9. mars 2013

Uppdreymd sveppasystkin á eynni Tulipop og máttur söngsins

Barnabókin Mánasöngvarinn eftir Margréti Örnólfsdóttur og Signýju Kolbeinsdóttur kom út hjá Bjarti fyrir jólin 2012. Hinar litríku persónur bókarinnar eiga rætur að rekja til vörumerkisins Tulipop, sem er sköpunarverk fyrrnefndrar Signýjar og Helgu Árnadóttur, en hafa áður skreytt m.a. lyklakippur og matarstell frá sama merki. Eftir því sem ég kemst næst er það svo fyrst í Mánasöngvaranum sem fígúrurnar verða að fullgildum sögupersónum.

Á fyrstu opnu bókarinnar gefur að líta myndir af íbúum ævintýraeyjunnar Tulipop, hverjum fyrir sig, ásamt stuttum texta þar sem helstu persónueinkenni eru útlistuð, en meðal eyjarskeggja eru útsmoginn ormatrúður, ljúflyndur gimsteinabóndi, hjartagóður ógnvaldur, óaðgreinanlegir tvíburar og gítarhetjan Friðgeir Búddason.


Ég fór að velta því fyrir mér við lestur bókarinnar hversu algengt það kunni að vera að texti í barnabókum sé skrifaður við myndskreytingarnar frekar en öfugt. Þó svo að Mánasöngvarinn sé sérstök að því leyti að hafa sprottið uppúr vöruhönnun er svosem alvanalegt að hinn sjónræni þáttur leiki stórt hlutverk í barnabókum og ekki nema eðlilegt að myndskreytingar verði í sumum tilfellum kveikja að texta.*
Myndir Mánasöngvarans eru skærlitar og aðlaðandi í áreynslulausum samruna töff- og krúttlegheita, stór og ávöl form einkenna persónur og önnur helstu fyrirbæri með skemmtilegum smáatriðum inni á milli. Málfarið er hressandi frjálslegt og sagan falleg: jafnvægi náttúrunnar er ekki sjálfgefið heldur byggir á samspili margra þátta, og þótt því verði stundum furðu auðveldlega raskað er oftar en ekki á valdi okkar jarðlinganna að koma því aftur á. Sumt reynist margslungnara en ætla mætti við fyrstu sýn og sönglistin býr yfir mögnuðum mætti.
Í textanum liggja þó ýmis van- eða ónýtt tækifæri, sem gætu bent til þess að framhaldsbóka sé að vænta — sumar þeirra persóna sem kynntar eru í byrjun koma síðan lítið eða ekkert við söguna, og jafnvel aðalpersónurnar búa yfir mögnuðum hæfileikum sem þó er aðeins minnst á en ekkert gert með af viti.
 
Líkt og vinir mínir í Múmíndalnum eru Tulipop-búar ekki af neinum dýrategundum þessa heims, en margir og mismunandi og eiga sumir ættingja sem þeim svipar til í útliti en aðrir ekki. Vera þeirra á eynni er skýrð með þeim hætti að þau hafi fæðst í draumum: einhversstaðar, einhverntíma blés einhver lífi í sveppasystkin og ormatrúða með því einfaldlega að dreyma þau. Uppruni Tulipop sjálfrar með svampengjum og gullnum Ölpum er mögulega samur, þó ekki sé það tiltekið sérstaklega.
Í (annars jákvæðri) umfjöllun um bókina í Fréttablaðinu í janúar fetti Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir fingur út í hönnunina þótti uppsetning textans slæm, og þótt leturgerðin væri læsileg rynni letrið við og við fullmikið saman við bakgrunninn. Þótt þessi atriði hafi ekki truflað mig persónulega bendir sú staðreynd að þau hafi truflað einhvern til þess að þetta hefði mátt passa betur upp á og hafa textann lesvænlegri það er líklega rétt að uppsetning hans og hönnun hafi verið látin þjóna útlitinu fullmikið. Ég er líka sammála Brynhildi um að flæði myndskreytinganna endurspegli söguþráðinn ekki nógu vel. Það er svolítið eins og hver opna hafi verið hönnuð fyrir sig án nægilegs tillits til heildarmyndarinnar sem þær skapa og mér finnst hver opna falleg og vel heppnuð, en flæðið hefði vissulega mátt vera betra; það á til að slitna þegar síðu er flett, sem er synd.
Brynhildur finnur einnig að útliti aðalsöguhetjanna; finnst þær líða fyrir stílhreint svipleysi, sem þrátt fyrir að koma vel út á kaffibollum geri þær kaldranalegar og tilfinningalausar, og lesendur eigi erfitt með að tengjast söguhetjum sem sýni ekki svipbrigði hvað sem á gangi. Þessu er ég ósammála. Nú er ég óviss um upp að hvaða marki mér finnist texti einn og óstuddur þess umkominn að glæða teikningar lífi og sál, en ég er einfaldlega ekki sammála því að Tulipopparar sýni engin svipbrigði þau eru vissulega lágstemmd, en svipbrigði engu að síður og jafnvel á líkan hátt og meðal múmínálfanna og kó; kannski ekki nema rétt svo að lyfta brúnum eða drúpa höfði, en það getur líka verið alveg nóg og sérstaklega þegar textans nýtur við. Þótt flæði myndanna hefði mátt bæta, sem fyrr segir, fannst mér nefnilega samspil mynda og texta ganga vel upp að öðru leyti, eða því að efnislega bæta þau hvort annað upp.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
*Hér skín það mögulega í gegn að sem ég byrjaði að spá í þetta kom á daginn að sjálfri fannst mér það þó einmitt virka öfugsnúið á einhvern hátt, enda er mér kannski óþarflega hætt við að líta upp til texta sem einhvers háheilags fyrirbæris sem fyrir utan að vera varasöm og dálítið kjánaleg afstaða á síst við hér enda texti afstætt dót og umgjörðinni eins háð og önnur listform, og barnabók af þessu tagi er einmitt kjörlendi samspils orða við sjónræna þáttinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli