|
Hin fagra Paltrow heldur á mat |
Eins og fleiri druslubókadömur hef ég mjög gaman af matreiðslubókum og get sökkt mér niður í þær eins og skáldsögur – alveg óháð því hvort ég muni nokkurn tímann matreiða eitthvað upp úr þeim. Ég elskaði matreiðslubækur meira að segja áður en ég kunni nokkuð að elda (eins og kemur fram í
þessum pistli). Þegar ég kem í bókabúðir reyni ég yfirleitt að staldra aðeins við matreiðsluhillurnar og skoða myndirnar ef ekkert annað þótt ég kaupi sjaldan nokkuð. Þótt ég eigi dulítið safn af matreiðslubókum (mikið til brúðkaupsgjafir) þá er ég ekki mjög dugleg að bæta í það heilum bókum – frekar stöku handskrifaðri uppskrift – meðal annars af því að a) matreiðslubækur eru yfirleitt frekar dýrar b) það eru fáar bækur þar sem nógu margar uppskriftir heilla til þess að ég þurfi að eignast alla bókina og c) matreiðslubækur eru stórar og þungar bækur svo þær henta illa til bókarkaupa erlendis eða á netinu.
|
tveir gráðugir Ítalir með girnilega pizzu |
|
list eða lyst? |
Í nýlegri ferð í bókabúð rakst ég á nokkrar áhugaverðar matreiðslubækur – ber þar fyrst að nefna
Notes From My Kitchen Table eftir Gwyneth Paltrow sem vakti aðallega áhuga minn af því mér fannst hin súpergranna, makróbatíska Paltrow frekar ólíklegur kandídat í matreiðslubransann. Paltrow skreytir bókina brosandi, hvítklædd og grönn en veifar þó gaffli sem eitthvað matarkyns er á (þótt það sé erfitt að fullyrða hvort það sé pastalufsa eða eitthvað gufusoðið grænmeti). Hún tileinkar bókina látnum föður sínum (Bruce Paltrow) sem miðlaði ást sinni á mat og matreiðslu til dótturinnar. Gwyneth varð þó snemma upptekin af makróbatískum mat og í mörg ár snerti hún hvorki sykur, mjólkurvörur, kjöt, glúten, áfengi og ýmsilegt fleira sem er uppistaðan í mínu eigin mataræði. Faðir hennar kunni hins vegar að meta góðan hamborgara og þótt hún reyndi að fá hann í lið með sér í makróbatíkinni gekk það illa því eins og hún segir í bókinni: „I think that he equated his beloved morning coffee with two sugars to being ‘normal’“ (bls. 16) Þótt ég sé ekki enn farin að drekka kaffi er ég hrædd um að eins og Bruce falli ég undir þann flokk fólks sem finnst „eðlilegt“ að fá sér kaffibolla á morgnanna. Það kemur því kannski ekki á óvart að í bókinni er að finna mikið af hollum réttum, margt er gufusoðið eða hægeldað sem er auðvitað bara hið besta mál. Einhverjar uppskriftir frá föður hennar fylgja þó og eru þær áberandi meira djúsí – þar á meðal pönnukökur, ídýfur og eitthvað pasta. Myndirnar í bókinni eru sérlega glæsilegar þótt þær leggi eiginlega meiri áherslu á Gwyneth en matinn – Gwyneth þefar af tómötum (?), Gwyneth hrærir í potti með barn á mjöðm, Gwyneth hlær í dyragættinni. Hún talar svo mikið um gleðina af því að elda og borða með börnunum sínum, fjölskyldu og (frægum) vinum sem komu í mat á æskuheimili hennar og öðrum (frægum) vinum sem koma í mat til hennar og Chris Martin í dag.
Öllu girnilegri verð ég að viðurkenna fannst mér bókin
Two Greedy Italians eftir þá Antonio Carluccio og Gennaro Contaldo (umræddir Ítalir). Þetta eru tveir feitir og glaðlegir frekar fullorðnir kallar sem hafa verið með þætti á BBC sem ég væri alveg til í að sjá (enda þykir mér fátt notalegra en að horfa á vant fólk saxa grænmeti og sveifla pönnum). Bókin er full af rjúkandi pasta, muldum gorganzola og hnausþykkum búntum af basilikku og þótt Ítalirnir séu ansi langt frá makróbatíkinni eru vissulega hollir réttir inni á milli - eins og salat með eplum, jarðaberjum, hnetum og gorganzola (nammmmmm) og graskerssnakk með ristuðum brauðmolum. Eins og í bókinni hjá Gwyneth eru líka myndir af ítölunum en þeir sitja í hægindum sínum og gæða sér á ís fyrir framan ponsulítið ítalskt kaffihús eða standa sveittir, ataðir hveiti að búa til pasta á sínum myndum. Þótt myndir ítalanna séu sjálfsagt alveg jafn uppstilltar og yfirlýst Paltrow að þefa af tómötum (er lykt af þeim?) þá vekja þær í öllu falli upp í lesandanum meiri matarlyst. Fyrir utan myndir af Carluccio og Contaldo eru líka ægifagrar myndir af matnum sem þeir elda, héruðum sem matvælin koma upprunalega frá og svo hreinlega fallegum myndum af ítalskri náttúru (það eru ekki bara Íslendingar sem detta í að setja inn landkynningarmyndir við öll hugsanleg og óhugsanleg tækifæri).
Þriðja bókin sem ég rakst á er svo
The Geometry of Pasta eftir Jacob Kenedy (sem er kokkurinn) og Caz Hildebrand (sem átti hugmyndina að bókinni og myndskreytti). Bókin fjallar um hin mismunandi form pasta en það kann að koma einhverjum á óvart að það eru til allt að 300 mismunandi skrúfur og lengjur úr þessu sívinsæla efni. Pastaformunum er hér raðað í stafrófsröð (fyrst kemur Agnolotti og svo rekur Ziti lestina) og hverri tegund fylgir sósuuppskrift enda eru hin mismunandi form upphaflega tilkomin m.a. af því þau grípa mismunandi sósur misvel. Engar ljósmyndir er að finna í bókinni en í staðinn hefur áðurnefnd Caz teiknað geometrískar myndir með hverju nýju pasta. Myndirnar eru hugvitsamlegar og oft mjög skemmtilegar en ekki er alltaf gott að þekkja pastatýpuna af myndinni og þær myndu seint teljast lystaukandi þótt listrænar séu. Ég hef svo takmarkað ímyndunarafl að án litfagurra mynda af rjúkandi pasta með bræddum osti eða litfögrum tómati er ást mín á matnum dæmd til að vera platónsk og nær því aldrei að verða líkamleg. Eins og áður sagði eru pastatýpurnar næstum 300 og þótt þarna komi fyrir gamlir kunningjar eins og penne, ravioli, tortellini og lasagna voru þarna líka framandi tegundir á borð við malloreddos, radiatori og cavatelli sem gaman væri að prófa. En þótt þetta sé vissulega skemmtileg nálgun verð ég að viðurkenna að áhugi minn á pastaskrúfunni dregur ekki í þær 300 blaðsíður sem bókin telur og ég var farin að blaða ansi hratt í gegnum hana. Hins vegar gleðst ég mjög yfir því að búa í heimi þar sem hægt er að gefa út veglega bók um svona sértækt efni og ímynda mér að einhvers staðar sé pastaáhugamanneskja grátandi af gleði með einmitt þessa bók í fanginu.
Ég er farin fram í eldhús að þefa af tómötum!
SvaraEyðaEr makróbatík það sama og makróbíótík?
SvaraEyða- Einn smámunasamur
jájájá það er svo sannarlega það sama - íslenska versjónin mín dáldið svona hipsumhap - afsakið - ég kannski lufsast til að að leiðrétta þetta á eftir!
SvaraEyðaÉg er enn að flissa að spurningarmerkinu innan sviga á eftir tómötunum.
SvaraEyðaAnnars vil ég benda á að stórar og þungar matreiðslubækur henta alls ekki illa til bókakaupa á netinu, þvert á móti, því a.m.k. hjá búðum eins og Amazon er bara tiltekinn sendingarkostnaður fyrir hverja bók sem maður pantar, alveg óháð þyngd.
í ALVÖRU Erna??? Nú hef ég verið að panta af Amazon í örugglega tíu ár en alltaf verið að takmarka mig við kiljur af því ég hélt maður borgaði eftir þyngd...jæja best að hætta að spæla sig og byrja að panta!
SvaraEyða