21. nóvember 2012

Menn og blóð

Um þessar mundir eru ofarlega í huga okkar margra blóðsúthellingar í Palestínu þar sem fólk sem ekkert hefur til saka unnið annað en að fæðast á röngum stað á röngum tíma er látið gjalda með lífi sínu. Allt snýst þetta um yfirráð yfir landsvæðum og að öllum sé ljóst hver það er sem valdið hefur. Einhvern veginn finnst mér það eiga vel við að hafa rétt lokið við að lesa Vígroða eftir Vilborgu Davíðsdóttur þar sem segir frá keimlíkri hegðun forfeðra okkar. Þeir fara þar um Bretlandseyjar með hrottaskap og yfirgangi, höggvandi og brennandi. Þar er líka barist um yfirráð yfir landsvæðum og fólk er kúgað til undirgefni með ofbeldi. Engar höfðu þeir sprengjurnar en ekki vantar þó blóðtaumana og maður getur ekki annað en leitt hugann að því hversu meingölluð dýrategund mannskepnan er.


Vígroði er framhald Auðar sem kom út fyrir þremur árum og er þar sagt frá Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem við þekkjum sem landnámskonu í Dölunum. Í Auði er sagt frá æsku Auðar og uppvexti á eynni Tyrvist, giftingu hennar og Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs, Írlandsdvöl og svo endað með skilnaði Auðar og Ólafs. Í Vígroða lendum við tæpum tólf árum síðar aftur í Tyrvist þar sem Auður, tæplega þrítug, er gestkomandi í brúðkaupi Helga bróður síns og Þórnýjar Ingólfsdóttur Arnarsonar. Við förum svo með henni heim á Þórsá á Katanesi þar sem hún stýrir myndarlegu búi og þvælumst með Þorsteini syni hennar um Péttland (sem er norðurhluti þess sem við nú köllum Skotland). Mér fannst mjög fróðlegt að átta mig á öllum mægðatengslunum milli margra þeirra landnámsmanna sem við kunnum að nefna í dag, eins og Auðar, Ingólfs Arnarsonar og Helga magra Eyvindarsonar.

Bókin er feiknavel skrifuð, söguþráðurinn áhugaverður og lýsingar allar þannig að maður sér persónur og atburði ljóslifandi fyrir sér. Ef eitthvað er fannst mér hún sterkari og áhugaverðari en Auður, kannski af því að persónan Auður er nú orðin eldri, reyndari og þroskaðri en stúlkan í fyrri bókinni. Bókin er, eins og ég hef þegar nefnt, nokkuð blóðug á köflum og einhver gróteskur undirtónn, þar sem endalaus barátta er meðal ákveðinna manna um lönd, völd og auð meðan allir hinir sem fyrir þeim verða eru lítið annað en peð í taflinu og ekki er hikað við að fórna þeim sem henta þykir. Það verður til þess að hefnd sú sem mögnuð er fram með göldrum verður lesandanum sæt meðan hann hryllir við þeirri afstöðu sinni. Þarna kemur líka fram hve hin endalausa barátta um landið eykur á þrána um að nema land á friðsælum stað þar sem hægt er að yrkja jörð sína í friði. Trúverðugleiki galdranna minnir á að þrátt fyrir að sagan fjalli um persónur sem ætla má að hafi í raun verið til og sé að einhverju leyti byggð á raunverulegum atburðum þá er þetta fyrst og fremst skáldverk.

Í Vígroða birtist áþreifanlega bágborin staða kvenna. Þær eru gefnar út og suður í þeim tilgangi að mynda friðar- og varnarbandalög og eru þannig eins og hvert annað góss; Auður nær með blöndu af heppni og útsjónarsemi að hafa meira vald yfir lífi sínu en flestar aðrar. Ekki það að karlmennirnir hafi allir eitthvert stórkostlegt val um hagi sína og ánauðugt fólk af báðum kynjum hefur jú ekkert val. En þegar á heildina er litið er frelsi karlanna meira meðan staða kvenna nálgast stöðu þræla. Og fyrst ég nefni þræla þá velti ég fyrir mér hvort myndin af afstöðu til þrælahalds sem þarna er dregin upp sé rétt eða sanngjörn. Fyrst og fremst virðast það vera heiðnir menn sem halda þræla en Auður gefur öllum sínum þrælum frelsi og er gefið til kynna að það sé vegna þess að hún hafi tekið kristni. Nú skilst mér að þrælahald hafi ekki verið aflagt á Íslandi fyrr en eitthvað eftir kristnitöku og það væri fróðlegt að vita hvort þessi skipting sé eins afgerandi og þarna er af látið.

Í heildina fannst mér Vígroði mjög fín, stíll og lýsingar sannfærandi og söguþráður vel spunninn með nokkrum áhugaverðum fléttum, en ég hef ekki alveg getað gert upp við mig hvað mér finnst um endinn. Ég hlakka til að lesa framhaldið sem ég þykist viss um að við hljótum að fá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli