5. janúar 2012

Erótík liðinna jóla

Ég fékk tvær bækur í jólagjöf, Hálendið eftir Steinar Braga og nýju matreiðslubókina hennar Sollu grænu. Hálendið las ég í einum rykk og hreytti ónotum í hvern þann sem dirfðist að ávarpa mig á meðan lestrinum stóð. Hún minnti mig á ýmsar aðrar bækur sem ég hef lesið og kvikmyndir sem ég hef séð en það var engu að síður eitthvað frumlegt við uppbyggingu hryllingsins og alla þessa bolta sem höfundurinn nær að halda á lofti. Guðrún Elsa fjallaði um þessa ágætu skáldsögu hér.

Að loknum jólum fór ég að svipast um eftir lesefni og rakst þá á bók sem ég fékk í jólagjöf í fyrra og hafði ekki náð (eða nennt) að lesa. Um er að ræða lítið ljóðasafn eftir bandaríska skáldið E.E. Cummings (1894-1962), Erotic Poems. Ég hef lengi ætlað mér að lesa meira af bandarískum tuttugustu aldar bókmenntum. Þegar ég var yngri var ég hrifin af Hemingway, las Steinbeck og elskaði Brautigan meira en aðra menn. Hin síðari ár hef ég ekki lagt lag mitt við bandarísk skáld af neinu ráði. Á liðnu ári bætti ég reyndar nokkuð úr og las nokkrar skáldsögur en ljóð hef ég lítið kynnt mér.

E.E. Cummings var mjög vinsæll rithöfundur meðan hann lifði, líklega eru fá bandarísk ljóðskáld sem notið hafa jafn mikillar hylli í lifanda lífi, nema ef vera skyldi Robert Frost. Cummings orti nærri þrjú þúsund ljóð, skrifaði sjálfsævisögu, smásögur, nokkur leikrit og ritgerðir – auk þess sem hann var flinkur teiknari og eftir hann liggur töluvert af myndlist. Hann var barnungur þegar hann ákvað að gerast rithöfundur. Hann æfði sig vel og öll sín unglingsár skrifaði hann eitt ljóð á dag. Svo fór hann í fínan háskóla og las þar verk margra framsækinna höfunda sem höfðu mikil áhrif á hann, t.d. Gertrude Stein. Cummings gaf út fyrstu ljóðabókina sína árið 1923 og bar hún titilinn Tulips and Chimneys. Árið áður kom út eftir hann sjálfsævisögulega skáldsagan The Enormous Room. Báðar bækurnar þóttu nýstárlegar og hlutu góðar viðtökur gagnrýnenda sem hvöttu þennan unga mann óspart áfram. Yrkisefnin voru að stærstum hluta ást, nánd og kynlíf. Pólitískur var hann ekki á sínum yngri árum en eftir heimsókn til Sovétríkjanna í upphafi fjórða áratugarins hallaði hann sér nokkuð til hægri, gekk í Repúblikanaflokkinn og studdi McCarthy í einu og öllu. Ég er ekki viss um að mér hefði líkað vel við Cummings sem manneskju enda er það algjört aukaatriði. Sum þessara erótísku ljóða hugnast mér hinsvegar ágætlega. Þetta eru kannski ekki sérlega frumleg, mörg þeirra eru sonnettur og ég efast um að formlega séð hafi þau verið sérlega framsækin þegar þau voru skrifuð þó á því séu undantekningar. Einhversstaðar las ég að Cummings hefði sætt töluverðri gagnrýni fyrir að staðna og halda sig fast við þann stíl sem hann hafði skapað sér í stað þess að leita nýrra leiða og að hann hefði lítið þróast sem höfundur í heil þrjátíu ár.



Ljóðunum fylgja teikningar eftir Cummings sjálfan. Þær eru margar hverjar ágætar, undir greinilegum Picasso áhrifum enda var hann víst yfirlýstur aðdáandi listamannsins spænska Ég veit ekki hvort Cummings teiknaði þær sérstaklega til þess að fylgja þessum ljóðum eða hvort ritstjóri safnsins valdi þær af sínum smekk úr hans höfundaverki. Erotic Poems er ansi snotur gripur, ekki síst vegna teikninganna. Ansi hreint krúttleg gjöf til ástarinnar á nýju ári og kostar ekki nema 10$ á amazon!

Að lokum eitt sýnishorn:

xix.

my girl’s tall with hard long eyes
as she stands, with her long hard hands keeping
silence on her dress, good for sleeping
is her long hard body filled with surprise
like a white shocking wire, when she smiles
a hard long smile it sometimes makes
gaily go clean through me tickling aches,
and the weak noise of her eyes easily files
my impatience to an edge—my girl’s tall
and taut, with thin legs just like a vine
that’s spent all of its life on a garden-wall,
and is going to die. When we grimly go to bed
with these legs she begins to heave and twine
about me, and to kiss my face and head.

(bls. 17)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli