24. júlí 2015

Spennandi og dystópísk furðusaga

Á eyjunni Hrímlandi eru galdraöfl og seiðmagn náttúrunnar samofin daglegu lífi. Eyjan lýtur ógnarstjórn Kalmar-samveldisins, en íbúarnir þrá sjálfstæði. Höfuðborgina Reykjavík byggir mannfólk og huldufólk, marbendlar og náskárar. Náinn samgangur manna og huldufólks er litinn hornauga og blendingsbörn eru úrhrök samfélagsins. Óháð kynþáttum eiga íbúarnir þó sameiginlega óbeit sína á ofríki stjórnvalda.

Hrímland, fyrsta bók Alexanders Dans Vilhjálmssonar, er dystópísk fantasíu- og furðusaga sem sækir efnivið m.a. í íslenskan þjóðsagna- og menningararf. Eins og allar góðar dystópíu- og fantasíusögur hefur hún beitta samtímaskírskotun með pólitískum undirtónum, en hrímlenskt samfélag er staðsett í einhverskonar hliðarveruleika við okkar íslenska. Sögusviðið, að mestu í Reykjavík og nágrenni, er gamalkunnugt öðrum þræði en úrvinnslan um leið nýstárleg og fersk. Ég vil ekki fara náið út í sögusviðið eða -þráðinn, enda felst hluti lestraránægjunnar í að kynnast aðstæðum frá fyrstu hendi í lýsingu höfundar, en sagan er vel upp byggð, þétt og spennandi. Persónur eru margslungnar, mannlegar og sympatískar – einkum aðalpersónurnar tvær; Sæmundur óði, ungur og metnaðargjarn galdramaður og Garún, uppreisnargjörn blendingsstúlka á jaðri samfélagsins.
Alexander Dan Vilhjálmsson

Hrímlandi var vel tekið þegar bókin kom út fyrir jólin 2014. Frumsamin tónlist Árna Bergs Zoëga, sem fylgir bókinni á geisladiski, er ómstríð og hæglátlega áleitin og hæfir sögunni vel. Þetta er í stuttu máli spennandi furðusaga sem alls konar lesendur ættu að geta haft gaman af, hvort sem þeir eru þegar aðdáendur furðusagna eða ekki.

20. júlí 2015

Sænskur hryllingur fyrir sumarfríið

Kristina Ohlsson í góðum gir
Það er vert að taka það strax fram að ef einhver er að leita að notalegum reyfara sem gerist á sveitasetri í Englandi og hvar böndin berast að brytanum þá er Davíðsstjörnur ekki rétta bókin. Ef verið er að leita að ofbeldisfullum og þunglyndislegum reyfara þar sem rannsóknarmaðurinn er hvítur, miðaldra, alkóhólíseraður karlmaður og í sífelldum útistöðum við yfirmenn sína þá er Davíðsstjörnur ekki heldur rétta bókin. Hér er sem sagt hvorki um að ræða líkindi við Agatha Christie, Jo Nesbö né Henning Mannkell. Þetta er hins vegar frekar óþægileg og afskaplega spennandi bók – svo ef lesandinn er að leita að slíku þá er Davíðsstjörnur rétti sumarreyfarinn!

9. júlí 2015

Óvenjulegur hryllingur frá Naja Marie Aidt

Naja Marie Aidt
Skæri, blað, steinn er fyrsta skáldsaga dönsku skáldkonunnar Naja Marie Aidt en áður hefur hún gefið út fjöldann allan af smásögum, ljóðum, barnabókum og öðru efni á um 20 ára rithöfundaferli sínum. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafn sitt, Bavíani, árið 2008 sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2011 og ég skrifaði nokkur orð um hér! Sem fyrr er það Ingunn Ásdísardóttir sem þýðir afskaplega vel þótt ekki skilji ég af hverju titillinn er þýddur Skæri, blað, steinn þegar bókin heitir Sten saks papir á frummálinu.

Eins og hin frábæra Bavíani er Skæri, blað, steinn þykk af andrúmslofti – þungu, óþægilegu andrúmslofti. Það fylgir textum Aidt þessi næstum óbæriega fullvissa um að eitthvað andstyggilegt sé yfirvofandi. Nú mætti spyrja af hverju lesandinn ætti að kvelja sig með lestri slíks texta en ástæðandi er sú að samfara óþægindunum er eitthvað ótrúlega heillandi við skrif Aidt – heillandi og ófyrirsjáanlegt – maður hefur sterklega á tilfinningunni að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast – en hvað og hvernig það gerist veit maður ekki og finnur sig knúinn til að lesa áfram og komast að því.