27. febrúar 2012

Meira bókakaupæði

Mér fannst svo gaman að skoða myndina sem Guðrún Elsa birti af innkaupunum sínum á bókamarkaðnum að ég ákvað að herma eftir henni og blogga aðeins um bókamarkaðsferðina mína í dag. Þótt Guðrún Elsa hafi nefnt færsluna sína "Bókakaupæði" finnst mér hún hafa verið afar hófsöm í innkaupum - en það er kannski bara í samanburði við sjálfa mig.

Ég hélt að mér gengi kannski sæmilega að hemja sjálfa mig þetta árið því ég átti eftir að uppfæra Excel-skjalið sem ég hef skráð bókasafnið mitt í og hafði ekki einu sinni meðferðis útprent af óuppfærða skjalinu. Jamm, ég er stundum dálítið rúðustrikuð. En það er samt ágætis ástæða fyrir því að þetta reynist stundum nauðsynlegt. Tvö eða þrjú ár í röð kom ég heim með bækur af bókamarkaði sem ég átti fyrir og eftir það varð Excel-skjalið ágæta til.

Ástæðan fyrir innkaupaklúðrinu var ekki að mig skorti sæmilega yfirsýn yfir eigið bókasafn í kollinum og því síður að ég viti ekki hvað ég hef lesið heldur fremur að stundum hef ég í hyggju árum saman að eignast bækur sem ég lesið sem lánsbækur. Öðru hverju kemur svo að því að ég ákveð að nú sé kominn tími til að eignast einhverja af þessum bókum og kaupi hana á bókamarkaðnum en kemst svo að því þegar ég kem heim að ég hafði gert nákvæmlega það sama árið áður. Minningin um að eiga ekki bókina var bara sterkari en minningin um að hafa keypt hana.

Að þessu sinni var ég ákveðin í að kaupa ekki neina bók án þess að vera handviss um að eiga hana ekki fyrir en gerði þó eina undantekningu. Ég mundi alls ekki hvort ég hefði verið búin að eignast Sólin sest að morgni eftir Kristínu Steinsdóttur en ákvað að kaupa hana samt því ef ég reyndist eiga hana væri frábært að eiga eintak til gjafa. Við heimkomuna kom í ljós að ég hafði sennilega keypt bókina í fyrra eða hitteðfyrra (það tók ekki langan tíma að komast að því þar sem ég er rúðustrikuð eins og fyrr segir og þurfti bara að leita í hillunum sem geyma íslenskan prósaskáldskap í stafrófsröð höfunda). En þá verður bara einhver svo heppinn að fá þessa góðu bók að gjöf frá mér, vonandi fljótlega.

En já, ég keypti semsagt töluvert mikið. Og skömmu áður var ég meira að segja búin að fara í bókabúðir og kaupa nýjar bækur á útsölu. Ég vissi að það mætti ekki dragast mikið lengur því ég myndi sennilega missa mig á bókamarkaðnum og vissi að ég myndi ekki tíma að kaupa nýjar bækur um stund eftir það.

Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu kenni ég hamingjukasti yfir Prúðuleikara-myndinni að hluta til um bókakaupæðið í þetta sinn. Þar að auki rifjast upp fyrir mér rétt í þessu að ég komst ekki á bókamarkaðinn í fyrra. Það þýðir auðvitað að ég mátti alveg kaupa tveggja ára skammt núna. Ágætt að finna svona réttlætingu eftir á.

En þetta voru nú bara málalengingar til að reyna að breiða yfir þá staðreynd að ég kann mér ekkert hóf í bókakaupum. Hér er myndin af því sem ég kom með heim þetta árið (og kannski á ég meira að segja eftir að fara aftur):


Ég tók líka mynd af hjólinu mínu og töskunum með bókunum á heimleiðinni. Ef maður á reiðhjól með körfu og bögglabera er ekkert mál að flytja drjúgan slatta af bókum milli staða. Eiginlega hefði ég auðveldlega getað komið fleiri bókum heim. Kannski eins gott að ég ákvað ekki að láta reyna á mörkin í því samhengi.

5 ummæli:

  1. ég ætlaði að fara í dag eða á morgun...nú veit ég hreinlega ekki hvort ég þori...hins vegar hlakka ég núna mega mikið til að sjá nýju Prúðuleikaramyndina (og b.t.w. þá finnst mér Prúðuleikararnir rosa góð þýðing á The Muppets - hver ætli eigi heiðurinn af henni)

    SvaraEyða
  2. ég keypti einmitt Sólin sest að morgni í fyrra...

    SvaraEyða
  3. Jú, farðu á bókamarkaðinn, farðu á bókamarkaðinn ...

    Mig minnir að Þrándur Thoroddsen hafi þýtt Prúðuleikaraþættina á sínum tíma þannig að hann gæti átt heiðurinn af þýðingunni á heitinu en það getur samt líka verið að einhver annar hafi fundið upp á þessu. Ég er einmitt bara nýbúin að átta mig á því hvað þetta er sniðug þýðing!

    SvaraEyða
  4. Það er örugglega Þrándur Thoroddsen sem hefur fundið þetta Prúðu.... En er það eitthvað sniðugt?

    SvaraEyða
  5. prúðu... - brúðu...
    mér finnst það alveg dálítið sniðugt

    SvaraEyða