|
Ólíkt huggulegri mynd en myndin
af þrútna snípnum sem birtist þegar ég
reyndi að leita að bókarkápunni
á Google |
Það er alltaf dálítið undarleg tilfinning að uppgötva að höfundur sem maður hélt að væri karl er kona, eða öfugt. Stundum dregur maður einhverja ályktun sem reynist svo röng, jafnvel án þess að maður hafi sérstaklega leitt hugann að því, sem er svo jafnvel ansi afhjúpandi fyrir kyngreiningartilhneiginguna sem er svo rík í manni. Ég semsagt var alveg handviss um að rithöfundurinn
S J Watson væri kona; í síðustu viku spændi ég í mig fyrstu bók Watsons, metsöluskáldsöguna
Before I Go To Sleep, og velti því stuttlega fyrir mér í upphafi lestrar hvort um karl- eða kvenkynshöfund væri að ræða, ákvað svo einhvern veginn að þetta hlyti að vera kona og það var ekki fyrr en núna rétt áðan, þegar ég fletti bókinni upp á Amazon til að geta linkað á hana í færslunni, að ég komst að því að S J er fertugur karlmaður að nafni Steve.
Það eru sennilega meðmæli með Steve að ég skuli hafa haldið svona staðfastlega að hann væri kona; þessi fyrsta skáldsaga hans er nefnilega skrifuð í fyrstu persónu frá sjónarhorni konu á fimmtugsaldri. Án þess að ég sé sammála þeim sem finnst karlar ekki geta skrifað trúverðugar konur og konur ekki getað skrifað trúverðuga karla (hvaða rugl er það líka? Getur maður þá aldrei skrifað um fólk sem er eitthvað sem maður er ekki?) þá er þetta áberandi trúverðug rödd.
|
S J Watson, sem er ekki kona |
Ástæðan fyrir því að ég festi kaup á
Before I Go To Sleep úti í Leicester um daginn var sú að vinkona mín sem var með mér í bókabúðinni mælti afskaplega mikið með henni, og áður hafði önnur vinkona (sem hefur yfirleitt svipaðan smekk og ég) minnst á dálæti sitt á bókinni. Ég átti nokkurra klukkustunda lestarferðir framundan og þar eð þær sögðu báðar að þessa bók yrði maður að lesa í einum rykk fannst mér það hljóma nokkuð vel. Bókin hefur slegið rækilega í gegn þar ytra og mér skilst að Ridley Scott hafi nú tryggt sér kvikmyndaréttinn.
|
Kanadíska kápan er mjög dramó |
Ég get ekki sagt að ég hafi verið alveg jafnhrifin og þær vinkonur mínar, en þetta var ágætis afþreying og ansi spennandi á köflum. Sagan höfðaði til leyndardóma- og ráðgátutendensa minna og þótt ég sé alltaf búin að geta mér til um plottið nútildags (sakna þess að vera ung og saklaus að lesa Agöthu Christie í kringum 12 ára aldurinn, nagandi neglurnar fram á síðustu blaðsíður og alveg dolfallin yfir afhjúpunum Miss Marple) þá kom samt sitthvað á óvart við lesturinn. Sagan er byggð á mjög sterkri hugmynd sem stjórnar aftur forminu og frásagnarmátanum; Christine Lucas er haldin minnisleysi sem birtist í því að henni tekst ekki að mynda nýjar minningar. Hún vaknar dag eftir dag jafnundrandi á því að sjá tæplega fimmtugt andlit í speglinum, sjá ókunnugan mann í ókunnugu hjónarúmi í ókunnugu húsi, þekkja ekki eigin líkama eins og hann er orðinn. Þótt minnisleysið hafi varað í tæplega tuttugu ár er hver dagur ennþá nýtt upphaf. Ógnvekjandi ástand og algjört öryggisleysi. Christine þarf að reiða sig á upplýsingar annarra og takast á við þá yfirþyrmandi vitneskju að atburðir dagsins muni hverfa úr huga hennar á meðan hún sefur. Það borgar sig ekki að segja mikið um söguþráðinn; lesandinn er í upphafi settur í sömu stöðu og Christine en síðan bætast auðvitað upplýsingar við.
Watson gerir ýmislegt áhugavert úr þessari sömuleiðis áhugaverðu hugmynd (sem er mun betur unnið úr en t.d. í næstverstu bíómynd sem ég hef séð, 50 First Dates *hrollur*) en mér finnst hann samt láta sér ýmis tækifæri úr greipum ganga. Hann gæti gengið lengra í því að laga formið að ástandi Christine og þannig magnað upp óhugnaðinn. Textinn verður stundum flatur - stundum er hann samt meitlaður frekar en flatur, þetta er fín lína - og ákveðin viðbrögð persóna órökrétt eða ótrúverðug. Ég spændi þó bókina í mig á tveimur lestarferðum + tveimur kvöldum og hún rann mjög auðveldlega niður. Lesendur sem hafa gaman af sálfræðitryllingi og afhjúpunum af ýmsu tagi gætu klárlega haft gaman af að lesa hana þessa. Ég gáði í Gegni og hún er til á aðalsafni Borgarbókasafnsins, þó aðeins eitt eintak. Ég er búin að velta minninu mikið fyrir mér síðan ég las bókina og hún vekur upp alls kyns spurningar um tilgang minninga og áreiðanleika þeirra; er persónuleiki okkar mótaður af minningunum og krefst það einhverrar meðvitundar eða nægir að búa ómeðvitað yfir gleymdri reynslu og minningum? Skemmst er að minnast umræðu hér á landi um bældar minningar og áhrif áfallastreituröskunar á minnið. Það sem við höldum að sé gleymt eða erum ekki meðvituð um getur leynst í krókum og kimum mannshugans. Það skemmtilegasta við lestur bókarinnar fannst mér þessar pælingar allar. Í eftirmála er minnst á raunverulegar sjúkrasögur sem Watson sótti sér efnivið í og næst þegar ég man ætla ég að kíkja betur á þær.
Ég er að kálast úr forvitni, mig langar svo að vita hver er versta bíómyndin.
SvaraEyðaHah! Ég var að vona að einhver myndi spyrja að þessu.
SvaraEyðaVersta bíómynd sem ég hef nokkurn tíma séð er ... *trommusláttur* ... WHITE CHICKS. Hún er ekki einu sinni fyndið-vond, bara vond-vond-vond-vond. Hómófóbía, nauðgunardjók, staðalmyndir og ótrúlega, ótrúlega, ótrúlega lélegt handrit + leikur. Úff.
Vá hvað ég er sammála þér með þessa færslu. Bókin fannst mér spenndai og góð framan af, en síðan hætti ég að lesa og bað konuna mína bara um að segja mér hvernig hún endaði.
SvaraEyðaÉg hélt einmitt líka að höfundurinn væri kona, og krossbrá þegar ég sá svo mynd af "henni".
Ég get feginn sagt að ég fékk ekki mynd af þrútnum sníp þegar ég gúglaði bókinni, og ekki einu sinni þótt ég gúglaði 'before i go to sníp' bara til að prufa.
SvaraEyðaÉg vissi að einhver myndi leita að snípnum ... rakstu ekki á neinar mýrisnípur?
SvaraEyðaEr ekki sagt að Google lagi leitarniðurstöður að þeim sem leitar? Salka er greinilega á skrá hjá þeim sem manneskja sem þykir líkleg til að hafa áhuga á kynfæramyndum en Arngrímur ekki.
SvaraEyðaÞarna hefurðu afhjúpað mitt hroðalega netleyndarmál, Eyja ...
SvaraEyðaSalka
skemmtilegur pistill og áhugavert efni en stærsta spurningin hlýtur þó að vera: af hverju varstu að horfa á White Chicks????
SvaraEyðaÞar kom við sögu gífurleg þreyta eftir fjallgöngu í Skotlandi, þrjár vinkonur sem voru í heimsókn, tvær hvítvínsflöskur (sem dugðu þó ekki til) og brandarinn "horfum á þessa mynd, hún hlýtur að vera svo hræðileg að hún er fyndin" sem þróaðist út í "gvuð minn góður, þetta er ekkert fyndið og mér er svo misboðið á allan hátt en ég er of máttvana til að gera nokkuð í því."
SvaraEyða