Fyrir rúmu ári síðan bloggaði ég um „young adult“-skáldsöguna Afbrigði eftir Veronicu Roth, fyrstu bók Divergent-þríleiksins svonefnda, en hún var þá nýkomin út á íslensku hjá Bókabeitunni. Önnur bókin, Andóf, kom út á vordögum 2014 og Arfleifð, sú þriðja og síðasta, með haustinu. Magnea J. Matthíasdóttir hefur þýtt bækurnar og farist vel úr hendi.
Sögusviðið er dystópísk framtíðarsýn af Chicagoborg, sem hefur verið girt af frá umheiminum og skipt upp í 5 fylki. Þegnar hvers fylkis hafa sameinast um að grundvalla lífssýn sína á tilteknu sameiginlegu gildi: í einu er það hugprýði, í öðru samlyndi, í hinum þremur fjölvísi, ósérplægni og bersögli. Við sextán ára aldur ganga borgararnir gegnum e.k. manndómsvígslu sem sker úr um hvaða fylki hver og einn eigi raunverulega heima í. Það liggur í augum uppi að auk þess að sameina þegna hvers og eins fylkis um sameiginlegt gildismat verður skiptingin einnig til þess að skapa fjarlægð milli mismunandi fylkja - og ala á þeirri hugmynd að fólk sé virkilega svona einvítt þegar kemur að persónueinkennum (sem bækurnar gera reyndar alls ekki þegar upp er staðið).
Söguþráður þríleiksins er afar þéttur; bækur 2 og 3 taka strax upp þráðinn þar sem næstu bók á undan sleppti. Spennan helst allt til enda og þótt atburðarásin sé hröð kemur hún ekki í veg fyrir að persónur nái að þróast meðan á henni stendur, enda mæta þeim erfiðar ákvarðanir og samviskuspurningar í hrönnum.
Þriðja bókin fannst mér mest spennandi að því leyti að þar verður loksins ljóst – persónum bókarinnar jafnt sem lesendum – hver sagan er bak við skiptinguna í fylkin fimm.
Aðalpersónurnar Tris og Fjarki eru vitundarmiðjur þessarar sögu til skiptis, en í fyrri bókunum var aðeins Tris í því hlutverki. Mér þótti það ljóður á þessari þriðju bók hvað ástarsamband þeirra tveggja var orðið fyrirferðarmikið, á þann hátt að þau voru meira og minna alltaf ýmist ósátt eða að sættast eða á leiðinni að öðru hvoru. Það var hreinlega orðið fyrirsjáanlegt (og leiðinlegt eftir því) hvaða atvik yrðu þeim kveikja að afbrýðisemi eða einhvers konar missætti. Heildarbragur sögunnar hefði grætt á því að slík atvik hefðu verið færri og fyrirferðarminni og það hefði alveg mátt koma dýnamíkinni milli Tris og Fjarka til skila á aðeins lágstemmdari hátt.
Að öðru leyti varð ég ekki fyrir vonbrigðum með þessar seinni bækur þríleiksins og mæli með þeim fyrir unnendur fantasía á öllum aldri.