2. apríl 2013

Afdrif okkar

Ég hafði aldrei verið í leshring þar til fyrir stuttu, að ég gerðist stofnmeðlimur tveggja manna leshringsins Dauði og ógeð. Nafnið segir allt sem segja þarf; við leshringskonur erum báðar sérlegar áhugamanneskjur um hvers kyns subbuskap og (það sem þröngsýnar manneskjur kalla) sjúkleg málefni, gjarnan með sagnfræðilegu ívafi. Fyrsta bókin sem ég las í tengslum við þennan nýja leshring var Stiff. The Curious Lives of Human Cadavers eftir hina bandarísku Mary Roach. Mér þykir ekki ólíklegt að Roach verði reglulegur gestur leshringsins, en hún hefur einnig skrifað bækur á borð við Gulp. Adventures on the Alimentary Canal og Bonk. The Curious Coupling of Science and Sex.

Eins og undirtitillinn gefur til kynna fjallar Stiff um það sem verður um líkama okkar eftir að við deyjum. Þannig fjallar Roach nokkuð fyrirsjáanlega um grafarræningja, líffæraflutninga, krufningar og líkbrennslu, en einnig um ókunnuglegri fyrirbæri á borð við múmíuát í lækningatilgangi (sem ég var einmitt nýbúin að lesa um í sagnfræðiriti sem var of virðulegt til að leyfa sér frekari umfjöllun um þetta forvitnilega mál, svo ég var mjög kát með ítarlega umfjöllun hjá Roach, en lyf úr múmíum og hunangslegnum mannslíkömum voru innbyrt við hinum fjölbreytilegustu krankleikum langt fram eftir öldum).

Stór hluti bókarinnar er helgaður vísindalegum tilraunum sem gerðar eru á líkum, sumum góðum og gagnlegum en öðrum andstyggilegum, þá einkum tilraunum sem ganga út á að komast að því hvaða stríðsvopn gagnast best til eyðileggingar á mannslíkamanum. Roach segir frá átakanlega hræsnisfullum en fullkomlega alvarlegum deilum um það hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt að nota mannslík í vopnaþróunartilraunum, og þá út frá sjónarhorni líksins en ekki þeirrar lifandi manneskju sem á endanum verður fyrir vopninu.

Dr. Pierre Barbet negldi bæði lifandi menn og dauða á krossa
í rannsóknum sínum á Tórínó-líkklæðunum.
Mary Roach aðhyllist þá skynsamlegu afstöðu að það sé óþarfi að sveipa líkamsleifar manna einhverri dulúð eða hefja þær á stall og það reynir óneitanlega á þá sannfæringu við lestur bókarinnar; maður fær alveg stundum klígju og ég varð að játa á mig nokkurn tepruskap. Kaflarnir eru margir virkilega áhugaverðir – ég nefni til dæmis How to know if you´re dead, sem fjallar um þróun mælikvarðans á það hvenær fólk telst dáið, og kaflann Holy cadaver, sem fjallar um tilraunir til að komast að því hvernig nákvæmlega Kristur hefði hangið á krossinum og út frá því hvort blóðtaumarnir á hinum svokölluðu Tórínó-líkklæðum væru ekta. Roach fetar ágætlega veginn milli þess að vera aðgengileg og skemmtileg annars vegar og fræðandi og áhugaverð hins vegar. Bókin er reyndar dálítið kaotísk í uppbyggingu, kaflarnir eru mjög mislangir og í eitt skipti beinir Roach allt í einu sjónum sínum að mannáti í Kína í margar blaðsíður án þess að útskýra nokkurn tímann almennilega af hverju.

Roach er ein af þessum hressu höfundum sem láta ekkert tækifæri til aulabrandara ónotað, og sá stíll verður ennþá galgopalegri þegar viðfangsefnið eru lík og dauði. Það er misvel heppnað og fór dálítið í taugarnar á mér fyrst, en svo vandist ég því og hún er líka oft fyndin, og hefur gott auga fyrir skemmtilegum smáatriðum. Ég skemmti mér allavega vel við lestur Stiff og hlakka til að takast á við ástir og ævintýri í meltingarveginum næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli