Bolli Ernu með Tofslan og Vifslan |
Í tilefni Hinsegin daga drakk Erna Erlingsdóttir kaffið sitt úr Þönguls og Þrasa-bollanum sínum og birti mynd af bollanum á facebook. Í framhaldinu kom greinin sem fylgir hér á eftir til tals, en hún birtist í tímaritinu Börnum og menningu 2/2008. Börn og menning er eina íslenska tímaritið sem fjallar aðeins um barnamenningu, og ekki síst barnabókmenntir, og ég hvet fólk endilega til að kynna sér það og gerast gjarna áskrifendur.
Litbrigði ástarinnar
Í næstsíðasta kafla bókarinnar Pípuhattur Galdrakarlsins eftir Tove Jansson koma tveir smávaxnir kumpánar til sögunnar. Í íslenskri þýðingu bókarinnar heita þeir Þöngull og Þrasi. Þeir hafa leyndardómsfulla tösku meðferðis og eru á flótta undan Morranum. Þöngull og Þrasi tala sitt eigið tungumál „...sem allir Þönglar og Þrasar tala. Það er ekki hver og einn sem getur skilið það, en aðalatriðið er þó, að þeir vita sjálfir hvað þeir eru að segja.“ (Pípuhattur Galdrakarlsins bls. 116).
Tove og fjölskyldan í Múmíndal |
Finnlandssænska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson var 87 ára gömul þegar hún lést árið 2001. Starfsævi hennar náði yfir meira en sjötíu ár. Hún skrifaði ekki eigin ævisögu en í bókum hennar má finna mikið af vísunum í eigið líf og vitað er að ýmsar persónur Múmínálfabókanna áttu sér fyrirmyndir í vinahópi höfundarins og persónueinkenni hennar sjálfrar má finna í sögupersónum í ólíkum verkum. Á síðasta ári kom út mikið verk um ævi Tove Jansson. Höfundurinn, Boel Westin, varði doktorsritgerð um verk Tove fyrir tuttugu árum, þær tengdust vinaböndum og hún fékk frjálsan aðgang að öllum persónulegum pappírum Tove, einkabréfum, teikningum, dagbókum, myndum og fleiru. Bókin er tæpar 600 síður og mikill fjársjóður fyrir þá sem hafa áhuga á lífi og starfi skáldsins og myndlistarkonunnar.
Tove Jansson átti bæði í ástarsamböndum við konur og karla. Eftir þrítugt fór hún að prófa sig áfram á því svæði sem hún kallaði „spöksidan“, eða draugasvæðið og síðar flutti hún sig reyndar alfarið yfir á það svæði og bjó í áratugi með konu. Samkynhneigð var refsiverð í Finnlandi til ársins 1971, Tove Jansson var fædd 1914 og á fimmta áratugnum þegar hún átti fyrst í ástarsambandi við kynsystur sína varð að fara afar leynt með sambandið. Talið er víst að leikstjórinn Vivica Bandler, sem síðar varð leikhússtjóri Sænska leikhússins í Helsingfors, hafi verið fyrsta ástkona Tove. Og þar komum við aftur að Pípuhatti Galdrakarlsins því Boel Westin upplýsir að Tove hafi skrifað samband þeirra tveggja inn í bókina, sem kom fyrst út 1948. Nöfn persónanna sem heita Þöngull og Þrasi í íslensku bókinni, eru í upphaflegum sænskum texta bókarinnar Tofslan og Vifslan, sem voru gælunöfn Tove og Vivicu. Leyndarmálið í töskunni þeirra, sem afhjúpað er í lokakafla bókarinnar, er rúbínsteinn á stærð við hlébarðahöfuð, tákn sjálfrar ástarinnar, sem Morrinn ógnar og girnist.
Ást og ótti
Kaffi múmínmömmu |
Tofslan og Vifslan eru af óljósu kyni í upphaflegu verki Tove Jansson. Um þessar verur er yfirleitt talað í fleirtölu og „de“ getur þýtt hvort sem er þeir eða þær, eða jafnvel þau. Þess má í framhjáhlaupi geta að algengt er að persónur skipti um kyn í þýðingum Steinunnar Briem á Múmínálfabókunum, til dæmis er Morrinn kvenkyns í verki Tove Jansson og Bísamrottan er karlkyns. Þegar Tove Jansson vann að Pípuhatti Galdrakarlsins var hún trúlofuð Atosi Wirtanen, þekktum heimspekingi, skáldi, pólitíkusi og blaðamanni ættuðum frá Álandseyjum. Árið 1946 hittust Vivica Bandler og Tove og urðu ástfangnar. Vivica var gift og samband þeirra varð upphaf mikillar ástarhringekju, fleiri sambönd spiluðu inn í þeirra ástarsamband sem lauk í miklu tilfinningavíti. Í bók Boel Westin er vitnað í ástríðuþrungin bréf sem gengu á milli ástkvennanna og ýmislegt sem Tove skrifaði Vivicu um samband þeirra rataði næstum orðrétt inn í Pípuhatt Galdrakarlsins, sem kom sem fyrr segir út í fyrsta skiptið árið 1948 og varð það verk sem ruddi brautina í bókmenntaheiminum fyrir Tove, jafnt á Norðurlöndum sem alþjóðlegum vettvangi.
Vivica og Tove |
Í sögunni um Þöngul og Þrasa er vöngum velt yfir samhenginu á milli fegurðar, verðmæta og eignaréttar, en þegar öllu er á botninn hvolft má túlka lausnina þannig að það sé ástin sem skipti langmestu máli. Tákn ástarinnar er rúbíninn sem falinn er í töskunni sem óttaslegnu smáverurnar drösla með sér hvert sem þær fara og Morrinn ágirnist og síðar Galdrakarlinn líka. Magnaðar lýsingar á litum eru eitt af einkennum bókmenntaverka Tove Jansson. Hún leit fyrst og fremst á sig sem myndlistarkonu og þegar hún skrifaði sögur var hún líka alltaf með palettuna í huganum. Í síðasta kafla bókarinnar, þegar Þöngull og Þrasi sýna Múmínsnáðanum innihald töskunnar í skógarrjóðri segir: „Litli felustaðurinn fylltist af mildu rauðu ljósi. Í töskunni lá rúbín, stór eins og höfuð á hlébarða, glóandi eins og sólarlag, lifandi eins og eldur og glitrandi eins og vatn. (...) Rúbíninn var síbreytilegur eins og sjórinn. Stundum varð hann næstum hvítur, svo varð hann skyndilega rósrauður eins og snævikrýndur fjallstindur við sólarupprás, og við og við blossuðu upp dökkrauðir logar innst í hjarta hans. Þá varð hann eins og svartur túlípani með fræfla úr litlum neistum.“ (Pípuhattur Galdrakarlsins bls. 134-135).
Snorkurinn, Þöngull og Þrasi |
Bækur sem stuðst er við og vitnað í:
Jansson, Tove: Pípuhattur Galdrakarlsins. Steinunn Briem þýddi úr sænsku. Örn og Örlygur, Reykjavík 1968.
Jansson, Tove: Trollkarlens hatt. Raben och Sjögren, Stokkhólmi, 1997.
Westin, Boel: Tove Jansson. Ord, bild, liv. Schildts, Finnlandi 2007.
Skemmtileg samantekt, en við hana má bæta að persóna sem kemur fyrir í nokkrum bókanna - undir nafninu Tikkatú í íslenskri þýðingu Steinunnar, rólynd persóna sem býr í litlu húsi við höfnina, er ástkona Tove. Á sumrin sigldu þær út í eyju (eyjuna hans múmínpabba)og nutu einverunnar þar.
SvaraEyðaTakk fyrir fábæra grein, Þórdís. Mér hefur einmitt verið sterklega hugsað til Tove undanfarið, sér í lagi eftir að ég fattaði vísanirnar með Þöngul og Þrasa og Tikku-Tú í gegn um frábæra heimildamynd BBC um Tove. Et einmitt að lesa Sumarbókina núna, hún er dásamleg. Deili hlekknum á heimildamyndina. :) http://www.youtube.com/watch?v=tSZKzLHI5wg
SvaraEyðaDauðlangar annars að lesa bókina eftir Boel Westin. Er hún fáanleg á fleiri málum en finnsku?
SvaraEyðaBókin eftir Boel er á sænsku og til í Bókasafni Norræna hússins.
SvaraEyðaSumarbókin er líka hér til umfjöllunar: http://bokvit.blogspot.com/2009/07/sumarbok-tove-jansson.html
Já, las Sumarbókargreinina, hún er afbragð. Og takk fyrir Boelbókarvísunina. :)
SvaraEyðaTakk kærlega fyrir þessa grein!
SvaraEyða