26. nóvember 2012

Kantata um bróðurson móðurbróður og fleiri

Við fyrstu sýn var ég tvístígandi gagnvart kápunni á Kantötu eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, óviss um hvort þetta blómskrúð í björtum litum væri nokkuð laglegt eða heldur væmið. Þegar ég opnaði svo bókina og hóf lesturinn leist mér ekki á blikuna í fyrstu. Bókin hefst á stuttri, upphafinni senu úr neðanjarðarlest. Ungur maður fylgist með karli og konu sem eru bæði ljóshærð, eins og ítrekað kemur fram á þeim tæpu tveimur síðum sem kaflinn spannar, og raska ró „þeldökks manns“ í lestinni. Tvisvar á sömu síðu kemur fram að ungi maðurinn „fylgdist af áhuga með andstæðunum úr norðri og suðri“ og önnur dæmigerð setning úr kaflanum er: „Þeldökki maðurinn leit aldrei á ljóshærðu konuna við hlið sér.“

Þessi stíll fannst mér ekki aðlaðandi og upphafið á fyrsta eiginlega bókarkaflanum, stök setning og síðan greinarskil á undan þeirri næstu þótt hún sé í raun beint framhald af þeirri fyrri, gerði mig ekki jákvæðari (ýmsir fleiri kaflar í bókinni byrja á sama hátt):
Trén höfðu fikrað sig nær húsinu.
     Leitað hlýjunnar í kuldanum. Sum þeirra teygt greinar sínar upp á veröndina, skriðmispillinn ágengastur, hafði mjakað sér áfram eins og snákur í myrkrinu ...
Ég sé engan tilgang með svona greinaskilum annan en tilgerð. Eftir þessa byrjunarörðugleika batnaði ástandið þó mikið og það sem eftir var bókarinnar reyndist textinn oftast kjarnmikill og skemmtilegur aflestrar. Þó birtust öðru hverju heldur væmnar klausur fyrir minn smekk. Sennilega er tilfellið að bókarkápan sé býsna lýsandi fyrir innihaldið.

Í sögunni greinir frá hópi fólks: fyrst er kynnt til sögunnar Nanna sem sinnir garðinum sínum af alúð, þá Dúi sem vinnur á hóteli og persónurnar bætast svo við ein af annarri: hóteleigandinn Gylfi, leikarinn Hjálmar o.fl. Í byrjun er misskýrt hvort eða hvernig persónurnar tengjast en svo koma fjölskyldubönd milli þeirra flestra í ljós. Inn í líf fjölskyldunnar kemur síðan erlendur ljósmyndari. Það var nokkuð fyrirhafnarsamt að henda reiður á persónunum og fjölskyldutengslunum og fljótlega sótti ég mér pappír til að krota upp ættartré og minnispunkta jafnóðum (sjá mynd). Að sumu leyti var gaman að reyna að kortleggja tengslin eftir því sem sögunni vindur fram en í það fór kannski fullmikil orka miðað við að þau virtust ekki eiga að vera nein ráðgáta og í öllu falli hefði verið betra að frágangurinn á tengslunum væri pottþéttur.

Minnismiði um sögupersónur
og fjölskyldutengsl.
Framarlega í bókinni er Gylfi skilgreindur sem bróðursonur móðurbróður Dúa og þessi sömu tengsl koma ítrekað fram í bókinni (t.d. á bls. 72 þar sem gefið er almennt yfirlit um fjölskylduna). Umræddur móður-/föðurbróðir heitir Finnur. Á bls. 93 segir hins vegar að Nanna, sem er gift Gylfa, sé mágkona móðurbróður Dúa. Samkvæmt þessu væri Gylfi bróðir Finns en ekki bróðursonur hans. Ég hélt um tíma að tilgangurinn með þessari mismunandi ættfærslu væri að rugla lesandann meðvitað í ríminu en eftir lesturinn hallast ég að því að einfaldlega hafi verið um að ræða mistök.

Frásagnaraðferð bókarinnar er í grunninn nokkuð skemmtileg eins og hópsögur bjóða upp á. Oftast er sagt frá í þriðju persónu en sjónarhornið hvarflar milli persónanna. Að mestu leyti virðist sami alvitri sögumaðurinn vera þarna á ferð. Öðru hverju er síðan skotið inn stuttum köflum í fyrstu persónu þar sem fólk sem tengist aðalpersónunum, oftast í einhvers konar þjónustu- eða aðstoðarhlutverki, segir frá þeim, t.d. nuddari Dúa og píanókennari Guðrúnar Sennu. Í samhengi við Kantötu-titilinn vaknar sú spurning hvort meginfrásögnin í þriðju persónu eigi að vera kórinn og hinir kaflarnir að koma úr munni einsöngvara. En þótt þessi hugmynd að frásagnaraðferð sé býsna góð eru möguleikarnir í henni ekki nýttir til fulls. Það hefði verið gaman ef breytingarnar á sjónarhorninu hefðu verið notaðar markvissar, t.d. til að sýna ólíkar hliðar á persónunum.

Eiginlega gegnir svipuðu máli  með margt í bókinni: þar eru ýmsar fínar hugmyndir en útkoman ekki alveg fullnægjandi. Enn eitt dæmi um það eru söguþræðirnir: sumir verða skýrir, aðrir ekki, frá sumum er gengið en aðrir enda í lausu lofti. Í prinsippinu finnst mér þetta stórfínt og ég er hlynnt því að hver einasti þráður sé ekki njörvaður niður. Aftur á móti er úrvinnslan fremur ómarkviss og yfirbragðið verður losaralegt fremur en að skildar séu eftir áhugaverðar spurningar. Eftirbragðið af lestrinum er því nokkuð blendið sem er synd því grunnurinn er fínn en sennilega hefði þetta uppkast haft gott af því að vera lagt til hliðar í nokkrar vikur áður en ráðist hefði verið í lokafrágang.

1 ummæli:

  1. Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    SvaraEyða