21. febrúar 2012

Má bjóða þér að blaða aðeins í kyndlinum mínum?

Íslenskir bókaútgefendur, rithöfundar, bóksalar og lesendur fikra sig nú áfram á rafbókamarkaði og lesendur virðast, margir hverjir að minnsta kosti, taka rafbókavæðingunni fagnandi. Rafbókina má kaupa strax, hvar sem maður er staddur í veröldinni og hún ferðast auðveldlega milli landa í víðum skilningi. Væntanlega þarf ekki að bíða endalaust eftir endurprentunum og svo eru rafbækur nokkuð ódýrari en hinar prentuðu. Við þurfum ekki að burðast með þungan pappír á milli staða og rafbækur taka ekkert sýnilegt pláss og það má stilla lesvélar eftir þörfum hvers lesanda. Einnig væri hægt að benda á umhverfissjónarmið í þessu sambandi þó að margir hafi vissulega bent á að gamlar lesvélar muni væntanlega hlaðast upp þegar frá líða stundir og því séu þau ekki endilega ægilega umhverfisvæn en það er önnur saga.

Það eru hins vegar ýmsir varnaglar slegnir þegar rafbókavæðingin er annars vegar. Útgefendur og rithöfundar hafa skiljanlega áhyggjur af stuldi með tilheyrandi afkomumissi og menn velta því einnig fyrir sér hvað verði um bókabúðirnar, það er að segja, þær sem ekki eru á netinu. Menn eru enn að baksa með forrit, kóðun og einkaleyfi á búnaði, það er ekki hægt að lesa allar bækur á öllum lesvélum, það er til dæmis ekki hægt að lesa hvaða íslensku rafbók sem er á Kyndlinum frá Amazon.

Og svo hafa sumir áhyggjur sem eru aðeins loftkenndari. Breski rithöfundurinn Andrew Miller sem hlaut Costa bókmenntaverðlaunin í janúar síðastliðnum sagðist aðspurður í viðtali að verðlaunaafhendingunni lokinni að hann reiknaði með því að vinsælustu bækurnar, reyfararnir og ástarsögurnar muni í framtíðinni reynast vinsælastar í rafbókaformi en hinsvegar segist hann vonast til þess að fólk haldi áfram að lesa það sem hann kallar bókmenntir í pappírsforminu. Þegar breski rithöfundurinn Julian Barnes tók við Man Booker verðlaununum í október síðastliðnum var hann á svipuðum slóðum í ræðu sinni og fleiri dæmi mætti nefna um svipuð viðhorf. Það er semsagt í lagi að lesa sumt af lesvélum en annað á heima í hefðbundinni pappírsbók. Metsölulistabókmenntirnar, þær bækur sem flestir lesa, má gjarnan lesa í rafrænu formi en annað þykir einhverra hluta vegna ekki henta, sumir bloggarar sem hafa tjáð sig um málið vilja til dæmis meina að alls ekki megi lesa ljóð af lesvél, tilhugsunin sé beinlínis fáránleg. Hinsvegar er oft lítið um rök þegar þessi umræða er annars vegar, það er auðvelt að ræða og rífast um praktísku hliðarnar en hinar tilfinningalegu reynast hinsvegar öllu erfiðari.

Þess vegna virðast menn hafa tilhneigingu til að einbeita sér að praktíkinni í umræðum um rafbækur. Fáir virðast hinsvegar velta fyrir sér hvar munurinn liggi í raun á þessum lesmöguleikum, rafbókinni og pappírsbókinni, því þegar öllu er á botninn hvolft er innihaldið hið sama.  Hvað týnist og hvað tapast ef rafbókin verður ofan á í bókabransanum, ef frá eru talin þessu praktísku atriði? Söknum við bókarkápunnar? Þurfum við að handfjatla pappírinn, láta fingurna leika um hann á meðan við lesum?

