21. mars 2012

Tvö ljóð í tilefni af alþjóðlegum degi ljóðsins

Í dag er alþjóðlegur dagur ljóðsins; ekki veit ég hver ákveður svonalagað en svo mikið veit ég að allir dagar eru góðir dagar fyrir ljóð. Persónulega finnst mér yfirleitt meira gefandi að lesa ljóð en að tala um ljóð og þess vegna ætla ég að halda upp á daginn hér á síðu druslubóka með því að birta tvö ljóð. Þau eiga það sameiginlegt að vera eftir svöl íslensk skáld sem byrja á B; Raunvísindi eftir Bryndísi Björgvinsdóttur (Foucaultísk ljóð um alræði vísindanna á kostnað hins tvíræða eða óljósa, eða eitthvað sagði höfundurinn mér) og Mannslát eftir Bólu-Hjálmar (ég hef ekki náð í hann).

Raunvísindi eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

Í stærðfræði heitir notkun á bókstöfum algebra. Algebra snýst um að sannfæra bókstaf um að hann sé tala.
Svona:
A = 5 
A: !?!
A: :( :’( :(((((
A: Eins og ég sé eitthvað fimm! Bara af því það hentar þér!
Svona A, vertu fimm!
A: Nei!
Vertu fimm eða ég drep þig!!!
A: = 5

Mannslát eftir Bólu-Hjálmar Jónsson

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannske í kvöld,
með klofinn hjálm og rofinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

Í tilefni dagsins getur líka verið gaman að lesa þetta ljóð norska skáldsins Henning Bergsvåg um það af hverju hann skrifar ljóð.

Eiga lesendur einhver uppáhaldsljóð sem þeir vilja deila?

2 ummæli:

  1. Er ekki eðlilegt að í beinu framhaldi komi ódauðlegt ljóð Dags Sigurðarsonar:

    Raun vísinda
    stofnun Háskólans.

    SvaraEyða
  2. Enn betur væri við hæfi að fara með söng Dags Sigurðarsonar um sjálfan sig frá sambærilegum degi fyrir allmörgum árum:

    Dagur
    Dagur
    Dagur
    Dagur
    Dagur
    ljóðsins

    kv. HS

    SvaraEyða