11. febrúar 2012

„Did you ever stop to think, and forget to start again?“

Sögur A.A. Milne um Winnie-the-Pooh eða Bangsímon komu út á tveimur bókum á þriðja áratug 20. aldar. Bangsímon er með krúttlegri böngsum bókmenntasögunnar og örugglega sá frægasti ‒ líklega væri samkeppnin helst við samlanda hans Paddington (sem reyndar var perúskur innflytjandi í London), en þar sem sá hefur ekki orðið Disneyfígúra á hvíta tjaldinu hefur Bangsímon klárlega vinninginn.

Bangsímon er uppáhaldsleikfang drengs að nafni Jakob Kristófer, eða Christopher Robin á frummálinu. Engum sögum fer af tilveru Jakobs utan heimilis eða í félagsskap annars mannfólks og ekki er hann alltaf beinn þátttakandi í atburðum bókanna, en þó ávallt til staðar ‒ ef ekki uppi í tré eða heima í húsi, þá í meðvitund aðalpersónanna, tuskudýranna sinna. Með Bangsímon fremstan í flokki lenda þau í ýmsum svaðilförum sem yfirleitt vara í svosem eitt eftirmiðdegi, og hafi Jakob Kristófer verið fjarri góðu gamni fær hann að heyra allt af létta í endursögn Bangsímons.
Líklega er óhjákvæmilegt að jafn vinsælar og sígildar sögur og þessar verði fyrr eða síðar endurunnar í handrit, en kannski að sama skapi viðbúið að afurðirnar skorti einhvern neista sem bjó í frumtextanum. Þannig eru teiknimyndir Disney um Bangsímon svosem skemmtilegar á mælikvarða teiknimynda og vissulega halda persónurnar sínum helstu einkennum og einhverjum sjarma, en það er synd ef fólk heldur sig þá þekkja Bangsímon af teiknimyndunum einum saman án þess að hafa lesið upprunalegu sögurnar. Sama má segja um múmínálfana ‒ teiknimyndir og myndskreyttar smábarnabækur eru góðra gjalda verðar, en jafnast aldrei á við alvöru stöffið. Því fagnaði ég á sínum tíma útkomu íslenskrar þýðingar Guðmundar Andra Thorssonar á fyrstu sögunum um Bangsímon, sem Edda gaf út 2008. Í tifelli Bangsímons finnst mér þýðing á frumtextanum klárlega betur til þess fallin að varðveita sérkenni hans en t.d. kvikmyndaaðlögun, þó að á frummáli sé. En auðvitað er frumtextinn bestur og ég mæli eindregið með Bangsímonlestri á ensku ‒ t.d. er hann fáanlegur fyrir Kindle hér, og einnig má finna bæði fýsísk eintök og hljóðbækur á bókasöfnum í Reykjavík og nágrenni. (Við Bangsímonleit á Gegni fann ég fleira áhugavert, t.d. námsritgerð Fríðu Gylfadóttur „From book to movie: what is lost in the “Disneyfication” of Winnie-the-Pooh?“ Svo kom mér hálfpartinn á óvart að rekast á eigið nafn á listanum ‒ ég skrifaði nefnilega pistil fyrir tímaritið Börn og menningu af tilefni íslensku Bangsímonþýðingarinnar á sínum tíma.)

Þar sem Bangsímonsögurnar hafa verið þýddar á fjöldamörg tungumál hefur nafnið Winnie-the-Pooh auðvitað verið útfært á ýmsa vegu. Bangsímon (eða fullu nafni Bangsímon Púi) á íslensku, Peter plys á dönsku (einhverntímann hafði ég þá kenningu að nöfn aðalpersóna barnaefnis væru einhverra hluta vegna yfirleitt alltaf þýdd á dönsku sem Peter, þótt eina annað dæmið sem ég muni í svipinn sé Curious George = Peter Pedal), Nalle Puh á bæði sænsku og finnsku... á spænsku heitir hann reyndar bara Winnie-the-Pooh, á hollensku Winnie de Poeh og á frönsku Winnie l'ourson, eða Bangsinn (/húnninn) Winnie. Ekki veit ég hver á heiðurinn af íslenska Bangsímonsnafninu, en finnst það afar vel heppnað og krúttlegt (fær jafnvel aukakrúttstig fyrir að minna á Pokémon en vera samt eldra).

