|
Körfukjúklingur |
Það vakti athygli mína að í tveimur afar ólíkum íslenskum skáldsögum sem ég hef lesið nýlega er töluverðu púðri eytt í að fjalla um svokallaðan „körfukjúkling“ eða „Chicken in a Basket“ sem ku hafa verið vinsæll réttur á veitingahúsinu Naustinu (og víðar) á áttunda áratug síðstu aldar. Hann ber fyrst á góma í nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar,
Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, sem kom út 2010. Ári síðar dúkkar hann svo upp í
Einvígi Arnaldar Indriðasonar. Sennilega hefur þessi nýstárlegi réttur þegar verið orðinn úreltur þegar ég komst til vits og ára, ég minnist þess að minnsta kosti ekki að hafa heyrt hann nefndan áður. Greinargóða lýsingu er þó að finna hjá Arnaldi í kafla sem greinir frá kvöldstund einnar aðalpersónunnar á Naustinu. Þar segir meðal annars: „[Á] borði skammt frá þeim var eldri maður að gæða sér á körfukjúklingnum, en það voru kjúklingabitar djúpsteiktir í olíu. Réttinum fylgdi lítil þurrka og mundlaug með sítrónusneið því gestir vildu stundum borða kjúklinginn með fingrunum.“ (s. 89) Þetta virðist sem sagt hafa verið einhvers konar forveri Kentucky Fried fötunnar og McNuggets dulbúinn sem lúxusréttur.
|
Körfukjúklingur á öðru stigi |
Körfukjúklingurinn leikur ögn flóknara hlutverk í
Handriti Braga þar sem hann skýtur upp kollinum í ýmsum lögum frásagnarinnar og verður að endurteknu stefi í gegnum alla bókina. Með því að teygja sig svolítið má jafnvel leiða að því líkur að körfukjúklingurinn eigi sinn þátt í að afhjúpa blekkingaleik meints höfundar, Jennýjar Alexson. Án þess að tilefni sé til að fara nákvæmlega út í þá sálma hér má segja að helstu umfjöllunarefni bókarinnar (eins og raunar margra verka Braga) séu staða höfundarins og réttmæti skáldskaparins, hvort það sé siðferðislega verjandi að ljúga lesendur fulla og lokka þá inn í uppdiktaðan heim. Körfukjúklingurinn byrjar sem minning Jennýjar úr eigin æsku, rekur þaðan inn í söguna sem hún er skrifa um kunningja sína Örn og Jón og verður miðpunktur í einu af mörgum uppnámum á veitingahúsum sem þar er sagt frá. Loks virðist hann hafa fest akkeri í minni einnar aukapersónunnar, lyfsalans Alfreðs. Þannig má segja að ferðalag körfukjúklingsins bendi á að frásögnin er ekki raunveruleg heldur sköpuð úr hugarheimi höfundarins.
Hvað um það, nú finnst mér bara vanta að körfukjúklingurinn dúkki upp í eins og einni skáldsögu til viðbótar og þá getum við talað um trend í íslenskum bókmenntum. Á náttborðinu mínu er meðal annars
Nóvember 1976 og nú geri ég mér vissar vonir um að Haukur Ingvarsson hafi runnið á djúpsteikingarbræluna.
Ég er að hugsa um að biðja um mundlaug næst þegar ég panta mér kjúkling.
SvaraEyðaKörfukjúklingur er löngu orðin klassík:
SvaraEyðahttp://www.youtube.com/watch?v=Adfipy3lp9o