Fæst orð hafa minnsta ábyrgð |
Nei, kannski er ég ekki alveg svona öfgafull. Ef einhver hefur gagn eða yndi af því að krota í bækurnar sínar þá er það auðvitað meinalaust af minni hálfu. Það er ekki eins og ég líti á bækur sem einhverja helgigripi, alla vega vil ég ekki festast í slíkri hugsun. Sjálf fæ ég lítið út úr bókakroti. Á tímabili, eða svona eitthvað framan af í námi, fannst mér ég þurfa að geta krotað í fræðigreinar og -bækur, þó aðallega til að strika undir texta eða merkja við áhugaverða staði (og aldrei með öðru en blýanti og aldrei, aldrei, aldrei hefði ég vogað mér að svo mikið sem setja eitt blýantsstrik í bókasafnsbók). Smám saman áttaði ég mig á því að þetta gagnaðist mér ekkert. Þurfi ég að rýna sérstaklega í texta þá finnst mér mun betra að skrifa niður í stílabók, og þá tiltek ég blaðsíðunúmerin sem skipta máli, eða þá að ég bý til skjal í tölvunni og skrifa í það. Þurfi ég að skrifa eitthvað að ráði vel ég alltaf hið síðarnefnda, enda vélrita ég mun hraðar en ég handskrifa. Ástæða andúðar minnar á útkrotuðum bókum er kannski fyrst og fremst sú að krotið truflar mig. Ég lít einhvern veginn svo á að með því að lesa bók standi ég í sambandi við höfundinn og ég vil fá að hafa það samband í friði. Ef um skáldsögu er að ræða vil ég geta sogast inn í hana án þess að vera trufluð af því hvað eitthvert fólk úti í bæ hafi verið að hugsa þegar það las hana. Sé um fræðirit að ræða vil ég fá boðskap höfundar tæran og ómengaðan. Eigi ég í einhverju basli með að skilja það sem höfundurinn hefur skrifað finnst mér meira gagn í að lesa bækur eða greinar sem aðrir hafa skrifað um það frekar en að binda vonir við einhverja setningu hér og þar eða undirstrikun frá misvitru fólki sem mögulega hefur misskilið allt saman.
En þeir eru til sem líta á spássíuskrif, eða marginalia, sem mikilvæg menningarverðmæti og leggja ýmist mikið upp úr því að tjá sig á spássíum bóka eða að rýna í gömul spássíuskrif liðinna stórmenna. Er þá nefnt ekki ómerkara fólk en Voltaire, Jane Austen, Edgar Allan Poe, Thomas Jefferson, Vladimir Nabokov, Charles Darwin, Mark Twain, Sylvia Plath, Ernest Hemingway og auðvitað Pierre de Fermat, sem er í raun fyrst og fremst þekktur fyrir frægustu spássíuskrif allra tíma. Um spássíuskrif liðinna tíma má til dæmis lesa hér. Nýlega hefur farið að bera á áhyggjum að því að rafbókavæðing nútímans muni skipa spássíuskrifum í glatkistu fortíðarinnar, meðal annars í grein eftir Dirk Johnson sem birtist í New York Times fyrir réttu ári. Hálfum mánuði síðar birtist svo önnur grein um spássíuskrif í New York Times Magazine eftir Sam Anderson þar sem áhyggjur Johnsons eru afgreiddar sem ástæðulausar. Anderson bendir á að rafbækurnar bjóði upp á aukna möguleika á spássíuskrifum og undir þetta taka fleiri, til dæmis hér og hér.
Spássíuskrif Nabokovs í Hamskiptum Kafka |
Ég fór að velta fyrir mér að hve miklu leyti þessir kostir eigi við nú til dags. Er líklegt að stærðfræðingur í dag, einhver Fermat nútímans, veldi þá leið til að segja frá uppgötvun sinni á merkilegri sönnun að hripa hana (sem sagt uppgötvunina, ekki sönnunina sjálfa, svo það sé á hreinu) niður á spássíu í bók? Væri hann ekki líklegri til að skrifa bloggfærslu eða tvíta um hana, senda vini sínum tölvupóst um hana, segja frá henni á feisbúkk, skrifa eitthvað í skjal sem hann vistaði í tölvunni sinni eða alla vega að leiða hana út á blaði? Á fyrri tímum hefur pappír eða annað efni til að skrifa á kannski verið af skornum skammti og því sniðugt að nota auða fleti eins og spássíur bóka til að hripa eitthvað niður. Nú hefur ekki aðeins framboð á pappír aukist heldur hefur tölvuvæðingin orðið til þess að pappírsskortur þarf ekki að hindra skrifgleði neins. Það er ekki aðeins pappírsframboð sem hefur aukist heldur hefur framboð á lesmáli aukist upp úr öllu valdi. Flestir sem ég þekki fyllast örvæntingu yfir tilhugsuninni um allar bækurnar sem þeir eiga ólesnar, eða allar áhugaverðu greinarnar á netinu, og ég er nokkuð viss um að mjög hafi dregið úr því að vinir láti sama bókareintakið ganga sín á milli sem þeir lesi jafnvel mörgum sinnum hver. Eins er það orðið fátítt að einstaklingur lesi sömu bókina aftur og aftur og dundi sér við að skrifa alls konar hugleiðingar á spássíurnar sem hann geti svo rifjað upp við næsta lestur eða þarnæsta. Sjálfsagt er það til að fólk geri þetta en það er varla mjög mikið um það; flest erum við uppteknari af því að rembast við að komast yfir sem mest af lesefni. Svo er líka rétt að benda á að aðrar leiðir hafa opnast til að deila hugleiðingum um lesefni, eða aðra hluti, með vinum og kunningjum. Hvað er það annað en hugleiðing um lesefni þegar ég deili einhverju lesefni með vinum mínum á feisbúkk og læt einhver orð falla í leiðinni? Ja, eða þegar ég skrifa færslu á þetta blogg?
*Fyrirsögnin er úr ljóðinu Marginalia eftir Billy Collins.
Hægt er að skrifa athugasemdir við texta rafbóka í Kindle og deila þeim með öðrum t.d. á Faccebook.
SvaraEyðaÓlíkt höfumst við að (en ég skrifa samt ekki í bókasafnsbækur).
SvaraEyðaÞetta var ég (Þórdís).
SvaraEyðaÉg þoli ekki þegar fólk notar yfirstrikunarpenna í bókasafnsbækur, en ég hef gaman af því þegar fólk krotar í ljóðabækur, svona í anda þessa Billy Collins-ljóðs:
SvaraEyðaOne scrawls "Metaphor" next to a stanza of Eliot's.
Another notes the presence of "Irony"
fifty times outside the paragraphs of A Modest Proposal.
Sýnir það með hvaða áherslum fólk les ljóð í skóla.
Ég krota (alltaf með blýanti) í mínar eigin bækur og les sömu bækur aftur og aftur (þær sem ég ætla ekki að lesa aftur losa ég mig við). En ég krota ekki í bókasafnsbækur.
SvaraEyðaÉg á Eld Kyndil og það er hægt að skrifa athugasemdir, yfirstrika með gulu og fletta orðum upp í orðabók :) Ég held að þetta mun ekkert hætta, bara verða öðruvísi :)
SvaraEyðaEkkert er eins leiðinlegt og bókasafnsbók sem hefur verið prófarkalesin (jafnvel með rauðum penna) af fyrri lánþega.
SvaraEyðaAnnars held ég að gildi spássíukrota og undir/yfirstrikana hafi ekki endilega minnkað í nútímasamfélagi, þótt við höfum tækifæri til að tjá okkur á 100 mismunandi vegu. Ég held að þetta sé afskaplega persónubundið eins og svo margt annað.
Úh, ég er fasískur bókakrotshatari. Ég get ekki með nokkru móti fengið af mér að krota í bækur og fyllist gremju þegar ég t.d. fæ útkrotaðar bókasafnsbækur. Hins vegar nota ég yfirstrikunarpenna á ljósritaðar fræðigreinar, og glósa stundum beint á blaðið í þeim tilvikum, en annars hef ég haft þann háttinn á að glósa í sérstaka bók eða á annað blað. Ég læri miklu meira af því að skrifa hlutina niður og endursegja þá með eigin orðum en að strika yfir þá með einhverjum litum.
SvaraEyðaSalka
sammála Sölku - glósubækur (sem ég vanda mig oft við að skrifa í og geymi svo...geggjunin er fullkomin) eru málið!
SvaraEyðaEn yfirstrikunarpennar eru notaðir á ljósrit til að ég finni strax aftur málsgreinina sem ég ætlaði að nota...
Ég olli líka mörgum menntskælingnum vonbrigðum og gremju með því að neita að taka við útkrotuðum og lituðum námsbókum á skiptibókamarkaði Eymundssonar. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið krot má vera í bók sem ætlunin er að selja aftur ...
SvaraEyðaSalka