8. mars 2019

Endalokin og ástin á lífríki jarðar

Í tilefni þess að þriðja loftslagsverkfallið fór fram á Austurvelli fyrr í dag datt mér í hug að það væri upplagt að henda í blogg um eina eftirminnilegustu bókina sem ég las á síðasta ári, sænsku unglingabókina Slutet (sem þýða mætti sem Endalokin) eftir Mats Strandberg. Mats er íslenskum unglingabókaaðdáendum að góðu kunnur frá því hann skrifaði Cirkeln-þríleikinn ásamt Söru Bergmark Elfgren. Fyrstu bækurnar tvær, Hringurinn og Eldur, komu út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur en þriðja bókin, sem hefði með öllu réttu átt að heita Lykillinn á íslensku, var því miður aldrei gefin út. (Spældum bendi ég á að bókin er til í enskri þýðingu sem er hægt að fá lánaða á Borgarbókasafninu eða kaupa á Amazon.)
Slutet segir frá síðustu vikunum í lífi unglinganna Simonar og Lucindu en þau segja söguna til skiptis. Formáli hennar gerist síðla vors þegar þær fréttir berast að hinn gríðarstóri loftsteinn Foxworth stefni á jörðina, muni lenda á henni á tilteknum degi í byrjun hausts og eyða þar öllu lífi á örfáum mínútum. Hin eiginlega saga hefst svo þegar það eru 4 vikur og 5 dagar í heimsendi. Kærasta Simonar, Tilda, hefur sagt honum upp þar sem hún vill ekki vera í sambandi þessa síðustu mánuði og hann er í ástarsorg. Milli þess sem við fylgjumst með villtu líferni Simonar, sem fer eins og flestir aðrir unglingar í partý öll kvöld, lesum við skilaboð sem Lucinda sendir út í geiminn í gegnum appið #TellUs, forrit sem var sett upp í von um að einhvern tímann í framtíðinni verði til einhverjar lífverur sem muni uppgötva skilaboðin og geti þannig fræðst um lífið fyrir Foxworth.
Þegar um 4 vikur eru í heimsendi hverfur Tilda og finnst síðar látin með áverka á höfði sem benda til þess að hún hafi verið myrt. Þar sem fæstar samfélagsstofnanir virka á þessum tíma – það vilja jú fáir eyða vikunum áður en heimurinn ferst í vinnunni – þykir ólíklegt að það náist að upplýsa málið. Grunur beinist þó að Simoni enda var hann bæði sá sem hafði síðast séð Tildu og þykir hafa haft ástæðu til að drepa hana þar sem hún eldurgalt ekki ást hans. Flestir í bænum snúast gegn honum, vinir hans þar á meðal, og ásakanir í hans garð flæða um samfélagsmiðla. Simon sér fljótlega að hann verði sjálfur að leysa gátuna til að hreinsa nafn sitt. Þegar leiðir hans og Lucindu, gamallar vinkonu Tildu, liggja óvænt saman ákveður hún að taka þátt í leit hans að sannleikanum.
Í raun má skipta frásögninni upp í tvennt. Annars vegar er það glæpasagan um hver hafi myrt Tildu og hins vegar rammafrásögnin um yfirvofandi endalok heimsins. Glæpasagan er því miður ekki nógu vel unnin. Hún er allt of einföld og plottið minnir á köflum meira á söguþráðinn í bók fyrir 10–12 ára. Simon og Lucinda fara og tala við fólk og allir gefa þeim upplýsingar nokkurn veginn mótstöðulaust. Þannig púsla þau saman nýrri mynd af lífi Tildu og komast að ýmsu um hana sem þau ekki vissu áður – sem reynist þó á endanum ekki hafa neitt með dauða hennar að gera. Að lokum kemur lausnin upp í hendurnar á þeim á algjörlega átakalausan hátt og án nokkurrar spennu. Í þessum hluta sögunnar þvælist frásagnarformið líka svolítið fyrir. Sögumennirnir, Simon og Lucinda, eyða þarna miklum tíma saman og eru því oft að segja frá sömu atburðum sem verður dálítið endurtekningasamt og þreytandi.
Rammafrásögnin er aftur á móti afar vel unnin og áhrifarík. Þar er dregin upp sannfærandi mynd af samfélagi í upplausn og lífi á heljarþröm þrátt fyrir að tæknilega sé allt eins og áður, sólin skíni og fuglarnir syngi. Í gegnum þennan hluta sögunnar er varpað fram mikilvægum spurningum um tilgang lífsins og hvers virði lífið sé þegar við munum hvort eð er öll deyja. Um leið er þessi hluti líka alveg skelfilegur aflestrar og ég ímynda mér að fleiri en ég upplifi djúpstæðan kvíða við að lesa um yfirvofandi heimsendi þar sem allir einstaklingar á jörðinni vita nákvæmlega hvaða dag og jafnvel klukkan hvað þeir muni deyja.
            Hugtakið cli-fi kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2013 en það er notað yfir þær bækur sem fjalla með einhverjum hætti um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Eins og glöggir átta sig sjálfsagt á er það samsett úr orðunum climate (loftslag) og sci-fi (vísindaskáldsaga). Sennilega er einfaldast að tala bara um loftslagsbókmenntir á íslensku – þótt mér hafi reyndar fundist ég ógeðslega sniðug þegar ég bjó til þýðinguna hlýsindaskáldsaga (hlýnun jarðar + vísindaskáldsaga). Samkvæmt skilgreiningunni er Slutet ekki loftslagsbók því það er alveg ljóst að loftsteinninn Foxworth er ekki á nokkurn hátt á ábyrgð mannkynsins. Engu að síður dylst sennilega fæstum lesendum bókarinnar að markmið hennar er að endurspegla umræðuna um hlýnun jarðar. Það er reyndar bara einu sinni minnst á loftslagsbreytingar í bókinni en þá á svo áhrifamikinn hátt að sjálf upplifði ég það eins og blauta tusku í andlitið. Þar segir (í lauslegri þýðingu undirritaðrar):

Plánetan okkar er í betra ásigkomulagi núna en hún hefur lengi verið. Við erum hætt að senda mat og hluti yfir jörðina þvera og endilanga. Verksmiðjum sem heimtuðu orku og ældu út mengun [...] hefur verið lokað. Við erum hætt að fljúga og keyrum bíl sjaldnar, notum bara brotabrot af því rafmagni sem við þörfnuðumst áður.
Við hefðum kannski getað bjargað umhverfinu ef við hefðum gert þetta fyrr.
Það sem þurfti til var sem sagt loftsteinn.“ (s. 126)

Mats Strandberg hefur sjálfur útskýrt að bókin hafi verið hans leið til að takast á við loftslagskvíða. Í viðtali við tímaritið Metro sagði hann meðal annars: „Vandinn við loftslagsvána er að hún er svo abstrakt og stór og ferlið tekur svo langan tíma. Það er auðvelt að loka augunum fyrir henni. Ég vildi gera hugsunina um endalok heimsins áþreifanlega.“
Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi heppnast. Sjálfri hefur mér alla vega aldrei liðið svona illa af að lesa bók og ég var oft ekki alveg viss um að ég myndi komast í gegnum hana. Eftir að hafa lesið lokakaflann – sem endar á því að Simon, Lucinda og fjöldi annarra bæjarbúa ganga út úr kirkjunni eftir næturlanga samveru, út í hvíta birtuna frá loftsteininum, og bíða þess sem verða vill – þurfti ég fyrst að liggja í svona hálftíma uppi í rúmi og gráta og svo að fara í langan göngutúr til að reyna að hreinsa hugann og minna mig á að í raunveruleikanum stefndi enginn loftsteinn á jörðina. Mesta óhugnaðinn hristi ég af mér á nokkrum dögum en ýmsar aðrar tilfinningar sitja enn eftir nú nokkrum mánuðum síðar. Eftir að ég las Slutet hef ég nefnilega verið gagntekin af ást á jörðinni, á öllum dýrunum sem hér búa, plöntunum sem spretta að því er virðist af sjálfu sér, öllum þessum ótrúlegu vistkerfum sem eru undirstaða alls lífs á þessari stórfenglegu plánetu. Ég áttaði mig nefnilega á því þegar ég las bókina að minn eigin dauði er í raun afskaplega ómerkilegur í hinu stóra samhengi hlutanna. Og kannski eigum við, þetta gráðuga, skammsýna mannkyn, ekkert betra skilið en að þurrkast út. En ekkert dýr og engin planta verðskuldar þau örlög. Hvalirnir eiga skilið að fá að halda áfram að hringsóla um höfin, býflugurnar að flögra suðandi milli blóma með frjókorn á loðnu bakinu og sveppirnir að teygja hatta sína upp úr skógarbotninum. Það skiptir öllu máli.
Við erum svo ótrúlega heppin að það skuli ekki loftsteinn stefna á jörðina, að við höfum í raun og veru nokkur ár til að afstýra því stórslysi sem frekari hlýnun jarðar mun valda. Getum við plís bara reddað þessu?

6. febrúar 2019

Þreyjum þorrann með pottaplöntum!

Það eru ekki mörg sumur (garðáhugafólk telur auðvitað árin í sumrum) síðan ég varð forfallin plöntuáhugakona. Raunverulegur áhugi kviknaði sennilega með fyrstu fjölæru plöntunni sem var gróðursett í garðinum – ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað hún gladdi mikið þegar hún stakk upp kollinum næsta vor! Fram að því hafði ég verið sú kona sem drap jafnvel kaktusa úr þurrki (eða öðru mótlæti) og skyldi engan veginn af hverju fólk gaf blóm þegar það gat gefið súkkulaði, vín eða bækur! En nú er ég sem sagt komin með græna fingur og tókst meira að segja að gleðjast (svolítið) yfir vætunni síðasta sumar því hún var svo góð fyrir gróðurinn (alla vega fram í júlí – svo fóru sumarblómin að mygla). 

7. desember 2018

Sveinarnir, rannsóknin og miðlunartillaga mömmu


Þegar ég var lítil neitaði ég algerlega að taka þátt í því að lokka hrekkjótta karla inn í svefnherbergið mitt. Þrátt fyrir möguleika á mandarínum. Miðlunartillaga mömmu var að skórinn sem allt snérist um færi upp í glugga í stofunni og ég lokaði hurðinni vel inn til mín. Ef mamma vildi hætta á að fá einhverja leppalúða í heimsókn þá var það hennar mál. Þetta situr svo fast í mér að krakkarnir mínir hafa aldrei verið spurð að því hvort þau vilji hafa skóinn úti í glugga hjá sér. Þeir eru bara í stofunni.

Þjóðfræðingurinn Benný Sif Ísleifsdóttir tekur sitt fyrsta jólabókaflóð með áhlaupi. Hún er með tvær bækur í ár, annars vegar skáldsöguna Grímu sem hún hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir og hins vegar barnabókina Jólasveinarannsóknin sem fjallar einmitt um samviskuspurninguna um skóinn, traustið og foreldrana. 

Jólasveinarannsóknin er spennandi og skemmtileg frásögn sem ætti að höfða til ungra krakka sem eru með skó úti í glugga. Henni er skipt upp í 13 kafla sem hver er mátulegur að lengd fyrir kvöldlestur þá þrettán daga sem jólasveinarnir eru á gluggunum. Og minnir þannig á klassískar jólasveinabækur eins og Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur og Búa Kristjánsson. Jólasveinarannsóknin er þó kirfilega staðsett í nútímanum og söguhetjurnar Baldur, Elías og Hjörtur notfæra sér snjalltæki þegar þeir reyna að veiða jólasveina, eitthvað sem allir á Íslandi ættu mögulega að vera búnir að tileinka sér eftir fréttir síðustu viku!

Það er stóra spurningin sem hefur brunnið á íslenskum börnum: „jólasveinar eða foreldrar?“ sem strákarnir eru að reyna að svara. Strákarnir gera sér algerlega grein fyrir því að það verður að vera óyggjandi sönnun og helst myndskeið því þá kemst maður í Krakkafréttirnar og verður frægur. Benný fléttar inn í fjöruga frásögnina umfjöllun um örugga notkun á snjalltækjum og þá sérstaklega hvort það sé í lagi að taka upp og dreifa myndum af fólki, þó að það séu jólasveinar, án þess að spyrja um leyfi. Það tekst nokkuð vel til með að opna augu ungra lesenda fyrir þessu mikilvæga málefni án þess að Benný missi niður dampinn í frásögninni, sem betur fer, því fátt er leiðigjarnara en umvandanir og puttar á lofti í barnabókum.

Það er frábært að skrifa bækur sem höfða sérstaklega til stráka og mikið hefur verið rætt um vöntunina á slíku efni. Það er nokkur galli hvað stelpur koma lítið við sögu í Jólasveinarannsókninni. Þær eru tvívíðir óþolandi bekkjarfélagar í fjarlægð og hafa ekki mikil áhrif á frásögnina fyrr en í blálokin – en koma þá sannarlega sterkar inn. Bók sem höfðar til stráka þarf samt ekki endilega að þýða bók án stelpna.

Skemmtilegar myndir eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur prýða Jólasveinarannsóknina en mér fannst samspil mynda og texta ganga vel upp og styðja hvort annað.

Nú nálgast fyrsti jólasveinninn byggðir og ég hlakka til að eiga lestrarstund með stráknum mínum og Jólasveinarannsókninni á hverju kvöldi til jóla. En fyrst munum við setja skóinn út í gluggann.
Í stofunni.

4. desember 2018

Ástir og örlög á Rue de Fleurus, Sellandsstíg og Sólvallagötu

Það er sjö stiga frost í Reykjavík og kominn sá tími að manni finnst varla birta af degi áður en myrkrið er aftur skollið á. (Þegar þetta loks birtist hefur reyndar hlýnað, svo allrar nákvæmni sé gætt, en myrkrið blífur.) Ég á að vera að skrifa fyrirlestur en hef svo litla eirð í mínum beinum, nenni varla að næra mig á öðru en mandarínum, gríp tilviljanakennt í bækur og er byrjuð á öðru bókablogginu á viku.

Ég hefði líklega ekki sett Að eilífu, ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen í jólabókabunkann (þótt hver rithöfundur með sjálfsvirðingu myndi drepa fyrir þetta skáldanafn) ef ég hefði ekki frétt út undan mér að hún fjallaði um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Um það gefur káputextinn ekkert uppi, þar eru mjög óræðar yfirlýsingar um „dimma sali bak við djúprauð flauelstjöld“, líf sem „fléttast saman“ og „mikil og afdrifarík átök“, en framan á kápunni er myndabankaleg ljósmynd af konu með samkvæmisgrímu og Eiffelturninn í baksýn; vissulega hefur Parísardvöl afgerandi áhrif á líf annarrar aðalsöguhetjunnar, en þetta segir manni ekkert um bókina. Ég segi ekki að hún hefði þurft að heita Forboðnir ávextir og líta svona út

en það má kannski eitthvað á milli vera.

Hvað um það – „mikil og afdrifarík átök“ er í sjálfu sér ekki ónákvæm lýsing, því hér er nóg af hasar og drama. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar, Elín, elst upp á Íslandi en fer ung utan að læra fatasaum, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París. Þar kynnist hún hinu ljúfa lífi, þar á meðal fyrrnefndum „dimmum sölum bak við djúprauð flauelstjöld“ þar sem karlar eru með körlum og konur með konum og hefðbundnum kynhlutverkum er ögrað (það bregður meira að segja fyrir heimboðum hjá Gertrude og Alice á Rue de Fleurus). Elín eignast kærustu en eftir nokkur vandræði í ástamálum endar hún í Aþenu, þar sem hún gengur í sýndarhjónaband með samkynhneigðum karlmanni og eignast með honum barn, áður en hún snýr aftur heim til Íslands sem einstæð móðir.

Í Reykjavík millistríðsáranna takast síðan ástir með Elínu og Þórhöllu, ungum ljósmóðurfræðinema. Meðfram saumaskapnum fer Elín að skrifa sögur og ljóð og inn í ástarsögu hennar og Þórhöllu blandast ýmsar flækjur tengdar bróður Þórhöllu, bókaútgefandanum Þórði, og skáldaferli Elínar. Saga Elínar og Þórhöllu kallast svo á við þann hluta bókarinnar sem gerist í nútímanum; Þórhalla er þá orðin háöldruð kona á elliheimili, Alexander sonur Elínar er sjálfur kominn á níræðisaldur og gruflar í sögu móður sinnar, en einnig fáum við sjónarhorn Siggu, trans konu sem vinnur á elliheimilinu þar sem Þórhalla býr og hefur gefið upp vonina um að verða prestur.

30. nóvember 2018

Hundrað orða þöggun

Það misrétti sem konur hafa verið beittar gegnum aldirnar hefur meðal annars birst í þöggun þeirra. Það eru ýmsar leiðir til að þagga niður í fólki, meðal annars er hægt að láta það líta út fyrir að vera ómarktækt, gefa til kynna að það hafi ekkert merkilegt að segja, og neita þannig að taka mark á því. Slík afstaða hefur líka samfélagsleg áhrif: ef einhverjir sem eru í valdastöðu og almennt er hlustað á gefa ítrekað í skyn að tiltekinn einstaklingur eða hópur fólks sé ekki marktækur þá smita slík viðhorf út frá sér til annarra. Viðkomandi fólk fer jafnvel að trúa því sjálft að það hafi ekkert merkilegt að segja. Í það minnsta þá gefst fólk gjarnan upp á því að reyna að tjá sig ef það rekur sig ítrekað á að það er ekki á það hlustað hvort sem er.

Þöggun er ágæt aðferð til að bregðast við óþægilegum gagnrýnisröddum. Ef við viljum ekki þurfa að hlusta á gagnrýni á ríkjandi kerfi þá er yfirleitt árangursríkt að kveða raddirnar niður og það er oft þægilegri aðferð en að standa í því að svara þeim. Stundum er fólki haldið niðri með hræðslu, þ.e. ef það má búast við refsingu fyrir það að tjá skoðanir sem koma sér illa fyrir valdhafa, en oft er hunsun ekki síður árangursrík leið til að útiloka gagnrýnisraddir. Svo er hægt að hæðast að hópnum sem þagga á niður í og grafa þannig undan trúverðugleika hans.

Í dystópísku skáldsögunni Vox eftir Christinu Dalcher hafa raddir kvenna verið kæfðar með mjög svo bókstaflegum hætti. Sögusviðið er Bandaríkin á óræðum tíma, en miðað við aðstæður má vel ímynda sér að þetta eigi að gerast eftir fáein ár eða áratugi. Trúarofstækismenn hafa náð auknum völdum undir einræðissinnuðum forseta. Afleiðing af því er að réttindi kvenna hafa að mestu leyti verið afnumin. Þær mega ekki lengur vera úti á vinnumarkaði heldur eiga þær að vera fyrirmyndarhúsmæður, eignir þeirra eru skráðar á eiginmenn þeirra, getnaðarvarnir hafa verið teknar af markaði og meðgöngurof að sjálfsögðu bannað, kynlíf utan hjónabands er bannað og konum sem stunda það er grimmilega refsað (en ekki körlunum) og samkynhneigt fólk er fangelsað og sett í einhvers konar endurhæfingarheilaþvott. Það sem er svo sérstaklega einkennandi er að konum hefur verið úthlutaður talkvóti þannig að þær mega aðeins mæla 100 orð á sólarhring. Til að tryggja hlýðni þeirra við þessar reglur eru þær látnar bera sérstök armbönd með teljara sem gefa þeim raflost ef orðafjöldinn fer yfir 100. Tölvur, bækur og skriffæri eru kirfilega læst inni þar sem einungis karlar hafa aðgang að þeim og myndavélar fylgjast með til að tryggja að konur svindli ekki á orðakvótanum með því að tala táknmál.

Aðalsöguhetja bókarinnar, Jean, hefur áður starfað sem málvísindakona og stundað mikilvægar rannsóknir á málstoli. Sagan er sögð frá sjónarhorni hennar, þar sem hún er full reiði yfir nýju hlutskipti sínu sem undirgefin úthverfahúsmóðir sem fær ekki að tjá sig. Sonur hennar á unglingsaldri hefur teygað Kool-Aidið frá trúarnötturunum og messar reglulega yfir henni um hið sanna hlutverk konunnar og eiginmaður hennar virðist frekar uppburðarlítill gagnvart öllu saman. Hún hefur miklar áhyggjur af ungri dóttur sinni og áhrifum þess á þroskaferil hennar að fá ekki að tjá sig. Svo fer ýmislegt að gerast sem ekki verður tíundað hér til að skemma ekki plottið fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina. Ég verð þó að játa að mér fannst söguþráður bókarinnar helst til reyfarakenndur og lausnir of einfaldar til að geta verið almennilega trúverðugar. Ekki að ég sé endilega mótfallin reyfurum, en miðað við þær safaríku hugmyndir og samfélagsádeilu sem lagt er upp með fannst mér plottið verða allt of rýrt og tækifæri vannýtt til að koma áhugaverðum hlutum á framfæri. Og það var eitthvað við ritstílinn sem pirraði mig, það var eitthvað þvingað við hann.

Sem sagt er þetta bók sem felur í sér gríðarlega áhugavert sögusvið sem hefði mátt gera mun meira við en var gert. Þöggun kvenna er viðfangsefni sem er einkar mikilvægt. Miðað við orðræðu sem verður iðulega vart við í kringum okkur, hvort sem um er að ræða alþingismenn á börum, reiða karla í kommentakerfum eða hugsunarlausa unglingsstráka, er það bara nokkuð útbreidd skoðun að konur eigi ekkert að vera að þenja sig. Samfélagið sem lýst er í Vox er því miður ekkert svo langsótt.

Heill sé Angústúru, lengi lifi Angústúra!

Þegar ég kom heim frá útlöndum í vikunni beið mín pakki. Ég er farin að kannast við þessa nettu hvítu pakka en þeir koma mér einhvern veginn alltaf á óvart – ég hef aldrei verið í bókaklúbbi áður og er enn óvön slíkri heimsendingarþjónustu á sérvöldum gæðabókmenntum. Upp úr nýjasta pakkanum kom bók með þeim fagra titli Etýður í snjó eftir Yoko Tawada (ekki að ég viti hvað etýða er, en orðið er afar hljómfagurt), í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Mér telst til að þetta sé sjötta bókin í áskriftarseríu hins unga forlags Angústúru, en serían hóf göngu sína á síðasta ári og er ein gleðilegasta viðbótin við íslenska bókmenntaflóru á síðustu misserum.

Tvær bækur komu út árið 2017: Veisla í greninu (annar glæsilegur titill) eftir mexíkanska höfundinn Juan Pablo Villalobos í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur og Einu sinni var í austri eftir kínverska höfundinn Xiaolu Guo í þýðingu Ingunnar Snædal. 2018 var fyrsta fulla starfsár bókaklúbbsins, með fjórum útgefnum bókum: Allt sundrast eftir Nígeríumanninn Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, Sæluvíma eftir hina bandarísku Lily King í þýðingu Ugga Jónssonar, smásagnasafnið Sakfelling eftir norður-kóreskan rithöfund undir dulnefninu Bandi í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og loks fyrrnefnd bók japanska höfundarins Yoko Tawada.

Af þeim fimm bókum sem ég er búin að lesa voru heilar þrjár í sérstöku uppáhaldi. Það var í fyrsta lagi Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo, sem var jafnframt fyrsta bókin úr seríunni sem ég las. Ég fékk hana í afmælisgjöf en var dálítið lengi að koma mér að því að lesa hana; einhvern veginn stóð ég í þeirri trú út frá káputextanum að hún sækti í goðsögur eða þjóðsögur, sem mér finnst yfirleitt frekar leiðinlegar bókmenntir, en komst síðan að því að svo var ekki, heldur er þetta býsna raunsæisleg frásögn af oft heldur nöturlegum aðstæðum aðalsöguhetjunnar, frá því hún elst upp hjá afa sínum og ömmu í bláfátæku kínversku fiskiþorpi á áttunda áratugnum og þar til hún flytur til Bretlands sem ungur rithöfundur og byrjar að skrifa bækur á ensku.

Xiaolu Guo vandlega dúðuð
Frásögn hennar af bernskuárunum er eftirminnileg og var stundum erfið aflestrar, sérstaklega lýsingarnar á ömurlegu lífi hinnar kúguðu ömmu hennar, en stíllinn er látlaus og húmorinn kaldhæðinn. Ég hafði sérstaklega gaman af köflunum í seinni hluta bókarinnar um tilraunakenndu listasenuna í Beijing um 1990; sögukonan verður meðal annars vitni að ólöglegum líkamslistargjörningum við Kínamúrinn þar sem einn listamaðurinn sviptir sig klæðum, grefur holu í jörðina og hefur ofsafengin mök við móður Jörð – síðan mætir lögreglan á staðinn. Xiaolu Guo kom til Íslands í sumar og talaði fyrir troðfullu húsi í Veröld. Hún er sjúklega töff týpa og það var gaman að fá tækifæri til að sjá hana og horfa á heimildarmynd hennar um fyrstu utanlandsferð foreldra hennar, sem eru jú líka persónur í bókinni.

18. nóvember 2018

Bókin með brjóstdropunum

Um helgina hefur rignt mjög mikið í Reykjavík. Í ljósi þess, og að auki var ég með hálsbólgu og hæsi, var alveg upplagt að eyða dögunum aðallega í rúminu með heimiliskettinum og nýrri bók. Ég er með stafla af glænýjum bókum til taks og búin að lesa nokkrar. Bókin sem ég las á meðan rigningin buldi á súðinni er Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson og hún gerði helgina enn betri en annars hefði verið - annað sem var skemmtilegt var að þrátt fyrir raddleysið fór ég í útgáfuboð vegna bókar Alexanders Dans, sem heitir Vættir, en það er önnur saga.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt við bækur sem ég les er að þær fái mig til að hugsa, láti einhver óvænt fræ spíra í huganum og að þær hafi rödd sem talar til mín, röddina má auðvitað líka kalla stíl. Röddin í Sorgarmarsinum finnst mér alveg sérlega þægileg. Aðalpersónan, sem heitir Jónas eins og syndugi maðurinn í Gamla testamentinu sem gat sofið í maga sjávarspendýrs eða mögulega risastórs fisks, er einrænn maður. Það er varla hægt að kalla hann einmana því einsemdin er sjálfvalin. Hann dvelur í sumarhúsi frænda eiginkonu sinnar í jaðri þorps á Austfjörðum og fæst við að krota nótur í minnisbók og skrifa auglýsingar fyrir auglýsingastofu í Reykjavík. Jónas er í persónulegum ógöngum, honum leiðist vinnan og hjónaband hans er að sigla í strand. Hann er raunar ekkert að spyrna á móti því eða vinna í sínum málum eins og það er oft kallað. Hann virðist líta á það sem óhjákvæmilegt að eiginkonan, Anna, hitti annan mann, enda hefur hún oft sagt að Jónas nærist á óhamingju, sem er ekki þægilegur eiginleiki hjá sambýlismanni.

Það er kannski klisjukennt að tala um rauðan þráð, en samt ... rauði þráðurinn í þessari bók er sköpunarþörfin. Jónas hlustar á fjölbreytta tónlist, umhverfishljóð og fuglasöng og notar það sem hann heyrir sem innblástur í eigin tónverk, sem munu samt að líkindum aldrei verða flutt. Minnisbókinni glatar hann líka í skógræktarlandi en hann fær sér aðra og heldur áfram að kompónera. Á vegi Jónasar verða ýmsar persónur sem eru andstæður hans eða jafnvel spegilmyndir, svona eftir því hvernig maður kýs að túlka söguna; nefna má kaupmann þorpsins, sem fer til tónlistarborgarinnar Salzburgar heimaborgar Mozarts höfundar Sálumessunnar frægu, þar sem hann deyr skyndilega og listmálara sem hefur lagt penslunum og palettunni og ræktar gulrætur í stórum stíl.

Sorgarmarsinn er ekki löng, hávær, fjörug eða stórkarlaleg bók, enda ekki við því að búast af höfundinum, en hún fór dásamlega vel með norsku brjóstdropunum sem eru á náttborðinu mínu og ég náði alveg sérstöku sambandi við bugaða sögumanninn Jónas.

30. október 2018

Prjónað meðfram jólabókaflóðinu

Nú er jólabókaflóðið skollið á og mig svimar af hamingju yfir öllum yndislestrinum sem fram undan er. En eitthvað verður kona að hafa fyrir stafni þau kvöld sem hún dettur í sjónvarpsgláp, þær stundir sem hún situr barnlaus í strætó, meðan hún hlustar á hljóðbækur og já – mér detta svo sem ekki í hug fleiri staðir og stundir þar sem ég gæti með góðu móti prjónað – en það geta vonandi aðrir - til dæmis má prjóna jólagjafir! Fyrir tæpu ári síðan áskotnaðist mér dásamleg dönsk bók sem heitir Kærlighed paa pinde – hér er engin erótík í spilunum heldur er þetta bók um prjónaskap. Það sem meira er – þetta er bók eftir einn uppáhalds prjónahönnuðinn minn –  Lene Holme Samsöe (hér eftir nefnd LHS). 

14. mars 2018

Barnagæla

Þetta er eins konar ritfregn, sprottin af því að þegar ég var að segja mínum góðu vinkonum í Druslubókum og doðröntum frá því að bók sem ég hefði lesið nýlega „hlyti að fara að koma út á íslensku“ kom í ljós að viðkomandi bók var þegar komin út á íslensku, það hafði bara algjörlega farið framhjá mér. Mér rennur blóðið til skyldunnar að forða öðrum frá sömu örlögum.

Um er að ræða bók eftir fransk-marokkóska rithöfundinn Leïlu Slimani sem heitir Barnagæla í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar og kom út hjá Forlaginu í haust. Hún fjallar um hjón í París sem eiga tvö lítil börn. Upphaflega er móðirin heima með börnunum en síðan fer hún aftur út á vinnumarkaðinn og þá ráða þau til sín barnfóstruna Louise, sem tekur síðan æ meira pláss í lífi þeirra og endar á að rústa því, eins og er ljóst frá fyrstu blaðsíðu.

Ég las bókina í enskri þýðingu, sem Lullaby, og allavega í umfjöllun um þá útgáfu virðist hún oft vera kynnt sem einhvers konar spennusaga. Það er vissulega spenna í henni, en það er líka töluvert öðruvísi stemmning og pælingar í þessari bók en hefðbundnum þrillerum. Ég myndi segja að eitt meginþemað í Barnagælu væru flóknar krossgötur stéttar, kyns og uppruna sem grundvöllur misskiptingar í samfélaginu – mun þyngri undiralda en í bókum eins og Gone girl og Girl on the train, sem ég hef séð nefndar til sögunnar í sama samhengi.

Ég fílaði Barnagælu frekar vel. Mér fannst Leïlu Slimani takast vel að sameina þessa óhugnanlegu og spennandi sögu annars vegar og hins vegar óþægilega og frekar þrúgandi mynd af stöðu kvenna í (allavega frönsku) nútímasamfélagi. Ég mæli semsagt með því að fólk noti tækifærið og lesi hana í íslenskri þýðingu.

8. janúar 2018

Afrek ársins 2017: Lestrardagbókin

Ég lít á það sem eitt af afrekum mínum árið 2017 að hafa í fyrsta sinn á ævinni tekist að halda skrá yfir bóklestur minn. Lykillinn að því reyndist vera að skrifa svolitla umsögn um allar bækurnar og upplifun mína af þeim, sem jók á lestraránægjuna og gerði það skemmtilegra að rifja bækurnar upp eftir á. Ég gaf stjörnur eins og sannur bókmenntagagnrýnandi – en held reyndar að ég hafi þjáðst af dálítilli stjörnuverðbólgu, sérstaklega framan af, og hyggst mæta með sveðjuna reidda til höggs í lestrardagbókinni á nýju ári. (Fyrsta bókin sem ég opnaði eftir áramót, ævisaga Patriciu Highsmith eftir Andrew Wilson, sem er búin að vera mörg ár ólesin uppi í hillu, er að reynast býsna slöpp, þannig að það ætti að auðvelda mér að sýna fulla hörku strax í upphafi.)

Samkvæmt mínum útreikningum las ég fimmtíu og eina bók á árinu sem var að líða, rétt tæplega bók á viku, sem mér sýnist mun minna en hjá mörgum af lesóðum facebookvinum mínum, en mér finnst samt bara fínt. Ég taldi bækur sem ég las utan vinnu (og ég skilgreini skrif mín um íslenska klámsögu sem vinnu, þótt lítt launuð séu, og tel því ekki með bækur á borð við Kynblendingsstúlkuna frá 1970) og sem ég kláraði. Þar af voru 33 skáldsögur, tvö smásagnasöfn, tíu ljóðabækur og fimm bækur óskáldaðs efnis. Meirihluti bókanna voru eftir íslenska höfunda, eða 27 bækur, næstu þjóðlönd voru Svíþjóð, Bandaríkin og Portúgal með 4-5 bækur hvert, en það var skammarlega lítið um bækur frá löndum utan Evrópu og Bandaríkjanna – aðeins ein eftir rússneskan höfund, ein frá Chile og ein frá Suður-Kóreu. Það hallaði nokkuð á konur í höfundahópnum; 21 bók var eftir konu en 29 eftir karla.

Það hafði einhver áhrif á fjölda íslenskra höfunda og fjölda karlhöfunda að í ár ákvað ég – einnig í fyrsta sinn – að lesa allar skáldsögur tveggja höfunda, og bækur eftir þessa tvo höfunda tróna í efstu sætum yfir

uppáhaldsskáldsögurnar mínar árið 2017: 

Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá 1981
Gæludýrin eftir Braga Ólafsson frá 2001

20. desember 2017

Bakarísglæpir um jólin

Þau hafa ekki dregið veitingarnar frá skatti
Við sonur minn höfum fallið kylliflöt fyrir sænskri bókaseríu sem Forlagið hefur gefið út undanfarin ár eftir rithöfundinn Martin Widmark og myndskreytinn Helenu Willis. Bakarísráðgátan er fjórða bókin í æsispennandi flokki um spæjarana og vinina Maju og Lalla en þau leysa hvert glæpamálið á fætur öðru í heimabæ sínum, Víkurbæ. Um þessa seríu er ekkert nema gott að segja, þetta eru bráðfyndnar bækur og mjög hvetjandi fyrir litla lestrarhesta sem og þá sem ekki eru byrjaðir að lesa sjálfir. Letrið er stórt, myndirnar mjög skemmtilegar og efnið afar spennandi. Þá spilla ekki fyrir litrík götukort af Víkurbæ og teikningar af aðalpersónum en við flettum mikið fram og tilbaka – bæði til að athuga hvert söguhetjurnar voru að fara eða hvaðan þær voru að koma á kortinu og líka til að skoða myndir af hinum grunuðu og athuga hvort þar leyndust einhverjar vísbendingar um innra atgervi (svo var ekki).

30. október 2017

„Hvernig sefur þú“ er pappírslistaverk!

Sem barn var ég ekkert sérstaklega hrifin af myndabókum – þótt þær væru auðvitað margar góðar höfðu þær þann galla að klárast of fljótt. Þó hafa þær auðvitað stytt mér stundir áður en farið var að lesa fyrir mig flóknari bækur og áður en ég fór sjálf að lesa. En óhjákvæmilega hefur fennt yfir fyrstu bókaárin og minningunni lúta þau í lægra haldi fyrir Astrid Lindgren, Múmínálfunum, Anne-Cath. Vestly, Ole Lund Kirkegaard og fleiri meisturum. En á síðustu árum hefur afstaða mín til myndskreyttra bóka gjörbreyst og loksins er ég farin að kunna að meta þau sjálfstæðu listaverk sem metnaðarfullar myndaskreyttar bækur geta verið. Og nú sit ég hér í hægindastól heimilisins og les til skiptis fyrir fimm ára og eins árs – sjaldnast sömu bækurnar en sumar fallegar myndabækur eiga þó greiðan aðgang að báðum börnum og þá er líka skemmtilegt fyrir þann eldri að geta lesið takmarkaðann textann í myndabókum fyrir litlu systur.

Olivia Cosneau á góðri stundu
Eina slíka myndabók rak á fjörur okkar þriggja um daginn en það er ný bók sem Angústúra þýðir og gefur út, Hvernig sefur þú? eftir Olivia Cosneau og Bernard Duisit. Olivia sér um myndir og texta en Bernard pappírshönnun sem er svo sannarlega einn stærsti hluti verksins og samvinna þeirra tveggja dásamleg. Olivia hefur myndskreytt bækur í yfir áratug og þau Bernard unnið alla vega tvær slíkar saman svo nú er bara að vona að við fáum að njóta hinnar líka. Á heimasíðu Forlagsins er Guðrún Vilmundar skráð fyrir þýðingunni en ég sé þær upplýsingar raunar ekki á bókarkápu. Þetta er ægifögur bók sem þessi fimm ára kallar “Origami-bókina” og sú nafngift er kannski ekki alveg úr lausu lofti gripin því þetta er vissulega listaverk úr pappír. Á hverri síðu legst eitthvað dýr til svefns og textinn útlistar athöfnina nánar – svo er hægt að toga í flipa og þá hringar kötturinn sig, kóalamamma faðmar litla kóalabjörninn, apinn sveiflast í trénu og svo framvegis. Þetta er ekki flókið en pappírsteikningarnar eru afskaplega fallegar og meira að segja fullorðnu fólki (alla vega mér) finnst ennþá gaman að toga í flipann hjá kengurunni og sjá litla ungan stinga kollinum upp úr poka móður sinnar – hvar hann sefur.Hin bókin sem Olivia Cosneau og Bernard Duisit
unnu saman

20. september 2017

Hér hefur kúasmali verið á ferð: Sigurður Pálsson látinn

Vegalengdir og skógarbotn

Salthnullungar, ætlaðir kúnum, þær sleiktu þessa steina hægum tungustrokum, sleiktu sér salt í kroppinn sinn hlýja og stóra.

Salt. Fjögra stafa orð. Ef ég væri beðinn um skilgreiningu á kjarna lífsins myndi ég skrifa þetta orð. Lífið er ekki saltfiskur, lífið er salt.

Rak kýrnar eftir slóðanum, hugsaði: merkiði slóðina vel með þyngslalegum skrokki ykkar og klunnalegu fótum með hörðu klaufum.

Merkiði götuna, þrykkið nærveru ykkar niður í svörðinn svo mín tilvist komist til skila líka, svo framtíðin sjái að hér hefur kúasmali verið á ferð.(Úr Bernskubók, 2011)

11. ágúst 2017

Meiri glæpi - minni ást!


Sumri hallar því miður, sest er sól en sumarið hefur að vanda verið tími glæpa og ofbeldis þegar kemur að bókalestri. Rebus og Jimmy Perez fylgdu mér úr hlaði í vor og nú hefur Nóra Sand tekið við en hún er (eins og Perez) á framfæri Bókaútgáfunnar Uglu. 

Nóru er að finna í Stúlkunum á Englandsferjunni, sem er ekki beinlínis frumraun dönsku skáldkonunnar Lone Theils á ritvellinum en vissulega hennar fyrsta bók. Áður starfaði hún sem fréttaritari Berlinske Tiderne og Politiken í London í fjölda ára. Bakgrunn sinn í blaðamennskunni nýtir Theils prýðisvel í bókinni en aðalsöguhetjan, Nóra, er einmitt fréttaritari fyrir skáldaða tímaritið Globalt. Eins og Theils starfaði Nóra m.a. í Kosovo og Norður Írlandi og sakamálið sem Nóra reynir að leysa byggir á sönnum atburðum en þar með lýkur sem betur fer samanburðinum enda lendir Nóra í ansi kröppum dansi.

Sagan hefst á því að Nóra fjárfestir í gamalli tösku sem hún finnur í antíksölu í smábæ í Englandi. Í töskunni finnast svo ljósmyndir af stúlkum, þar á meðal tveimur stúlkum sem hurfu á ferju frá Danmerkur til Englands fyrir áratugum. Forvitni Nóru er vakinn og nánari athugun leiðir í ljós tengsl milli töskunnar og sérlega óhugnanlegs bresks fjöldamorðingja sem situr í lífstíðarfangelsi fyrir morð á ungum konum. 

14. apríl 2017

Stírur, hárflækjur, hrukkur og sviti

Það er alltaf gaman þegar skáld gefur út sína fyrstu ljóðabók. Ég er hálfgerður þjóðernissinni fyrir hönd ljóðsins (ég veit það blasir við að skrifa ljóðernissinni en kommon, maður hefur smá sjálfsvirðingu) og gleðst jafnan yfir nýjum fylgismönnum við málstaðinn. Enn meiri er þó gleðin þegar skáld sendir frá sér ljóðabók númer tvö, sem sýnir fram á ákveðið þolgæði og gefur til kynna að viðkomandi hyggist halda þessu tímafreka rugli til streitu.

Eitt af þeim fjölmörgu skáldum sem gáfu út sína fyrstu ljóðabók árið 2015 var Vilborg Bjarkadóttir, sem sendi frá sér bókina Með brjóstin úti og var meðal þeirra sem sat fyrir rafrænum svörum í ljóðaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta af því tilefni. Eins og fram kemur í viðtalinu – og titill bókarinnar sjálfrar gefur raunar vísbendingu um – er Með brjóstin úti mjög líkamleg bók, nánar tiltekið kvenlíkamleg. Hún fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar í lífi nýrrar manneskju, um það hvernig móðir býr til barn og barn býr til móður. Rétt fyrir jól 2016 sendi Vilborg síðan frá sér aðra ljóðabók, Líkhamur, sem á það meginþema sameiginlegt með fyrri bókinni að fjalla um líkamann, en er að öðru leyti töluvert ólík henni.

[Innskot: Ég var búin að skrifa heilt bókablogg um ljóðabókina Líkham þegar ég fór að skoða facebooksíðu útgefandans Sæhests og komst að því að þar er hún kölluð örsagnasafn. Ég tek þessu hins vegar bara sem dæmi um hið sveigjanlega eðli ljóðsins og held mínu striki.]

10. apríl 2017

Óvinsæl kona

Þessa dagana er ég með vinnuaðstöðu í bókmenntahúsinu í Åmål, tíu þúsund manna bæ í Dalslandi í Svíþjóð. Við hliðina á dyrunum að skrifstofunni minni hangir plakat í ramma sem auglýsir viðburð sem átti sér stað á hótelinu hér í bænum í september 2014. Þar kynnti rithöfundurinn Sigrid Combüchen bók sem hún skrifaði um umdeilda konu frá Åmål. Ég kannaðist við höfundinn en ekki við umdeildu konuna Idu Bäckmann frá Åmål. Á plakatinu er mynd af alvarlegri konu með hönd á hægra brjósti, stellingin minnir smávegis á Napóleon og er líklega mjög óvenjuleg fyrir miðaldra konu á ljósmynd frá því snemma á síðustu öld. Forvitni mín kviknaði, ég fór að gúggla og fann ýmislegt á netinu og hlustaði á útvarpsþátt þar sem Ida Bäckmann kemur við sögu og svo náði ég mér í bókina og las hana í einum rykk (ég fann hana í hillu hér í við dyrnar hjá mér, rétt hjá plakatinu í rammanum).

Ida Bäckmann var óvenjuleg og illa liðin kona. Hún fæddist 1867 í Åmål og dó ekki langt hérna frá árið 1950. Ida var dóttir málarameistara, hún fékk að mennta sig, fór til Stokkhólms í stúlknaskóla og tók stúdentspróf. 22ja ára gömul, árið 1889, rakst hún á skáldið Gustaf Fröding í lystigarði í Karlstad. Þau hittust varla, hún sá hann bara, en þessi viðburður sneri lífi konunnar algjörlega á hvolf. Fröding hafði á þessum tíma ekki gefið út ljóðabók, hann var 29 ára og þekktur blaðamaður í Karlstad og það var slúðrað um ólifnað hans, en unga stúlkan heillaðist og varð ekki söm.

Árið 1890 gerðist Ida barnakennari og næstu fimmtán árin eða svo stundaði hún kennslu og skólastjórn og var óvinsæll kennari. Hún virðist algjörlega hafa verið með Fröding á heilanum, hún tók upp bréfasamband við hann og fór síðan að umgangast hann og var stöðugt með hann í sjónlínunni og skiptandi sér af honum. Hún gaf út bók árið 1898 sem virðist vera einhvers konar lykilskáldsaga um drykkjubolta sem líkist Fröding mjög en bókin varð upphafið að höfundarferli Idu Bäckmann.

Árin 1891 og 1894 komu út ljóðabækur eftir Gustaf Fröding sem slógu í gegn og fleiri bættust við næstu árin. Síðan hefur hann haft þjóðskáldsstatus og var orðaður við Nóbelsverðlaun skömmu áður en hann dó. Fröding dvaldi langtímum saman á hælum og stofnunum og var augljóslega vanhæfur til margs sem venjulegt fólk þarf að sinna, hann dó árið 1911 rétt fimmtugur. Ida gerðist hins vegar fréttaritari víða um heim, hún skrifaði smám saman margar bækur, var hædd og smáð af mörgum og endaði sem hænsnabóndi í sænskri sveit og dó, eins og fyrr sagði, árið 1950.

Gustaf Fröding. Hann dó fimmtugur.
Ida Bäckmann þótti laus við þá eiginleika sem álitnir eru hæfa músum listamanna. Hún var hvorki kvenleg, fögur né leyndardómsfull, heldur var hún sögð forljót, uppáþrengjandi og nöldurgjörn. Hún þótti allt of ófríð og óskáldleg til að verjandi væri að hún elskaði stórskáld og séní. Það kemur víða fram í heimildum samferðamanna að hún var lítil, rauðhærð og þótti almennt óaðlaðandi. Gustaf Fröding líkti henni við afa sinn, sem þótti minna á álf eða furðudverg. Hrifning Idu af Fröding virðist merkilega lítið upphafin, hún var ekki skáldlegur skýjaglópur eða bókmenntagreinandi heldur praktískt þenkjandi kona sem kunni að taka til hendinni. Ida Bäckmann var ástfangin af skáldinu og hún ætlaði að bjarga honum með skynsemi sinni, redda honum úr ógæfunni með umhyggjusemi og góðu atlæti. Hún virðist hafa álitið að hún gæti komið Fröding af geðveikrahælinu, læknað hann af lífsstílstengdum kvillum og óviðeigandi greddu til vændiskvenna og haldið honum réttu megin við strikið ef hún fengi til þess tækifæri. Hún ætlaði sem sagt að bjarga tilfinningalega vanhæfri fyllibyttu sem skrifaði pornógrafísk ljóð – kannski ekkert mjög óvenjulegt við það? Einu sinni játaði Ida Bäckmann meira að segja bónorði plantekrueiganda frá Suður-Afríku með því skilyrði að hún eignaðist hús í Afríku og fengi að halda Fröding uppi. Að þessu gekk vonbiðillinn en hann dó úr taugaveiki áður en kom til brúðkaups og Ida fékk ekki tækifæri til að láta reyna á björgunarhæfileika sína. Að endingu þótti hún til svo mikilla vandræða að læknar Gustafs Frödings og systir hans, sem hafði verið vinkona hennar, harðbönnuðu henni að umgangast stórskáldið. Frá 1904 var henni alfarið bannað að koma á geðdeildina í Uppsölum.

6. apríl 2017

Það er svo sannarlega eitthvað sem stemmir ekki

Ég skammast mín dálítið fyrir að skrifa aldrei um neitt annað en sænskar bækur inn á þessa síðu. Þegar ég lauk við sænsku skáldsöguna Det är något som inte stämmer eftir Martinu Haag fyrir örfáum dögum var ég því fljót að ákveða að ég myndi ekki skrifa bókablogg um hana. Ekki bara vegna þess að bókin er sænsk og ég ímynda mér að allir séu búnir að fá nóg af pistlum um sænskar bækur - heldur líka vegna þess að ég ímyndaði mér að akkúrat þessi tiltekna bók ætti sérlega lítið erindi við íslenska lesendur. Það kom mér því ekki lítið á óvart þegar ég átti erindi í bókabúð daginn eftir að lestrinum lauk og sá að einmitt þessi bók er nýkomin út á íslensku. Það er eitthvað sem stemmir ekki heitir hún í þýðingu Kristjáns H. Kristjánssonar og það er MTH útgáfa á Akranesi sem gefur út.

Bókin segir frá rithöfundinum Petru sem tekur að sér að vera skálavörður í óbyggðum nyrst í Svíþjóð. Það kemur fljótlega í ljós að hún hefur flúið til fjalla í kjölfar erfiðs skilnaðar og eftir því sem frásögninni vindur fram taka að fléttast inn í hana minningar Petru um andarslitrur hjónabandsins og tímabilið eftir að Anders, maðurinn hennar, fór frá henni fyrir aðra konu.

15. desember 2016

Setur allt á hvolf og gerir allt svo sýnilegt og berskjaldað: Viðtal við Elínu Eddu

Kjarni epla
er harður.
Kjarni lífsins
er harðari.
Þess vegna
á að bíta laust í kring
og mæta hörðu með mýkt.

Tennur vita
margt.

Þær kenna mér
eitt og annað:

Bíta saman.

Stefnan er
einhvers staðar
á milli okkar.

Ljóðið Stefnuleit er að finna í nýlegri ljóðabók skáldsins Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í haust (en þess má geta að Elín Edda stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og hefur líka gert stórfallegar bókakápur fyrir Partus, yfirútgáfu Meðgönguljóða). Druslubækur og doðrantar tóku Elínu Eddu tali um nýju bókina hennar.

Sæl Elín Edda, til hamingju með nýju bókina! Þú hefur gefið út tvær bækur áður – myndasögurnar Gombra og Plöntuna á ganginum (sem Salka skrifaði um hér). Var það öðruvísi reynsla að gefa út ljóðabók? 

Sæl Kristín Svava og kærar þakkir fyrir.

 Já, það var svolítið öðruvísi. Ég gaf líka myndasögurnar út hjá Nóvember, sem er myndasöguútgáfa sem við Elísabet Rún, systir mín, rekum. Plöntuna á ganginum skrifaði ég og teiknaði með Elísabetu og við sáum sjálfar um allt í tengslum við útgáfuna. Gombri er síðan hugarfóstursonur minn sem varð að mjög persónulegu verki, myndasögunni Gombra.

Ljóðabókin Hamingjan leit við og beit mig finnst mér agaðri að forminu til. Ég hugsaði líka ekki um útlit hennar. Mér fannst að vissu leyti erfiðara að koma fram sem ljóðskáld. Ég leyndi því t.d. lengi að ég væri að skrifa ljóð.

Og er ljóðagerðin öðruvísi en mynd- og myndasögulistin – ertu að nota sömu stöðvarnar í heilanum? Hefurðu verið lengi að skrifa ljóð? 

Mér finnst hugmyndirnar koma frá stað sem ég kalla undirmeðvitundina. Ég treysti mikið á hana. Textinn í myndasögunum kemur yfirleitt eins og ljóðin. Undirmeðvitundin veit hvað ég er að bralla hverju sinni og frá henni koma textar við myndir eða ljóð.

Mér finnst myndirnar sem ég geri oft byggðar á tilraunastarfsemi og mistökum. Myndlistin er meira tengd líkamanum.

25. nóvember 2016

Að veigra sér ekki við að vera viðkvæmur og opinskár: Viðtal við Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur

veröldin hverfur
bak við snjóþekju
á gluggum

hverfa bílar
hverfa strætóskýli

í takt við vindinn
dansa blýantar
á hvítum pappír

hverfa götur
hverfur fólk

eftir örskamma stund
boða ljóðin brottför
upp til skýjanna

Í byrjun október komu út þrjár nýjar ljóðabækur í seríunni Meðgönguljóð undir merkjum forlagsins Partusar, sem er að verða einn afkastamesti ljóðaútgefandi landsins. Ein af þessum bókum er Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur sem hefst á ljóðinu hér í upphafi: För. Druslubækur og doðrantar tóku þetta nýbakaða ljóðskáld rafrænu tali á dögunum.

Sæl Jóna Kristjana og til hamingju með nýju bókina! Skýjafar er þín fyrsta ljóðabók hefurðu verið að skrifa ljóð lengi? 

Sæl Kristín Svava, þakka þér kærlega fyrir og takk fyrir að taka mig í viðtal. Ég held ég hafi fengið virkilegan áhuga á ljóðaskrifum þegar ég var unglingur, svona ellefu, tólf ára, en ég hef skrifað allskyns texta síðan ég var stelpa. Þegar ég var fimm eða sex ára fengum við tölvu á heimilið og ég varð alveg heilluð af Microsoft Word. Eftir það þurftu foreldrar mínir lítið að hafa fyrir mér, held ég.

Skrifarðu líka annars konar texta? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? 

Ég er í BA-námi í íslensku HÍ með ritlist sem aukagrein og námið mitt snýst því mikið um að skrifa. Þar fæ ég tækifæri til að skrifa smásögur, örsögur, ljóð og jafnvel leiktexta, en líka ritgerðir og annan hagnýtan texta og mér finnst það ekki síður skemmtilegt. Ég hef prófað að skrifa smásögur og byrjaði á mörgum skáldsögum þegar ég var yngri en kláraði þær aldrei. Mér finnst ég hafa meira frelsi þegar ég skrifa ljóð, þar er ekki gerð krafa um söguframvindu eða lógik. Ég hef alltaf verið afspyrnu léleg í því að fylgja þræði og heillast t.d. meira af myndvísi og góðri persónusköpun í skáldsögum en hasarspennandi söguþræði. Eitt ljóð getur verið heimur út af fyrir sig. Þess vegna heilla ljóðin mig.

22. nóvember 2016

Sprækir bangsafeðgar gleðja fullorðna og börn!

Þriðja kvöldið í röð er ég beðin um að lesa “skemmtilegu bókina um bangsana” og það er auðsótt mál því þótt ég verði mögulega orðin örlítið leið á bókinni eftir þrjátíu skipti í viðbót er enn nóg að skoða og margt nýtt til að taka eftir við hvern lestur.

Nú fyrir jólin gefur hið glænýja bókaforlag Angustúra út stórskemmtilega barnabók eftir hinn franska Benjamin Chaud. Bókin ber nafnið Bangsi litli í sumarsól og það er Guðrún Vilmundardóttir (sem einnig var að stofna nýtt bókaforlag – Benedikt, allt að gerast í bókaforlaga bransanum) sem þýðir yfir á hið ástkæra ylhýra. Chaud þessi er margverðlaunaður barnabókahöfundur og hefur gert nokkrar bækur um spræku bangsa-feðganna sem eru aðalsöguhetjurnar í Bangsa litla í sumarsól. Sú fyrsta þeirra, Une chanson d'ours (sem mætti þýða sem Söngur bjarnarins) spratt upp úr óperuplakati sem Chaud var fenginn til að teikna og hefur hún notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á yfir 20 tungumál. Í skemmtilegu viðtali sem lesa má hér segist höfundurinn teikna margar litlar myndir, litlar sögur og raða þeim svo saman í eins og púsluspili. Það liggur því í augum uppi að vinnan við hverja mynd hlýtur að vera gríðarleg og sjálfur segir höfundurinn: „[…] sometimes I ask myself, “What possessed me to make a book with so many people and details?”… and then I draw someone I know, doing something silly in the corner of a page, and I end up laughing to myself over my work.“

11. nóvember 2016

„Þess vegna lokaði ég sársaukann inni og fór“ – af æviminningum Ástu Sigurbrandsdóttur

Bókadruslan sem hér pikkar á lyklaborð varði febrúarmánuði síðastliðnum í Sysmä, um 4 þúsund manna bæ tæpa 200 kílómetra norður af Helsinki. Þar var:

- mikið af snjó
- enn meira af trjám
- mýgrútur af sumarbústöðum niðri við
- mjög stórt stöðuvatn
- tveir veitingastaðir (sem voru lokaðir á kvöldin (þó að sennilega gegni öðru máli um sumarkvöld))
- einn bar (sem er samt eiginlega rútubiðstöð sem selur kaffi og meððí og áfengi, og var heldur ekki opinn á kvöldin)
- eitt hótel
- engir sjáanlegir ferðamenn
- reisulegt timburhús að nafni Villa Sarkia, byggt við upphaf síðustu aldar sem íbúðarhús bankastjóra bæjarins en þjónar nú hlutverki residensíu fyrir þýðendur og rithöfunda og þar sem ég hafði sem sagt fengið að dvelja um mánaðartíma
- huggulegt bókasafn
- sundlaug
- og notaleg bókabúð, þar sem var nokkuð gott úrval og útsala allan febrúar (úps).

Villa Sarkia og snjókerla.
Við komuna til Sysmä vissi ég fátt um bæinn annað en að hann er fæðingarstaður tangósöngvarans virta Olavi Virta, og svo hafði ég líka haft spurnir af því að þarna hefði um hálfrar aldar skeið búið íslensk kona að nafni Ásta Sigurbrandsdóttir og að ævisaga hennar hefði komið út á Íslandi. Þetta vakti áhuga minn, eins og tengingar milli þessara tveggja landa gera reyndar almennt, enda bjó ég sjálf í Finnlandi og kem þangað reglulega – og svo eru Íslendingar heldur ekki á hverju strái í finnskum smábæjum eða í borgunum heldur ef út í það er farið, miðað við t.d. í hinum norrænu löndunum: árið 2011 voru tíu þúsund stykki búsett í Danmörku samkvæmt Þjóðskrá, tæp sjö þúsund í Svíþjóð og álíka í Noregi, en tvö hundruð og sex í Finnlandi.
           
Ég vonaðist sem sagt til þess að fá meira að heyra um Ástu Sigurbrandsdóttur og hennar sögu þarna í Sysmä, og sjá: þegar ég hafði dvalið í Villa Sarkia í tæpa viku var póstkorti stungið inn um bréfalúguna.

8. nóvember 2016

Þessa stund sem við eigum: Ingibjörg Haraldsdóttir látin

Núna

Einhverntíma seinna
koma þeir eflaust
með tækin sín
að snuðra í rústunum

verða margs vísari
um okkur:
þetta undarlega fólk
fyrri tíma

eflaust verða tækin þeirra
fullkomin, þekking þeirra
óskeikul

aldrei finna þeir samt
það sem máli skiptir:
þessa stund sem við eigum
núna


(Höfuð konunnar, 1995)

21. október 2016

Ljóðskáldið er ljón sem öskrar á heiminn

Elgtanaður handrukkari kemur úr fangelsi og ræður sig í vinnu á elliheimili. Þar kynnist hann gömlum hrotta á lokametrunum og saman halda þeir til Hafnar í Hornafirði til að gera út um gamla skuld. Á leiðinni borða þeir pylsur, taka tuddalega lyftingaæfingu á Kirkjubæjarklaustri, sofa hjá norskum túristamæðguskvísum, eru lamdir af færeyskri áhöfn, hjálpa bæjarstýru sem er með bakið upp við vegg og að endingu deyr sá yngri – sá eldri urðar hann í Skógafossi. Að því loknu brotnar hann niður, í frumeindir.

Eftir tæplega fjögurra mánaða síðsumars- og snemmhaustfrí snýr ljóðaviðtalaröð Druslubóka og doðranta aftur með viðtali við Halldór Laxness Halldórsson, einnig þekktan sem Dóra DNA, en hann gaf út sína fyrstu ljóðabók í fyrra: Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir. (Undirtitill: Lítil atvik – mikil eftirmál.) Bókin kom fyrst út hjá Tunglinu en síðan í viðbættri útgáfu hjá Bjarti. Ein hugmyndanna í bókinni er sú sem birtist hér í upphafi: Hugmynd að skáldsögu #2.

Sæll og blessaður, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal um Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir! Hvaðan kemur þessi titill? Maður hugsar yfirleitt ekki um ljóð og hundrað milljónir í sömu setningunni. 

Ég er ástfanginn af hugmyndum. Því þær eru alltaf sprottnar úr engu, en geta svo breytt heiminum - eða eitthvað. Ég er hugmyndaríkur gæi og get baunað þeim út úr mér, en það geta svo sem allir kannski. Þess vegna fannst mér svo gott að staðsetja mig einhvernveginn fyrir ofan alla aðra. Mínar hugdettur eru virði milljóna – ekki þínar.

Þetta er líka tónninn í bókinni. Húsið mitt er betra en þitt. Ég elska bílinn minn meira en þú elskar bílinn þinn. Harmar mínir eru miklu dýpri og verri en þínir. Ég er sérstakari en þú, þó ég sé hræddur og einmana og ráðvilltur.

Þetta er einhvernveginn dýnamíkin í bókinni og kannski mitt helsta hugðarefni. Að berskjalda sig um leið og maður ber sér á brjóst.

