3. desember 2012

Landvinningar síðuhaldara – MYNDIR

Bókmenntaleg heimsyfirráð hafa frá upphafi verið á stefnuskrá þeirra sem skrifa á þessa síðu og umtalsverðum tíma hefur verið eytt við makk í reykfylltum bakherbergjum til að vinna að þeim. Hins vegar  hefur setið á hakanum að tilkynna um nýjustu landvinningana.

Fyrst ber vitaskuld að nefna að 1. desember var Þórdís Gísladóttir stjörnuþýðandi, verðlaunaskáld og barnabókahöfundur hvorki meira né minna en tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á Allt er ást eftir Svíann Kristian Lundberg (Erla fjallar einmitt um þá bók í þessari færslu).

Þórdís hefur alls ekki setið auðum höndum þetta árið, því nú í haust kom út hin stórskemmtilega barnabók hennar Randalín og Mundi sem segir m.a. frá lyginni stelpu, dularfullri músaætu og skrýtinni spákonu. Svo þýddi hún líka Hringinn, sem er afar spennandi bók um unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum (Hildur skrifar um hana hér).


Hildur Knútsdóttir, sú fjölhæfa kona og að auki nýbökuð móðir efnilegrar stúlku, sendir svo frá sér sína aðra skáldsögu, barna- og unglingabókina Spádóminn, sem er æsispennandi fantasía um hina fimmtán ára gömlu Kolfinnu sem neyðist til að grípa til sinna ráða þegar ill öfl reyna að hrifsa til sín völdin.


Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi með meiru, gerði sér svo lítið fyrir og snaraði doðrantinum Emmu eftir Jane Austen yfir á íslensku. Áður hefur bara ein bók eftir Austen komið út í íslenskri þýðingu (Hroki og hleypidómar) og það var löngu orðið tímabært að þýða fleiri.





Hér má svo sjá nokkrar myndir af Druslubókabloggurum við leik og störf og drekkandi rauðvín í útgáfuboðum hver hjá annarri:

Þórdís áritar.


Þorgerður, Salka, Þórdís, Eyja og Guðrún Elsa.
Hildur og Gunnar Theodór héldu sameiginlegt útgáfuboð. Mynd: Eggert Þór Bernharðsson.
Maríanna, Erna, Þórdís, Lísa, Snæbjörn (hennar Þórdísar) og Salka.

Eyja, Erna, Kristín Svava og Hildur.







2 ummæli: