28. september 2013

Nornaminningar

Í sumarbústað í Borgarfirði rakst ég á gamla uppáhaldsbók: Litlu nornina Nönnu eftir Mariette Vanhalewijn með myndum eftir Jaklien Moerman. Bókin kom út 1971 í íslenskri þýðingu Örnólfs Thorlacius. Ég man eftir að hafa haldið mikið upp á þessa bók sem barn en man ekki hvort ég átti hana sjálf eða notaði bara tækifærið til að fletta henni hjá öðrum.

Ég velti því fyrir mér núna hvað það hefur verið sem heillaði mig helst við þesa bók. Hún er rækilega myndskreytt og myndirnar eru mjög fallegar og þá alveg sérstaklega litirnir í þeim. Litanotkunin er eiginlega barasta frábær. Það er einhver svona psychedelic hippastíll á þessum myndum sem ég kann afskaplega vel við. Ég veit svo sem ekki hvort það hefur verið eitthvað sem ég kunni að meta sem barn en ég kunni alla vega að meta fallega liti. Pappírinn í bókinni er hrufóttur með dálítið glansandi áferð og það er einhver skemmtileg tilfinning sem fylgir því að snerta síðurnar með þessum stórkostlegu litum líka. Það eru margir áratugir síðan ég fletti þessari bók síðast en myndirnar voru allar afskaplega kunnuglegar þegar ég sá þær núna.

Söguþráðurinn finnst mér satt að segja heldur þunnur þrettándi við þessi endurkynni mín af honum. Nanna býr í bæ fullum af nornum en er óþekk og mamma hennar sendir hana burt til venjulegra manna þar sem hún á að gera góðverk til að fá að snúa aftur heim. Í mannheimum vill fyrst enginn neitt með hana hafa því hún þykir grunsamleg og skrýtin; hún er með dökk augu (hverjum finnst það ekki vafasamt?) og úfið hár í fátæklegum kjól. Henn tekst svo smám saman að laga sig að venjulega fólkinu; henni er gefinn kjóll og svo hjálpað við að þvo og flétta á sér hárið og þá fær hún á endanum að gera góðverkið langþráða. Eftir að Nanna hefur flysjað fimm fötur af kartöflum kemur mamma hennar og sækir hana. Hver eru skilaboðin hér? Gættu þess að skera þig ekki úr fjöldanum, annars vill enginn neitt með þig hafa? Helsti hvatinn til góðra verka er að forðast refsingu eða hljóta verðlaun, eins og að komast aftur í náðina hjá mömmu sinni?

Fleiri uppáhaldsbækur úr bernsku minni eru eftir sama höfund og teiknara: Prinsessan sem átti 365 kjóla og Gréta og grái fiskurinn. Þar eru líka þessar fallegu og litríku myndir og söguhetjan lítil stúlka sem lærir eitthvað mikilvægt, eins og prinsessan með fatadelluna sem temur sér meiri hófsemi í klæðaburði. Í bókinni um Grétu og gráa fiskinn er fiskurinn ekki síður í aðalhlutverki, en honum finnst svo leiðinlegt að vera grár en ekki skrautlegur eins og hinir fiskarnir. Bókin sú endar á að stúlkan Gréta gefur fiskinum hárborðann sinn til að skreyta sig með. Ég veit ekki hversu vel það hentar fiski sem þarf að geta svamlað um í leit að æti að vera með borða bundinn um sig miðjan, en ánægður var hann nú samt.

Það hlýtur eiginlega að hafa verið stemningin í Litlu norninni Nönnu, ekki síst vegna myndanna, sem heillaði mig við hana. Það er einhver töfraljómi sem stafar af nornum og alltaf gaman að lesa um þær, jafnvel þótt sagan sem slík sé lítt merkileg. Bara nafnið á mannabænum Dindelord finnst mér enn einstaklega skemmtilegt og spennandi og þangað myndi ég vilja koma, jafnvel þótt ég þyrfti að flysja þar fimm fötur af kartöflum. Og nú er rétt að velta aðeins fyrir sér þessu með nornirnar. Sem barn var ég nefnilega haldin miklum ótta við nornir. Kringum 5 ára aldurinn fékk ég ítrekaðar martraðir sem gengu út á að norn væri að elta mig og smeygði sér inn um bréfalúguna heima hjá mér til að ná mér. Í mörg ár gengu hugleiðingar mínar í myrkfælniköstum á kvöldin út á það hvernig best væri að leika á nornir til að komast hjá því að þær færu að ásækja mig að næturlagi. Jafnframt fundust mér sögur af nornum mjög heillandi og finnst eiginlega enn. Sem unglingur spændi ég í mig sögurnar af Ísfólkinu og mér finnst ennþá gaman að lesa um alls konar töfrafólk. Ég efa það ekki að á þessu eru einhverjar djúpar sálfræðilegar skýringar sem ganga út á að maður dragist að því sem maður óttast, eða óttast það sem maður þráir, eða eitthvað slíkt. Kannski er norn tákn fyrir eitthvað sem ég þrái að vera en þori ekki að takast á við. Og kannski er þetta ekki bundið við mig persónulega heldur eitthvað sem má yfirfæra á samfélagið: Nornir eru manneskjur sem taka sér það frelsi að fara út fyrir þann ramma sem við höfum smíðað okkur. Þetta óttumst við og þráum í senn.



1 ummæli:

  1. Einmitt fæ alveg nostalgíu kast þegar ég hugsa um þessar myndir, man líka eftir bók um strák og kött með samskonar myndum, kannski eftir sama höfund.

    SvaraEyða