6. september 2012

Að kaupa sér lífstíl á formi frostpinna

Hin fegursta bókin er fundin.
Sagan segir að í Svíþjóð komi út ein matreiðslubók á dag að meðaltali. Hvort sem það er sannleikanum samkvæmt eða ekki er víst að þær eru ansi margar og fjölbreyttar. Á undanförnum árum hefur færst í aukana að fræga fólkið gefi út matreiðslubækur. Alls konar tónlistarmenn, rithöfundar og sjónvarpsstjörnur hafa keppst við að gefa uppskriftir að sínum eigin handrúlluðu kjötbollum og jólasmákökum. Um daginn las ég dálítið áhugaverða grein í Dagens Nyheter sem fjallaði um þetta trend. Í stuttu máli voru líkur leiddar að því þar að með þessum matreiðslubókum væri fyrst og fremst verið að selja lífstíl. Það skipti sem sagt í rauninni ekki máli að gera pönnukökur eins og Camilla Läckberg (út af fyrir sig væri nú efni í heilan pistil að ræða ímyndarsköpun hennar) eða villibráð eins og hin forna hockeystjarna Börje Salming heldur sé tilgangurinn að öðlast brotabrot af lífi þessa fólks, ljóma þess og stjörnuglansi í skamma stund. Það er án efa heilmikið til í þessu.

Eplasneiðarnar alræmdu.
Sjálf á ég enga af matreiðslubókum fræga fólksins en þessi grein fékk mig samt til að hugsa um það hvers vegna ég sjálf kaupi matreiðslubækur. Ég er vonlaus kokkur en finnst gaman að baka og kaupi því helst alls konar köku- og desertabækur. Ég á í fórum mínum eina og eina uppskrift sem klikka aldrei og slá alltaf í gegn en satt best að segja held ég að ég sé ekkert sérstaklega hæfileikaríkur bakari. Einu sinni gerði ég límónuböku með soðnu eggjalagi í miðjunni. Hún hafði átt að vera límónubaka með marengs ofan á. Og ég get ekki, sama hvað ég reyni og vanda mig hellt bræddu súkkulaði í örmjórri bunu yfir eitthvað og búið til fallegt munstur. Það koma bara stórar og ólögulegar klessur og svo fer ég í örvæntingu að reyna að laga það með höndunum og enda með súkkulaðifingraför út um allt í ofan á lag. Ég hef líka oftar en ekki endað með köku í þremur hlutum af því að ég er svo óþolinmóð að ég nenni ekki að beita lagni við að ná henni úr forminu. Þá hef ég yfirleitt bara klappað henni einhvern veginn saman aftur og ekki hikað við að bjóða hana gestum. Í ljósi alls þessa er dálítið merkilegt að skoða þær matreiðslubækur sem mig hefur dreymt um að eignast undanfarna mánuði.




Mig langar ekki bara að vera konan sem bakar
þessa tertu, mig langar að vera tertan sjálf!
Eða öllu heldur, mig langar að vera myndin af
þessari tertu!
Bækurnar á óskalistanum eru aðallega tvær, bókin Glass eftir Elisabeth Johansson og Lomelinos tårtor eftir Lindu Lomelino. Sú fyrri snýst alfarið um hvers kyns ísgerð. Upp úr henni er hægt að laga rjómaís, sorbet, íspinna, granítur og alls konar fínerí sem ég kann ekki að nefna. Finnst mér líklegt að ég muni nenna að skera eplasneiðar næfurþunnt á mandólíni (sem ég á reyndar ekki) til að setja það í frostpinna svo fallegur þverskurðurinn sjáist í gegnum glæran ísinn? Öhh, nei! Finnst mér yfir höfuð líklegt að mér tækist að fá skífurnar fallegar og ísinn glæran? Ekki séns. En þetta er allt svo fallegt og þegar ég handleik bókina líður mér virkilega í smá stund eins og ég gæti alveg verið svona týpa ef ég bara ætti þessa bók í hillunni mér til halds og trausts. Terturnar hennar Lindu eru jafnvel enn himneskari. Háreistar og hnífjafnar, marglitar og fagurlega skreyttar. Og myndirnar sem höfundurinn tekur sjálfur svo fullkomnar að maður fer næstum að gráta. Mig langar óendanlega mikið að kunna að búa til svona dásemdir. En ég veit – ég bara veit! – að það er aldrei að fara að gerast. Ég hef hvorki verkfærin, tæknina, hæfileikana né þolinmæðina. Í lýsingu á kápu er fullyrt að lesendur séu leiddir í gegnum þetta allt stig af stigi en innst inni veit ég alveg að það dugar mér ekki. Ég meina, límónubaka með soðnu eggi?! Ég mun samt á endanum örugglega kaupa mér báðar þessar bækur. Ég mun fletta þeim reglulega og sjá mig í anda reiða fram hálfsmetraháa tertu með fullkomlega jöfnu kremlagi og súkkulaðibráð eins og úr teiknimynd. Eða draga svalandi frostpinna með ananas og myntu út úr frystinum þegar börnin koma heim úr skóla á heitum vordögum. Því stundum er svo óskaplega gott að kaupa sér lífstíl og láta sig dreyma um að vera einhver annar í smástund – jafnvel þótt það sé enginn frægur.

P.s. Ef einhvern annan langar að lifa í sjálfsblekkingu í smá stund en getur ekki nálgast bækurnar bendi ég á bloggið hennar Lindu Lomelino sem er jafn undurfagurt og bókin.

4 ummæli:

  1. Ég kaupi það alveg að maður sé að kaupa sér lífstíl.

    Í hið minnsta er ég með uppskriftabókablæti á hæsta stigi og elska að fletta í þeim og skoða - geri minna af því að prófa uppskriftirnar!

    SvaraEyða
  2. Regnbogakakan á forsíðunni hefur einmitt verið í aðalhlutverki í öllum afmælum á þessu heimili síðustu tvö ár. Það verður aldrei þreytt að heyra alla grípa andann á lofti þegar hún er skorin. Í ár var hún gul. Dásemd!

    SvaraEyða
  3. Gul regnbogakaka hljómar stórfenglega!

    SvaraEyða
  4. Ég elska matreiðslubækur og á tonn af þeim. Geri reyndar mikið af því að bæði elda og baka. Mæli sérstaklega með bókunum frá The Hummingbird bakery, þar eru fallegar tertur sem verða í alvöru fallegar þegar maður bakar þær :)

    Varðandi bráðna súkkulaðið... það er til apparat sem maður getur notað til að bræða súkkulaðið í örbylgjuofni, skreyta með OG ÞAÐ MÁ FARA Í UPPÞVOTTAVÉL. Þessi dásemd heitir Decopen og er afskaplega auðveld í notkun. Áhugasamir geta kíkt á jútúb til að athuga málið.

    SvaraEyða