25. júní 2014

Afmælisbréfin


Undir lok síðustu aldar gætti ég stundum barna fyrir vinahjón foreldra minna. Systkinin voru einkar geðþekk og átti ég margar notalegar stundir með þeim á síðkvöldum við lestur og leiki. Þegar þau voru komin í ró gafst gott tækifæri til þess að blaða í bókakosti húsráðenda sem var ótæmandi brunnur fróðleiks og skemmtunar. Hjónin voru mikið smekkfólk og heimilið á margan hátt ansi ólíkt öðrum sem ég þekkti. Það var nefnilega útlenskt þrátt fyrir að vera staðsett í norðlenskri sveit. Foreldrarnir voru breskir og öll menningarneysla bar þess glögg merki.

Ég hafði aldrei komið til útlanda, intetnetið var ekki til og RÚV og Dagur, staðarblaðið á Norðurlandi, var nánast eina tenging mín við umheiminn. Þegar ég hugsa til baka hafði þessi krókaleið til útlanda líklega meiri áhrif á mig en ég gerði mér grein fyrir á þeim tíma. Þarna lærði ég að meta margt sem síðar kom við sögu á einn eða annan hátt í lífi mínu. Ég las A.J.P Taylor - og man raunar enn setningu sem krotuð var með blýanti á innsíðuna: "Always brilliant, often wrong". Ég smakkaði mince pies, stiltonost og lemon curd í fyrsta sinn. Ég prófaði mig áfram með myntusósu með lambakjöti í stað hinnar hefðbundu rabbabarasultu og lærði að meta breskan jólabúðing. Ég hóf samband við Tallis Scholars, Jan Garbarek og W.H. Auden sem enn sér ekki fyrir endann á.


Emily Watson í hlutverki Jacqueline du Pré.  
Bresku blöðin (af skárri gerðinni) voru keypt inn á heimilið og las mig í gegnum fréttir af spánýjum bíómyndum, bókum og tónlist - auk hrafls úr heimsfréttunum. Eitt var það sem í minningunni yfirskyggði allt annað í bresku dagblöðunum. Eða það var raunar tvennt. Í fyrsta lagi kom út umdeild kvikmynd sem byggði á ævi sellóleikarans Jacqueline du Pré sem lést ung að árum árið 1987 úr MS-sjúkdómnum. Myndin byggði á endurminningum Jackie systur hennar sem sjálf var ágætur flautuleikari, þó svo hún kæmist aldrei með tærnar þar sem systirin hafði hælana. Bókin, sem bar titilinn A Genius in the Family, þótti sérlega óvægin í garð Jacqueline og afhjúpa persónu hennar og viðkvæmar upplýsingar um einkalífið sem sannarlega ættu ekkert erindi fyrir almenningssjónir. Um þetta var mikið skrifað og kvikmyndin þótti jafnvel ganga enn lengra en bókin í því að lýsa Jacqueline sem þunglyndissjúklingi með brókarsótt sem var lífsins ómögulegt að eiga í heilbrigðum samböndum við annað fólk. Ég las aldrei bókina en sá myndina og fannst hún raunar alveg hreint ágæt, þó svo ég viti ekki hversu raunsanna mynd hún gefur af lífi þeirra systra.

Svo voru það Ted og Sylvia. Árið 1998 kom nefnilega út ljóðasafn lárviðarskáldsins Ted Hughes, Birthday Letters. Þar tjáði hann sig í fyrsta sinn um samband sitt við skáldkonuna Sylviu Plath eftir að hún stytti sér aldur árið 1960. Ég hafði aldrei heyrt um þetta fólk en fékk strax óstjórnlegan áhuga á sambandi þeirra og öllu höfundaverki. Þetta virkaði á 17 ára stelpu sem ástarsaga allra tíma - meira að segja Scott og Zelda gátu tekið pokann sinn. Ted og Sylvia höfðu það allt; ástina, óumræðanlegan harm, dauðann og að lokum algjöra tortímingu. Útgáfa ljóðabókar hefur líklega sjaldan vakið eins mikla athygli á síðari árum. Hún var á forsíðum flestra dagblaða, bæði austanhafs og vestan, og umræðan í kjölfarið lagði undir sig ótal dálksentimetra. Það höfðu kannski ekki allir áhuga á ljóðunum sem slíkum, en marga þyrsti í að vita meira um ástarsamband skáldanna og endalokin. Hvað vildi maðurinn nú loksins segja eftir 35 ára þögn?

Ted Hughes og Sylvia Plath árið 1956.

Ég eignaðist Birthday Letters stuttu síðar og las safnið upp til agna oft og mörgum sinnum. Hughes er auðvitað mikill spaði í breskum bókmenntum. Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka, þýðinga og leikrita auk þess sem hann vann töluvert við útgáfu á ritsöfnum annarra nafnkunnra höfunda og skrifaði einar tíu barnabækur. Árið 1956 stofnaði hann í félagi við nokkur önnur ungskáld bókmenntatímaritið St. Botolph’s Review. Í útgáfupartýinu hitti hann hina bandarísku Sylviu sem þá var á Fulbrightstyrk við Cambridge. Hún lýsti því í dagbókarfærslum sínum að Ted hefði verið sérlega glæsilegur á velli:

I met the strongest man in the world, ex-Cambridge, brilliant poet whose work I loved before I met    him, a large, bulky, healthy Adam, half French, half Irish, with a voice like the thunder of god - a singer, story teller, lion, and world wanderer, a vagabond who will never stop.
(Tekið af www.theparisreview.org/)

Ted Huges.
Fyrstu kynni þeirra voru raunar ansi dramatísk og kvöldið endaði á því að Plath beit tilvonandi eiginmann sinn til blóðs. Það virðist þó ekki hafa orðið til þess að draga úr áhuga hans og að nokkrum vikum liðnum gengu þau í hjónaband. Þau áttu saman sjö ár áður en Hughes sleit sambandinu til þess að vera með ástkonu sinni og fljótlega eftir það stytti Plath sér aldur. Í hjónabandinu skiptust vitanlega á skin og skúrir. Þau virðast hafa unnið töluvert saman og aðstoðað hvort annað við að vinna skáldverk sín og koma þeim á framfæri þó svo mögulega hafi Plath lagt meira af mörkum til þess samstarfs.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að margir hafa áfellst Hughes fyrir að hafa ýtt Plath fram af brúninni - eða gera ekki neitt til þess að styðja hana í stríðinu við svarta hundinn og að lokum yfirgefa hana fyrir aðra konu. Plath hafði raunar lengi glímt við alvarlegt þunglyndi og stuttu áður en hún kom til Cambridge hafði hún reynt að stytta sér aldur með því að taka inn svefntöflur. Svo sú saga rekur sig mun lengra aftur. Hughes hefur verið sakaður um að hafa hegðað sér sem óforbetranlegt karlrembusvín og skíthæll í hvívetna. Það er líklega ekki svo fjarri lagi. Þrátt fyrir að hafa stofnað heimili og eignast tvö börn hélt hann hélt áfram að taka virkan þátt í samkvæmislífinu og lyfti ekki litla fingri til þess að sinna börnum eða búi. Plath sá um þá hlið milli þess sem hún vélritaði verk þeirra beggja. Án þess að ég ætli hér sérstaklega að halda hlífiskildi yfir Hughes, þá voru jú flestir karlmenn á sjötta áratugnum karlrembusvín. Enginn gerði athugasemd við það að kona sæti dagana langa og vélritaði það sem streymdi úr hinu þunga höfði eiginmanns hennar. Barnauppeldi og heimilishald hvíldi alfarið á herðum kvenna og þeim var haldið niðri af samfélagi sem gat hvorki né vildi njóta krafta þeirra til fulls. Manni finnst kannski að þetta hefði átt að vera öðruvísi í sambandi Hughes og Plath; að þessir tveir ótrúlega hæfileikaríku höfundar hefðu átt að mætast á einhverskonar jafnréttisgrundvelli en ekki lúta hinu þá þegar útjaskaða feðraveldi í einu og öllu. En þetta var allt eftir hinni gömlu bók.

Þegar Plath dó skildi hún eftir sig mikið af óbirtum ljóðum auk dagbóka sinna og það kom í hlut Hughes að ritstýra þessu efni og búa sumt af því til prentunar. Ekki voru allir á eitt sáttir um hvernig hann komst frá því verki og var honum legið á hálsi fyrir að hafa beitt óhóflegri ritskoðun og margir vildu meina að í gegnum þessa vinnu hafi hann haldið áfram að beita Plath kúgun og andlegu ofbeldi. Hér skal ekkert um það fullyrt en víst er að Hughes kom þeim dagbókum sem Plath hélt síðustu vikurnar áður en hún lést fyrir kattarnef. Sjálfur sagði hann að það hefði eingöngu verið til þess að börnin þeirra myndu ekki sjá hversu illa hefði verið komið fyrir móður þeirra. En líklegt er að hann hafi viljað koma í veg fyrir að umheimurinn fengi að sjá það sem Plath skrifaði um hann sjálfan. Líklega hefur það ekki allt borið honum fagurt vitni.

