Það er líklega full seint í rassinn gripið að setjast niður og skrifa óskalista þegar fjórir dagar eru til jóla. Ég lét raunar þau boð út ganga að ég kærði mig lítt um bókahlunka í jólagjöf. Ég verð á faraldsfæti í kringum hátíðarnar og þó íslensk menning sé mér kær þá tími ég ekki að borga undir hana yfirvigt. Þegar ég kom til Íslands í jólafrí læddist þó að mér örlítil eftirsjá. Það er eitthvað svo skringilega séríslenskt við þessa bókageðveiki sem heltekur allt í desember og það er hjartastyrkjandi að eignast örlitla hlutdeild í henni. Druslubókabloggið hefur verið minn kompás í gegnum flóðið og ég hef lítið fylgst með öðrum fjölmiðlum enda er það algjör óþarfi. Vinkonur mínar hafa ritað fjölmarga forvitnilega pistla og það sem fer hér á eftir er að stærstum hluta innblásið af blogginu. Ef einhver á eftir að kaupa jólagjöf handa mér þá gæti ég hugsað mér eftirfarandi titla.
Mennt er máttur, tilraunir um dramb og hroka. Endurminningar Þórðar Sigtryggssonar.
Held að þetta sé einn mest spennandi titilinn þetta árið. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við sjálfsævisöguleg skrif og ekki er verra ef þau eru full af klámi og öðrum fjára eins og þessi ku vera.
Hálendið eftir Steinar Braga. Yfir þessari væri ég til í að vaka. Án efa æsispennandi og Steinar Bragi er rithöfundur Íslands. Guðrún Elsa er mikil smekkkona á hrylling og
hún skalf á beinunum.
Jarðnæði eftir Oddnýju Eir. Mér finnst Oddný skemmtileg og
glænýr pistill Guðrúnar Láru dró ekki úr áhuga mínum á því að lesa nýju bókina hennar.
Heilsuréttir Hagkaupa eftir Sólveigu Eiríksdóttur. Ég geri mér grein fyrir að mitt smáa menningarlega kapítal rýrist nú um 100% og ég verð mögulega gert burtræk úr systralaginu Druslubókadömum. En Solla er sæt og grænmeti er besti matur í heimi.
Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur. Kristín Svava skrifaði svo skemmtilega um þessa ljóðabók eftir Sigríði bónda í Arnarholti. Þetta hljómar svo ferskt og hressandi að ég mun verða mér út um þessa með einum eða öðrum hætti.
Bjarni Þorsteinsson - Eldhugi við ysta haf eftir Viðar Hreinsson. Það tala margir um að þetta séu ein bestu bókajól í manna minnum. Ég er ekki viss um að svo sé þegar kemur að ævisögum en kannski hef ég ekki fylgst nógu vel með. En ég fann þessa sem ég ætla svo sannarlega að lesa. Bjarni Þorsteinsson var prestur á Siglufirði og ansi merkilegur maður. Hann safnaði þjóðlögum af miklu kappi og skrifaði sjálfur músík meðal annars eitt af mínum uppáhaldslögum, "Blessuð sértu sveitin mín".
Ef ég hefði vitað það fyrir tíu árum að jólin 2011 myndi mig langa í ævisögu séra Bjarna Þorsteinssonar hefði ég eflaust gengið í sjóinn. En svona er þetta, maður lifir og lærir ...
SvaraEyða