Agatha kímin við ritvélina. |
Að því kom þó að ég hafði ekki meira að sækja til Agöthu. Plottin voru orðin of kunnugleg, persónurnar of einhliða, og ég mundi hvernig allar bækurnar enduðu. Í samræðum við aðra Agöthuaðdáendur hef ég komist að því að fleiri en ég voru á endanum farnir að geta giskað á hinn seka, til dæmis út frá hinum klassíska ástarþríhyrningi sem einhvern veginn þurfti að finna lausn á – yfirleitt með því að láta annan vonbiðilinn vera kaldrifjaðan morðingja eftir allt saman. En ég fann verðugan arftaka Agöthu í þeirri undirgrein breskra glæpasagna sem gengur út á fáa og merkingarþrungna glæpi, heimilislegan stíl og reglulega tedrykkju; það var að sjálfsögðu samlanda hennar P.D. James. Hún er þrjátíu árum yngri en Agatha, fædd árið 1920, og enn að skrifa. Ég las hana af ástríðu um tíma og síðari ár hef ég stundum keypt bækurnar hennar á flugvöllum þegar ég vil vera viss um að geta gleymt mér í einhverjum doðranti meðan á flugi stendur. Við þær aðstæður las ég í sumar bókina The Private Patient frá 2008, og ákvað í kjölfarið að nú væri kominn tími til að kveðja P.D. James og halda út í hinn stóra heim eins og þegar ég kvaddi Agöthu forðum daga. (Ég er greinilega frekar seinþroska.)
P.D. við sína ritvél. |
Ég myndi segja að það eina sem Agatha Christie hefur fram yfir P.D. James í glæpasagnadeildinni – en það er reyndar ekki svo lítið – sé húmorinn. Maður hefur oft á tilfinningunni að Agatha hafi skrifað sínar bækur brosandi í kampinn (einhvers staðar las ég að hún hefði gjarnan skrifað í baði), fullkomlega meðvituð um fáránleika ástarþríhyrninganna, en bækur P.D. James eru yfirleitt gjörsneyddar kímnigáfu og persónurnar oft ansi þungbúnar og alvörugefnar, sérstaklega ef þær eru í góða liðinu. Það getur verið óheppilegt þegar um er að ræða grein á borð við glæpasögur, sem virðist stundum sérlega hætt við að verða kjánalegar.
Aðalspæjari P.D. James, lögregluforinginn og ljóðskáldið Adam Dalgliesh, er besta dæmið um þennan stíl. Hann er skarpgreindur, næstum algjörlega alvörugefinn og gríðarlega vandur að virðingu sinni. Framan af bókum James er Dalgliesh einfaldlega „þögla, sterka týpan“, en með mannúðlega afstöðu sem sýnir sig til dæmis í skilyrðislausri virðingu hans fyrir látnum fórnarlömbum voðaverka og andúð á kaldranalegum húmor sem leið til að takast á við miskunnarleysi heimsins (það er ótrúlega algengt bragð glæpasagnahöfunda að skapa persónur, oftar en ekki meinafræðinga eða réttarlækna, sem beita kaldhæðni til að brynja sig fyrir veruleikanum og láta ekkert tækifæri ónotað til að segja smekklausa brandara um sjórekin lík eða illa leiknar vændiskonur). Dalgliesh er ekkill, missti konu sína og barn í erfiðri fæðingu, og það ljær honum harmþrungið og enn alvörugefnara yfirbragð.
Hann er ekkert að djóka með þetta |
Það verður að viðurkennast að lögreglumaðurinn Adam Dalgliesh er ekki sérlega sannfærandi kærasti. Í fyrsta lagi gerir P.D. James þau höfuðmistök að birta ljóð eftir Dalgliesh: aldrei góð ákvörðun þegar persóna í bók á að hafa stórfenglegri skáldskaparhæfileika en höfundurinn sem býr hana til. Ljóðið hans Dalgliesh er svo sem engin hörmung, frekar hefðbundinn og mínímalískur módernismi, en við lesendur komumst einfaldlega of nærri því að horfa hæðnislega á þessa virðulegu aðalpersónu. (Sökum skammarlegrar vanrækslu bókasafns Háskóla Íslands á innkaupum á bókum P.D. James hefur mér ekki tekist að finna ljóðið, en lýsi eftir því hér með. Það var í lokin á einhverri bók, mögulega Death in Holy Orders.)
Það keyrir þó um þverbak í The Private Patient, en þar kemur fram að Dalgliesh – sem loksins hefur opnað sig fyrir annarri manneskju – sefur ekki einu sinni í sama rúmi og Emma. Og virðist tengt þeirri staðreynd að þau eru ekki ennþá búin að gifta sig. Eða eins og P.D. James myndi orða það: hann dregur sig í hlé. Þar sem nútímalegri samlandar hans í löggubransanum stinga sofandi konur ýmist af vegna timburmanna eða barnslegrar skuldbindingafælni er Adam Dalgliesh líkari einhvers konar rómantískri 19. aldar hetju sem þykir viðeigandi að allir hvíli í sinni lokrekkju þegar herrasetrið vaknar til lífsins á morgnana. (Í umræðum um Dalgliesh á Wikipediu er reyndar vakin athygli á því að samkvæmt lógík fyrstu bókanna er hann fæddur um 1920 og því kominn um nírætt þegar hveitibrauðsdagar hans og Emmu Lavenham eiga sér stað. Það er því kannski skiljanlegt að hann sé ekki til stórræðanna.)
Ég á mögulega eftir að grípa til vinkonu minnar P.D. James á einu eða öðru andartaki í framtíðinni, í sumarbústað eða leiguíbúð, eins og ég hef af og til flett gegnum Agöthu síðan á unglingsárunum, en nú er sá tími formlega liðinn að ég leggi mig sérstaklega eftir því. Vertu sæl, P.D., ég þakka góðar stundir. Nú þarf ég meira blóð, meira fjörefni. Þegar ég næ háum aldri Adams Dalgliesh verð ég komin í pyntingaklámið.
Skemmtileg lesning (þessi grein, ekki PD og Agatha).
SvaraEyða