28. júní 2013

Er Mandela mennskur?

Mandela ungur og aldeilis huggulegur
Ef frá er talið ungæðislegt dálæti mitt á hljómsveitinni ABBA þegar ég var svona sirka 12 og 13 ára þá hef ég einhverra hluta vegna aldrei náð að verða heltekin af persónudýrkun eða aðdáun á listamönnum, stjórnmálamönnum eða öðru málsmetandi fólki. Sennilega er þetta einhver karakterdefekt sem ég bara ræð ekki við, en ég hef oft öfundað fólk sem lifnar allt við og ljómar þegar það ræðir um uppáhalds rithöfundinn sinn, stjórnmálamanninn eða sjónvarpstýpuna sem það elskar þá stundina. Ég hef t.d. aldrei haft nokkurn einasta áhuga á að hitta og ræða við þá rithöfunda sem ég hef lesið mest og stúderað í það og það skiptið. Hefur alltaf fundist bara alveg nóg að lesa eftir þá góða texta og pæla í þeim á alla kanta en einhvernveginn aldrei talið að það að ræða persónulega við manneskjuna myndi bæta miklu við þá upplifun. Þetta þrátt fyrir það að vera í raun ansi forvitin og hafa gaman af að hnýsast í æfisögur, bréf og allskyns viðtöl við fólk.


Á öllum góðum reglum er þó undantekning, og í mínu tilfelli er undantekningin Nelson Mandela. Ekki að ég gangi svo langt að hafa fundið hjá mér knýjandi þörf til að hitta Madibann eða koma honum í skilning um að við sjáum „eye to eye“ varðandi marga hluti og tjá honum aðdáun mína, en samt nægilega til að ég hef alveg tjáð mig um það við mína nánustu að ég beri allt að því takmarkalausa virðingu fyrir honum og finnist hann einhver merkasti maður sem uppi hefur verið. Ég meira að segja gekk svo langt í eitt skiptið sem ég var stödd í Jóhannesarborg að draga veikan eiginmann og unga dóttur með mér í ferð um Soweto (í fylgd með Zimbabvískum leigubílstjóra, sem var tenging okkar við transport um borgina), gagngert til að reyna að fá tilfinningu fyrir því hvernig þetta umhverfi sem ég hafði lesið svo mikið um væri. Þar var einn stoppistaðurinn húsið sem Mandela og Winnie bjuggu í þau fáu ár sem þau lifðu einhverskonar semi eðlilegu fjölskyldulífi áður en hann var fangelsaður. Mér fannst það frekar magnað að koma þarna og þó auðvitað sé búið að gera pínu svona „tourist-trap“ úr málinu þá var þetta undarlega mögnuð upplifun. Mér hefur orðið hugsað til þessa míns eina raunverulega „átrúnaðargoðs“ ef svo má segja núna undanfarið þarsem næsta ljóst er að hann á ekki langt eftir. Eiginlega finnst mér það varla mennskt að geta komið útúr hremmingum einsog þeim sem hann hefur upplifað án þess að vera bitur og ómögulegur. Það er eitthvað ekki alveg af þessum heimi að hafa verið fangelsaður í 27 ár, þar af 18 í hörmungunum á Robben Island, smáður og niðurlægður, svo mjög að vera meinað að vera viðstaddur útför eigin sonar, en missa aldrei fókusinn og trúna á að réttlætið muni sigra. Verð að segja að ég hef áhyggjur af því sem mun gerast í Suður Afríku að Mandela látnum, er svolítið hrædd um að hann sé límið sem hefur haldið því brothætta samfélagi saman og að það fari allt í tóma vitleysu að honum gengnum. En það á svosem eftir að koma í ljós.

En frá persónuleikaröskunum og að bókum og bókmenntum. Ég las fyrir margt löngu æfisögu, svokallaða „authorized biography“ sem mér finnst reyndar alltaf svolítið furðulegt fyrirbæri, svona sem slíkt (en aftur er það önnur saga sem ég nenni ekki að fara útí hér) sem kona að nafni Fatima Meer skrifaði og gefin var út árið 1990. Bókin heitir Higher than Hope og er fín aflestrar. Höfundurinn hafði tekið þátt í frelsisbaráttunni í Suður Afríkur og þekkti m.a. Winnie Mandela úr þeim kreðsum. Hún gat að sjálfsögðu ekki hitt Mandela sjálfan meðan á æfisögurituninni stóð, en byggði að einhverju leyti á gögnum frá honum og fjölskyldu hans sem og auðvitað á upplýsingum úr fjölmiðlum og innan úr ANC. Stuttu áður en bókin kom út, og þar af leiðandi ekki svo löngu áður en Mandela var látinn laus úr fangelsi, fékk hún að hitta hann og fara yfir handritið með honum sem mun hafa orðið til þess að bókin fékk á sig persónulegri blæ.

1994 kom svo út sjálfsæfisaga Mandela, Long Walk to Freedom. Hana hrifsaði ég til mín um leið og hún kom út og las í einum rykk. Hún er ansi mikill múrsteinn, löng og ítarleg, en alveg tímans og vinnunnar virði. Lýsingar á æsku Mandela, árunum þegar hann vann sem lögfræðingur og var að stíga sín fyrstu skref í frelsisbaráttunni eru virkilega áhugaverðar. Það er auðvitað gjörsamlega ótrúlegt að hlutir hafi virkilega verið með þeim hætti sem þarna er lýst og að fólk hafi þurft að búa við þá ógn og ótta sem þorri manna bjó við á þessum tíma í Suður Afríku. Svo hellist yfir mann óraunveruleikatilfinning í miklum mæli þegar kemur að árunum á Robben Island. Hvernig það hafi hreinlega verið hægt að fara í gegnum svona lífsreynslu án þess að fara algjörlega yfir um og skemmast andlega. Einsog ég segi hér að ofan þá er eitthvað allt að því ómennskt við það að hafa svona ofboðslegan fókus og staðfestu.

En auðvitað er Mandela mannlegur og varla fullkominn að öllu leyti frekar en aðrir. Hann lýsir því sjálfur að hafa þjáðst af samviskubiti yfir því að geta ekki sinnt fjölskyldu sinni sem skyldi, og væntanlega hafa börnin hans og ættingjar þurft að færa ansi miklar persónulegar fórnir vegna starfa hans og viðhorfa. Það er alltaf gaman að skoða málinu útfrá fleiri vinklum en einum, þannig að það er áhugavert að skoða ekki bara „authorized“ æfisögur og það sem fólk velur sjálft að segja um sig og sitt lífshlaup. Eins og frægt er þá gat fyrrverandi eiginkona Mandela, Winnie Madikizela-Mandela verið ansi skrautleg (og það ekki bara á jákvæðan hátt) og var viðriðin allskyns hræðilegar gjörðir. Yngsta dóttirin, Zindzi, hefur líka verið milli tannanna á fólki og kannski ekki alltaf farið troðnar slóðir. Fyrir þá sem hafa gaman af slúðri og drama þá er hér hlekkur á grein frá 1993 sem birtist í „The Independent“ um fyrsta brúðkaup Zindziar:

Einsog lesa má þarna þá er umgjörðin öll líkt og úr dramatískri sápuóperu – ekki kannski beint umhverfið sem maður myndi helst ímynda sér Mandela í.

Hérna er svo hlekkur á viðtal við Makaziwe Mandela, sem er elsta dóttir Mandela á lífi (hún átti eldri systur sem hét sama nafni en dó aðeins 9 mánaða gömul). Þetta er aðeins á öðrum nótum en greinin um giftingu Zindziar ! viðtalið var tekið í tilefni af 90 ára afmæli Mandela.

Þó svo að auðvitað væri óskandi að maður einsog Mandela fengi að lifa lengur þá er það kannski ekki líklegt þegar 94 ára gamall maður er jafn veikur og hann virðist vera samkvæmt upplýsingum í fjölmiðlum. Það er bara vonandi að hann hafi kennt mönnum nægilega mikið til að þeir geti fylgt fordæmi hans og haldið áfram að vinna að endurbótum í Suður Afríku, og auðvitað víðar, ekki veitir nú af.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli