Hin sívinslælu sænsku smá-jarðaber |
Viktoría er rithöfundur og hún er komin í þetta hús bæði til að jafna sig á missi og reyna að skrifa skáldsögu. Hún fer svo smám saman að fylgjast með þessum einangraða nágranna sínum sem bæjarbúar kalla norn og óhjákvæmilega liggja leiðir þeirra saman. Konurnar tvær kynnast svo smám saman og hjálpa hvor annari að sætta sig við orðinn hlut, kveðja fortíðina og byrja aftur að lifa. Um leið og þær fara að trúa hvor annarri fyrir leyndarmálum sínum og sorgum kynnist lesandinn þeim sömuleiðis.
Sagan er ágætlega upp byggð þótt ekki takist henni alveg að forðast klisjurnar. Tragedíur og hvað þá fjölskyldutragedíur eru í eðli sínu dálítið klisjukennt og vandmeðfarið efni. Misnotkun, sjálfsmorð og ástvinamissir gera ekki fórnarlömbin og eftirlifendur sjálfkrafa að áhugaverðum persónum. Hér tekst Lindu misvel upp – sum leyndarmál fortíðar ná að hreyfa við manni á meðan önnur snerta mann afskaplega lítið.
fann þessa skemmtilegu mynd af þýðandanum við gúggl |
Það sem skáldsagan gerir hins vegar best eru lýsingar á hversdaglegum hlutum, matnum (mjög sænskur) og undirbúningi máltíðanna, sundsprettum í ánni, berja- og sveppatínslu og öðrum árstíðabundnum verkum. Meðan sögunni fleytir fram líður tíminn og árstíðirnar breytast. Á þeim stundum nær höfundurinn að skapa fallega stemningu og raunverulega áhugaverða nánd á milli kvennanna sem segir miklu meira en löng analýtisk eintöl þeirra um liðna atburði. Að öllu þessu sögðu sé ég að bókin fær almennt glimmrandi góða dóma lesenda á Amazon og þykir gríðarlega fagur (og ljóðrænn) vitnisburður um ástina, vináttuna, lífið og dauðann...og kannski er hún það – kannski er ég bara svona kaldlynd.
Ps. Ég er sérstaklega ánægð með þýðingu Guðna Kolbeins – í bókinni er mjög mikið af tilvitnunum í ýmsa texta og fer Guðni þá leið að láta sænskuna standa en þýðingin fylgir strax á eftir – þetta er auðvitað smekksatriði en mér finnst afskaplega gaman að hafa frumtextann með, hvort sem maður kann tungumálið eða ekki. Stundum er frumtextinn þekktur og þá bætir einhverju við að sjá hann í stað þýðingarinnar. Sjálfsagt þykir einhverjum þetta brjóta frásögnina upp en persónulega er ég voða ánægð með þessa „þýðingarákvörðun“ Guðna.
Þessi bíður mín í to-read bunkanum. Ofarlega, meira að segja. Get ekki beðið eftir að sökkva tönnunum í merkingarhlaðin sæt jarðarber. Hef svo gaman af ljóðrænum skandinavískum bókum, vona að þessi valdi mér ekki vonbrigðum.
SvaraEyðaneinei - bókinni er alls ekki alls varnað, þú ættir alveg að geta haft gaman af henni - og ekki skortir skandinavíska ljóðrænu!
SvaraEyðaÉg sá umfjöllun um tilurð bókarinnar í þætti um það hvernig bækur verða vinsælar á RÚV fyrir nokkru.
SvaraEyðaAðalmálið var að hún varð vinsæl án þess að vera auglýst eða markaðssett sérstaklega, bara "word-of-mouth". Soldið eins og þessi færsla.