Fantasíuskáldsagan
Afbrigði eða
Divergent (2011) er fyrsta bók Veronicu Roth, sem skrifaði söguna í vetrarfríi frá Northwestern University í Illinois í Bandaríkjunum og ku hafa selt kvikmyndaréttinn að henni fyrir útskrift.
Afbrigði er nýlega komin út í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur hjá Björt bókaútgáfu, þeirri undirdeild forlagsins Bókabeitunnar sem einbeitir sér að útgáfu bóka fyrir stálpaða unglinga og ungmenni. Hér er m.ö.o. á ferðinni fantasía sem fellur undir skilgreininguna
young adult eða bækur ætlaðar ungum fullorðnum, og eins og gjarnan vill verða um slíkar bókmenntir í dag er um þríleik að ræða; önnur bókin,
Insurgent, kom út árið eftir og
Allegiant á þessu ári. Þrátt fyrir YA-stimpilinn tel ég samt óhætt að segja að allir sem á annað borð kunni að meta góðan fantasíuskáldskap ættu að hafa gaman af þessari.
Afbrigði er dystópía með sögusvið í Chicagoborg ótilgreindrar framtíðar. Undangengnir atburðir, sem ekki eru skilgreindir mikið nánar, hafa orðið til þess að heimsskipulagið eins og við þekkjum það í dag er liðið undir lok og nýtt tekið við ‒ eða að minnsta kosti í Chicago, því veröldin handan borgarmarkanna er persónum bókarinnar jafn mikil ráðgáta og lesendum.
Chicago hefur á sögutíma verið skipt upp í fimm fylki, sem hvert um sig er grundvallað á tilteknu gildi sem íbúarnir telja lykilinn að farsæld. Í Bersögli halda hin hreinskilnu til, í Ósérplægni þau óeigingjörnu, í Hugprýði eru hin hugrökku, í Samlyndi hin friðsælu og íbúar Fjölvísi meta visku ofar öllu. Á einum stað í bókinni er þetta reyndar skýrt út frá þeim neikvæðu gildum sem stofnendur fylkjanna hafi talið helstu hömlur framfara og velsældar; hin hreinskilnu töldu það óheiðarleika, hin ósérplægnu græðgi o.s.frv. Þó er ekki svo að skilja að fólkið sem fæðist í tilteknu fylki sé endilega hallt undir gildi þess umfram hinna fylkjanna frá náttúrunnar hendi, eða heilaþvegið í uppvextinum, heldur þurfa ungmennin að velja sér fylki þegar 16 ára aldri er náð ‒ annað hvort geta þau haldið kyrru fyrir með fjölskyldu sinni, eða fært sig um set. Fylki er ofar blóði, svo nýtt fylki felur í sér lítil sem engin tengsl við fyrri tilveru. Ekki er heldur gefið að allir komist gegnum inntökuferlið; sumir verða fylkisleysingjar og draga fram lífið á fylkjamörkum við bág kjör.
|
Veronica Roth er 25 ára gömul. Engin pressa. |
Þessi áþreifanlega flokkun fólks eftir mismunandi eiginleikum og gildismati minnti mig strax á Harry Potter og hin mismunandi heimavistarhús Hogwartsskóla. Þó eru fylkin í
Afbrigði frábrugðin Hogwarts að því leyti að ekkert þeirra er í eðli sínu yfirgnæfandi slæmt eða gott. Auðvitað er það einföldun að ætla að skilja eitt lífsgildi á borð við hugrekki eða sannleiksást frá öllum öðrum, en persónurnar læra líka fyrr en seinna að ekkert er svo svarthvítt í reynd. Sjálfsvald krakkanna til að velja sér fylki finnst mér líka mun áhugaverðara en einhver galdraflokkunarhattur og bjóða upp á ýmislegt spennandi í karakterþróun og siðferðisþroska persónanna. Svipað og í
Hunger Games sögunum (en þó kannski ekki alveg eins beinlínis brútalt) þurfa aðalpersónan Tris, fædd inn í Ósérplægni, og félagar hennar að hætta lífi og limum og sanna styrk sinn í ýmsum þrautum til að komast gegnum inntökuferlið í fylkið sem þau samsama sig með, og færri eru útvöld en kölluð.
Í stuttu máli sagt er ég afar spennt fyrir næstu bók og hæstánægð með
Afbrigði, sem ég átti erfitt með að leggja frá mér ókláraða. Hátt í 500 síður hafa sannarlega ekki alltaf liðið eins hratt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli