
Hold er vissulega skilgetið afkvæmi Fullkominnar ljóðabókar, að því leyti að ljóðmælandinn er kunnuglegur og sama hrjúfa yfirborðið einkennir ljóðin. Hins vegar er nýja bókin hnitmiðaðri og röddin eindregnari, hún segir meira en oft í færri orðum. Vaðallinn sem einkenndi fyrri bókina er ekki lengur áberandi, en takturinn verður ekki hægari fyrir vikið heldur þvert á móti þéttari og sterkari.
Undir niðri ríkir alltaf einhvers konar kaldhæðin meðvitund um formið, um fáránleika þess að skrifa ljóð, vera enn ein röddin í kaosinu. Ljóðmælandinn rennir sér inn í fyrsta ljóðið í bókinni með upphitun á lyklaborðinu og mætir opinberlega á svæðið:
"Asdferum við semsagt að skrifa í hvítu núna?
Já
ok
gerum þetta"
(ég óska annars eftir blaðsíðutölum í næstu bók, svo hægt sé að vitna almennilega í textann!)
Röddin á bak við ljóðin vekur gjarnan athygli á sér, leyfir okkur ekki að gleyma því að við sitjum og lesum ljóðabók og stillir þannig takmörkunum formsins í kastljósið: "Ónýt orð. Afhelguð. / Fullkomin og merkingarlaus. / Sjáðu þessi tákn. / Hlustaðu á hljóðin. / Algjörlega merkingarlaus." Stundum ritskoðar röddin sig með stjörnum og við sjáum **** í stað orðanna, stundum ráðskast hún með framvinduna:
"hér er bara auð síða hehe"
Í bókinni er blóð og drulla, ofbeldi, kynlíf, gredda, ljótleiki en líka hversdagsmóment, einhvers slags árekstur milli þess sem er stórt og þess sem er smátt, ómerkilegt. Hið almenna og útþynnta er gjarnan gagnrýnt, eins og í ljóðlínunum hér að neðan, og ég held svona vel á minnst að orðið "Bylgjuhlátur" sé þess verðugt að komast í útbreidda umferð:
"Almennt og létt. Engin svör. Engar
spurningar. Bara dægurmálin
og Bylgjuhlátur
og Bylgjufliss
og Bylgjupiss."
Í mörgum ljóðanna birtist þrá eftir raunverulegri upplifun, eftir einhverju sem maður grillir ekki í innan um allt kaosið og blaðrið:
"Svo upptekin við að taka mynd
af borginni að þau sjá hana ekki
brenna.
af matnum að hann breytist í skít.
af snáknum að þau sjá ekki
stöðug hamskiptin."
Ég talaði um heimsósóma í tengslum við fyrri bókina og vissulega er ennþá til staðar í mörgum ljóðanna fyrirlitning eða eins konar fordæming á ákveðnum þáttum þjóðfélagsins, ákveðinni hegðun eða tilgangsleysi. Enda lifum við á súrrealískum tímum og grunurinn um blekkingu og tilgangslausa leikþætti fótósjoppaða kapítalismans hlýtur að teljast merki um heilbrigðan huga: "Í mörg ár var ég í viðskiptum við Búnaðarbankann, svo Kaupþing Búnaðarbanka, svo KB Banka, svo Kaupþing, svo Nýja Kaupþing og núna Arion Banka, en allan þennan tíma fór ég í sama húsið til að breyta yfirdrættinum mínum í seðla. Núna er ég ekki lengur haldinn þeim ranghugmyndum að við séum í neinum viðskiptum. Þetta er bara staðurinn þar sem ég geymi skuldirnar mínar." En í nýju ljóðunum finnst mér sterkari tilfinning fyrir breyskleika, almennum breyskleika og ekki síst hinu breyska sjálfi. Sjálfshæðni (sem brynja eða vopn?) er gegnumgangandi þráður en enn fremur snörp og óvægin sjálfskrufning. Í einu eftirminnilegasta ljóðinu er lýst niðurlægingu og valdbeitingu í kynlífi og ljóðmælandinn gengst við eigin sök, mætti tala um eins konar mea culpa í ljóðformi, þar sem lýst er normalíseringu niðurlægingar kvenna í gegnum klám, nauðgunarinnrætingu og afbökuðum löngunum. Óþægilegur lestur og situr í manni einmitt þess vegna.
Stundum mætti Bragi hætta fyrr, klára hugsunina fyrr eða kannski öllu heldur treysta því að hún standi fyrir sínu þótt hann strípi hana niður eins og tekst raunar víða í bókinni. Þar eð síðasta bók skáldsins er mér enn í fersku minni var virkilega áhugavert að sjá hversu stórt stökkið er þarna á milli; það er um nóg að hugsa eftir lesturinn og mætti reyndar skrifa lengri pistil, en kona verður víst sjálf að kunna sér hóf og setur hér punkt. Tékkið á Holdi, tékkið á nýjum ljóðum, tékkið á alls konar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli