16. febrúar 2012

Nítjánda fegursta bókabúð heims og skáldið sem orti um lykil að hurð, en hurðin var hvergi

Fyrir skömmu tengdum við druslubókadömur af Facebooksíðu okkar á lista sem Flavorwire gerði yfir tuttugu fegurstu bókabúðir heims. Á honum uppgötvaði ég mér til mikillar gleði bókabúð hér í Lissabon sem ég hafði ekki komið í. Hún ber það sérstæða nafn Ler Devagar – Lesa hægt – og er önnur af tveimur portúgölskum bókabúðum á lista Flavorwire, en Þórdís hefur bloggað um hina, Livraria Lello í Porto. Það var ekki furða að ég hefði ekki rambað á Ler Devagar á gönguferðum mínum, enda er hún ekki staðsett í miðbænum heldur í gömlum verksmiðjukomplex í Alcântara-hverfinu vestur af miðborginni, svo að segja beint undir hinni risavöxnu 25. apríl-brú. Verksmiðjan, sem var byggð árið 1846 og framleiddi vefnaðarvöru, kallast í dag LX Factory og er dæmigerð uppgerð verksmiðja eins og maður finnur gjarnan erlendis með hipsteralegum fyrirtækjum, lífrænum kaffihúsum og hörfatabúðum. (Það var líka skemmtileg alþjóðleg blaðasala í gámi.)

 Ég veit ekki hvort ég myndi setja Ler Devagar á lista yfir fegurstu bókabúðir heims ef ég hefði fengið tækifæri til að heimsækja þær allar, en hún hefur allavega karakter. Það er hátt til lofts og vítt til veggja, maður gengur upp á aðra hæð eftir nötrandi járnstiga og það hangir stórt reiðhjól í loftinu (sjá mynd). Á neðri hæðinni er kaffihús sem ég prófaði reyndar ekki, því opnunartíminn á föstudögum og laugardögum er bara frá tólf til tvö og göngutúrinn að heiman var ansi langur svo ég var ekki mætt fyrr en hálftíma fyrir lokun. Það er í rauninni heppilegra að heimsækja búðina einhvern tímann frá mánudegi til fimmtudags því þá er opið frá hádegi til miðnættis. Þótt göngutúrinn úr miðbænum sé að minnsta kosti þrjú korter mæli ég alveg með honum, það var mjög ánægjulegt að labba gegnum Alcântara-hverfið.

Ég rakst á Laxness okkar og rolluna.





Ler Devagar selur bæði nýjar og notaðar bækur og búðin er nokkuð stór, en ég hef komið í búðir með betra úrvali – það virtist svolítið handahófskennt. Fræðibókahillurnar voru ekki nógu spennandi, margt komið nokkuð við aldur, og það voru skrítnar gloppur í ljóðabókahillunum. Eins og í portúgölskum bókabúðum yfirleitt voru bækurnar mestmegnis á portúgölsku, en það var þó nokkuð úrval af bókum á frönsku og ein hilla af bókum á ensku. Hún innihélt eiginlega engar fagurbókmenntir en vel valið og áhugavert safn af ýmiss konar bókum um pólitík, skáldskap og fleira. Þetta er semsagt ekki endilega búðin sem maður fer í ef maður hefur eitthvað ákveðið í huga, en frekar í þeirri von að ramba á eitthvað óvænt, sem var einmitt það sem ég gerði. Ég fjárfesti í tveimur ljóðasöfnum á góðu verði, annars vegar eftir portúgalska skáldið Jorge de Sena og hins vegar eftir Brasilíumanninn Carlos Drummond de Andrade. Jorge de Sena hef ég ætlað að kynna mér í nokkurn tíma en það var fyrir tilviljun að ég tók upp ljóðasafn Drummond de Andrade og fór að fletta því. Hann er eitt af höfuðskáldum Brasilíu á 20. öld - það hafa meira að segja verið gefnir út peningaseðlar með ljóði eftir hann - en það heita eiginlega öll skáld frá Brasilíu de Andrade og ég hef tilhneigingu til að hræra þeim öllum saman. Carlos Drummond náði mér strax með fyrsta ljóði:

Mundo mundo vasto mundo
se eu me chamasse Raimundo
seria uma rima, não seria uma solução.
Mundo mundo vasto mundo,
mais vasto é meu coração.

Eða í ófullkominni þýðingu:

Heimur heimur stóri heimur
ef ég héti Hreimur
væri það rím en engin lausn.
Heimur heimur stóri heimur,
ennþá stærra er hjarta mitt.

Þetta er stytta af Carlos Drummond de Andrade og
skáldbróður hans Mário Quintana. Carlos Drummond hélt
upphaflega á bók úr bronsi en henni var stolið, svo nú
verða vegfarendur honum úti um nýja og nýja bók. Hér
er hann með Dagbók þjófs eftir Jean Genet.
Ég las heilluð og fletti. Í fjórða ljóði ávarpar skáldið gervitennurnar í sér – og ég var endanlega fallin fyrir Carlos Drummond. Ég hef verið að lesa hann núna í tæpar tvær vikur og er almennt mjög hrifin. Hann er frekar blátt áfram, fyndinn og leikur sér með málið. Fáein ljóð eru í tilraunakenndari kantinum, en ekkert yfirgengilega róttæk. Ljóðasafninu er skipt niður í mislanga kafla, þematískt en ekki krónólógískt, það eru til dæmis kaflar um einstaklinginn, fósturjörðina, fjölskylduna, ástina og ljóðlistina. Þetta eru í sjálfu sér hefðbundin viðfangsefni en ljóðin eru fjölbreytt og yfirskriftir kaflanna reyndar líka skáldlegri en þetta. Þeir höfða mismikið til mín, ég er meira fyrir orðaleikina og tilvistarangistina en minna fyrir ástarljóðin og bernskuminningarnar, en þetta er líka vel útilátið safn sem ég er bara búin að lesa einu sinni í gegn og á eftir að lesa bæði oftar og hægar og með orðabók í hönd. Það er allavega nógu margt sem ég hreifst af í fyrstu umferð til að Carlos Drummond de Andrade sé kominn á lista yfir mín uppáhaldsskáld í augnablikinu. Það er á dagskránni í nánustu framtíð að kynna mér hina áhugaverðu brasilísku 20. aldar ljóðlist betur. Brasilíumenn eiga til dæmis merk konkretskáld; hér er eitt af mínum uppáhalds, eftir Décio Pignatari.

Eins og jafnan þegar ég rekst á skáld sem ég þekki ekki prófaði ég að gúgla Carlos Drummond de Andrade og athuga hvort eitthvað hefði verið skrifað um hann eða þýtt eftir hann á íslensku. Og eins og jafnan þegar ég rekst á skáld sem ég þekki ekki kom í ljós að Jóhann Hjálmarsson hafði þýtt hann; tvö ljóð sem birtust í bókinni Þrep á sjóndeildarhring árið 1976, Sólfífill og Bernska. En ég rakst líka á skemmtilega mynd af þekktum bókhneigðum Íslendingi með styttunni af Carlos Drummond á Copacabana-ströndinni í Ríó, og stel frá honum lýsingu á skáldinu til að setja í fyrirsögn. Já, hann var að vísu vinstri maður, blessaður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli