28. september 2012

Fer vel í einni hendi: Bókaspjall um Fantasíur

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um hina umdeildu kvennafantasíubók í ritstjórn Hildar Sverrisdóttur, Fantasíur, en við Kristín Svava og Guðrún Elsa stóðumst auðvitað ekki mátið og hittumst yfir Fanta eftir lesturinn.

KST: Útgáfa bókarinnar var gerð heyrinkunnug einhvern tímann í vor og það komu strax fram ýmsar gagnrýnisraddir á hugmyndina. Meðal annars lýstu margir yfir áhyggjum sínum af því að það sé engin leið að vita hvort þessar fantasíur voru sendar inn af konum eða körlum, en ég efast svona frekar um það sjálf að karlmenn úti í bæ hafi beðið í röðum eftir tækifæri til að skekkja mynd fólks af fantasíuheimi kvenna. Ég efast ekki um að það megi sjá áhrif karllægs sjónarhorns í bókinni en ég held að þau hljóti að vera lúmskari en þetta.

Formáli bókarinnar er stuttur, rétt um hálf blaðsíða, en Hildur tileinkar bókina kynfrelsi kvenna og virðist þannig tengja útgáfu hennar femínískum hugsjónum. Í ljósi fyrrnefndra gagnrýnisradda er kannski eðlilegt að það sé ákveðinn varnartónn í formálanum, en að mínu mati hefði verið hægt að gera hann mun betur úr garði og bókin hefði grætt á því að hann væri ítarlegri, ræddi til dæmis nánar forsendur verkefnisins. Hildur segist til að mynda styðjast við „almenn viðmið og rannsóknir um kynferðislegan hugarheim kvenna“ en útskýrir það ekkert frekar. Hvaða viðmið og rannsóknir eru þetta?

Eins og Halla Sverrisdóttir fjallaði um í nýlegri grein á Knúz.is voru skrifaðar bækur af sama meiði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum fyrir þrjátíu árum síðan, og þá í tengslum við aðra bylgju femínismans sem lagði gjarnan mikla áherslu á opinskáa umræðu um langanir og kynhvöt kvenna í samfélagi þar sem slíkt var mikið tabú. Bækur frumkvöðulsins Nancy Friday lögðu áherslu á að setja kynlífsfantasíur kvenna í persónulegt og pólitískt samhengi og dýpkuðu þannig umræðuna, ekki ósvipað og Jóhanna Sveinsdóttir gerði í bók sinni um Íslenska elskhuga sem við fjölluðum um hér í sumar. Af hverju kemur þessi bók ekki út á Íslandi fyrr en árið 2012 – er þetta sambærilegt framtak? Er þessi fantasíubók frelsandi á Íslandi í dag á sama hátt og hún var það á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum síðan? Ítarlegri svör við svona spurningum hefðu gert bókina mun áhugaverðari sem vitnisburð um hugsanir og viðhorf kvenna á Íslandi í dag.

GEB: Í formála bókarinnar segir Hildur: „Fantasíurnar í þessari bók eru sagnaheimur þar sem ímyndunarafl hverrar konu fær að ráða. Í slíkum hugarheimi er konan alltaf við völd og hún ræður öllum aðstæðum.“ Þarna birtist sú hugmynd að við ráðum öllu sem gerist í hausnum á okkur, eins og við séum ekki stöðugt að verða fyrir áhrifum af samfélaginu. Mér finnst þetta hálfskrítið viðhorf og bókin ekki bera vott um annað en að við séum gjörsamlega á valdi samfélagins sem við tilheyrum og gegnsýrð af menningarafurðum þess. Og hvað varðar kynfrelsið sem bókin á að efla… tja, að sumu leyti fyndist mér að það mætti alveg eins berjast fyrir rétti kvenna til að vera ekki kynverur! Að minnsta kosti finnst mér önnur barátta mikilvægari núna, eins og sú sem miðar að því að gera hefðbundin kynhlutverk óljósari, að fokka í kyngervinu og gera allt sem tengist kyni meira fljótandi. Ég held að aukið kynfrelsi myndi fylgja því og þá á róttækari hátt en birtist í þessari bók.

KST: Það er stundum eins og bak við djarfar yfirlýsingar um kynferðislegt frjálslyndi liggi í raun og veru einhvers konar tepruskapur og viðkvæmni fyrir því að fara yfir alls konar mörk sem fólk vill ekki kannast við. Bókin 50 Shades of Grey, sem Erna hefur skrifað um á þessari síðu, er ágætis dæmi, en þar er mikið lagt upp úr því að persónurnar stundi BDSM-kynlíf og séu almennt mjög kynferðislega frjálslyndar, en á sama tíma meikar höfundurinn ekki að nota beinskeytt orð um viðkomandi líkamshluta og talar um „þarna niðri“ og „afturenda“ konunnar. Það er allavega augljóst að ástæður JPV Forlags fyrir útgáfunni á Fantasíum er ekki femínísk hugsjónabarátta, ekkert frekar en 50 Shades of Grey er gefin út sem framlag til kynlífsbyltingarinnar, þótt útgefendur hennar eigi það til að saka gagnrýnendur hennar um tepruskap.

GEB: Sem bókmenntafræðingur er ég vanari að lesa kynlíf út úr ýmsu í bókum og kvikmyndum sem virðist kannski í fyrstu ekki kynferðislegt, til dæmis því hvað „bit vampírunnar“ er í raun og veru… En þegar það er beinlínis verið að fjalla svona mikið konkret um kynlíf fæ ég bara athyglisbrest og fer að skoða umgjörðina, einbeita mér að því sem var ekki kynlíf. Margt í bókinni er afskaplega íslenskt, svona markaðssetningar-íslenskt. Ein konan fantaserar um að vera álfamær, önnur er víkingakona og sú þriðja fróar sér bókstaflega á íslenskri náttúru. En svo er reyndar ákveðið disney-element í álfafantasíunni, því pilsið hennar er „búið til af hundrað þröstum úr gegnsæjum demantsþráðum“, svolítið eins og hjá einhverri af disney-prinsessunum.

KST: Ég var dálítið hrifin af fantasíunni sem gekk út á að fróa sér á gorkúlum. Stíllinn var kannski ekki sá tilþrifamesti en gorkúlurnar voru skemmtileg tilbreyting frá þrútnum limum. Hvað þjóðerniskenndina varðar var ég hrifnust af manninum í strætófantasíunni sem var hávaxinn „og kröftugur eins og víkingur. Ljóshærður og bláeygður með rauða vanga. Fánalitirnir í fullkominni karlmennsku.“

GEB: Það eru yfirleitt mjög hefðbundnar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika í bókinni.

KST: Já, þótt það sé gjarnan slengt fram háleitum yfirlýsingum um frelsi ímyndunaraflsins eru fæstar þessara fantasía frumlegar og margar eru mjög einsleitar. Það er auðvitað ekkert sjálfsagt að fantasíuheimur venjulegs fólks, sem það grípur kannski bara til í praktískum kynferðislegum tilgangi, sé neitt sérstaklega frumlegur eða áhugaverður. Bókin Fantasíur er enginn yndislestur þannig séð, maður sökkvir sér ekkert ofan í hana, stíllinn er yfirleitt flatur og frásagnartilþrif lítil sem engin, en miðað við það sem er lagt upp með ætti það heldur ekki að koma á óvart.

GEB: Bókin er kannski bara mjög praktísk, hver svo sem tilgangur hennar er. Hún er til að opna á tilviljunarkenndum stað, lesa eina eða tvær fantasíur og verða æst(ur). Bókmenntalegt eða pólitískt gildi þeirra er ekki svo mikið, svo notagildið felst líklega helst í því að örva lesandann. Það fer svo ábyggilega eftir lesanda hversu vel bókin „nýtist“ til þess. Kynlífslýsingar eru vandmeðfarið fyrirbæri og þær hafa að mínu mati mest áhrif þegar þær eru í samhengi við eða hluti af bókmenntum sem fjalla líka um eitthvað annað, eins og það er í lífinu; kynlíf á sér stað í einhvers konar samhengi. Þegar er búið að leggja einhvern grunn að fantasíunni og einhver samsömun hefur átt sér stað verður hún mun áhrifameiri.

KST: Þetta er svolítið eins og að bera saman lífsreynslusögu í Vikunni og dramatíska framvindu í skáldsögu. Maður les lífreynslusöguna og fær kannski einhvers konar kikk út úr því, en það er á allt öðru plani en ef dramað er hluti af einhvers konar listfengari frásagnarheild sem stjórnast ekki bara af því að blóðmjólka tilfinningarnar. Frásagnarstrúktúr svona fantasía er auðvitað ekkert ósvipaður og klámmynda á netinu, sem eru oftar en ekki stutt brot, ekki með mikilvægum og skýrum söguþræði eða samhengi.

GEB: Strúktúrinn í fantasíunum er eins og í styttri klámmyndum sem eru ekki svo margar mínútur í lengd, hafa röklegt upphaf, miðju og endi; samfarir hefjast (yfirleitt með einhvers konar forleik), það verður einhver framvinda, það er skipt um stellingar, komið með hjálpartæki eða eitthvað slíkt, og svo markast endapunkturinn af fullnægingunni, hvort sem þær eru ein eða fleiri. Það er hefðbundinn strúktúr þessara sagna. Ég er ekkert endilega hrifnari af bókum sem ganga út á kynlífssenur, en það er búið að skeyta söguþræði inn á milli þeirra. Þar verður söguþráðurinn svo lítið spennandi og fjarstæðukenndur og í rauninni svo mikið aukaatriði, eins og í „klassísku“ klámmyndinni eða „frásagnarklámmyndinni“ sem átti sitt blómaskeið á áttunda áratugnum – þekktust þeirra er Deep Throat. (Um þetta hefur verið fjallað hérna.) Þar bitnar áherslan á kynlífssenurnar mjög á söguþræði og persónusköpun – við fáum til dæmis ekkert að vita um það hvernig Debbie gekk þegar hún loksins komst til Dallas! Þess vegna er kannski bara ágætt að hafa sögurnar bara svona stuttar, svona uppfyllingarsöguþráður er frekar tilgangslaus og síst til þess fallinn að maður samsami sig með persónum.

