Ég lendi stundum í því milli bóka að lesa einhver undarlegheit. Þá er ég kannski nýbúin með bók og löngu búin að ákveða hvað ég ætla að lesa næst en á eftir að kaupa bókina eða ná í hana á safnið. Þá vil ég helst ekki byrja á neinu öðru, alla vega engu viðamiklu, en get samt alls ekki hugsað mér að fara upp í rúm með ekkert að lesa. Það er auðvitað ídealt að lesa ljóð á svona stundum en ég er ekki alltaf fær um að taka skynsamlegar ákvarðanir seint á kvöldin. Núna síðast þegar ég lenti í þessum aðstæðum nennti ég ekki einu sinni að fara niður á neðri hæðina til að leita í mínum eigin bókaskáp svo ég ráfaði inn í herbergi barnanna til að leita eftir einhverju hjá þeim og þannig æxlaðist það að ég dró fram og las Kim og félagar, fyrstu bókina í flokknum um hinn danska Kim eftir Jens K. Holm.
Ég las Kim-bækurnar þegar ég var lítil og man ekki annað en að mér hafi þótt þær mjög skemmtilegar. Ég var því dálítið forvitin að sjá hvernig áratugirnir hefðu farið með Kim og félaga hans, Eirík, Brilla og Kötu sem dvelja á norðurströnd Sjálands í sumarleyfunum sínum og rannsaka dularfulla atburði. Það sem ég tók fyrst eftir var að þau virtust hafa yngst heilan helling. Þegar ég las bækurnar á sínum tíma fannst mér Kim vera ungur maður, kannski ekki fullorðinn í merkingunni að eiga hús og börn en samt ... eiginlega alveg fullorðinn. Þegar ég las bókina núna fannst mér Kim hins vegar algjört smábarn. Það kemur hvergi fram hve gamall hann eigi að vera en ég myndi giska á að hann væri í mesta lagi svona 16 ára. Þar sem Kim er jú frystur í tíma og rúmi get ég ekki dregið aðra ályktun af þessu en að sennilega sé það ég sjálf sem hafi tekið breytingum í áranna rás.
Mér sýnist að Kim og félagar hafi fyrst komið út 1957 (í Skjaldborgarútgáfunni frá 1995 sem ég er með undir höndum vantar allar upplýsingar um titil á frummáli, upphaflegt útgáfuár á dönsku og fyrstu útgáfu íslenskrar þýðingar – pirringur dagsins) og í takt við tíðarandann eru Kim bækurnar merktar sem drengjabækur. Ég hef lesið góðan stafla af telpnabókum frá svipuðu tímabili og tók eftir að það hafa augljóslega ekki gilt sömu viðmið um þessa tvo flokka – nema hvað! Kim reykir til dæmis bæði sígarettur og pípu, frændinn sem hann dvelur hjá býður honum vínglas með matnum við hátíðleg tækifæri og þau Kata ákveða að fá sér sundsprett í sjónum eina nóttina, bæði nakin. Ég er nokkurn veginn alveg viss um að Baldintáta, Nancy og Matta-Maja hefðu aldrei látið sjá sig með sígarettu eða fækkað fötum fyrir framan einhvern af hinu kyninu! Ég verð samt að játa að mér fannst þetta pínulítið hressandi.
Söguþráðurinn var annars ansi þunnur. Gátan sem félagarnir leysa var af einföldustu gerð og sumarleyfisstúss krakkanna ekkert sérstaklega spennandi. Þrátt fyrir að þau byggi kofa í skóginum og finni leið til að senda morsskilaboð á milli sín vantaði einhvern veginn alla innlifunina í þetta og meira að segja ég sem veit fátt eins spennandi og tilhugsunina um að sofa í svefnpoka í leynikofa hreifst ekki með.