Birthday Letters blés lífi í allar þessar vangaveltur á ný. Hvort þeirra bar meiri sök á þessari ægilegu ógæfu sem elti þau allt fram í andlátið? Notuðu þau hvort annað? Hvort þeirra var nú sannarlega betri rithöfundur? Fólk leitaði logandi ljósi að einhverju sem hönd á festi í ljóðunum í Birthday Letters. Hugmyndin er falleg. Í safninu er að finna 88 ljóð sem öll gera einhverja tilraun til að varpa ljósi á Plath, höfundinn sjálfan og ástina þeirra í millum. Hughes hafði þagað um árabil, en þó aldrei hætta að hugsa um Plath og var nú tilbúinn að tala. Sem fyrr voru skiptar skoðanir. Sumum þótti hann gera þetta vel, ná að skýra eitthvað og taka svolitla ábyrgð á dauða eiginkonu sinnar. Mörgum pistlahöfundum bresku blaðanna þótti einsýnt að feministar og aðrir gagnrýnendur hefðu farið fram með offorsi á árum áður og hann hefði engan veginn átt skilið þá skelfilegu útreið sem hann fékk í kjölfar dauða hennar. Plath glímdi jú við alvarlegt þunglyndi löngu áður en Hughes kom til sögunar og það voru hennar eigin djöflar sem króuðu hana af út í horn. Aðrir sögðu að hann væri bara að hossa sér á minningu hennar, óverðskuldað að baða sig í ljómanum sem leikur um nafn hennar og biðla til alheimsins um vorkunn. Gagnrýnendunum þótti hann svo sannarlega ekki taka neina ábyrgð á örlögum Plath. Hann væri miklu fremur að þvo hendur sínar og sýna sjálfan sig sem dyggðum prýddan eiginmann sem sýndi henni umhyggju þegar á þurfti að halda. Ef marka má ljóðmælanda var þó erfitt um vik því Plath hafi verið svo þjökuð af geðveiki og þráhyggju í sambandi við föður sinn að allur góður vilji til að sýna henni væntumþykju hafi farið fyrir ofan garð og neðan.

Ég skal ekki segja. Mér finnst í raun allir þessir þræðir birtast í bókinni og hún öðru fremur undirstika hversu flókið þetta allt var og hversu beygluð þau voru í raun bæði á sálinni.

Lárviðarskáldið góða lifði svo sannarlega harmrænu lífi. Eins og áður segir þá yfirgaf hann Plath fyrir aðra konu. Sú hét Assia Wevill og var gyðingur af þýsk-rússneskum ættum sem hafði flúið undan nasistum. Þau áttu í sambandi um nokkurra ára skeið og gerir Hughes þeirra fyrstu kynnum skil í ljóðinu Dreamers í Birthday Letters. Meðan á sambandi þeirra stóð fæddi Wevill dóttur sem heimildum ber ekki saman um hvort var dóttir Hughes eða eiginmanns hennar, kanadíska skáldsins David Wevill. Hughes virðist hafa haldið uppteknum hætti og þekkt er að hann átti í samböndum við tvær nafngreindar konur meðan hann bjó með Wevill. Raunar virðast margir vina hans hafa talið að Wevill væri bara ráðskona og Hughes virðist lítið hafa gert af því að kynna hana sem unnustu sína. Wevill fyrirfór sér árið 1969, á nákvæmlega sama hátt og Plath hafði gert, með því að stinga höfðinu inn í gasofn. Þannig myrti hún líka um leið fyrrnefnda dóttur sína sem þá var fjögurra ára gömul. Árið 2009 stytti Nicholas, sonur Hughes og Plath, sér aldur. Hughes var þá þegar genginn á vit feðra sinna, en hann lést örfáum vikum eftir að Birthday Letters kom út.

Ef maður gúglar nöfnin þeirra spretta upp spáný kommentarifrildi þar sem ljóðaunnendur gera tilraun til að kveða upp um það hvort Hughes hafi verið sannur drullusokkur, Plath raunverulega geðveik og samband þeirra dauðadæmt frá upphafi. Líklega sér ekki enn fyrir endann á þeim kommentahala.

Birthday Letters er enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún rifjar upp minningar úr mínu eigin lífi og hefur hægt og rólega aftengst sligandi óhamingju skáldanna. Ljóðin lifa sjálfstæðu lífi og eru mörg hver alveg frábær – hvað svo manni kann að finnst um raunveruleikann sem þau spretta upp úr.

2 ummæli:

  1. Þegar ég var í námi í Bretlandi fyrir langa löngu og skrifaði ritgerð um ljóð Plath þurfti ég, eðli málsins samkvæmt, að leggjast í rannsóknir á bókasafninu. Ég fékk nett sjokk við að fara í gegnum fræðibækur um málið, ekki af því að efni bókanna væri sjokkerandi, heldur útaf marginalíunni í bókunum. En fjöldinn allur af nemendum/fræðimönnum hafði fundið sig knúinn til að kommenta þvílíkan óhroða um Hughes inn í bækurnar. Það er engin lygi að þessi tvö og þeirra líf og list vekja upp ótrúlega sterkar tilfinningar hjá fólki.

    SvaraEyða
  2. Já, það er ótrúlegur hiti í þessu enn þann dag í dag. Til dæmis hefur hefur "Hughes" nafnið æ ofan í æ verið skrapað af legsteini Sylvíu.

    SvaraEyða