KST: Ég held að við séum sammála um að listrænt gildi bókarinnar sé lítið, pólitískt gildi hennar gæti hafa verið mun meira, en að hún hafi fyrst og fremst kynferðislegt notagildi...

GEB: ...eins og var svo sem lagt upp með í auglýsingum um bókina þar sem sagði: Fer vel í einni hendi.

KST: Nákvæmlega. Og þá er spurningin: Er eitthvað að því að gefa út safn af fantasíum íslenskra kvenna sem hefur einkum þetta gildi? Páll Baldvin á Fréttatímanum og Sólrún Lilja á DV gáfu bókinni bæði mjög slæma dóma (það kom ekki á óvart að sjá hvað umfjöllun Sólrúnar Lilju fékk miklu ofsafengnari viðbrögð á netinu, jafnvel þótt vísun í grein Páls Baldvins væri einnig birt á dv.is), og töldu hana „litlu betri en klám“. (Páll Baldvin fann meðal annars að því að enginn notaði verjur í bókinni, sem er dásamlegur skilningur á eðli fantasíunnar.)

GEB: Þar sem við erum geldandi femínasistar fórum við náttúrulega á fund Femínistafélags Íslands um daginn þar sem meðal annars var fjallað um Fantasíur. Þar var talað um valdbeitingarfantasíur, sem eru með því umdeildasta í bókinni, en margir hafa áhyggjur af því að slíkar fantasíur skiljist bókstaflega. Það eru eðlilegar áhyggjur, að einhverjir karlmenn gætu mögulega lesið fantasíurnar þannig að konur þráðu á einhverju leveli nauðgun.

KST: Það eru þessi mörk milli fantasíunnar og raunveruleikans. Samþykkjum við hvað sem er í fantasíu? Hvað með til dæmis fantasíur sem ganga út á barnagirnd? Eru þær í eðli sínu rangar eða eru þær í lagi meðan viðkomandi framkvæmir ekki það sem hann fantaserar um? Valdbeitingarfantasíur voru meðal þess sem barst inn í bókina. Hefði verið ábyrgari ritstjórn að sleppa þeim eða hefði það gefið okkur einhvers konar dauðhreinsaða (eða dauðhreinsaðri) mynd af fantasíuheimi kvenna? Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af því fyrrnefnda í ljósi þess að bókin er gefin út í einhverju samhengi, við vitum að sumir karlmenn halda að konur vilji láta nauðga sér og maður hefur alveg séð hversu sjúkur hugsunarháttur þeirra getur orðið. En ég set spurningarmerki við það hvort það sé almennt til góðs við skriftir og útgáfu að miða alltaf við lægsta samnefnarann: hvað eru fávitar heimsins að fara að lesa út úr þessu?

GEB: Það á náttúrulega alls ekki að miða allt við þennan lægsta samnefnara eða þann sem mun túlka hlutina á versta veg. Hins vegar var niðurstaða fundarins ef til vill sú að best væri að svona bók yrði til þess að fantasíur, nauðganir og raunverulegar langanir væru ræddar í auknum mæli og mörkin milli þess ímyndaða og raunveruleikans. Áhrif feðraveldisins eru eitthvað sem við verðum að velta fyrir okkur líka, algjörlega án þess að dæma. Það sem gerist í hausnum á okkur kemur ekki frá neinni tærri uppsprettu manns sjálfs, þessar fantasíur hljóta að endurspegla eitthvað í samfélaginu. Á fundi Femínistafélagsins var fjallað um nokkrar mögulegar skýringar þess að konur fantaseri um valdbeitingu, til dæmis var bent á að valdbeitingarfantasíur gerðu konur kannski kleift að sleppa því að taka ábyrgð á eigin fullnægingu, en þá gætu þær verið til marks um skömm konunnar gagnvart líkama sínum og kynhvöt. Svo gætu þessar fantasíur líka lýst löngun konunnar til að vera ómótstæðileg – í fantasíunni svo ómótstæðileg að karlmaðurinn getur ekki hamið sig – en það hlýtur að endurspegla útlitsdýrkun og mikilvægi þess að konur séu aðlaðandi í augum karla. Svona umræður eru áhugaverðar og hljóta að vera til þess fallnar að við skiljum fantasíur og veruleikann betur.

1 ummæli:

  1. Ég hef svolítið velt fyrir mér vali ritstjóra. Samkvæmt henni bárust henni fleiri fantasíur en hún birti að lokum í bókinni - mig langar til dæmis að vita hvort hlutfall valdbeitingafantasía í bókinni endurspegli hlutfall þeirra í öllum fantasíunum sem bárust eða hvort val ritstjóra hafi mögulega ýkt það hlutfall? Um val á fantasíum (og almennt hlutverk hennar sem ritstjóra) er eitthvað sem hún hefði kannski mátt reifa í formála.

    Ég tek það fram að ég hef ekki lesið bókina og ég hef ekki áhuga - ég hef þó fylgst með umræðum um hana og ritdómum.

    SvaraEyða