13. júní 2012

Persónur og lesandi reyndir

Nýverið komst ég loksins yfir skáldsöguna Abide With Me eftir bandaríska rithöfundinn Elizabeth Strout. Loksins segi ég þar sem ég hef fyrir löngu lesið og endurlesið fyrstu bók hennar, Amy and Isabelle sem og nýjusta verk hennar, hina mögnuðu Olive Kitteridge sem Strout hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir árið 2009. Ég hef áður lofað því að skrifa um Olive Kitteridge enda ein af mínum uppháldsbókum og ítreka það loforð en hér verður hins vegar talað um aðra bók Strout, áðurnefnda Abide With Me.



Abide with Me gerist í bandarískum smábæ um miðja 20. öldina (dásamlegur tími í bókum og kvikmyndum þegar fjalla á um hinn erkitýpíska smábæ) og segir frá ungum presti, Tyler Caskey, sem fáeinum árum áður fluttist í bæinn til að taka við prestakalli. Caskey er afskaplega geðþekkur og ljúfur maður, fullur af eldmóði og góðum fyrirætlunum og sérlega vel liðinn af bæjarbúum sem fara að fjölmenna við messur. Prestfrúin, hin íturvaxna og óhefðbundna Lauren er ekki eins dáð þótt óánægja með hana sé ekki rædd opinberlega heldur undir rós eða í tveggja manna tali. Þegar bókin hefst er hins vegar ár síðan Lauren lést úr krabbameini og þótt Tyler hafi ekki látið sorgina buga sig heldur haldið sínu striki er farið að hrikta all verulega í stoðum tilveru hans og ljóst að eitthvað verður undan að láta. Móðir hans hefur af gæsku sinni (eða afskiptasemi) tekið yngri dóttur þeirra hjóna til sín en sú eldri, hin fimm ára gamla Katherine á eins og faðirinn í erfiðleikum með að vinna úr sorginni. Fyrst eftir að Lauren dó fylktu þorpsbúar liði í kringum prestinn sinn en bæði var hjálpin misvel gefin og misvel þegin og nú þegar veikir blettir fara að sjást í brynju Tyler snúast sóknarbörn hans smám saman gegn honum.


hugmynd að jólagjöf handa Tyler Caskey
Trú kemur töluvert við sögu í þessari skáldsögu enda hefur presturinn löngum treyst á góðan guð í blíðu og stríðu. Hans staðfasta trú, sem heillaði á sínum tíma mistrúaðan söfnuðinn er hér prófuð til hins ítrasta og þótt hann fái ekki vessafyllt kýli er hægt að teygja þjáningar hans í einhverja Job-hliðstæðu. Þegar bækur fjalla um trúmál verður afstaða höfundarins oftar en ekki mjög ljós og er þá annað hvort hæðst góðlátlega (eða grimmdarlega) að trú persónanna eða þá að einlæg trú höfundar skín í gegnum persónur hans sem leggja (gagnrýnilaust) líf sitt í hendur skaparans. Því er ekki þannig farið hér. Ég er engu nær um trúarlega afstöðu Strout – söguröddin tekur enga afstöðu í þessu máli heldur sýnir okkur bara afstöðu persónanna. Hér er sem sagt ekki verið að beina kastljósinu að guði heldur manni sem trúir á guð. Titill bókarinnar vísar einmitt í uppáhalds sálm Tylers sem hann áttar sig um síðir á að hann hafði  aldrei fyllilega skilið.

Kristilegur kærleikur samfélagsins er líka undir stækkunargleri og þolir það misvel - mennska íbúanna er prófuð – en um leið mennska lesandans sem oft er fljótur að stökkva í dómarasætið (alla vega þessi lesandi). Strout er nefnilega sérfræðingur í að draga upp breyskar og jafnvel óþolandi persónur en um leið og maður hefur óskað sérstaklega leiðinlegri persónu sársaukafullum dauðdaga veltir höfundurinn upp nýjum fleti málsins, skyggnist inn í hjarta þeirrar persónu eða gerir eitthvað sem fær mann til að taka skömmustulegur til baka allar formælingar. Það getur jafnvel verið pínulítið erfitt þegar persóna sem manni fannst eiga skilið bókmenntalega refsingu við hæfi fær allt í einu uppreisn æru...sumt er bara erfitt að fyrirgefa! En þetta er sjálfsagt hollt og gott - það er oft svo skuggalega freistandi að afgreiða fólk sem fífl og fávita... Strout er svo líka óhrædd við að sýna dekkri hliðar þeirra persóna sem lesandinn hefur tekið ástfóstri við og er það oft ekki síður óþægilegt.

Mér þótti Abide With Me stundum erfið aflestrar - ekki af því hún væri sé ekki vel skrifuð, á köflum fyndin og oft spennandi – heldur af því ég vissi að raunir prestsins og dætra hans væru ekki á enda og ég lagði varla í að lesa meira um þær (alveg eins og ég er strax farinn að kvíða því að sjá hvaða áföll dynja á Birgitte Nyborg í næstu seríu af Borgen). Þótt söguþráðurinn sé ekki beinlínis hlaðinn spennuþrungnum atburðum er andrúmsloftið oft lævi blandið og rafmagnað. Nú þegar lestri er lokið er ég svo alltaf að glugga aftur í bókina – rifja eitthvað upp og hugsa mikið um hana – það finnst mér góðs viti.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir þetta Maríanna, vel skrifað, fræðandi og spennandi án þess að láta of mikið uppi.. Var einmitt í öngum mínum hvað ég ætti að lesa næst en eftir þennan pistil get ég sofnað rótt og arkað útí bókabúð á morgun.
    Sólveig Arnarsdóttir

    SvaraEyða
  2. takk takk kæra Sólveig - en ég þori nú ekki að lofa að þú fáir bókina í bókabúð...held að amazon gæti komið sterkara inn :)

    SvaraEyða