16. júní 2012

Íburðarmikla háskólabókasafnið í Coimbra

Á ferðalagi okkar um Íberíuskagann höfum við Guðrún Elsa og Kristín Svava lagt okkur fram um að heimsækja bækur, hvort sem er í bókabúðum eða á bókasöfnum. Eitt þeirra fjölmörgu bókasafna sem við höfum heimsótt, og án efa það glæsilegasta, er gamla háskólabókasafnið í Coimbra. Það er í barokkstíl, byggt á 18. öld, og kennt við João konung fimmta. Það mátti ekki taka myndir inni á safninu en við tókum tvær myndir úti fyrir og stálum hinum af netinu.
Framhlið bókasafnsins.


Húsagarður háskólans í Coimbra. Aðalbyggingin hýsir
lögfræðideild skólans.





 Á safninu er að finna um 250.000 skruddur. Miðað við þá kili sem við náðum að lesa á er efni bókanna ekkert sérlega spennandi, aðallega af trúarlegum toga og á latínu. Þeir voru til dæmis ekki með neitt eintak af The Secret World of a Shopaholic, og heldur ekki neitt eftir Pessoa. Sennilega hafa þeir ekki bætt neinu við síðan á 18. öld.
Smá barokk í gangi.
Eins og öll almennileg bókasöfn var háskólabókasafnið í Coimbra líka með sitt eigið fangelsi - Akademíska fangelsið, sem var staðsett í kjallara safnsins. Væri ekki hægt að koma upp slíkum fangaklefum fyrir þá sem trassa skil á íslenskum bókasöfnum?
Annar fangaklefanna tveggja.
Því skal reyndar haldið til haga að fangelsið tilheyrði ekki bókasafninu strangt til tekið heldur háskólanum sjálfum, sem hafði frá fornri tíð dómsvald yfir nemendum sínum í ákveðnum málum og gátu dæmt þá til fangelsisvistar, til dæmis fyrir óspektir.

1 ummæli:

  1. Mikið svakalega er þetta glæsilegt bókasafn. Frá tímum þar sem fagurfræði í byggingarlist hafði enn ekki úrkynjast...

    SvaraEyða