Það er ekki hægt að bókablogga um Bangsímon án þess að minnast á eitt fyndnasta verk Bangsímon-kanónunnar: The Pooh Perplex - In Which It is Discovered that the True Meaning of the Pooh Stories is Not as Simple as is Usually Believed, But for Proper Elucidation Requires the Combined Efforts of Several Academicians of Varying Critical Persuasions, sem kom fyrst út 1963 og hefur verið margendurútgefin. Titillinn sver sig í ætt við oft á tíðum hástemmdan einlægnistón Bangsímons og félaga ‒ líkt og börn sem reyna að tala fullorðinslega með stórum, alvarlegum orðum og svolítið hlægilegri útkomu. Bókin er þó ekki eftir Milne heldur Frederick Crews, bandarískan rithöfund og bókmenntagagnrýnanda og prófessor emeritus við Berkeley-háskóla.* Hún samanstendur af 12 bókmenntafræðipistlum um Bangsímon, eignuðum 12 uppskálduðum fræðimönnum (svosem Harvey C. Window, P.R. Honeycomb, Murphy A. Sweat og Woodbine Meadowlark), sem allir halda eigin „einu réttu“ túlkun á inntaki Bangsímonsagnanna fram af ýkjukenndri sannfæringu og eiga flestar meginstefnur bókmenntafræðinnar þar sína fulltrúa. Dæmi um pistlaheiti eru „A Bourgeois Writer's Proletarian Fables“, „O Felix Culpa! The Sacramental Meaning of Winnie-the-Pooh“, „Poisoned Paradise: The Underside of Pooh“, eða einfaldlega „A Complete Analysis of Winnie-the-Pooh“. Í formála kemst höfundur svo að orði: „Winnie-the-Pooh is, as practically everyone knows, one of the greatest books ever written, but it is also one of the most controversial. Nobody can quite agree as to what it really means! This is why it will be an ideal book around which to organize all your work in Freshman English this semester. Like other casebooks, such as those on Harper's Ferry, Edith Wharton, and the personality adjustment difficulties of Poe and Ezra Pound, this one is frankly designed to keep you in confusion. Try as you may, you will find it impossible to decide which of the critics represented has “the word” about Pooh, and thus, as you read one critic after another and write many papers comparing their various approaches, you will find that the course has come to an end before you scarcely realize it is under way. By that time, though, you will be a good bit wiser than you are now. No longer will you be inclined to “believe everything you read”, as the saying goes. Quite the contrary! When your instructor has finished showing you how each of these essays contradicts the others, you will be likely to say, with jesting Pilate, “What is truth?” “ Hér kann háðinu að vera beint að bókmenntafræðisenunni í einhverju mæli, en þó meira að tilhneigingu fólks til að leita snyrtilega afmarkaðrar merkingar og auðmeltanlegs sannleikskjarna, ekki bara í bókmenntum.

Sem þetta er ritað liggja eintök af bæði Pooh Perplex og Postmodern Pooh (öðru pistlasafni Crews um Bangsímon, sem kom út 2003 og ég hef ekki lesið en sem gagnrýnanda The Guardian fannst jafnvel fyndnari en sú fyrri) í hillum fjórðu hæðar Þjóðarbókhlöðunnar ‒ annars má einnig sækja sér instant Bangsímon-fix í boði internetsins á þessa síðu, sem geymir samansafn tilvitnana í Bangsímon og fleiri verk A.A. Milne. Sumt er reyndar alveg óheyrilega væmið („If you live to be a hundred, I want to live to be a hundred minus one day so I never have to live without you“) en annað krúttlega stórkostlegt:

“Hallo, Rabbit,” he said, “is that you?”
“Let’s pretend it isn’t,” said Rabbit, “and see what happens.”

“What I like doing best is Nothing.”
“How do you do Nothing,” asked Pooh after he had wondered for a long time.
“Well, it's when people call out at you just as you're going off to do it, 'What are you going to do, Christopher Robin?' and you say, 'Oh, Nothing,' and then you go and do it. It means just going along, listening to all the things you can't hear, and not bothering.”
“Oh!" said Pooh.”

-------
* Eini nettextinn á íslensku þar sem minnst er á Crews er þessi grein eftir Siglaug Brynjólfsson frá 1988 á Morgunblaðsvefnum, þar sem nefnd er í framhjáhlaupi bók hans The Pool [sic] Perplex.

3 ummæli:

  1. Það var Hulda Valtýsdóttir sem þýddi Bangsímon fyrst og á örugglega nafnið. Hún er einmitt náskyld herra Nintendo sem eignaðist Pokemon. SB

    SvaraEyða
  2. Mér langar að benda á aðra Bangsímon fræðibók sem hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Það er The Tao of Pooh eftir Benjamin Hoff, sem er mjög gott að lesa samhliða Bókinni um veginn eftir Lao Tse. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Bangsímon sé í raun austurlenskur Guru.

    SvaraEyða
  3. Aha, áhugavert... takk fyrir upplýsingarnar! :)

    SvaraEyða