Áður en ég byrja umfjöllunina er líklega best að ég geri grein fyrir því hvar ég stend, hvað Freddie (já, ég kalla hann Freddie) varðar. Fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan sá ég heimildarmynd um hann á RIFF. Þar áður þekkti ég auðvitað Queen og Freddie Mercury, þótt hann hafi dáið rétt fyrir fimm ára afmælisdaginn minn. En þegar ég sá þessa mynd þá varð ég gjörsamlega heltekin af honum, það er erfitt að útskýra hvers vegna (þótt ég geti reyndar velt vöngum yfir því tímunum saman með ykkur yfir bjór/kaffibolla, ef þið nennið að hlusta – ef svo er, sendið mér endilega tölvupóst). Ég held ég hafi upplifað í fyrsta sinn hvernig obsessívum, einlæglega hrifnum og vandræðalega berskjölduðum aðdáanda líður. Það var einmitt það sem truflaði mig fyrst, hvað það er lítið töff að vera svona heillaður af einhverjum. Auðvitað komst ég mjög fljótt að því að við erum ótalmörg þarna úti, fólk með Freddie fever (þótt við séum mögulega færri þessa dagana en þeir sem eru sjúkir í Bieber). Þetta er langt frá því frumlegt, en samt er þetta svo persónulegt. Og ég get bara ekki hætt að deila hrifningu minni með öðrum, enda hef ég eytt drjúgum hluta frítíma míns undanfarnar vikur í að (mynda)gúgla Freddie, horfa á tónlistarmyndbönd og viðtöl á youtube, lesa umræðuþræði um hann og… svo keypti ég ævisöguna hans.
Í inngangi bókarinnar segir Lesley-Ann Jones frá því þegar hún hitti Freddie á bar í Montreux, þar sem meðlimir Queen tóku upp mestallt efnið sitt síðari hluta ferilsins. Hún er aðdáandi og ég held að það sé mjög mikilvægt þegar hún lýsir persónuleika Freddie, hún gerir það alúðlega. Þó finnst mér alltaf skemmtilegast að lesa það sem hún hefur beinlínis eftir honum (helst vildi ég náttúrulega lesa sjálfsævisögu hans, en það verður víst aldrei hægt). Til dæmis lýsir hann upplifun sinni á sviði fyrir henni á mjög einlægan og Freddie-legan hátt:
‘I change when I walk out on stage,’ he admitted. ‘I totally transform into this “ultimate showman”. I say that because that’s what I must be. I can’t be second best, I would rather give up. I know I have to strut. I know I have to hold the mic stand a certain way. And I love it. […] It becomes an out-of-body experience for me up there. It’s like I’m looking down on myself and thinking, “Fuck me, that’s hot.” Then I realise it is me: better go to work.’ – bls. 5
Freddie á Live Aid. |
As the final bars of ‘Seven Seas of Rhye’ fade, an old English bucket-and-spade ditty crooned by a raucous saloon bar crowd echoes fleetingly: ‘Oh, I do like to be beside the seaside’. Further allusion to Freddie’s once carefree beach life, to the palm-fringed, pristine coral reefs of youth?
We can’t know. What we know is that there could never have been a welcome in the hillside for the man who fractured the code of his family’s faith. – bls. 37–8Já, hún vísar hér í lokin til sam/tvíkynhneigðar Freddies, sem samræmist ekki trúarbrögðum foreldra hans sem eru parsar (afkomendur Persa) af zaraþústratrú (Zoroastrianism). Ég skil vel að höfundur freistist til að detta í þennan gír, en þetta verður ansi þreytandi þegar líður á bók og hver kaflinn á fætur öðrum endar á spurningum á borð við „Where would the restless Queen spirit take them next?“ (219) og „Did they somehow have an inkling this would be their last chance to experience the Freddie magic live?“ (286) – þessi meðvitund um það sem á eftir að gerast setur náttúrulega sérstaklega svip sinn á seinni hluta bókarinnar.
Höfundur er líka skemmtilega óhrædd við að vera lúði, eins og við aðdáendur eigum það til að vera, og segir frá því þegar hún bar túlkun sína á textanum á „Bohemian Rhapsody“ undir Freddie í partíi árið 1986. Túlkunin, sem var skemmtileg en að sumu leyti mjög langsótt, gekk út á að Galileo táknaði stjörnufræðinginn og gítarleikarann Brian May, Beelzebub væri partídýrið og trommuleikarinn Roger Taylor, Freddie væri náttúrulega Scaramouche („His return to the tearful-clown theme in his songwriting (Pagliacci in ‘It’s a Hard life’) gave us a clue“) og hlédrægi bassaleikarinn John Deacon væri Figaro, nema ekki persónan úr óperunni, heldur kettlingurinn úr Disneyútgáfunni af Gosa… Þegar Freddie hafði hlýtt á greininguna starði hann á hana í svolitla stund og brosti svo dularfullur. Það kom ekki til greina að hann gæfi nokkuð uppi um það sem hann var að hugsa þegar hann samdi textann:
‘Does it mean this, does it mean that, is all anybody wants to know,’ Freddie sighed. ‘Fuck them, darling. I will say no more than what any decent poet would tell you if you dared ask him to analyse his work: if you see it, dear, then it’s there.’ – bls. 154.
Ljósmyndarinn Mick Rock hafði Marlene Dietrich í Shanghai Express í huga þegar hann tók myndina fyrir þetta plötuumslag Queen. |
Það er fáránlegt að lesa svona bók á tímum internetsins. Hún er fljótlesin, en ég staldraði við á að minnsta kosti fimm blaðsíðna fresti til að hlusta á Queenlög, myndagúgla Freddie, plötuumslögin hans og vini hans (samt eru nokkrar myndir í bókinni), horfa á tónlistarmyndbönd, upptökur af tónleikum og viðtöl. Upplifunin af því að lesa bókina litaðist af öllu aukaefninu sem maður getur sótt sér á netinu á örfáum sekúndum, þetta varð að nokkurs konar ástandi sem ég var í dögum saman. Ég horfði á Flash Gordon og Marx-bræðramyndina A Night at the Opera (1935), sem ein Queenplatan heitir eftir því meðlimir sveitarinnar voru hrifnir af henni (önnur heitir eftir A Day at the Races (1937)). Og að einhverju leyti gerði ég það til að skilja Freddie betur, það meikaði bara sens að horfa á það sem hann horfði á. Niðurstaða mín eftir þetta allt saman er sú að það sé afskaplega mikilvægt að leyfa sér að verða svona léttgeðveikur ef maður finnur hjá sér þörf til þess – að gefa sig á vald obsessjónarinnar. Og svona bækur eru gjörsamlega nauðsynlegar til þess.
Stórvönduð umfjöllun. (Þótt ég sé enn á þeirri skoðun að þú sjáir ekki möguleikana sem gætu legið í ævisöguforminu. Ég meina, sjáðu I´m not there?!)
SvaraEyðaÉg elska kafla sem enda með augljósum spurningum! Eins og einhvers konar fáránleg framlenging af ritgerðarkennslunni í grunnskóla þar sem átti að kenna manni að gera brú milli efnisgreina.
Takk fyrir það! Og já, ég er viss um að þú hefur rétt fyrir þér!
SvaraEyðaAugljósu spurningarnar voru náttúrulega líka mjög skemmtilegar. Ég gat allavega ekki stillt mig um að lesa þær upphátt, hlæja geðveikislega og segja eitthvað á borð við „nei, veistu, ég GET BARA EKKI ÍMYNDAÐ MÉR hvað gerist næst!“
skemmtileg færsla! Ég hef sjálf engan áhuga á honum Freddie (þannig séð, ég meina Queen er auðvitað frábær hljómsveit og allt það, en ...) en pælingarnar um það að vera "fan" og um æfisögurnar eru frábærar hjá þér. Meira svona!!
SvaraEyðaGetur einhver sagt mér hvar ég get fengið þessa bók 🙏
SvaraEyða