Hlutirnir fjallar um par á þrítugsaldri, Jérôme og Sylvie, sem búa í París og starfa við markaðsrannsóknir. Bókin lýsir einhvers konar hamingjuleit þeirra. Þau eiga ekki mikla peninga og eru upptekin af því sem þau geta ekki veitt sér þess vegna, þau þrá að búa við velsæld og ríkidæmi en spyrna samt við fótum þegar þjóðfélagið vill beina þeim inn í heim hinna fullorðnu; ábyrgðarstöðu í starfi, fjölskyldulíf, bíl og íbúð. Þau vilja ráða sér sjálf en virðast ekki hafa neina hugmynd um hvað þau vilja gera við það frelsi. Í einhvers konar flóttatilraun fara þau til Túnis og dvelja þar um tíma, en sama stefnuleysið og ráðleysið hvílir yfir dvöl þeirra þar. Það er ekki skýr söguþráður í bókinni og ekki persónusköpun sem slík, Jérôme og Sylvie koma fram sem eining frekar en tveir sjálfstæðir einstaklingar.
Ég náði ekki alveg sambandi við þessa bók. Við lesturinn varð mér hugsað til sumra bókanna sem maður var látinn lesa í skóla, höfðu verið klassíkerar á sinni tíð og verið valdar til kennslu vegna þess að aðalsöguhetjarnir voru ungt fólk, en náðu ekki spontant sambandi út á það eitt. Mér detta í hug Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger og Den kroniske uskyld eftir Klaus Rifbjerg. Ég myndi sennilega kunna betur að meta þessar bækur ef ég læsi þær í dag en þær náðu engan veginn til mín þegar ég var í skóla, sérstaklega ekki sú síðarnefnda, enda uppnefndum við hana Den kroniske kedelighed af alkunnri kímnigáfu menntaskólanema. Ég varð mjög hissa þegar ég komst að því nokkrum árum síðar að Klaus Rifbjerg væri nokkuð hátt skrifaður höfundur í Danmörku og þætti jafnvel skemmtilegur.
Hlutirnir er kannski ekki sambærileg bók, hún er ekki þroskasaga unglinga eins og hinar tvær enda þroskast Jérôme og Sylvie bara ekki neitt og virðast enn jafn föst í ómögulegri tilvist sinni við lok bókarinnar, en hún var mér framandi á einhvern hátt sem minnti mig á lestur hinna tveggja. (Reyndar las ég í formálanum að hún hefði líka mikið verið lesin í skólum, meðal annars í Austur-Evrópu, enda var hún lesin sem gagnrýni á neyslusamfélagið. Ég fékk ekki á tilfinninguna að sú gagnrýni væri beinlínis þungamiðja bókarinnar, en kannski er gagnrýni á neyslusamfélag áranna kringum 1960 bara ekki nógu augljós árið 2012.) Það er ekki mikið um útskýringar í textanum sjálfum, sem er gott og blessað, en mér fannst stundum eins og það lægi eitthvað bak við sem ég hefði ekki fullar forsendur til þess að skilja – kannski félagslegt eða sögulegt samhengi, hún gerist í Frakklandi rétt upp úr 1960, sem er sögusvið sem ég hef litla tilfinningu fyrir. Og þá fór bara að koma upp í mér gamall karlfauskur sem lét dáðleysi aðalsöguhetjanna fara í taugarnar á sér og vildi helst að þau drifu sig á sjóinn og hættu þessu væli.
Til að hressa mig við eftir Hlutina las ég aðra bók sem er allt annars konar, Exercises in style (Exercices de style) eftir vin Perec, Raymond Queneau. Í henni segir Queneau sömu einföldu söguna, af manni sem verður vitni að því þegar maður ávarpar annan mann í strætó og sér þann fyrrnefnda svo aftur seinna sama dag, á níutíu og níu mismunandi vegu. Hann gerir það til dæmis með myndlíkingum (“At the very heart of the day, tossed among the shoal of travelling sardines in a white-bellied beetle...”), með stafarugli (“In het S sub in het hurs ruho a pach of tabou swinettyx...”), með upphrópunum (“Goodness! Twelve o´clock! Time for the bus! What a lot of people!”), með cockney-hreim (“So A´m stand´n ´n ahtsoider vis frog bus when A sees vis young Froggy bloke, caw bloimey, A finks...” - þótt það gæti hafa verið einhver annar hreimur í frönsku útgáfunni) og með grískum stíl (“In a hyperomnibus full of petrolonauts in a chronia of metarush I was a martyr to this microrama...”) svo eitthvað sé nefnt. Einnig til dæmis í sonnettu, hæku og símskeytastíl. Ein útgáfan fékk að vera „kvenleg” og lagði auðvitað sérstaklega áherslu á klæðnað og framkomu.
Stílæfingar Queneaus þóttu mér afar skemmtilegar. Ég er búin að ná mér í skáldsögu eftir hann sem á ensku heitir The Bark Tree og ætla að kíkja á hana við tækifæri. Svo á ég auðvitað eftir seinni nóvelluna í kiljunni hans Perec, en það er önnur skáldsaga hans, A man asleep (Un homme qui dort). Ég hef næstum áhyggjur af þeirri ánægju sem ég fæ út úr því að fá tvær bækur fyrir eina á þennan hátt.
Hey, vel valið! Hlutirnir er brillíant (veit ekki með ensku þýðinguna), Stílæfingar enn betri. Lífið: notkunarreglur er svo sennilega besta bók í heiminum. The End. (La fin.)
SvaraEyðaJá, Lífið: notkunarreglur er enn á dagskránni, ég hlakka til að kíkja á hana.
SvaraEyðaÉg las Hlutina í námskeiði í frönskum bókmenntum þegar ég var nýbyrjuð í bókmenntafræði og fannst rosa gaman. Gunnþórunn setti hana náttúrulega í samhengi fyrir okkur (ég skal senda þér slædsjóið úr tímanum bara!) og umræðurnar voru hressar minnir mig. Ég varð mjög æst vegna þess að mér fannst parið, sem er frekar þreytandi, vera nákvæmlega eins og þorri Íslendinga. Þau nenntu ekki að pæla í neinu nema hlutunum sem það langaði í - mig minnir að þau hafi ekki nennt að taka þátt í mótmælum vegna þess að þau vildu kíkja í búðir frekar. En það voru ekki allir sammála mér. Og árið var líka 2007.
SvaraEyða