16. október 2016

Morð er morð er morð

Fyrir sex árum síðan (ó, hvað tíminn flýgur) las ég og bloggaði hér um ævisögu sem hefur orðið mér óvenju eftirminnileg: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Fyrir manneskju sem er veik fyrir bókmenntasögu, hinsegin sögu, skráningarsögu, klámsögu, húðflúrum og trega er Samuel Steward ómótstæðileg týpa; þessi maður sem var víðlesinn bókmenntaprófessor í Ohio og Chicago, gerðist svo húðflúrlistamaður á vesturströndinni, stundaði mikið kynlíf með mörgum mönnum og hélt því öllu til haga í sérstakri spjaldskrá sem kynlífsrannsakandinn Kinsey tók fagnandi (gott ef hann fékk ekki að vera fluga á vegg í einhverjum orgíum líka), og fór svo á endanum að skrifa hommaklám undir hinu lærða grískættaða höfundarnafni Phil Andros (philia = ást, andro = karlmaður).

Ég náði mér í nokkrar bækur eftir Phil Andros í Samtökunum ´78 í fyrra, þegar verið var að selja bækur af bókasafni félagsins sem var leyst upp árið 2014. Stór hluti safnsins er hins vegar kominn á Borgarbókasafn Reykjavíkur og uppi á 2. hæð á aðalsafninu í Grófinni er sérmerkt hilla með fjölbreyttu úrvali hinsegin bóka. Fyrir tveimur vikum sá ég þar aðra bók eftir sama höfund – reyndar undir sínu rétta nafni, Samuel Steward – sem erfitt var að taka ekki eftir, svo gul er kápan og titillinn æpandi: MURDER IS MURDER IS MURDER. Hvaða bók var þetta? Jú, að sjálfsögðu var það leynilögreglusaga með Gertrude Stein í aðalhlutverki.

5. júlí 2016

Vinur og bjargvættur almúgans: Viðtal við Lubba klettaskáld

ég gaf þér koss um daginn
engan mömmukoss
en þetta var enginn sleikur samt
hann var meira fallegur
en heitur
alls ekki of langur
og alveg passlega stuttur
ætli hann hafi ekki staðið
yfir í um fjórar sekúndur

og þú fékkst gæsahúð og alles
þannig að hann hlýtur
að hafa verið frekar góður

en samt ertu núna að reyna að
selja hann fyrir slikk á barnaland.is

Á síðasta ári leit dagsins ljós á Egilsstöðum bókaforlagið Bókstafur og þetta nýja forlag tók þátt í ljóðabókaflóðinu 2015 með tveimur bókum. Önnur þeirra er ljóðabókin Skapalón eftir hið gamalreynda austfirska klettaskáld Lubba, öðru nafni Björgvin Gunnarsson. Lubbi er viðmælandi vikunnar í ljóðskáldaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta og ljóðið sem birtist hér í upphafi, kossinn 3, er úr nýjustu bókinni hans.

Sæll, Lubbi, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Hvaðan kemur þetta nafn annars – Lubbi klettaskáld? 

Sæl Kristín Svava og þakka þér kærlega fyrir að taka þetta viðtal við mig, alltaf gaman þá sjaldan slíkt gerist.

Pabbi minn, Gunnar Finnsson gaf út hina frábæru ljóðabók ljóðmæli árið 1970. Hann notaðist við skáldanafnið gunnarr runolfr og bókina skýrði hana ljóðmæli vegna þess að áður fyrr voru yfirleitt aðeins tvö nöfn á ljóðabókum, Ljóðmæli og Kvæðakver.

1. júlí 2016

Hælið - hægur en óþægilegur andskoti

eins og auka persóna í Emil í Kattholti


Hinn sænski Johan Theorin er óvenjulegur reyfarahöfundur að sumu leyti. Fyrri bækur hans sem þýddar hafa verið á íslensku gerast allar á Ölandi – næst stærstu eyju Svíþjóðar - sumarleyfisstað sem er afskekktur og hálf yfirgefinn nema yfir sumarmánuðina, en þaðan á höfundur sjálfur ættir að rekja. Hér má nefna Hvarfið, Náttbál, Steinblóð og Haugbúa en um einhverjar þeirra fjalla ég hérna. (Þess má til gamans geta að eins og Mons Kallentoft gerir í spennusögum sínum sem ég fjalla m.a. um hér – þá helgar Theorin hverja bók einni árstíð. Ólíkt Kallentoft reynir hann þó ekki að búa til fimmtu árstíðina heldur finnur sér nýtt viðfang eftir fjórleikinn.) Sögusviðið í Hælinu – sem Ugla gaf út nú á dögunum – er smábær á vesturströnd Svíþjóðar.

Í glæpasögum Theorin fylgjumst við ekki með lögreglumönnum eða spæjurum af nokkru tagi heldur eru óbreyttir borgarar alltaf í aðalhlutverki. Í Ölands-bókunum stakk sama fólkið oft upp kollinum – t.d. gamli skipstjórinn Gerlof Davidsson sem var í aðalhlutverki í Hvarfinu en aukapersóna í sumum hinna bókanna - en hér eru allar persónur nýjar, enda sögusviðið nýtt. Annað sem einkennir bækur Theorin er hraðinn – eða öllu heldur skortur á honum. Þeim vindur hægt fram og hugnast sjálfsagt ekki öllum spennuþyrstum lesendum en mér finnst þó höfundurinn kunna þá list að vekja manni óhug betur en margir kollegar hans. Theorin er líka nokkuð lunkinn við að skapa sannfærandi persónur sem ekki allir reyfarahöfundar geta státað af. Í öllu falli hef ég aldrei staðið mig að því að hraðlesa Theorin. Svo er Hælið líka prýðilega þýtt af Elínu Guðmundsdóttur svo ekki þarf heldur að hlaupa yfir textann af því hann sé svo slæmur!!

24. júní 2016

Mig langar ekki að skrifa eitthvað svona nja-nja-nja: Viðtal við Þórdísi Gísladóttur

Fólk sem býr í heilsueflandi sveitarfélagi
þar sem börnin eru með eplakinnar,
morgunfrúr blómstra í kerjum
og bæjarskáldið skokkar á göngustíg,
fær stundum tómleikatilfinningu
og langar að stíga svo þungt til jarðar
að gangstéttarhellur molni.

Druslubækur og doðrantar seilast ekki langt yfir skammt í ljóðskáldaviðtali vikunnar: viðmælandinn er okkar eigin Þórdís Gísladóttir. Hún gaf út sína þriðju ljóðabók, Tilfinningarök, síðastliðið haust, en áður hafa komið út eftir hana ljóðabækurnar Leyndarmál annarra (2010) og Velúr (2014). Viðtalið hefst á broti úr síðasta hluta nýjustu bókarinnar, ljóðinu Til huggunar.

Hæ, Þórdís, velkomin í þetta hreinræktaða druslubókaviðtal! 

Takk og hæ, er ekki næs hjá þér þarna undir Eyjafjöllum?

Jú, það er prýðilegt, takk. Búin með Reisubók séra Ólafs Egilssonar og Önnu á Stóru-Borg og byrjuð á Fjósakona fer út í heim (það hefur nú aldeilis verið týpa) – ætli það séu einhver ljóð úr sveitinni sem maður þarf að kanna?

Þorsteinn Erlingsson fæddist á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Þú þarft að lúslesa hann, já og raula „Fyrr var oft í koti kátt“ fyrir túristana sem koma til þín á safnið.

Já, við erum einmitt með Þorsteinsstofu hér á Skógasafni, og svakalega brjóstmynd af skáldinu, hann er eins og grískur guð nema stæltari og skeggjaðri. En að nýju bókinni, hinu eiginlega umfjöllunarefni viðtalsins. Mig langaði til að byrja að spyrja þig hvaðan titillinn kemur – Tilfinningarök

Tilfinningarök er hugtak sem er búið að hringla í hausnum á mér mjög lengi. Ég held að ég hafi kynnst því í kjallaragrein eftir Vilmund Gylfason og þar kom íslensk landbúnaðarstefna við sögu. Orðið tilfinningarök er örugglega mjög ungt, á timarit.is finnast bara örfá dæmi um það fram til 1980, það eru miklu fleiri og eldri dæmi um meinta andstæðu þess; skynsemisrök. Sumir slá gjarnan hugmyndir út af borðinu með því að segja að þær byggi á tilfinningarökum og ef manneskjan sem á smá sprett í Tilfinningarökum og geymir pökkuðu íþróttatöskuna undir rúmi færi í hugræna atferlismeðferð þá yrði henni mögulega leitt fyrir sjónir að hún væri með hugsanaskekkju sem byggir á tilfinningarökum og kennt að losa sig við þessa tilfinningu og töskuna með. En svo eru margir sem segja að tilfinningarök séu góð og gild rök og að ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningarökum séu ekki verri en hinar sem byggja á svokölluðum skynsemisrökum. Að nota Tilfinningarök sem titil á þessa bók má segja að sé leikur við lesandann og um leið vísun í sögupersónur bókarinnar. Svo má alveg leika sér með orðið, við verðum mörg rök þegar tilfinningar eru í spilinu ...