20. apríl 2012

Heilinn sem skúrkur sögunnar

Heilinn minn á það til að staðsetja vísindaskáldskap innan bókmennta nokkurnveginn svipað og kántrí innan tónlistar: þótt ég viti að ýmislegt gott, jafnvel frábært, hafi verið samið innan beggja geira virðist svo mikið meira af öðru, slakara, eiga til að skyggja á hið góða. Ógrynni óbærilegheita á móti broti af betur heppnuðu -prinsippið á auðvitað við um fjölmörg önnur mannanna verk, svo sem eins og hálsbindi, skó eða ritvinnslufonta. Þetta með vísindaskáldskapinn kann reyndar að vera töluvert fordómaskotið viðhorf þar sem ég hef alls ekki lesið margar slíkar bækur og þær eru yfirleitt alfarið utan radarsins þegar ég leita mér að lesefni. Nýverið endurlas ég hinsvegar tvær af skáldsögum Kurts Vonnegut sem flokka má sem vísinda-, Cat's Cradle (1963) og Galápagos (1985).


Vonnegut lærði mannfræði á sínum tíma (fékk raunar Cat's Cradle samþykkta sem mastersritgerð árið 1971, eftir að upprunalegu framlagi hans í þá átt hafði verið hafnað) og sjónarhorn mannfræðingsins kemur sérlega skýrt í gegn í báðum þessum sögum, sem hvor um sig er frábær skáldsaga og ekki síður í endurlesningu.

Sögumaður Cat's Cradle er drykkfelldur rithöfundur og blaðamaður á krísuhneigðum aldri, sem ferðast til (uppskálduðu) karabísku eyjarinnar San Lorenzo til að skrásetja atburði á umrótatímum í samfélaginu þar – hyggst semsagt einungis fylgjast með, en lendir í mun stærra hlutverki áður en yfir lýkur. Sögumaður Galápagos er síðan skemmtilegt tvist á alvitran sögumann: draugur verkamannsins Leon Trotsky Trout (sonur vísindaskáldsöguhöfundarins Kilgore Trout, sem kemur við fleiri af sögum Vonneguts í misstórum hlutverkum). Eftir dauðann fýsti Trout að nýta sér hæfileika draugsins til að vera á mörgum stöðum samtímis og skyggnast inní hjörtu mannanna, í því skyni að reyna að skilja eitthvað í þeim og mótífum þeirra, og hafnaði því uppstigningu á æðra svið. Eins og lög gera ráð fyrir er dánarstaðurinn hans aðalaðsetur – í þessu tilfelli skemmtiferðaskipið Bahía de Darwin, hannað til lúxus-skoðunarferða um Galapagos-eyjarnar, en það var einmitt Charles Darwin sjálfur sem kom eyjunum á kortið á sínum tíma með því að skrifa um sérstætt dýralíf þeirra. Líkt og í Cat's Cradle er því um eyjaferðasögu að ræða, eins og nafnið bendir jú til – en ef greina ætti einhverskonar boðskap úr þessum sögum að svo stöddu, þá snýst hann líklegast um tilgangsleysið sem litar alla viðleitni til að stýra eigin örlögum eða annarra. Til dæmis er hægt að koma hópi vel skrifaðra sögupersóna á skipsfjöl á leið til Galapagoseyjanna, setja skipið í bók og nefna bókina eftir Galapagoseyjunum, en það er samt engin trygging fyrir því að föruneytið stígi nokkru sinni fæti á Galapagoseyjarnar. Svipuð vísun í tilgangsleysi (eða bara skort á endanlegu samhengi) býr í titli Cat's Cradle, sem dreginn er af leik sem á íslensku nefnist fuglafit og gengur út á að mynda mynstur milli fingra sér með spotta – en líkt og ein persónan bendir á er þó hvorki kött né vöggu að sjá í spottaflækjunni: no damn cat, and no damn cradle...

Tómhyggjan er þó ekki meiri en svo að trúarbrögðum eru gerð skil: innfæddir á San Lorenzo tilbiðja andlega leiðtogann Bokonon, sem einræðisherrann Monzano hefur fordæmt og heitið fylgjendum hans grimmilegum dauðdaga. Þessi snyrtilega tvíhyggja er sprottin af því sameiginlega mati félaganna Bokonons og Monzanos að lýðurinn þurfi á trúnni/spennunni sem felst í opinberri fordæmingu hennar að halda til að brjóta upp tilbreytingalítið brauðstritið. Í Galápagos má svo segja að vísindin hafi yfirtekið hlutverk trúarbragðanna með þróun tölvunnar Mandarax; tækniundurs sem getur greint fjölda sjúkdóma og ráðlagt meðhöndlun, þýtt milli þúsund tungumála og vitnað víðtækt í heimsbókmenntirnar, en reynist þó gagnslítil til lífsbjargar eftir skipsstrand á eyðieyju.

Vonnegut var krúttlegur kall.
Eiginlega er þróun fyrirferðarmesta þemað í Galápagos, og þá þróun mannsheilans sjálfs fremur en sköpunarverka hans, en draugur Trouts nýtur þeirra forréttinda að fylgjast með heilum mannfólks í milljón ár framúr því sem við köllum nútíma. Í rauntíma frásagnarinnar – eitthvað um árið milljón og 1986 – lýsir hann því hvernig hinir undarlega stóru heilar fyrri tíma gátu valdið eigendum sínum botnlausu hugarangri, hvernig þeir voru í raun þróunarleg mistök: „When I was alive, I often received advice from my own big brain which, in terms of my own survival, or the survival of the human race, for that matter, can be charitably described as questionable. Example: it had me join the United States Marine and go fight in the Vietnam War. Thanks a lot, big brain.“ (29) Hvað sem annars má segja um mannsheila okkar tíma hafa þeir að minnsta kosti framleitt fullt af læsilegum skáldskap, jafnvel þeim kenndum við vísindi, og sögur Vonneguts finnast mér beinlínis stórgóðar fyrir heilann minn. Takk fyrir mig, heili Vonneguts!

3 ummæli:

  1. Elsk á Vonnegut. Var einmitt að klára Hocus Pocus og hún var svakalega góð, eiginlega alveg næstum því á kaliberi við cat's cradle og eiginlega trylltari en Galapagos. Einhverntímann ætluðum við Nanna í átakið "Allur Vonnegut á einu ári" en ég er fegin að við beiluðum á því, því það yrði of sorglegt að eiga engar bækur eftir til að lesa.
    Áa

    SvaraEyða
  2. Ég las einu sinni vísndaskáldsögu eftir hann sem hét player piano. Hún var skemmtileg, fjallaði um hve tilgangslaust líf mannanna var orðið eftir að vélar fóru að gera allt fyrir þá. Bókin hafði vægast sagt athyglisverða sýn á dílemmu kvenna í slíkum heimi, en þar er að finna kvenpersónu á miðjum aldri sem hefur misst eiginmann sinn í fang yngri konu. Hugrenningar hennar í þeim aðstæðum eru eitthvað á þá leið að ef hún ætti ekki öll þessi heimilistæki, þá væri hún sem manneskja þó enn þá einhvers virði, því hún myndi sjá um að halda öllu hreinu.

    Ragnhildur.

    SvaraEyða
  3. Takk fyrir góða og skemmtlega grein. Vonnegut er einn eftirlætis höfundurinn minn, en ég á enn eftir að lesa Galapágos. Skrifaði BA-ritgerðina mína um þriðju skáldsöguna hans, Mother Night, og kallaði the Madness of Sanity. Áhugasamir geta fundið hana á Skemmunni. :)

    SvaraEyða