3. maí 2012

Fjórar konur og kaffihús

Það er rétt rúm vika síðan hér birtist viðtal við Sólveigu Jónsdóttur, sem nýverið sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Korter. Þegar ég sendi henni spurningarnar var ég ekki búin að lesa bókina en hlakkaði mikið til þess. Nú er ég búin að lesa hana, og sé að ég hefði kannski átt að senda henni öðruvísi spurningar.

Ég spurði hana nefnilega svolítið mikið útí skvísubókastimpilinn, því undir þeim formerkjum hefur verið fjallað um bókina og kápan hefur greinilegar skírskotanir til skvísubókahefðarinnar. En ég er ekki alveg sannfærð um að innihaldið gefi endilega tilefni til þess. Bókin hverfist vissulega um konur á þrítugsaldri, en hinn steríótýpíski vinkvennahópur og neyslumenningin, sem oft er talin eitt af einkennum hefðarinnar, er víðsfjarri. Engin af konunum kaupir sér föt, varaliti eða hælaskó á frásagnartímanum. Þær eru frekar í því að nurla saman fyrir skoti á barnum, draga gamla kjóla upp af gólfum og dusta af þeim rykið eða lufsast um með skítugt hár og syrgja.



Persónur bókarinnar eru fjórar; Hervör, Karen, Silja og Mía. Þær eiga ekki margt sameiginlegt á yfirborðinu, annað en að búa á höfuðborgarsvæðinu, hanga mikið í miðbænum og vera allar tuttugu og sjö ára gamlar. En landið er lítið og borgin ennþá minni, þannig að óhjákvæmilega skarast líf þeirra allra, en í mismiklum mæli þó.

Það er alls ekki létt yfir þessari bók, þó pastellitirnir á kápunni gefi ef til vill hið gagnstæða til kynna. Hún gerist í versta skammdeginu hérna á Íslandi, í janúar, febrúar og mars og persónum verður oft á orði hvað allt sé dimmt og blautt og kalt og trist og velta fyrir sér hvað þær séu eiginlega að hanga á þessu guðsvolaða skeri. Þetta er heldur ekki góður tími í lífi kvennanna. Þær hafa ýmist nýlega orðið fyrir áföllum eða verða fyrir þeim á sögutímanum og lesendur fá að fylgjast með þeim reyna að krafla sig einhvernveginn út úr þeim, setja undir sig hausinn (sama hversu ógeðslega erfitt það er) og halda lífinu einhvern veginn áfram.

Mér finnst alltaf dálítið inspírerandi og gaman að lesa um fólk sigrast á erfiðleikum og standa keikari fyrir vikið, en það sem mér fannst svolítið miður var að í öllum tilfellum þessara fjögurra kvenna hverfðust vandamálin um karlmennina í lífi þeirra. Og svo það sem mér fannst verra (SPOILER! ÞIÐ HAFIÐ VERIÐ VÖRUÐ VIÐ!): lausnirnar hverfðust eiginlega allar að stórum hluta um karlmenn líka.

Það eru kannski ósanngjarnar væntingar hjá mér, en mig langaði til þess að líf þessara kvenna snerust ekki alveg svona mikið um kærasta þeirra, eiginmenn eða viðhöld. En aftur á móti þá getur verið að höfundur noti þetta einmitt til að benda á hversu stefnulausar (og kannski svolítið ósjálfstæðar?) þær í raun eru. Tvær þeirra hafa lokið háskólanámi sem nýtist þeim ekki neitt og þær sinna störfum sem þær hafa engan áhuga á. Og önnur er atvinnulaus og virðist raunar ekki hafa mikinn áhuga á því að finna sér vinnu. Sú eina sem hefur einhvern "frama" í starfi hefur ekki mikinn metnað fyrir vinnunni, að minnsta kosti hefur hún það ekki á þessum tímapunkti í lífi sínu. Og þær hafa ekki háleita drauma heldur og eru einhvernveginn ekki á leiðinni neitt.

En aftur á móti fjallar bókin auðvitað um konur sem eru á þeim aldri þegar flestir eru farnir að horfa í kringum sig eftir lífsförunauti og því kannski eðlilegt að þær séu svolítið uppteknar af því að finna hann. Og í bókarlok eru þær stefnulausu að minnsta kosti komnar einu skrefi nær því að komast að því hvað þær vilji taka sér fyrir hendur, sem er ágætis byrjun.

Þó að sögur þessara fjögurra kvenna hafi verið mjög áhugaverðar og jafnvel efni í heila bók hver fyrir sig, þá velti ég því fyrir mér hvort það hefði ef til vill farið betur á því að sleppa einni þeirra, eða þá að stytta kaflana. Því það leið stundum ansi langur tími (bæði sögu- og lestrartími) á milli þess sem maður heimsótti persónu og við það varð frásögnin svolítið höktandi.

Heilt yfir var ég alveg ljómandi ánægð með þessa bók. Hún er lipurlega skrifuð, skemmtilega plottuð og vel unnin. Ég las hana næstum því í einum rykk og lifði mig svo rækilega inn í líf þessara stelpna (sem eru líka allar jafngamlar mér) að ég skal barasta alveg viðurkenna að ég grenjaði svolítið yfir óförum þeirra líka.

Ég bíð spennt eftir næstu bók Sólveigar, sem ku vera í bígerð. Ég las einhversstaðar að hún verði allt öðruvísi og það verður gaman að sjá hvað hún sendir frá sér næst.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli