16. maí 2012

Næstbesti bloggari í heimi skrifaði líka bók, sem ég las

Jenny Lawson - The Bloggess
Jenny Lawson er betur þekkt sem The Bloggess og hún er næst uppáhalds (eða segir maður næst mest uppáhalds?) bloggarinn minn. (Ég skal skrifa um uppáhaldsbloggarann minn seinna).

Hún skrifar á Thebloggess.com og er ein af vinsælustu bloggurunum í Bandaríkjunum. Meðal aðdáenda hennar eru Obama, Oprah, Neil Gaiman og skrilljón billjón fleiri. Hún er svolítið biluð, þjáist af gigt, félagsfælni og þunglyndi, hefur mikinn áhuga á uppvakningum og uppstoppuðum dýrum í búningum (en gætir þess samt að kaupa bara uppstoppuð dýr sem létust af náttúrulegum orsökum) og hún býr í Texas.


Á blogginu skrifar hún um líf sitt og er oft alveg drepfyndin, enda virðist hún lenda í fleiri fáránlegum aðstæðum en venjulegt fólk. Hún er líka dugleg að skapa sér þær sjálf og þannig vakti það t.d. mikið fjaðrafok þegar hún Twitter-stjáklaði leikarann William Shatner og hann varð svo hræddur við hana að hann blokkaði hana á Twitter og málið rataði meðal annars í fréttirnar á MSNBC-sjónvarpsstöðinni.

En Jenny Lawson skrifar ekki bara grín, heldur er bloggið hennar ótrúlega sjarmerandi blanda af súrrealískum brandarasögum og dýpstu einlægni. Þannig hefur hún skrifað afar heiðarlega og fallega um baráttu sína við geðsjúkdóma, ítrekuð fósturlát og persónulega ósigra. Það hlýtur að krefjast mikils hugrekkis að opinbera sig svona á internetinu (sérstaklega ef maður er með skrilljón billjón lesendur (og einn af þeim er Obama)), en hreinskilni Lawson er kannski einmitt ástæðan fyrir því að lesendur hennar eru henni svona trúir. Hún sýnir þeim nefnilega ótrúlegt traust í skrifum sínum og þeir kunna sko að endurgjalda það og standa alltaf með henni einsog klettar í öllum internetrifrildum. Þannig er t.d. frægt þegar einhver PR-gæi kallaði hana tík í tölvupósti, hún tvítaði um það og internetið BRJÁLAÐIST. Ég er viss um að aumingja maðurinn á aldrei eftir að bera barr sitt fyllilega eftir uppákomuna. Hægt er að lesa meira um það hér, og svo er líka bara hægt að gúggla "Bloggess PR" og þið fáið upp fullt af linkum.

En ástæðan fyrir því að ég skrifa um hana hér er að hún gaf nýverið út bók sem heitir Let´s Pretend This Never Happened: (A Mostly True Memoir). Einsog titillinn gefur til kynna eru þetta endurminningar hennar og dyggir lesendur bloggsins hafa fylgst með vegferð bókarinnar frá upphafi, fengið að heyra af því hvernig skrifin gengu, þegar hún var að leita að útgefanda, gleðinni yfir bókasamningnum og tímaþrönginni sem hún var komin í rétt fyrir skil. Bókin hefur selst í bílförmum (enda lesendur bloggsins duglegir að styðja sína konu!) og ég keypti mér auðvitað eintak líka.


Hún hefur oft talað um á blogginu að hún hafi verið heil ellefu ár að skrifa bókina. Með það í huga við lesturinn verð ég að játa að ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum yfir því að hún væri ekki meira djúsí. Kaflinn um uppvöxt hennar í pínulitlum smábæ í Texas var reyndar mjög skemmtilegur og sögurnar af uppstopparanum pabba hennar jafn ógeðslegar og þær eru óborganlegar og mér fannst líka skemmtilegt að lesa söguna af því hvernig hún kynntist manninum sínum, en hann leikur oft stórt hlutverk í textanum á blogginu hennar, en er samt einhvernveginn alltaf í bakgrunninum.

En mikið af efninu í bókinni hafði ég nefnilega þegar lesið á blogginu (en hló reyndar alveg jafnmikið að og við fyrsta lestur). Kannski má rekja vonbrigði mín til þess að bókin hafi ekki verið kynnt á réttum forsendum. Það var nefnilega hvergi minnst á að bókin væri að stórum hluta byggð á blogginu, einsog svo oft er gert þegar bloggarar gefa út bækur, heldur mátti skilja af öllu að í bókinni væru endurminningar hennar sem hvergi hafa birst áður.

En hvað sem því líður þá er Jenny Lawson alveg ógeðslega fyndin, hreinskilin og hugrökk kona, sem hefur lifað vægast sagt skrautlegu lífi. Ég hló margsinnis upphátt við lesturinn og mæli því alveg með bókinni hennar, kannski sérstaklega ef þið hafið ekki lesið bloggið, hún er nefnilega prýðisgóð "best of" kynning á blogginu.

Eða þið getið bara sleppt því að lesa bókina hennar, farið á bloggið hennar og lesið það ALLT, mörg ár aftur í tímann, einsog ég gerði þegar ég fann það fyrst.

Uppstoppuð dýr (sem létust af náttúrulegum orsökum).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli