2. febrúar 2012

Wisława Szymborska látin

Köttur í tómri íbúð

Deyja — það er ekki hægt að gera ketti.
Eða hvað ætti köttur að gera
í tómri íbúðinni.
Klifra upp veggina?
Nudda sér upp að húsgögnunum?
Ekkert virðist breytt
en ekkert er þó eins og það var.
Ekkert hefur hreyfst úr stað
en samt er meira pláss.
Og á kvöldin er ekki kveikt á neinum lampa.

Það heyrist fótatak í stiganum,
en ekki það rétta.
Höndin sem leggur fisk í skálina
er líka önnur.

Eitthvað byrjar ekki
á venjulegum tíma.
Eitthvað gerist ekki
eins og það ætti.
Einhver var alltaf, alltaf hérna
síðan skyndilega horfinn
og þrjóskast við að vera horfinn.

Hver skápur hefur verið rannsakaður.
Hver einasta hilla könnuð.
Til einskis að grafa sig undir teppið.
Búið að gera það sem er bannað,
pappírum rótað út um allt.
Hvað er hægt að gera fleira?
Sofa og bíða.

Bíða bara uns hann kemur
bara láta hann sýna sig.
Þá skal hann vita að svona
kemur maður ekki fram við kött.
Mjakast í áttina til hans
með sýnilegum óvilja
og ákaflega hægt
á móðguðum loppum
og ekki stökkva eða væla til að byrja með.


Svo hljóðar þýðing Antons Helga Jónssonar á ljóði Wisłöwu Szymborsku um yfirgefna köttinn, en þær fréttir bárust í dag að Szymborska hafi nú sjálf yfirgefið ketti þessa lífs, áttatíu og átta ára að aldri.

Szymborska fæddist í Póllandi árið 1923 og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1996. Hún var frábært skáld; pólitísk, hnitmiðuð, fyndin. Nokkrar þýðingar í viðbót á ljóðum hennar er að finna á heimasíðu Antons Helga en Þóra Jónsdóttir og Geirlaugur Magnússon hafa einnig þýtt ljóð eftir hana. Þýðingar Þóru komu út í bókinni Útópía sama ár og Szymborska fékk Nóbelinn og þremur árum síðar kom út bókin Endir og upphaf í þýðingu Geirlaugs. Druslubókadömur hvetja alla ljóðaunnendur til að kynna sér verk þessa merka skálds. Hennar verður einnig minnst í Víðsjá síðar í dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli