Nöfnin á útidyrahurðinni kom út árið 1996 og í henni er að finna 25 texta sem geta ýmist kallast smásögur eða prósaljóð. Þremur árum síðar kom svo fyrsta skáldsaga Braga, Hvíldardagar út. Skáldsögurnar eru síðan orðnar fimm (auk fleiri ljóðabóka, prósatexta og leikrita) og mér fannst sem sagt eins og ég kæmi auga á ýmsa drætti úr þeim í þessari gömlu bók.
Ég þykist til dæmis þekkja Hvíldardaga í sögunni „Fyrstu skrefin“. Hún greinir frá samtali manns og konu í samkvæmi nema hvað konan er alls ekki á staðnum og samtalið á sér bara stað í huga mannsins. Hin ónafngreinda söguhetja Hvíldardaga lifir einmitt æsispennandi innra lífi og í huganum á hann meðal annars í samböndum við nokkrar ungar konur en veruleiki hans er öllu einfaldari. Frummynd annarrar skáldsögu Braga, Gæludýranna finnst mér ég svo sjá í sögunum þremur undir yfirskriftinni „Breytt um umræðuefni“. Þar er sagt frá félögum sem taka að sér að gæta íbúðar móður annars þeirra en ferst verkefnið ekkert séstaklega vel úr hendi. Lesendur Gæludýranna kannast væntanlega við þetta en aðalpersónur hennar, þeir Emil og Hávarður, gættu einmitt íbúðar og gæludýra í London með frekar hörmulegum afleiðingum. Tengslin milli Nafnanna á útidyrahurðinni og Gæludýranna liggja reyndar víðar. Í Nöfnunum er til að mynda minnst á bæði Moby Dick og Elvis Presley en hvort tveggja kemur nokkuð við sögu í skáldsögunni. Það má líka sjá ýmsa fyrirrennara nýjustu söguhetja Braga, þeirra úr Sendiherranum og Handritinu að kvikmynd Arnar Featherbys og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, í Nöfnunum á útidyrahurðinni. Hannes í „La fête continue“ minnir til að mynda óneitanlega á félagana Örn og Jón. Líkt og þeir er hann hálfgerður kverúlant, kominn yfir miðjan aldur, drekkur meira en góðu hófi gegnir (eins og reyndar fleiri persónur Braga) og í stað þess að sinna vinnu eða fjölskyldu virðist hann beina metnaði sínum í að rannsaka ýmsa menningarafkima. Feðgarnir Magnús Leifsson og Leifur Magnússon í sögunni „Feðgarnir“ og samskipti þeirra milli landa bera keim af Jóni Magnússyni og syni hans Sturlu Jóni Jónssyni. Í „Feðgunum“ kemur líka fyrir eins konar illur tvífari en tvífaraminni má víða sjá í höfundarverki Braga og nægir þar að nefna Friðbert í Samkvæmisleikjum og misyndismanninn Jón Víði sem báðir eru prentnemar, hafa búið í sömu íbúð, bera svipuð ör í andlitinu og reynast svo, þegar allt kemur til alls, hafa svipaðan mann að geyma.
Það sem þó er meira vert þegar Nöfnin á útidyrahurðinni eru skoðuð sem einhvers konar forveri nýrri bóka Braga er sú endurómun á hugmynda- og fagurfræði sem á sér þar stað. Í sögunni „Nafnleynd“ segir eftirfarandi:
Honum finnst einhvern veginn skemmtilegra að sumir hlutir séu í eilífri þoku, jafnvel þótt auðvelt sé að komast að því hvað þeir heita. Þetta er svipað og þegar hann fór til London í fyrsta skipti og ákvað að forðast að sjá Big Ben. Bara til gamans. Ekki að horfa í áttina að Big Ben (s. 129).Fyrir mér kristallast öll verk Braga í þessu textabroti. Oft er eins og það mikilvægasta við bækur hans sé allt það sem ekki er skrifað um og að kjarni þeirra sé þetta orð „ekki“. Ein skáldsagan fjallar um mann sem fer ekki í pikknikk upp í Heiðmörk, hann leikur ekki í stuttmynd, á ekki vingott við neinar huggulegar stúlkur, fer ekki á afmælismót gagnfræðaskólaárgangs síns og enn síður leikur hann í skemmtiatriði á þeirri samkomu. Önnur fjallar um mann sem er áþreifanlega fjarverandi alla bókina – hann er ekki á staðnum (þótt hann sé það samt), ein fjallar um mann sem er ekki sá sem maður telur að hann sé, ein fjallar um mann sem hefur ekki skrifað ljóðabók og ein um mann sem erfir ekki skó og skrifar ekki handrit að kvikmynd með vini sínum (og þar að auki er ekki víst hvort sá aðili sem söguna skráir fari rétt með staðreyndir eða hafi yfirhöfuð skrifað textann). Það er líkt og Bragi Ólafsson hafi sjálfur verið lostinn sömu hugljómun og áðurnefndur Magnús Leifsson í sögunni „Nafnarnir“:
En Nada. Hvílík snilld! Var hægt að tjá sig betur um það sem á daga mína hafði drifið? Hvers vegna hefur ekki eitthvað af svona geigvæntlegu kaliberi ratað inn í bækur mínar? Nada. Ekkert. Bækur mínar eru fullar af einhverju öðru; einhverju sem skiptir ekki nokkru máli (s. 39).Það væri reyndar ónákvæmni að segja að „ekkert“ væri lykilorðið í bókum Braga, það gefur jú til kynna fullkomna eyðu, að þar sé ekkert og hafi aldrei veirð. Orðið „ekki“ felur hins vegar í sér að sett sé fram einhver hugmynd sem síðan er dregin til baka. En þótt hugmyndin sé afturkölluð er það of seint. Hún hefur þegar verið sett fram og er þar af leiðandi hluti af textanum. Hún er og er um leið ekki. Um þennan tvískinnung fjallar sagan „Hinir neikvæðu“ sem greinir frá ákvörðunum alls ótengdra aðila víðsvegar um heiminn um að gera ekki það sem þeim er uppálagt. Ein persónan vill ekki setja foreldra sína á einkarekið elliheimili, önnur er dýralæknir sem ekki vill stækka stofuna sína, enn önnur vill ekki fara á fyrirframákveðið stefnumót og svo framvegis. Við vitum ekkert hvers vegna þau neita, bara að þau gera það. Það er líkt og við fylgjumst með hönd höfundarins skrifa orðin en slá striki yfir þau jafnóðum. Eins og að vera í London en sjá ekki Big Ben því einhver er búinn að krota yfir hann.
Skemmtileg grein um skemmtilegan höfund. - ÁBS
SvaraEyðaBragi er einn af mínum uppáhaldshöfunum. Gaman að lesa þessa greiningu og vangaveltur.
SvaraEyðaVil hrósa ykkur fyrir mjög skemmtilegt blogg, alltaf gaman að sjá þegar það er komin ný færlsa.
Kv. Sigrún