ekki.


Fyrirlestrar Nabokovs við Wellesley og Cornell voru reyndar gefnir út á tveimur bókum, hin síðari kom út árið eftir eða 1981 og heitir Lectures on Russian Literature. Sú fyrri, sem ég er að skoða núna, inniheldur sjö fyrirlestra um sjö bókmenntaverk: Mansfield Park eftir Jane Austen, Bleak House eftir Charles Dickens, Frú Bovary eftir Gustave Flaubert, Hið undarlega mál Jekylls og Hydes eftir Robert Louis Stevenson, Leiðina til Swann eftir Marcel Proust, Umskiptin eftir Kafka og Ódysseif eftir James Joyce. (Þar sem Nabokov var ekki prófessor í ensku hafði hann ekki leyfi til að kenna bandarískar bókmenntir í námskeiðum sínum við bandaríska háskóla.)

Í bréfaskiptum Nabokovs og Edmunds Wilson við Cornell-háskóla kemur fram að sá fyrrnefndi hafði raunar alls ekki hugsað sér að kenna Jane Austen og svaraði uppástungu Wilsons þar að lútandi svo: „Thanks for the suggestion ... I dislike Jane, and am prejudiced, in fact, against all women writers. They are in another class ... I shall take Stevenson instead.“ Wilson svaraði að hann hefði á röngu að standa; Austen væri „one of the half dozen greatest English writers“ en Stevenson hins vegar annars flokks. Nabokov hefur greinilega endurlesið Austen áður en kennslan hófst, því hann skipti snarlega um skoðun og setti Mansfield Park á námsskrána.

Þegar hér er komið sögu er ég langt komin með fyrsta lestur á fyrsta skáldsögufyrirlestri bókarinnar, sem er einmitt um Mansfield Park. Þann allra fyrsta, um höfundinn og lesandann, þorði ég ekki annað en lesa þrisvar sinnum áður en lengra var haldið, en texti Nabokovs þolir endurlestur sem betur fer vel (og annað væri nú líka grátleg kaldhæðni...). Svo kemur bara í ljós hvort ég lesi aftur um Mansfield Park, og þá fljótlega eða einhverntíma seinna, hvort ég lesi alla skáldverkafyrirlestrana samviskusamlega eftir röð, eða fletti aftast áður og lesi hugleiðingar Nabokovs um „The Art of Literature and Commonsense“... Nú, og fyrst ég er komin í jólafrí er fátt því til fyrirstöðu að ég hreinlega lesi þau þessara ágætu skáldverka sem ég á alveg eftir, endurlesi hin, eða jafnvel alltsaman og bæði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli