27. apríl 2012

Leikmyndahönnuður leysir glæpamál - Konurnar á ströndinni er spennandi reyfari!

Konurnar á ströndinni eftir Tove Alsterdal er sérlega óhugnanlegur og spennandi reyfari. Eins og flestar skandinavískar glæpasögur tekur hún á ákveðnu samfélagslegu meini og vefur söguþráðinn í kringum viðfangsefnið. Að þessu sinni er viðfangið nútíma þrælahald og þótt það sé svo sem ekki nýlegt vandamál er það þó fremur frumlegt miðað við mansal, raðmorðingja, fíkniefni, skipulögð glæpasamtök, hryðjuverk og vopnasölu (já það fer ekki á milli mála að þetta er ekki fyrsti skandinavíski reyfarinn sem ég les).



Við lesturinn verður maður óneitanlega að einhverju leyti upplýstari um þessi samfélagsmein (eins og er væntanlega ætlast til) og ég vissi lítið sem ekkert um nútíma þrælahald sem þó er ein arðbærasta ólöglega atvinnugreinin í dag. Það er merkilegt að hið löglega þrælahald liðinna tíma þykir svartur blettur á mannkynssögunni á meðan þrælahald dagsins í dag (sem í raun er miklu víðtækara og að sumu leyti ómannúðlegra) fær að blómstra merkilega óáreitt – ef eitthvað er að marka heimildir bókarinnar. Stærstu áhyggjur Vesturlanda virðast snúast um að allt þetta fólk sé ólöglegir innflytjendur og mikilvægt sé að koma í veg fyrir að það sæki sér einhver réttindi eða bætur. Ódýrt – eða öllu heldur ókeypis vinnuafl hjálpar Vesturlandabúum að viðhalda þægilegum lífsstíl og þótt fréttir af illri meðferð á vinnuafli í verksmiðjum skreyti öðru hverju forsíður blaðanna hafa slíka fréttir aldrei náð að ógna vinsældum viðkomandi fyrirtækja. Vissulega verður sífellt erfiðara að vera svokallaður upplýstur neytandi en þetta er þó merkileg staðreynd. Þrælar skapa eigendum sínum auðævi, auðævin skapa vald og í skjóli þessa valds sitja hinir sjálfskipuðu kóngar ósnertanlegir fyrir lögum allra landa.

Þrátt fyrir samfélagslega vinkilinn skera Konurnar á ströndinni sig skemmtilega frá öðrum skandinavískum reyfurum að því leyti að hvergi er drykkfelldan lögreglumann eða einkaspæjara að finna. Reyndar hefur rannsóknarblaðamaður verið að reyna að leysa gátuna þegar sagan hefst en hann er horfinn og það er eiginkona hans, leikmyndateiknari í New York, sem rekur slóðina. Persóna hennar er skemmtileg þótt hún sé stundum á mörkum þess að vera trúverðug – í upphafi sögunnar rifjar hún t.d. upp síðasta símtalið sem hún átti við eiginmann sinn áður en hann hvarf. Í bakgrunni heyrir hún óljóst einhverjar setningar á frönsku og svo síðar þegar maður hennar er horfinn tekst henni að fara með setningarnar orðrétt fyrir frönskumælandi einstakling og reynast þær innihalda mikilvægar upplýsingar sem hún nýtir til að hefja rannsóknina sjálf. Þótt síðar komi fram að hún hafi dvalið einhvern tíma í Frakklandi og kunni örlítið hrafl í málinu sem hún var löngu búin að gleyma þykir mér þetta ansi langsótt og til að gera þennan hæfileika hennar trúverðugan hefði eiginlega þurft að kynna hana til sögunnar sem tungumálasnilling með lygilegt minni eða í það minnsta einstakling með vægt aspergersheilkenni. Síðar í sögunni sýnir hún líka af sér takta sem James Bond hefði verið stoltur af – eða nærtækara dæmi - hin sænska Lisbeth Salander en í því tilviki var þó búið að undirbyggja greinilega að Salander væri vægast sagt óvenjuleg kona. Auðvitað er þessi hugmynd um Jón Jónsson (eða Jónu Jóns) sem umbreytist skyndilega í sérþjálfaðan hermann ekki ný af nálinni og í rauninni gamalkunn fyrir áhorfendur margra Hollywood-mynda – en mér fannst þetta draga aðeins úr trúverðugleika annars frekar magnaðrar sakamálasögu. Þetta kom þó ekki mikið að sök og bókin hélt mér í heljargreipum fram yfir síðustu blaðsíðu.

Á kápu hrósar Liza Marklund bókinni í hástert og þegar litið er yfir þakkarlistann í bókarlok kemur raunar í ljós að hún las handritið yfir fyrir Tove. Verandi fremur lítill aðdáandi síðustu reyfara Marklund (sem draga markvisst úr manni lífslöngunina) fannst mér þetta nú ekki nein sérstök meðmæli með bókinni. En ég lét mig hafa það að lesa hana og sá alls ekki eftir því. Hún er eins og áður segir spennandi, ófyrirsjáanleg (nokkur tvist sem komu mér alveg í opna skjöldu) og – alla vega á einum stað – fyndin (sem er nokkuð sem Marklund lætur aldrei standa sig að). Undir lok bókar kemur nefnilega fram að leikarinn og leikstjórinn George Clooney hafi lýst yfir áhuga á að framleiða kvikmynd byggða á þeim ósköpum sem blaðamaðurinn gekk í gegnum og hafi lagt mikla áherslu á að vera efninu trúr – og þá hló ég í öllu falli upphátt. En því er ekki að neita að bókin er líka mjög dramatísk og á köflum svífur þunglyndislegur andi Marklund yfir sögunni – en spennan bar mig í gegnum þá kafla. Þannig að – fyrir þá sem eru þegar byrjaðir að leita að lesningu í sumarbústaðnum er óhætt að mæla með Konunum á ströndinni!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli