|
Teikningin á kápunni er eftir Ingu
Maríu Brynjarsdóttur. |
Síðasta haust kom fræðibók Úlfhildar Dagsdóttur,
Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, út hjá Háskólaútgáfunni. Ég hef legið í henni undanfarna daga og er haldin gríðarlegri þörf fyrir að tjá mig í löngu máli um þetta allt saman. Ég skal þó reyna að hemja mig, það er hreinlega ekki hægt að segja frá öllu vegna þess að það er farið svo víða í þessari bók. Ástæða þess er ekki síst sú að Úlfhildur gengur út frá mjög víðri skilgreiningu Donnu Haraway á sæborginni; að sæborgin geti „verið hverskyns gervivera, vélmenni, gervilíf eða jafnvel bara gervigreind, hvort sem um er að ræða samruna manneskju og vélar á beinan eða óbeinan hátt eða hreinan gerviskapnað“ (
Sæborgin, bls. 29). Þannig verða ólíkustu fyrirbæri að viðfangsefni hennar:
Gereyðandinn, fegrunaraðgerðir, stjórnun og eftirlit, sæberpönk, krufningar, gen, siðfræði, sjálfsveran, brjálaði vísindamaðurinn Frankenstein og Björk – í raun allt sem tengist líkamanum sem átt er við. Þegar kemur að sæborginni hætta tækni og mennska, karlkyn og kvenkyn að vera andstæður og mörkin verða óljós, athygli manns er dregin að því að líkaminn ferli fremur en fasti.
Skáldskapurinn fær töluvert mikið pláss í bókinni, en í inngangi segir Úlfhildur að hún hafi það að leiðarljósi í skrifum sínum „að í bókmenntum og öðrum menningarafurðum, svo sem kvikmyndum og myndasögum felist ákveðinn ‚sannleikur‛“, sannleikur sem getur verið alveg jafn mikilvægur og „annað efni sem menn „hafa fyrir satt““ (bls. 18). Fyrsti kafli fjallar um sæborgir í bókmenntum, allt frá grísku goðsögunni um Pygmalion sem skapar hina fullkomnu konu, Galateu, þegar hann er kominn með ógeð á kvenkyninu, til undirdeildar vísindaskáldsögunnar, sæberpönks, sem fjallar yfirleitt um „stöðu mannsins í tæknivæddum heimi“ og gerist í framtíðinni (bls. 64). Ég verð að viðurkenna að ég týndist alveg í þeim kafla, því þótt verk eins og
The Matrix og
Blade Runner séu mér vel kunn, þá telur Úlfhildur upp þvílíka ofgnótt bóka sem ég hafði aldrei heyrt um að fljótlega var ég farin að rugla saman söguþræði þeirra (sem hún gerir yfirleitt ágæta grein fyrir). Í öðrum kafla er fjallað um myndmál sæborgarinnar, þá helst í auglýsingum, tísku, myndlist og kvikmyndum.
|
Vél-María er fyrirmynd að C3PO. Ég tók andköf þegar ég las þetta í 2. kafla Sæborgarinnar, en varð svo vandræðaleg yfir því að hafa ekki verið búin að fatta þetta sjálf. |
Samantekt Úlfhildar á skáldskap um sæborgina er góð, ekki síst vegna þess að hún setur fjölmörg verk í samhengi fyrir mann. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um það að
Hard-Boiled Wonderland and the End of the World eftir Murakami bæri mörg einkenni sæberpönks og að
The Net með Söndru Bullock (sem hafði mjög djúpstæð áhrif á mig á mörgum levelum þegar ég var lítil) væri sæberpönkmynd. Í umfjöllun sinni um sæberpönkmyndir minnist Úlfhildur á að í þeim séu gjarnan „sýndir nýjir möguleikar hvað varðar samfélagsskipun, kynhlutverk og kynþætti“ (bls. 115), enda fjalli þær, eins og sæberpönkbókmenntirnar, yfirleitt um mögulega framtíð okkar. Ef ég man rétt var líka fjallað um þennan eiginleika vísindaskáldskapar í grein í Spássíunni einhvern tímann á síðasta ári, en þetta ætti að minnsta kosti að gera sæberpönk afskaplega áhugavert fyrir femínísta (enda fremur mikið um mikilvægar kvenpersónur í slíkum skáldskap). Úlfhildur fjallar mikið um kyn og kyngervi í kaflanum um myndmál sæborgarinnar, og ég verð að mæla sérstaklega með undirköflunum um kyn og tækni og
Gereyðandann (ég er að vona að næst skrifi hún bók sem fjallar bara um kynin í sæborgarbókmenntum og -kvikmyndum). Hér er kannski gott að taka það fram að bókin er í heild sinni femínískt verk, Úlfhildur er alltaf femínískt þenkjandi í umfjöllun sinni.
Þá kemur að fræðihluta bókarinnar, þar sem fjallað er um sæborgina, sjálfsveruna og merkingarheim líkamans. Femínískar fræðikonur eins og Julia Kristeva, Luce Irigaray, Hélène Cixous og Catherine Clément skjóta þar upp kollinum, ásamt Michel Foucault, Jaques Lacan, Jaques Derrida, Jean Baudrillard og félagsmannfræðingnum Mary Douglas (Kristeva fær mest pláss). Úlfhildur fjallar svo um fjölmarga fræðimenn sem hafa rannsakað sæborgina á ólíkum sviðum í kaflanum „Veröld ný og góð? Þverfagleg fræði sæborgarinnar“. Fræðihlutinn er líklega sá hluti bókarinnar sem nýttist mér mest, í honum búa ótalmargar hugmyndir, enda er þar kynntur til sögunnar fjöldi fræðikvenna- og manna.
|
Stálnótt eftir Sjón er undir
greinilegum áhrifum frá sæberpönki. |
Í kjölfar fræðanna er fjallað um sæborgina á Íslandi og í fimmta kafla er sæborgin í íslenskum listum í brennidepli. Úlfhildur fer fyrst í birtingarmyndir hennar í íslenskum bókmenntum og leiklist, þar sem staða hennar er ekki sérlega sterk (Sjón hefur þó sinnt henni mest). Svo skoðar hún myndlistina, en þar má finna fleiri dæmi um listamenn sem fjalla um tæknimenningu og líftækni á fjölbreyttan hátt. Verkin sem Úlfhildur fjallar um eru mörg hver til sýnis í Gerðarsafni út mánuðinn, á
sýningu tengdri útgáfu
Sæborgarinnar. Í bókinni koma reyndar fram upplýsingar sem ættu að nýtast ykkur á sýningunni, t.d. er hægt að þrýsta á takka við hliðina á stóru vélhjarta eftir Jón Gunnar Árnason, þannig að það fer að titra. Ég áttaði mig ekki á þessu þegar ég fór á sýninguna þótt ég hafi séð umræddan takka, en það þarf eiginlega mjög ákveðnar skipanir frá sýningarstjóra eða öðru yfirvaldi til þess að ég þori að snerta eitthvað á listasöfnum. Loks fjallar Úlfhildur um sæborgina í íslenskri tónlist og tónlistarmyndböndum, en þar er Björk í aðalhlutverki, enda tvinnar hún gjarnan saman tækni og náttúru í verkum sínum.
Tveir síðustu kaflar bókarinnar eru um fræðilega og almenna umfjöllun um sæborgina á Íslandi, en þar færist áherslan yfir á líftækni. Síðasti kaflinn er sérstaklega skemmtilegur, en þar einbeitir Úlfhildur sér að umfjöllun um líftækni og tæknimenningu í íslenskum dagblöðum. Hún beitir orðræðugreiningu til að skoða hvernig fjallað er um þessi efni og veltir því fyrir sér hvort umfjöllunin sé upplýst/upplýsandi og hvernig skáldskapur móti hugmyndir okkar um þessi fyrirbæri. Raunar er fjallað töluvert um það fyrr í bókinni hvernig skáldskapur og raunveruleiki eiga í samræðu þegar kemur að sæborginni og sæborgskum fyrirbærum, en hér fáum við nokkur áhugaverð konkret dæmi. Í kaflanum ber hún íslensk blaðaskrif saman við umfjöllun um líftækni í The Guardian (mjög vandræðalegur samanburður), auk þess sem hún skoðar umræður tengdar líftækni sem farið hafa fram á Alþingi undanfarin ár (annarsvegar um gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar, hins vegar um rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum). Þennan kafla ættu áhugamenn um fjölmiðlun endilega að lesa, hann er fyndinn og svo afhjúpar hann líka hvað íslenskur fréttaflutningur getur verið hrikalega yfirborðskenndur.
|
Robin Williams í Flubber. |
Ég skemmti mér hins vegar mest við lestur undirkafla sem fjallaði um vísanir í skáldskap í fjölmiðlaumfjöllun um vísindi, en skáldskapnum er gjarnan beitt, bæði í fræðiefni og fjölmiðlum, til að setja lesandann inn í mál sem fjallað er um. Úlfhildur tekur m.a. sem dæmi að á forsíðu Blaðsins í september 2005 hafi mynd úr kvikmyndinni
Face/Off fylgt umfjöllun um andlitságræðslu, mynd af Robin Williams í hlutverki brjálaða vísindamannsins í
Flubber hafi fylgt grein um ímynd vísindamanna í DV árið 1998, mynd úr
Stepford Wives (2004) hafi fylgt frétt um kynlífsvélmenni í Fréttablaðinu árið 2005 og mynd úr
I, Robot fylgt grein um tilfinninganæm vélmenni í Markaðsblaði Fréttablaðsins 2007 – alltaf án þess að það væri svo mikið sem minnst á kvikmyndirnar í sjálfum umfjöllununum! (ég kemst ekki yfir þetta)
Ég hef náttúrulega ekki gert grein fyrir næstum því öllu sem gerist í þessari bók (já, það gerist hellingur, þótt þetta sé fræðirit), en þið hljótið nú samt að gera ykkur einhverja grein fyrir því hvað hún fjallar um. Það má heldur ekki koma með of marga spoilera.
Vá, hvað mig langar núna enn frekar að lesa þessa bók! Kristín í París
SvaraEyðaGott. Hún er líka skemmtileg.
SvaraEyðajá hún hljómar æði!
SvaraEyða