Það var þó dálítið skemmtilegt að uppgötva að Kim og félagar er full af sjálfsögulegum þráðum. Frændi Kim hefur nefnilega skrifað bók um köngulær og „bókmenntasérfræðingur“ frá útgáfunni sem gaf hana út er staddur í heimsókn á heimili hans um leið og Kim. Bókmenntasérfræðingurinn rekur augun í stílabókina þar sem Kim hefur párað niður frásagnir af ævintýrum krakkanna í sumarleyfinu og sér strax að þarna er úrvalsefni á ferðinni, fær leyfi til að senda útgáfunni handritið sem leiðir til þess að ákveðið er að gefa það út. Hvort það er bókin sem lesandinn er með í höndunum, það er að segja hvort Kim skrifaði þessa útgáfusögu inn í sína bók eða hvort við erum að lesa enn eitt lagið í frásögninni, er ómögulegt að segja en í öllu falli er hér glæsilegt dæmi um klassíska babúskusögu. Að auki er Kim stöðugt að bera sig saman við allar þær drengjabækur sem hann sjálfur hefur lesið. Það er augljóst að lestur þeirra bóka er hvatinn að hans eigin sögum þótt honum þyki yfirleitt að raunveruleg ævintýri sín standist þeim skálduðu ekki snúning. Hann setur sitt eigið verk sem sagt í sögulegt samhengi – og finnst sjálfum að hann komi frekar illa út í samanburðinum. Allt þetta metafiksjón var eilítil sárabót fyrir bókmenntafræðinginn. Að öðru leyti verð ég að segja að Kim hefur elst frekar illa – þótt hann hafi yngst heilan helling.
P.s. Ég er búin að kaupa bókina sem var næst á leslistanum hjá mér og sú lofar verulega góðu. Ég hlakka til að skrifa um hana eftir sumarfríið.
Já, þær eldast oft illa, blessaðar barnabækurnar. Ég man samt að það var reykt helling í seinni Möttu-Maju bókunum en sjálf reykti hún ekki og hafði andstyggð á reykingum. Það komu líka fram viðhorf frá karlpeningnum að fátt væri ljótara en reykjandi kona og kjánalegra en reykjandi unglingar.
SvaraEyðaÉg las einmitt Kimbækurnar spjaldanna á milli og mig minnir að það hafi verið nokkurn veginn sama plottið í þeim öllum. Merkilegt hvað smyglarar virðast oft hafa átt leið um þennan smábæ.
SvaraEyðaKannski er ekki alveg sanngjarnt að bera hinn danska Kim saman við hina bresku Baldintátu og hina bandarísku Nancy. Ég sé Frank og Jóa nú ekki heldur alveg fyrir mér nakta í sundi. Ég fór að rifja upp danskar telpnabækur og man helst eftir bókum Grethu Stevns um Siggu (sem heitir Susy á frummálinu) og Lottu (sem heitir Pernille á dönsku). Ég man betur eftir Siggubókunum, stúlkan sú er dóttir skógarvarðar og auðvitað alltaf að eltast við veiðiþjófa. Og jú, hún er nú víst mikil fyrirmyndarstúlka og reykir alveg örugglega ekki. Að vísu eru þær bækur eitthvað eldri en Kimbækurnar, kannski skiptir það einhverju máli: http://www.saxo.com/dk/susy-roedtop_gretha-stevns_indbundet_9788711227473
Jú, auðvitað skiptir heilmiklu máli hvaðan bókin kemur.
SvaraEyðaReykingarnar eru einhver svona mannalæti í Kim og ég held að þær fái að fljóta með af því að það þyki svolítið fyndið að hann sé að reyna að vera svona mikill maður. Ég er ekki viss um að það hefði þótt sniðugt ef um stúlku hefði verið að ræða.
Ég á annars eina sænska stúlknabók frá svipuðu tímabili (sennilega fyrir eldri markhóp þó) sem fjallar um hóp af flugfreyjum. Plottið þar er bókstaflega borið uppi af því að ein þeirra drekkur of mikið áfengi og daðrar of mikið við mann um borð sem dregur heilmikinn dilk á eftir sér fyrir söguhetjuna - sem er að sjálfsögðu siðprúð og hófstillt. Í þeirri bók er líka synt heilmikið en allir eru kappklæddir.
Jiminn, hét Lotta Pernille á dönsku? En kellingarlegt. Eru þetta ekki Lottubækurnar sem voru með grámynstraðri kápu? Ég man það helst úr þeim bókum hvað þrípunktar voru ofnotaðir, það var alltaf eins og allir töluðu í hálfkveðnum vísum.
SvaraEyða-Kristín Svava
Já, en fyndið, mér fannst einmitt Kim vera rígfullorðinn og það var ein af ástæðum þess að ég tengdi ekki alveg jafnmikið við þessar bækur og ýmsar aðrar, þótt mér fyndist þær mjög skemmtilegar - enda las ég þær á þeim tíma þegar unglingar voru harðfullorðið fólk og ég gekk framhjá þeim með hjartað í buxunum.
SvaraEyðaSkemmtileg færsla!
Salka