27. janúar 2012

Óspennandi ævisaga og heimspeki fyrir byrjendur

Þær bækur sem ég hef lesið í janúar (ýmist að hluta eða í heild) eiga það sameiginlegt að vera ekki skáldverk. Í það minnsta ekki strangt til tekið, því auðvitað taka höfundar sér ýmis skáldaleyfi svo lengi sem ekki er um hreinan fræðitexta að ræða, og engin umræddra bóka fellur svosem í þann flokk heldur. (Á þeim nótum liggur beint við að vísa á áhugaverð skoðanaskipti Guðrúnar Jónsdóttur og Páls Valssonar á síðum Fréttablaðsins í liðinni viku, um nýjustu skáldsögu Hallgríms Helgasonar og mörk ævisagnaritunar og skáldskapar.)

Þótt ég hafi ekki lesið margar ævisögur um dagana hef ég rekist á þó nokkrar skemmtilegar, til dæmis í bókmenntafræðinámskeiði í HÍ um árið þar sem fókusinn var á sjálfsævisögum innflytjenda og við lásum m.a. ævisögur Edwards Said og Vladimirs Nabokov. Svo fannst mér Strange Fascination, ævisaga Davids Bowie eftir David Buckley, vera æðisleg og ekki bara afþví ég er Bowie-nött heldur er hún virkilega vel unnin og skemmtileg.

Sumarið 2005 gaf vinkona mín mér ævisögu Kate Bush í afmælisgjöf; bók sem þá var nýútkomin, skrásett af Rob Jovanovic og heitir einfaldlega Kate Bush: The Biography. Ég er mikill aðdáandi tónlistar Kate Bush, finnst hún spennandi karakter og hlakkaði til að lesa ævisöguna við tækifæri. Síðan hefur bókin fylgt mér til Kaupmannahafnar, á Seyðisfjörð og nú síðast til Finnlands, ávallt með millilendingu í Reykjavík og hefur þjónað hlutverki einskonar öryggisbita í bókahillunni: ég átti þó alltaf eitthvað spennandi ólesið.
Eftir flutninga milli húsa á Seyðisfirði sumarið 2009 lagði ég hana í gluggakistu nýja hússins, sem er meira en aldargamalt, hefur enga varanlega íbúa haft síðastliðin 20-30 ár og ekkert verið haldið við. Víða reyndist líka orðið óþétt – í næstu stórrigningum lak inn um gluggana á þaki og framhlið hússins og beint ofaní kjölinn á Kate... eða reyndar bara rétt í gegnum blábrún langhliðar blaðsíðnanna, og einhverra hluta vegna sjást einu ummerkin þar og engin á harðspjaldakápunni. Af rákunum er þó augljóst að bókin hefur ekki staðið upp á rönd heldur legið á hlið.

Svo var það ekki fyrr en um daginn að ég tók hina veðruðu ævisögu Kate Bush ofan úr hillunni (sem nú er í Turku í Suðvestur-Finnlandi) með það í huga að lesa hana nú loksins – og varð fyrir massífum vonbrigðum. Til að byrja með kom á daginn að viðfang bókarinnar hafði neitað höfundinum um svo mikið sem eitt viðtal. Það kemur reyndar ekki stórkostlega á óvart, því Bush hefur ávallt haft vara á sér gagnvart fjölmiðlum og verið opinber persóna í eins litlu mæli og hún hefur komist upp með – en auðvitað hefur hún samt veitt viðtöl, bara einhverjum öðrum. Og auðvitað hefur Jovanovic byggt sína bók að einhverju leyti á viðtölum sem hún hefur veitt þessum öðrum – og reyndar að öllu leyti á efni sem birst hefur annarsstaðar (eða, á stundum, eigin fabúleringum) – en mér finnst hann bara ekki hafa gert sér spennandi mat úr því.

Í inngangi segir höfundur frá kynnum sínum af fyrstu verkum Bush og speglar stemningu þess tíma í almennri eftirvæntingu vegna gerðar plötunnar Aerial (2005), sem var fyrsta plata Bush í 12 ár. Síðan fylgja kaflar um barnæsku hennar og þróun sem listamanns, sköpun tónlistar og orðstírs, um útgáfufyrirtæki og viðtökur gagnrýnenda auk alls konar tilvitnana í Bush sjálfa – semsagt fullt af upplýsingum – en þetta er bara ekkert skemmtileg bók. Ég fann ekkert í henni sem dró mig áfram, reyndar hef ég ekki einusinni nennt að klára hana heldur hraðlas lokakaflana. Ég hef engan áhuga á því hvernig upptökur á sjöundu plötunni gengu fyrir sig í smáatriðum, eða persónulegu mati höfundarins á hverri plötu fyrir sig. Þótt ég eigi erfitt með að koma því vel frá mér nákvæmlega hvað ég vilji fá útúr ævisögu er það augljóslega eitthvað umfram það eitt að staðreyndir úr lífi viðkomandi séu raktar í rislitlum texta í bland við misáhugaverðar hugleiðingar höfundar. Ég gæti sagt að ég hefði viljað fá meiri innsýn í hugleiðingar Bush um eigin verk, en kannski eru komment listafólks á eigin list bara eitthvað sem hljómar áhugavert en er það sjaldnast, svona eitt og sér, og þá er undir skrásetjaranum komið að gera eitthvað spennandi úr samhenginu. Það er líka ofureðlilegt að fólk eigi erfitt með að gera grein fyrir eigin innblæstri og verkferli – að minnsta kosti kveikir setning á borð við „I‘ve tried to say what needed to be said through the songs, the right structure, the shape, the sounds, the vocal performance, that is, the best I could“ ekki neitt sérstaklega í mér, þótt Jovanovic hafi séð ástæðu til að láta hana standa sem lokasetningu bókarinnar.

Kápumyndin að ofan er greinilega af nýrri útgáfu bókarinnar er ég á – merkt sem „Revised and Updated!“ Kannski segir það sína sögu að engum jákvæðum dómum hafi verið skellt á kápuna... Hinsvegar var ég að lesa um aðra ævisögu um Kate Bush sem kom út 2010; Under the Ivy: The Life and Music of Kate Bush. Hún kom auðvitað líka út án samþykkis Bush sjálfrar, en er að mati gagnrýnanda Irish Times „the best music biography in perhaps the past decade“. Eftir að hafa rennt gegnum fyrstu síðurnar af Kindle-sýnishorninu sýnist mér hún líka öllu meira spennandi en hin, svo það er kannski eitthvað til að mæla með við ykkur Kate Bush aðdáendur/kyndilbera þarna úti. Reyndar tekst höfundinum Graeme Thomson strax á fyrstu blaðsíðunni að orða nokkuð sem Rob Jovanovic virtist aldrei ná almennilega utan um: „The truly tantalising thing about Kate Bush is that the whole has always been somehow greater, more dazzling, more mysterious, than the sum of her many parts.“

Semsagt: slöpp ævisaga sem ég mun tæplega standa í millilandaflutningum með aftur. En myndirnar eru flottar! Nú er ég að lesa The Sovereignty of Good, safn þriggja ritgerða eftir Iris Murdoch – sem á kápunni er lýst sem „one of the very few modern books on philosophy which people outside academic philosophy find really helpful“. Líst afar vel á enn sem komið er og segi kannski frá við tækifæri (þótt einhverra hluta vegna sé oft svo miklu skemmtilegra að segja frá því sem manni leist síður á).

2 ummæli:

  1. Haha, þetta er svo dásamlega vond lokalína í bók að það er næstum listfengið!

    Ég hef aldrei hlustað neitt á Kate Bush - fyrir mér er hún fyrst og fremst persóna í Rennur upp um nótt eftir Ísak Harðarson. Ég sé að í umfjölluninni um þá bók hérna á síðunni hef ég vitnað sérstaklega í línuna „Kate Bush á spilaranum, hvað ég vildi að hún væri mamma mín – trúi að augu hennar myndu spegla mig með skilyrðislausri elsku.“ Þannig að hún hefur allavega fengið sinn fallega lofsöng í íslenskri ljóðabók, þótt ævisagan hafi verið slöpp!

    SvaraEyða
  2. Fallegt! Reyndar er langt síðan ég hef hlustað aktívt á hana að ráði, en hún er alltaf mikið uppáhald.

    Þessi lokalína er ekki einu sinni öll sagan - hann klykkti út með því að bæta við frá eigin brjósti: "She certainly did." !

    SvaraEyða