Eflaust skipta slíkir hlutir máli fyrir suma. Fleira mætti líka týna til. Það er einfaldlega ekki sambærileg reynsla að fletta pappírsbók og rafbók, vissulega má finna upplýsingar um umfang rafbókarinnar, lesandinn getur fengið prósentuupplýsingar um hversu miklu er lokið og hversu mikið er eftir en það vantar tilfinningu fyrir þykktinni, vigtinni. Það er ekki hægt að krota á spássíurnar, skrifa athugasemdir, að minnsta kosti ekki með þeim hætti sem við erum vön. Það er erfiðara að fletta fram og til baka og finna svo aftur staðinn sem maður var staddur á í lestrinum, og jafnvel þó að maður geri það þá vantar einhvern veginn tilfinninguna fyrir bókinni, hlutnum sjálum. Svo maður tali nú ekki um allt handverkið, bókbandið, pappírsgerðina, prentgæðin.

En skipta þessir hlutir í raun einhverju máli? Í grein sem birtist í The  New York Review of Books í síðustu viku veltir Tim Parks þessu fyrir sér. Hann bendir á bókarformið hafi breyst í gegnum tíðina, og tekur sem dæmi tilkomu prentlistarinnar en margir hafi eflaust syrgt uppskriftir handrita á sínum tíma, einhverjir hafi þá viljað meina að alvarlegar bókmenntir þyrfti að handskrifa en ekki fjöldaframleiða og þannig myndu hlutirnir alltaf vera sem reyndist svo auðvitað ekki rétt.

Bókmenntirnar eru ólíkar öðrum listmiðlum að því leyti að orðið er í raun alltaf hið sama, vissulega eru til bókmenntir sem vinna með hina sjónrænu eiginleika tungumálsins en í grundvallaratriðum er orðið alltaf sama merkingarbæra einingin, hvort sem er á pappír eða á tölvuskjá, skilaboðin eru þau sömu, tilgangur höfundarins breytist ekki, ekkert hefur breyst nema miðillinn, það er að segja, svo framarlega sem orðin eru alltaf prentuð eða skrifuð í sömu röð, sett upp á sama hátt. Vissulega geta til dæmis leturgerðir haft mismunandi áhrif á þann sem les, það getur skipt máli fyrir lesandann hvort hann les innbundna viðhafnarútgáfu af bók eða slitna kiljuútgáfu sem margir hafa jafnvel farið höndum um, það getur skipt máli hvort við lesum texta upphátt eða í hljóði en það breytir því hinsvegar ekki að áhrifin eru einstaklingsbundin, textinn er hinsvegar alltaf sá sami, strangt til tekið. Gildi bókmennta eykst hvorki né minnkar eftir útgáfum og miðlunarleiðum eða ætti að minnsta kosti ekki að gera það.

Margir eru eflaust ósammála þessu, til dæmis er hætt við að bókasafnarar líti öðru vísi á málin en bókaást beinist ekki aðeins að textanum, það vita allir sem haldnir eru manískri bókaþrá, útgáfur og ástand bóka geta til dæmis skipt máli. Með því að safna bókum teljum við okkur svo væntanlega eignast eitthvað menningarlegt kapítal, sem við getum raðað upp og sett fram að vild, bækurnar okkar segja eitthvað um okkur og bækur í tölvu sjást ekki og segja öðrum þannig ekki neitt. Og það er líka erfiðara að sýna fólki bækur í tölvu, það hljómar ennþá að minnsta kosti eitthvað hálf fáránlega að rétta gestum lestölvu og bjóða upp á rafflettingu, það er eitthvað persónulegt og fallegt við það að sýna gestum bækurnar sínar, leyfa þeim að fletta og handfjatla, lána jafnvel og gefa. En engu að síður stendur spurningin eftir, hefur þetta raunverulega eitthvað með innihald bóka að gera?

Það má nefnilega færa rök fyrir því að með rafbókavæðingunni færist öll athyglin að textanum sjálfum, að innihaldinu. Þegar blaðsíða hefur verið lesin hverfur hún einfaldlega og við sjáum hana ekki fyrr en hún birtist úr tóminu, það er ekkert sem glepur, ekkert sem fangar athyglina nema orðin. Og bækurnar  sem við lesum hafa einungis gildi fyrir okkur, engin mun vita hvort við höfum nokkurn tímann lesið Ulysses eða Moby Dick nema við beinlínis segjum frá því, bókin er einungis til staðar fyrir okkur til að njóta á okkar forsendum. Við vitum bara hvar við erum stödd í orðasúpunni og allt annað gleymist. Það má færa rök fyrir því að hér sé textinn einhvern veginn frjálsari, laus við áherslu á umgjörðina. Rafbókin er miðill fyrir fullorðna segir Tim Parks í áðurnefndri grein og ber yfirfærsluna frá hefðbundinni pappírsbók til rafbókar saman við það þegar við hættum að lesa myndskreyttar barnabækur og förum yfir í fullorðinsbækurnar þar sem textinn stendur oftast einn og óstuddur.

Sjálf veit ég ekkert hvernig rafbókavæðingin mun leggjast í mig. Ég á nú vél sem ég getið notað við lesturinn og hef ég nú lesið eina rafbók. Það gekk ágætlega, við sjáum svo til með framhaldið.

Flutt í Víðsjá á Rás 1 20.02.2012

9 ummæli:

  1. Fólk hlustar enn á vínyl. Nýjar plötur eru enn gefnar út á plötu. Pappírsbókin mun ekki hverfa, en neysla hennar verður öðruvísi. Þetta er ekki endilega neikvætt. Ég sé aðallega fram á að minna muni seljast af lélegum, fjöldaframleiddum kiljum sem eru hálf-ónýtar eftir einn lestur. Eftir að ég fékk kyndil hef ég keypt mikið af rafbókum á hann, en þær „venjulegu“ bækur sem ég hef keypt síðan eru allar fallegar, innbundnar og eigulegar. Rafbækur gera ekkert nema að kötta krappið.

    SvaraEyða
  2. Mér þykja fullorðinsrökin ekki nægilega góð. Almennt þykir mér nefnilega synd hversu lítið fullorðinsbækur eru myndskreyttar og þætti jákvætt ef það breyttist. Svo felur hugmyndin líka í sér ákveðna (vanhugsaða) afstöðu til barnabóka – að þær séu í eðli sínu barnalegar og því ekki fyrir fullorðna – sem, hvort sem það er rétt hjá mér eða ekki, fær mig til að álykta að Tim Parks telji þær vera óæðri bókmenntir.

    SvaraEyða
  3. Ég boða bókun. Þ.e.a.s. þessi færsla gaf mér hugmynd að minni næstu, sem er væntanleg á fimmtudag.

    SvaraEyða
  4. ...og í raun fékk ég hugmynd að tveimur færslum sem fjalla um nokkuð ólíka hluti.

    SvaraEyða
  5. Eru ekki (góðar) barnabækur í eðli sínu barnalegar? Hvers vegna höfða þær þá til barna? Eða höfða þær kannski ekkert (sérstaklega) til barna?

    Annars er Parks náttúrulega að tala um bókablæti og hlutaskreytingar – frekar en textaskreytingar – og það á sér líka stað í bókum fullorðinna, ekki síst einmitt í ljóðabókum þar sem uppsetning skiptir mun meira máli en í textaflæði prósans. Og svo í bókasöfnum fullorðinna – bókaskápar eru auðvitað ekkert annað en skraut eða stöðutákn hjá fólki sem hefur aðgang að fyrsta flokks bókasöfnum.

    Og ég held það sé óþarfi að gera lítið úr þeirri hugmynd að rafbókin sé „hreinari“ texti – meðal annars vegna þess að þar ríkir jafnræði milli ólíkra texta, sem birtast manni í sama maó-búningnum, sama skólabúningnum, frekar en í ólíkum leturgerðum og stærðum með myndskreyttum blaðsíðunúmerum, headerum og footerum, kaflaheitum, upphafsstöfum og álíka. Í rafbókinni hefur textinn verið sviptur sjónrænum sérkennum sínum og steyptur í sama mót – sem kannski einmitt á móti fríar hugann frá pappírs og umbrotsblæti (en nota bene ekki græjublæti og tækniblæti).

    SvaraEyða
  6. Ég á erfitt með að trúa öðru en að með aukinni þróun verði gert auðveldara að "skrolla" gegnum rafbækur og gera athugasemdir á spássíuna - eru nokkur tæknileg vandamál sem standa í vegi fyrir því? Mér fannst svo athyglisverð tilbreyting að fylgjast með eigin lestrarafköstum í prósentutölum á kyndlinum.

    Ég er haldin svo mikilli forgengileikataugaveiklun, það er aðalástæðan fyrir því að ég myndi aldrei skipta alveg yfir í rafbækur; ég væri hrædd um að það færi sömu leið og vídeóspólusafnið manns til dæmis og notkun þess væri háð dyntum í framleiðendum sem gætu einn daginn hætt að selja græjurnar sem þyrfti til að lesa bækur á viðkomandi formi. Að því leyti veitir pappírinn mér meiri öryggiskennd, þótt hann sé auðvitað misendingargóður líka.

    SvaraEyða
  7. Bestu barnabækur höfða einmitt hvoru tveggja til barna og fullorðinna. Fullorðnir leggja þá jafnan annan skilning í þær en börnin en hvorugur skilningurinn er réttari. Mér finnst oft vera gert ansi lítið úr barnabókmenntum - gefið í skyn að það sé auðveldara að skrifa sögur fyrir börn en fullorðna því þau séu svo einföld og séu ekki með miklar kröfur um gæði.

    Sama hef ég tekið eftir í uppfærslum á barnaleikritum. Allt er lagt í hið sjónræna og reynt að höfða til barnanna á mörgum sviðum til að halda athygli þeirra - þá gjarnan á kostnað sögunnar.

    SvaraEyða
  8. En er það ekki alger bónus ef barnabókmenntir höfða til fullorðinna líka? Og jafnvel bara aukaatriði? Mér finnst það alls ekki gera lítið úr barnabókmenntum að segja þær öðruvísi en fullorðinsbókmenntir, að þær höfði fyrst og fremst til barna og séu „barnalegar“. Mér finnst það þvert á móti eiginlega meðmæli – þótt ég sé áreiðanlega líklegri til þess að velja bækur ofan í son minn sem mér gætu þótt skemmtilegar, enda þarf ég að lesa þær fyrir hann og ég snýst víst ekki síður í kringum rassinn á sjálfum mér en aðrir.

    Er ekki þetta með sjónrænu áhersluna almennt gagnrýnt í leikhúsi – var ekki María Kristjánsdóttir að lýsa því um daginn að stór hluti íslensks leikhús væri glæsilegar umbúðir og lítið annað? Eða var það bara Vesturport? Þar líkist kannski barnaleikhúsið fullorðinsleikhúsinu, meina ég.

    SvaraEyða
  9. Vissulega eru barnabókmenntir öðruvísi en ég er ekki viss um að mér finnist rétt að nota hugtakið "barnalegar" - barnalegar að hvaða marki þá? Umfjöllunarefni, persónusköpun, samfélagi, boðskap, þema...?

    Að sjálfsögðu þarf umræða um barnabókmenntir sem "öðruvísi" ekki alltaf að vera út frá þeim forsendum að öðruvísi sé einnig óæðri en ansi oft heyrir maður svipuð ummæli og rithöfundurinn Andrew Miller sem vitnað er í í færslunni hér að ofan lætur út um sér um muninn á því sem lesið er á rafbókum og svo "alvöru bókmenntum". Barnabókahöfundar sem fara skrifa "fullorðinsbækur" eru loks farnir að semja "alvöru bókmenntir". Mér finnast svona sjónarmið gera lítið úr barnabókmenntum - þær eru líka bókmenntir og oft mjög skemmtilegar!

    Þetta með hið sjónræna er reyndar alveg hægt að taka undir. Ekki bara um leikhús heldur líka bíómyndir. Aðalfússið í dag virðist að hrífa fólk upp úr skónum með 3D sjónrænni þriggja til fjögurra tíma veislu án þess að hugsa hið minnsta um að sagan þurfi líka að virka.

    Við lifum í svo miklu afþreyingarsamfélagi að það þarf alltaf eitthvað að vera að gerast, þá má aldrei bara vera.

    SvaraEyða