5. febrúar 2012

Hann er bara ósköp venjulegt ungabarn: Doris Lessing og þriðja barnið

Oft finnst mér einsog það sé eiginlega sama hvað rætt er um, eða þessvegna hugsað, ég geti svotil alltaf fundið stað í skrifum Dorisar Lessing sem henti tilefninu. Hún hefur auðvitað skrifað alveg hreint ótrúlega mikið af allskyns texta, en það er samt ekki bara það, heldur kannski frekar að það sem hún skrifar um og virðist hafa upplifað og hugsað spannar alveg ótrúlega vítt svið og getur endalaust komið manni á óvart.


Ég hef fengið mjög mikið útúr því að lesa æfisögurnar hennar, og þær bækur sem hún hefur skrifað sem eru “hálf æfisögulegar” eða fjalla á einhvern hátt um líf hennar og pælingar. Ég ætla svosem ekkert að fara djúpt ofaní þau mál í þetta sinn, en fann allt í einu hjá mér þörf til að minnat aðeins á atvik sem hún lýsir undir lok fyrra bindis sjálfsæfisögu sinnar “Under My Skin: Volume One of My Autobiography. To 1949” Einsog margir eflaust vita giftist Lessing ung manni að nafni Frank Wisdom og átti með honum tvö börn, þau John og Jean. Hún fór frá Frank eftir nokkrra ára hjónaband og skildi börnin eftir í hans umsjá. Eitthvað sem vissulega þótti afar einkennilegt á þeim tíma og hún var dæmd fyrir. Þessi “einkennilega” hegðun var útskýrð með því að hún væri í slæmum félagsskap “kommúnista” og útlendinga sem hefðu einkennilegar hugmyndir og stæðu í allskyns undirróðursstarfsemi.

Eftir skilnaðinn frá Frank Wisdom hellti Lessing sér útí starf róttæks hóps í Salisbury sem í raun varð hennar andlega og veraldlega fjölskylda. Þar kynntist hún manni að nafni Gottfried Lessing, en hann var flóttamaður frá Þýskalandi Hitlers, intellektúal af gyðingaættum sem endað hafði í Suður Rhodesíu. Lessing lýsir því á sinn jarðbundna hátt að þau hafi í raun aldrei átt neitt sameiginlegt þannig séð, annað en það að vera kommúnistar - af ástæðum sem höfðu allt með aðstæður og tíðaradann að gera. Þau áttu engan vegin saman sem hjón og voru á allan hátt svo ólík að undrum sætir.


Þrátt fyrir það ákváðu þau að giftast, aðallega vegna þess að ekki var í boði í Salisbury þess tíma að vera í sambandi án þess að giftast, og ástæðuna fyrir sambandi þeirra segir hún í raun hafa verið þá að þau voru eina fólkið í hópnum sem var “á lausu”. Þau virtust bæði líta þannig á, amk ef tekið er mið af frásögn Lessing og maður hefur jú ekki hlið Gottfrieds, að hjónabandið væri bara tímabundin ráðstöfun – um leið og hlutir breyttust, þau kæmust í burtu frá Suður Rhodesíu,  myndu þau skilja og hefja nýtt líf sitt í hvoru lagi.

Montague Avenue í Salibury
Ekki ýkja löngu eftir giftinguna – og í raun ekki svo sérlega löngu eftir skilnaðinn frá Frank Wisdom – verður Lessing ófrísk aftur. Þetta þótti ýmsum einkennilegt, m.a. föður hennar sem skildi ekkert í því ráðslagi að fara frá tveimur ungum börnum til þess eins að framleiða annað. Sjálf virðist Lessing hafa séð þetta á annan hátt. Þrátt fyrir að samband hennar og Gottfrieds hafi verið svona og svona þá lýsir hún því yfir að hún hafi reynt í einhverja mánuði að verða ófrísk og að fréttir um tilvonandi barn hafi verið mikið gleðiefni, bæði henni sjáfri og Gottfried sem og öllum hópnum sem þau tilheyrðu. Barnið, í móðurkviði og eftir að það fæddist, varð einskonar sameign þeirra allra –  vonarneisti í heimi þar sem allt snerist um stríðið og endalok þess, auk ástandsins í Suður Rhodesíu, sem vægt til orða tekið var ekki var upp á marga fiska.

Lessing lýsir fæðingunni – sinni þriðju – og verður í raun ótrúlega “rómantísk”, þá þannig að hún dettur ofaní pælingar um “hina raunverulegu konu” hvernig það að hafa gengið í gegnum þessar þrjár fæðingar hafi fært hana nær einhverskonar alheimsanda, hún nær einhverri stjórn á líkamanum og tengslum við sjálfa sig sem gera henni kleift að stýra hríðunum og verkjunum sem þeim tengjast. Þessi upplifun í fæðingunni, sem og það að hafa boðið ríkjandi öflum birginn með bæði skilnaði og þátttöku í hópi sem var stjórnvöldum og góðborgunum lítt þóknanlegur gerir það að verkum að hún sér sér fært að gera bæði fæðinguna og það sem á eftir kom að sínu – hún heldur áfram á þeirri braut sem hún var þegar farin að feta og bauð viðteknum skoðunum um umönnun og uppeldi ungabarna birginn. Tímatöflum um brjóstagjafir var hent í burtu sem og hugmyndum um hvað væri heppilegur útbúnaður fyrir ungabörn. Þegar ljósmóðirin maldaði í móinn og lýsti því yfir að þetta væri nú ekki gott vegarnesti fyrir barnið, karakter þess gæti beðið hnekki sagði Lessing henni að hún sjálf væri afsprengi uppeldisaðferða kenndra við Dr Truby King og miðað við hvernig hún hefði endað þá væri það nú varla til eftirbreytni!

Sjálfri sér samkvæm þá horfir Lessing gagnrýnum augum ekki bara á umhverfið og viðteknar venjur, heldur líka á sjálfa sig, sína eign hegðun og skoðanir. Hún lýsir því t.d. á sérlega skemmtilegan hátt hversu upptekin hún var af ungabarninu, hversu gjörsamlega gagntekin hún var af honum og því sem hún var að ganga í gegnum. Sem vissulega er eitthvað sem flestar nýbakaðar mæður geta skrifað undir. En hún lætur ekki þar við sitja heldur segir frá því að á þessum tíma skrifaði hún góðri vinkonu bréf þar sem hún lýsir barninu fjálglega, hversu dásamlegt og fagurt það væri, annað eins hefði bara ekki sést á byggðu bóli - og lét mynd af unganum fylgja með. Henni var kippt harkalega niður á jörðina með svarinu sem hún fékk frá vinkonunni – sem sendi henni myndina til baka með þeim orðum að hún ætti að skoða hana aftur – þetta væri bara óskup venjulegt ungabarn – og spurði svo hvort hún væri orðin algjörlega galin! Lessing segir sjálf í bókinni að: já, hún hafi vissulega verið alveg galin, en að það verði allar konur í þessum aðstæðum og það góða við það sé að þetta sé tímabundið brjálæði!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli