13. september 2012

Mýrarhátíð

Um helgina og á mánudaginn, 15.–17. september, verður barna- og unglingabókmenntahátíðin Úti í mýri haldin í sjötta sinn í Norræna húsinu í Reykjavík. Yfirskriftin er Matur úti í mýri, en hátíðin er að þessu sinni tileinkuð mat og matarmenningu í barna- og unglingabókum. Dagskráin verður fjölbreytt; myndlistarsýningar, upplestrar, vinnustofur, málstofur og fyrirlestrar fyrir alla áhugamenn um bókmenntir, unga sem aldna.

Laugardaginn 15. september kl. 14 heldur Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og formaður IBBY á Íslandi opnunarræðu hátíðarinnar í Norræna húsinu. Afhent verða verðlaun til vinningshafa í smásagnasamkeppni hátíðarinnar og Samtaka móðurmálskennara sem haldin var í öllum grunnskólum landsins síðastliðið vor og vinningshafar lesa upp sögur sínar fyrir hátíðargesti. Að því loknu hefst málstofa, sem Þórarinn Eldjárn kynnir, þar sem rit- og myndhöfundar fjalla um hvaða hlutverki matur gegnir í bókmenntum þeirra. Egill Helgason stjórnar málstofunni og umræðum að fyrirlestrum loknum. Allir eru velkomnir.

Dagskráin sunnudagurinn 16. september hefst kl. 11 og hún er tileinkuð börnum. Haldin verður fjölskyldudagskrá í Norræna húsinu þar sem börn geta hlustað á rithöfunda lesa upp úr bókum sínum, sótt vinnustofur þar sem höfundar kenna tækni og vinnubrögð og skoðað myndlistasýningu á vegum hátíðarinnar í anddyri hússins. Meðal höfunda sem koma fram eru: Candace Fleming og Eric Rohmann frá Bandaríkjunum, Katrine Klinken frá Danmörku, Jutta Bauer frá Þýskalandi, Polly Horvath frá Kanada, Svein Nyhus frá Noregi og íslensku höfundarnir Ragnheiður Gestsdóttir, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn.

Mánudaginn 17. september verða haldnar tvær málstofur í sal Norræna hússins þar sem fræðimenn flytja fyrirlestra og koma saman til að ræða mat og matarmenningu í barnabókmenntum. Meðal fræðimanna sem taka þátt eru Anna Heiða Pálsdóttir, Ármann Jakobsson og Dagný Kristjánsdóttir, Kristin Hallberg frá Svíþjóð og Fridunn Tørå Karsrud, Kirsti-Nina Frønæs og Unni Mette Solberg frá Noregi. Málstofurnar eru opnar öllu áhugafólki.

Hér má sjá dagskrána með nákvæmari tímasetningum.

Meðfram þessari dagskrá eru einnig haldnar tvær myndlistasýningar. Á sýningunni Matarlist í barnabókmenntum eru sýndar myndir úr íslenskum barnabókum sem tengjast mat, matseld, borðhaldi og áti. Bækurnar sem myndirnar birtust í munu liggja frammi í sýningarrýminu fyrir gesti til að glugga í. Sýningin er í Norræna húsinu. Önnur sýning, Í skóginum stóð kofi einn, sem er með myndum úr samnefndri bók eftir rit- og myndhöfundinn Jutta Bauer, stendur yfir 10– 24. september á Reykjavíkurtorgi í Aðalsafni borgarbókasafnsins við Tryggvagötu. Bókin kom út á íslensku fyrr á árinu og verður höfundurinn Jutta Bauer með leiðsögn um sýninguna.

Nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá má nálgast á heimasíðunni www.myrin.is og facebook-síðunni http://www.facebook.com/MyrinBarnabokmenntahatid, og hjá verkefnisstjóra hátíðarinnar Tinnu Ásgeirsdóttur á netfanginu: myrinfestival@gmail.com eða í síma: 857-0298.

1 ummæli:

  1. Kemst væntanlega ekki neitt um helgina en hlakka til að sjá hátíðinni gerð skil í Börnum og menningu :)

    SvaraEyða