Kristín María og Bernd á góðri stundu |
30. maí 2013
Hæ, hæ og hó, hó, húsfreyja veit ekki hvað ég heiti
Í síðustu viku las ég einkar fagra barnabók sem er tiltölulega nýkomin út hjá Forlaginu. Listamaðurinn Bernd Ogrodnik hefur komið víða við í íslensku menningarlífi síðustu árin og ekki síst á sviði barnamenningar. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Bernd brúðulistamaður sem meðal annars hefur unnið að vel heppnuðum og vönduðum leiksýningum fyrir börn. Fyrir rúmum tveimur árum var frumsýnd barnasýningin Gilitrutt eftir þá Bernd, Benedikt Erlingsson leikstjóra og fleiri góða listamenn. Sú sýning var einstaklega skemmtileg, metnaðarfull og hugvitssamleg, og fer sveimérþá bara efst á listann hjá mér yfir uppáhaldsbarnasýningarnar á síðustu árum. Nú hefur Bernd unnið bók upp úr sýningunni ásamt þeim Kristínu Maríu Ingimarsdóttur hönnuði og Silju Aðalsteinsdóttur þýðanda. Bókin nefnist Gilitrutt og hrafninn, væntanlega til að koma í veg fyrir að henni sé ruglað saman við eldri útgáfur af þjóðsögunni þekktu um bóndakonuna lötu sem lætur blekkjast af tröllskessu en snýr að lokum á hana með aðstoð krumma og bónda síns. Bernd og Kristín María hafa áður unnið saman bókina Pétur og úlfurinn, sem var sömuleiðis unnin upp úr brúðusýningu Bernds.
Sagan er sögð bæði með myndum og orðum. Textinn er ekki látinn flæða inn í myndirnar eins og er ein aðferð við myndskreytingar, heldur er textinn til hliðar við myndirnar. Við fyrstu sýn fannst mér eins og þau Bend og Kristín væru þar með að missa af tækifæri til að samþætta texta og mynd, en við frekari umhugsun komst ég á þveröfuga skoðun og er eiginlega á því að myndirnar - sem eru ljósmyndir af brúðum og leikmynd Bernds - myndu ekki þola að texta væri blandað inn í þær og ómögulegt væri að gera það svo vel færi á. Galdrar þessa tiltekna myndheims liggja í öðru. Höfundur notar í grunninn nútímalegt orðfæri en fléttar við og við inn í "erfiðari" orðum sem er nokkuð sniðug aðferð; þannig skilst sagan þótt lesið sé fyrir lítil börn en tilefni gefst líka til að útskýra ókunnug orð, sem mér finnst sjálfsagður hluti af því að lesa fyrir krakka (vonandi vita foreldrarnir/kennararnir hvað vaðmál og bæjarburst eru!).
22. maí 2013
Eðla segir frá
José Eduardo er kankvís |
Fortíðasölumaðurinn í portúgalska titlinum er albínóinn Félix Ventura, sem útvegar fólki nýja fortíð og ætterni fyrir peninga, en kameljónið í enska titlinum er væntanlega vísun í eðluna Eulálio sem býr í húsi Félix Ventura og er sögumaður bókarinnar. Eulálio var maður í fyrra lífi og samkvæmt vel lesnum netverjum eru ýmsar vísbendingar í sögunni um það hvaða maður hann var – rithöfundur nokkur frá Argentínu, allfrægur og vinsæll – en ég fattaði það auðvitað ekki.
José Eduardo Agualusa er af portúgölskum og brasilískum ættum en er fæddur og uppalinn í Angóla og sagan gerist að mestu í Luanda. Bókin segir frá samskiptum fyrrnefnds Félix Ventura við ýmsa dularfulla einstaklinga; Ângelu Lucíu, sem hann er ástfanginn af og sem ferðast um og tekur myndir af ólíkum blæbrigðum ljóssins, José Buchmann, sem byrjar skyndilega að renna saman við þá fölsku persónu sem Félix hefur skapað fyrir hann, útigangsmanninn og fyrrum öryggislögreglumanninn Edmundo Barata dos Reis sem fullyrðir að forsetanum hafi verið skipt út fyrir tvífara, og nafnlausan gjörspilltan ráðherra sem fær Félix til að skrifa fyrir sig upplognu sjálfsævisöguna Raunverulegt líf baráttumanns.
18. maí 2013
Morð og arkitektúr og konur á Krímskaganum
Hvíta borgin: Á heimssýningunni í Chicago 1893 |
Í lokakafla Nature´s Metropolis er sagt frá heimssýningunni sem haldin var í Chicago árið 1893 og var gríðarlega mikilvægur viðburður í sögu borgarinnar. Chicagobúar höfðu orðið fyrir miklu áfalli árið 1871, þegar bruni eyddi stórum hluta miðborgarinnar og hundruð manna dóu, en með heimssýningunni 1893 reis fönix Chicago úr öskunni og yfirburðir borgarinnar voru staðfestir á þessum tímum hins mikla kapphlaups bandarískra borga um stöðu „Næstu stórborgar“. Með heimssýningunni var Chicago einnig í samkeppni við París, en þar hafði verið haldin glæst heimssýning árið 1889 og Eiffelturninn byggður af því tilefni. Svar Chicago við Eiffelturninum var það sem á ensku er kennt við verkfræðinginn skapara sinn og kallað Ferris wheel, en af einhverjum kaldhæðnislegum ástæðum kenna norræn tungumál það við samkeppnisaðilann París og kalla parísarhjól.
Ég ákvað á dögunum að ná mér í aðra og léttari bók um heimssýninguna í Chicago, The Devil in the White City eftir Erik Larson, en hún hefur þann dramatíska undirtitil Murder, Magic, and Madness at the Fair that Changed America. Titillinn vísar til þess að hluti heimssýningarinnar var þekktur sem Hvíta borgin vegna hins ljósa yfirbragðs bygginganna, sem voru klæddar gifsi. The Devil in the White City segir tvær sannar sögur, annars vegar af tilurð og framgangi heimssýningarinnar og hins vegar af ferli raðmorðingjans dr. H. H. Holmes, sem stundaði iðju sína í borginni á svipuðum tíma.
11. maí 2013
Hið háskalega líf á Norðurlöndunum
Hin knáa Kristina Ohlsson |
En nóg um það, ég hef nýlokið við tvær skandinavískar glæpasögur eftir höfunda sem hljóta að flokkast með þeim betri í þeim bransa og reyndust báðar bækurnar hin fínasta lesning. Fyrsta skal telja hina sænsku Verndarengla eftir Kristinu Ohlsson, en Kristina er fædd 1979 (ég stressast alltaf upp og fyllist minnimáttarkennd þegar ég les bækur eftir fólk á aldur við mig sem er búið að skrifa fullt af bókum), stjórnmálafræðingur og vann áður í einhvers slags hryðjuverkadeild hjá ÖSE. Nýlega kom út í Svíþjóð fimmta bókin í glæpaseríu hennar um Frediku Bergman, Alex Recht, Peder Rydh og félaga í Stokkhólmslögreglunni, en Verndarenglar er sú þriðja og kom út hjá Forlaginu á þessu ári. Áður höfðu komið út á íslensku Utangarðsbörn og Baldursbrár sem fjalla um þetta sama lögreglufólk. Hver bók er sjálfstæð og segir frá afmörkuðu glæpamáli en einkalíf Fredriku, Alex og Peder fléttast líka inn í söguþráðinn og því mæli ég með því að bækurnar séu lesnar í réttri röð.
10. maí 2013
Í skýjastræti
Einu sinni skrifaði ég bloggfærslu um Ástralíubækur og Ástralíublæti mitt. Rúmu ári síðar var ég svo óstjórnlega heppin að fá að ferðast til þessa lands í fjarskanum (fann því miður ekki edikslyktandi Bill Bryson-bókina enda búin að flytja nokkuð oft síðan hún féll í fötuna, sjá fyrri færslu) og þegar maður fer út í fjarskann hefur maður langan, langan tíma til að lesa margar, margar bækur. Og eins og margsinnis hefur sýnt sig eru fáir kaupendur skæðari en druslubókakvendi sem kemst í erlenda bókabúð ... the rest is history.
Ein af þeim bókum sem ég dröslaðist svo með heim í níðþungum farangrinum (nei, mig langar ekki í kyndil, mér þykir vænt um bækur og tel ekki eftir mér að flytja þær sextánþúsund kílómetra leið) var ástralski doðranturinn cloudstreet eftir Tim Winton, en í Ástralíu komst ég að því að Winton er einn af þeirra mest metnu samtímahöfundum og þykir cloudstreet eitt af hans bestu verkum. Þessi magnaða skáldsaga segir frá tveimur fjölskyldum sem eins og skolar upp í stórt og gamalt, hrörlegt hús í götu að nafni Cloud Street, en íverustaður þeirra fær fljótt á sig nafnið cloudstreet, líkt og það komi út þegar andað er frá sér. Sagan hefst í miðri heimsstyrjöldinni síðari; Pickles-fjölskyldan er í alvarlegum fjárhagskröggum eftir að spilasjúkur fjölskyldufaðirinn missir aðra höndina í vinnuslysi, fær þetta þungbúna hús í arf með ákveðnum skilyrðum og skiptir því í tvennt til að geta leigt út helminginn. Þangað flytur Lamb-fjölskyldan sem komin er til Perth úr smábæ þar sem meint kraftaverk reyndist ekkert kraftaverk; næstelsti drengurinn þeirra komst ekki heill frá slysi á krabbaveiðum og foreldrarnir Oriel og Lester leggja á eins konar flótta undan samfélaginu og fyrrum trúarhita sínum. Þessi tvennu hjón ásamt barnaskaranum flytja inn í húsið á Cloud Street sem er uppfullt af sársauka og óhugnaði fortíðarinnar. Húsið leikur mikilvægt hlutverk í frásögninni og verður á stundum eins konar yfirvitund, tekur virkan þátt í framvindunni og markar fjölskyldurnar síst minna en fjölskyldurnar húsið.
Ein af þeim bókum sem ég dröslaðist svo með heim í níðþungum farangrinum (nei, mig langar ekki í kyndil, mér þykir vænt um bækur og tel ekki eftir mér að flytja þær sextánþúsund kílómetra leið) var ástralski doðranturinn cloudstreet eftir Tim Winton, en í Ástralíu komst ég að því að Winton er einn af þeirra mest metnu samtímahöfundum og þykir cloudstreet eitt af hans bestu verkum. Þessi magnaða skáldsaga segir frá tveimur fjölskyldum sem eins og skolar upp í stórt og gamalt, hrörlegt hús í götu að nafni Cloud Street, en íverustaður þeirra fær fljótt á sig nafnið cloudstreet, líkt og það komi út þegar andað er frá sér. Sagan hefst í miðri heimsstyrjöldinni síðari; Pickles-fjölskyldan er í alvarlegum fjárhagskröggum eftir að spilasjúkur fjölskyldufaðirinn missir aðra höndina í vinnuslysi, fær þetta þungbúna hús í arf með ákveðnum skilyrðum og skiptir því í tvennt til að geta leigt út helminginn. Þangað flytur Lamb-fjölskyldan sem komin er til Perth úr smábæ þar sem meint kraftaverk reyndist ekkert kraftaverk; næstelsti drengurinn þeirra komst ekki heill frá slysi á krabbaveiðum og foreldrarnir Oriel og Lester leggja á eins konar flótta undan samfélaginu og fyrrum trúarhita sínum. Þessi tvennu hjón ásamt barnaskaranum flytja inn í húsið á Cloud Street sem er uppfullt af sársauka og óhugnaði fortíðarinnar. Húsið leikur mikilvægt hlutverk í frásögninni og verður á stundum eins konar yfirvitund, tekur virkan þátt í framvindunni og markar fjölskyldurnar síst minna en fjölskyldurnar húsið.
9. maí 2013
Barn verður til
Flestir sem alist hafa upp á Íslandi síðustu áratugina hafa eflaust lesið einhverja bók í dúr við Svona verða börnin til, sem var til á heimili mínu og uppfræddi mig um getnað og barnsburð. Ógleymanleg er myndin af risastóru hænunni sem og hippapabbinn með krullurnar. Á skólabókasafninu var svo til bókin Ása, Jón og Agnarögn sem var ögn grafískari enda ætluð eldri börnum. Þegar ég bjó í Bretlandi fyrir nokkrum árum fékk ég nett áfall er ég komst að því að flestir þarlendir vinir mínir höfðu hvorki fræðst um kynlíf né tilurð barna fyrr en í grunnskóla, sumir jafnvel um tíu eða tólf ára aldur, þar eð foreldrunum þótti óþægilegt og óviðeigandi að ræða þennan málaflokk við börn. Alveg steikt.
Eins og sést á þessum lista frá Bókasafni Kópavogs er þónokkuð til af bókum sem ýmist útskýra líffræðina á bak við barnsfæðingu eða fjalla um það sem gerist þegar barn eignast systkini. Ég vil líka eignast systkin var mikið lesin á mínu heimili, ekki síst þegar yngsta systkinið mætti á svæðið. Fyrir síðustu jól kom hins vegar út glæný íslensk bók sem útskýrir hvernig börnin verða til og beitir annarri og fjölbreyttari nálgun; Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir rithöfundur og íslenskufræðingur sendi frá sér bókina Hulstur utan um sál um getnað, meðgöngu og hin ólíku fjölskyldumynstur, en aðrar bækur sem í boði eru á þessu sviði eru upp til hópa afar heterónormatívar og ganga yfirleitt út frá formúlunni pabbi + mamma = barn og fjölskylda sem býr undir einu þaki. Í bók sinni tekur Hugrún dæmi um mismunandi mynstur, t.d. einstæða móður, samkynhneigð pör, stjúpfjölskyldur, ættleiðingar, fjarbúð, unga foreldra o.s.frv. og minnir þannig á að fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum, fræðir lesendur um fjölbreytileikann og gefur börnum sem ekki falla inn í hið viðtekna mynstur færi á að samsama sig textanum. Líffræðin er útskýrð en einnig horft á félagslega þáttinn.