laugardagur, 12. apríl 2014

Úrgangur draumaverksmiðjunnar


Stundum les ég eitthvað og hrópa í sífellu innra með mér „Já, einmitt það sem mér finnst“ og „Af hverju hef ég ekki áttað mig á þessu fyrr?“ Þannig voru viðbrögð mín við hinni sænsku Lyckliga i alla sina dagar. Om pengars och människors värde („Hamingjusöm alla sína tíð. Um gildi peninga og manneskju“) eftir Ninu Björk. Björk vakti mikla athygli í Svíþjóð á tíunda áratugnum með hinni femínísku ádeilubók sinni Under det rosa täcket („Undir bleikri sæng“). Lyckliga i alla sina dagar kom svo út á síðasta ári. Hún einskorðast ekki við málefni kynjanna heldur er hún gagnrýni á hina ýmsu þætti neyslu- og efnishyggjusamfélags þar sem samkeppni og eiginhagsmunagæsla ráða ríkjum.

Boðskapurinn er í grófum dráttum sá að við höfum gefið upp á bátinn hugsjónir um betra samfélag og látum okkur nægja einstaklingsmiðaða drauma sem tengjast persónulegum framgangi og aukinni neyslu. Hugsjónin um betra samfélag er hins vegar óeigingjörn, hún byggir á útópíu en ekki draumi.

föstudagur, 21. mars 2014

Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar

Ég vissi ekki mikið um Stúlku með maga þegar ég hóf lesturinn – hún er undirtitluð skáldættarsaga og ég vissi að hún væri skrifuð út frá (skálduðu) sjónarhorni Erlu, móður höfundar. Hún er sjálfstætt framhald Stúlku með fingur en hana hef ég ekki lesið svo það sagði mér lítið. Einhvers staðar segir að upphafið og endirinn skipti mestu máli í skáldsögu og þótt ég sé nú ekki sammála því er það hins vegar kúnst að byrja vel og þá list kann Þórunn. Byrjunin er líka óvenjuleg því það er ekki sjálfgefið að rétti staðurinn til að byrja sögu móðurinnar sé með skipsskaðanum þegar póstgufuskipið Fönixinn fórst undan ströndum Íslands frostaveturinn 1881 (óvæntir skipsskaðar fylgja mér þessa dagana). En frásögnin af slysinu og þeim sem komust lífs af og var hjúkrað í torfbæ á hjara veraldar setur þó einmitt fullkomlega rétta tóninn fyrir þessa ófyrirsjáanlegu og dásamlegu bók.

föstudagur, 14. mars 2014

Óvæntur skipsskaði í magnaðri bók

Sigrún Pálsdóttir
Ein magnaðasta jólalesningin mín var án efa Sigrún og Friðgeir – ferðasaga. Þetta er áhrifamikil lesning og ég var hreinlega skekin þegar ég lagði bókina loks frá mér. Það hefur væntanlega ýtt undir áhrifin að af dularfullum ástæðum – ég veit ekki hvernig – tókst mér að láta fram hjá mér fara um hvað bókin er. Nú er óhætt að segja að efnið hafi ekki verið neitt leyndarmál en einhvern veginn tókst mér greinilega að líta af blaðinu/sjónvarpinu eða lækka í útvarpinu akkúrat þegar Goðafoss og skelfileg endalok hans voru nefnd í tengslum við bókina. Í öllu falli hafði ég ekki hugmynd um að bókin hverfðist um þann atburð að þessi indælu læknishjón, Sigrún og Friðgeir, færust ásamt börnum sínum þremur með Goðafossi örlagaríka nótt árið 1944.

þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Grænland í litríkum svipmyndum

Sunnudaginn næstkomandi verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, veitt í Iðnó áttunda árið í röð. Hátíðin er í þetta sinn tileinkuð Jakobínu Sigurðardóttur og verkum hennar og á dagskránni verða alls konar spennandi erindi og tónlistaratriði (sjá nánar hér).
Tilnefndar bækur eru níu alls, þrjár í hverjum eftirtaldra flokka: flokki barna- og unglingabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, en ég er nýbúin að lesa eina af bókunum sem tilnefndar eru í flokki fagurbókmennta; ljóðabókina Af hjaranum (2013) sem er önnur bók Heiðrúnar Ólafsdóttur.

þriðjudagur, 11. febrúar 2014

Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire

KST: Sæl, Guðrún mín, velkomin í enn eitt Google Docs-skjalið! Þá er komið að því að við höldum áfram með druslubókaverkefnið Níðumst á Nabokov, sín hvoru megin Atlantsála, þó nokkuð löngu eftir að það hófst. Varst það ekki þú sem tókst fyrst upp Pale Fire hér um árið?

GEB: Sæl og blessuð, kæra Kristín Svava. Jú, það var víst ég sem tók hana fyrst upp, en ég er ansi hrædd um að ég hafi líka orðið síðust til að leggja hana niður.

KST: Þú tekur þér bara góðan tíma í að njóta þess unaðsmjúka súkkulaðikonfekts sem orðin eru.

GEB: Hér er mjög mikilvægt að lesendur átti sig á því að ekkert háð felst í þessum orðum þínum. 

KST: Það er hverju orði sannara.

GEB: „Unaðsmjúkt súkkulaðikonfekt“ er nefnilega alls ekki fjarri lagi. Fáir höfundar skrifa jafn fallegan og úthugsaðan texta og Nabokov. Ég hef allavega aldrei lesið höfund sem er jafn heillaður af tungumálinu, en mér skilst að hann hafi hrifist af engu eins og orðum, nema ef vera skyldi fiðrildum og skák. Annars hugsa ég að það hafi helst verið strúktúr sögunnar sem gerði það að verkum að ég dróst ekki beinlínis inn og var því lengi að klára bókina þrátt fyrir að hafa alltaf gaman af því að grípa í hana og lesa.

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Um holdlegar fýsnir og sálartætandi Bylgjufliss

Það er ekki hægt að halda því fram að ljóðabækur fái sérstaklega stórt pláss í hinni yfirdrifnu jólabókastemningu sem loðir við meginstraumsbókmenntaumræðuna á Íslandi. Fyrir utan örfáar "kanónur" er heldur lítið fjallað um nýjar ljóðabækur, einna helst þegar það er hægt að finna eitthvert sniðugt "teik" á bókunum og smætta þær niður í það, t.d. ef það er eitthvað sneddí konsept á bak við bókina eða þá að skáldið samdi ljóðin meðan það sinnti vitavörslu í Malasíu, þið skiljið hvað ég er að fara. En ljóðin halda nú samt áfram að koma út og ég taldi eitthvað um þrjátíu nýjar íslenskar ljóðabækur í Bókatíðindum síðasta árs. Hér á blogginu hafa í gegnum tíðina birst þónokkrar færslur um ljóð en við höfum lítið fjallað um nýjustu bækurnar. Ég er hins vegar með nokkrar af þeim á skrifborðinu hjá mér, bækur sem komu út 2013 og 2012 og ég hef þegar lesið, svo það er löngu kominn tími til að sparka í eigin rass og gefa ljóðinu smávegis pláss.

Í fyrra fjallaði ég um lúmska ljóðabók eftir Braga Pál Sigurðarson sem bar þann hógværa titil Fullkomin ljóðabók. Um þá bók var margt gott að segja og ekki síst lofaði seinni hluti hennar góðu, en þar mátti lesa nýrri ljóð Braga sem báru vitni um sterkari höfundarrödd og stílræna þróun. Í lok síðasta árs kom svo út ný bók eftir Braga Pál, Hold, hjá forlaginu ÚTÚR. Þegar ég skoðaði aðra umfjöllun um bókina var nokkuð augljóst að fjölmiðlafólki fannst það aldeilis hafa fundið sniðugt teik á hana, nefnilega nektina á kápunni þar sem ljóðskáldið stendur berstrípað með svínshaus í Norðurmýrinni í Reykjavík. Sumt af því sem ég las var bókstaflega fáránlegt, svo pirrandi innantómt og vandræðalegt að ég nenni ekki einu sinni að tengja á það (Fréttatíminn, ég er að horfa á þig). Mér gekk raunar illa að finna umfjöllun þar sem útgangspunkturinn var ekki bókarkápan, fann en Víðsjá brást þó ekki frekar en fyrri daginn og hér má hlusta á viðtal við Braga Pál þar sem hann talar um eigin afstöðu gagnvart ljóðinu; Bragi talar um að hafna fegurðinni og hinu fínpússaða formi og búa þess í stað til einhvers konar beintengingarljóð þar sem textinn gengur beint inn í lesandann, laus við skrúð og skraut. Hann vilji fjalla um eigin veruleika í dag, mótsagnakenndan og hráan, frekar en festa sig í fortíðarsýn hins upphafna ljóðskálds. Hann talar um heiðarleika og vafningalausan skáldskap.

Hold er vissulega skilgetið afkvæmi Fullkominnar ljóðabókar, að því leyti að ljóðmælandinn er kunnuglegur og sama hrjúfa yfirborðið einkennir ljóðin. Hins vegar er nýja bókin hnitmiðaðri og röddin eindregnari, hún segir meira en oft í færri orðum. Vaðallinn sem einkenndi fyrri bókina er ekki lengur áberandi, en takturinn verður ekki hægari fyrir vikið heldur þvert á móti þéttari og sterkari.

Undir niðri ríkir alltaf einhvers konar kaldhæðin meðvitund um formið, um fáránleika þess að skrifa ljóð, vera enn ein röddin í kaosinu. Ljóðmælandinn rennir sér inn í fyrsta ljóðið í bókinni með upphitun á lyklaborðinu og mætir opinberlega á svæðið:

"Asdferum við semsagt að skrifa í hvítu núna?


ok
gerum þetta"

(ég óska annars eftir blaðsíðutölum í næstu bók, svo hægt sé að vitna almennilega í textann!)

Röddin á bak við ljóðin vekur gjarnan athygli á sér, leyfir okkur ekki að gleyma því að við sitjum og lesum ljóðabók og stillir þannig takmörkunum formsins í kastljósið: "Ónýt orð. Afhelguð. / Fullkomin og merkingarlaus. / Sjáðu þessi tákn. / Hlustaðu á hljóðin. / Algjörlega merkingarlaus." Stundum ritskoðar röddin sig með stjörnum og við sjáum **** í stað orðanna, stundum ráðskast hún með framvinduna:

"hér er bara auð síða hehe"

sunnudagur, 26. janúar 2014

Bókmenntagetraunin: Úrslit

Eins og fram kom á föstudaginn voru þau Gísli Ásgeirsson og Þórdís Kristleifsdóttir jöfn að stigum þegar allir fjórtán liðir bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta höfðu verið birtir. Áður en farið yrði í bráðabana voru  þau Gísli og Þórdís hvött til að svara ellefta lið getraunarinnar, sem var sá eini sem rétt svar hafði ekki borist við.

Svo fór að Gísli svaraði ellefta lið rétt, og er hann því hér með krýndur sigurvegari bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta og vinnur sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, sem hefst í vikunni og druslubókabloggararnir Salka, Hildur og Kristín Svava hafa umsjón með.

Við óskum Gísla hjartanlega til hamingju með sigurinn og þökkum öllum sem tóku þátt í getrauninni kærlega fyrir. Einnig á Endurmenntun þakkir skildar fyrir verðlaunin.

Þess verður svo að sjálfsögðu að geta í hvaða verk textabrotið í ellefta lið er sótt, en það er úr bókinni Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

föstudagur, 24. janúar 2014

Úrslit bókmenntagetraunar! Bráðabani!

Úrslit hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar liggja þá fyrir og spennan á bara eftir að aukast því Gísli og Þórdís Kristleifsdóttir eru jöfn með þrjú stig hvort!

Okkur er því nauðugur einn kosturinn að efna til bráðabana og biðjum keppendur því vinsamlegast um að senda tölvupóst á bokvit@gmail.com og við munum reyna að skera úr um hvort þeirra hlýtur sæti á hinu geysivinsæla námskeiði Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi, sem er meira að segja svo vinsælt að það er orðið uppselt á það en áhugasamir geta samt enn skráð sig á biðlista og vonað það besta. 

Nú, eða þau Gísli og Þórdís geta gert sér lítið fyrir og giskað á ellefta lið, sem enn hefur ekki borist fullnægjandi svar við.

Rétt svar við fjórtánda og síðasta lið var auðvitað hin ógnvænlega Haldin illu anda eða The Exorcist eftir William Peter Blatty.

Annars þökkum við bara kærlega öllum þeim sem tóku þátt!

miðvikudagur, 22. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórtándi og síðasti liður

Þá er það fjórtándi og jafnframt síðasti liður hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Enn hefur ekkert svar borist við þrettánda lið, sem þið megið endilega spreyta ykkur við.

Úrslit verða tilkynnt von bráðar, en eins og fyrr segir eru verðlaunin ekki af verri endanum, heldur sæti á jólabókaflóðsnámskeiði Endurmenntunar sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku.

Og vindum okkur þá í fjórtánda liðinn.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Nákvæmlega klukkan 00.25 eftir miðnætti leit Chris upp úr handritinu og hleypti brúnum. Hún heyrði undarleg högg. Þau voru óregluleg. Lág. Djúp. Hrynjandilaus. Annarleg eins og dauður maður berði.
Skrítið.
Hún hlustaði andartak; missti síðan heyrnar á höggunum, en þegar þau héldu áfram, gat hún ekki einbeitt sér að handritinu. Hún lagði það frá sér á rúmið.
Drottinn minn, ég þoli þetta ekki!Hún stóð upp til að kanna málið. Hún fór fram á ganginn og svipaðist um. Hljóðin virtust koma úr svefnherbergi Regans.“þriðjudagur, 21. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þrettándi liður

Þá er komið að þrettánda og næstsíðasta lið í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Svar við tólfta lið var Ég um mig frá mér til mín eftir Pétur Gunnarsson, en enn hefur ekki borist rétt svar við ellefta lið og því eru lesendur hvattir til að halda áfram að giska.

Spurt er: Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Einmanaleikinn var ekki horfinn úr hjarta mínu þegar við Ágúst gengum út af dansstaðnum Týnda hlekknum sem stóð bleikmálaður og háreistur með glæsilegum gluggapóstum við Götu glötuðu tækifæranna í þann mund sem hárprúðar hórur flykktust alls staðar að með klappstólana sína útá gangstétt, í sólríku síðdeginu, til þess að greiða sér, lesa blöðin, tjatta saman og mála sig. Allt í kringum þær rússuðu litlir strákar að gera þeim til geðs með sígarettuna hangandi í munnvikinu, með skemlana sína og skóburstakassana í höndunum, tilbúnir að bursta skó hóranna og karlanna sem færu að mæta í heimsókn eftir hádegisverðinn. Gömlu hórurnar sem voru hættar að sofa nokkurn hlut vöfruðu um, vaktandi ástand hlutanna og tóku auðvitað eftir mér um leið og við Ágúst gengum hönd í hönd útaf skemmtistaðnum.“

mánudagur, 20. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tólfti liður

Þá er það tólfti liður hinnar epísku bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Rétt svar við ellefta lið hefur enn ekki borist svo við hvetjum lesendur eindregið til þess að halda áfram að giska.

Og þá spyrjum við: Í hvaða verki birtist eftirfarandi brot og hver er höfundur þess?

„Hafiði séð rafmagnstannburstana? spurði tannlæknirinn í fjölskyldunni og fjölmargir þurftu að taka til máls um hina vélknúnu bursta sem voru nýkomnir á markaðinn, mælendaskráin ætlaði aldrei að tæmast. Það var kona búin að að króa tannlækninn af og endaði hverja setningu með því að gapa niður í kok og í hvert skipti var eins og tannlæknirinn fengi ofbirtu í augun. Fólk vissi ekki fyrr en það var búið að bursta aðrahverja fyllingu úr tönnunum.“

sunnudagur, 19. janúar 2014

Bókmenntagetraun, ellefti liður

Þá er komið að ellefta lið bókmenntagetraunarinnar. Textabrotið í tíunda lið var sótt í ævisögu Stefáns Jónssonar, Að breyta fjalli.

Nú er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Verkamenn hafa enga ástæðu til að drepa sig. Nema þá geðbilun. Þeir hafa ekki heldur neina ástæðu til geðbilunar. Þeim hefir aldrei liðið eins vel. Þeir ættu að skammast sín að bilast á geðsmunum og drepa sig eins og þeir hafa það gott. Annað mál með okkur. Við vinnum með heilanum og berum ábyrgðina á velferðarríkinu ofan frá og niður í gegn. Þeir ættu að skammast sín. Já, þeir ættu að skammast sín! Þurfa ekki einu sinni að hugsa. Og gera það ekki. Það er ekki ætlast til þess af þeim, það er ekki þeirra fag. Og samt drepa þeir sig. Til hvers ætlast þeir eiginlega? Þeir hafa sína menn til að standa í kjarasamningamakkinu fyrir sig og segja þeim hvenær þeir eiga að samþykkja og hvenær þeir eiga að fara í verkföll. Þeir fá sína lýðræðislegu tilsögn um hverja þeir eiga að kjósa, þeir fá allt upp í sig hakkað og tuggið. Um hvað ættu þeir að hugsa?“

laugardagur, 18. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tíundi liður

Það er farið að síga á seinni hlutann í bókmenntagetrauninni og komið að tíunda lið af fjórtán. Rétt svar við níunda lið var Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus eftir Mary Shelley, í þýðingu Böðvars Guðmundssonar.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Það þótti ekki fráleitt að koma dálitlu hjartarsalti saman við í neftóbaksdós eða pontu, ef færi gafst, en fyrir neðan allar hellur að spræna í regnkápuvasa, þar sem maður geymdi munntóbakið sitt. Það var alls ekki vítavert að lauma dálitlu af natroni eða matarsóda í náttpottinn hjá gamalli frænku sinni, en fráleitt að nota karbít, sem gat brennt á henni botninn, þegar sauð upp úr koppnum. Óleyfilegt var að troða strigapoka ofan í stromp á nokkru húsi, en ekki fráleitt, ef svo bar undir, að leggja torfusnepil yfir reykháfinn og banka svo uppá og fá að sitja inni í eldhúsi dálitla stund, til þess að hlýða á athugasemdir húsfreyju um undarlega hegðun eldavélarinnar, sem aldrei áður hafði tekið upp á því að reykja!“

föstudagur, 17. janúar 2014

Bókmenntagetraun, níundi liður

Þá er komið að níunda lið bókmenntagetraunarinnar. Verðlaunin eru ekki af verri endanum: sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar, en það er í umsjón þriggja penna Druslubóka og doðranta.

Svarið við áttunda lið hefur þegar borist, en textabrotið var úr skáldsögunni Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Meðan ég var að lesa einbeitti ég mér að eigin tilfinningum og ástandi. Mér fannst ég vera líkur og þó jafnframt ólíkur þeim sem ég las um og hlustaði á ræða saman. Ég hafði samúð með þeim og skildi þau að nokkru leyti en hugur minn var ómótaður, ég var ekki háður neinum og ekki í ætt við neinn. Mér var „greiðfært á brautu að leita“ og enginn mundi gráta tortímingu mína. Ég var viðbjóðslegur útlits og risi að vexti. Hvað þýddi það? Hver var ég? Hvaðan kom ég? Hvert lá leið mín? Þessar spurningar leituðu stöðugt á mig en ég var ófær um að svara þeim.“

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Bókmenntagetraun, áttundi liður

Þá fer áttundi liður bókmenntagetraunarinnar í loftið. Svarið við sjöunda lið kom fljótt fram, en tilvitnunin var úr Dagbók Önnu Frank.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Hún hrökk upp í Blessuð sértu sveitin mín og leit í kringum sig, hafði sigið niður í sætinu og sparkað skónum undir næsta bekk. Vonandi hafði hún ekki hrotið líka. Vandræðaleg gaut hún augunum til konunnar við hliðina en hún sat og starði svipbrigðalaus og steinþegjandi á textablaðið. Hinum megin við hana svaf eldri herra. Það ýldi í nefinu á honum þegar hann andaði inn, svo púffaði hann á útönduninni. Hún smokraði sér í skóna, reisti sig upp í sætinu og tók hraustlega undir.“

miðvikudagur, 15. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjöundi liður

Og þá er það sjöundi liður bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við sjötta lið kom fram; Blinda eftir José Saramago, í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur.

Að gefnu tilefni tökum við fram að svör þurfa að berast í kommentakerfi bloggsíðunnar en ekki á Facebook-síðu Druslubóka og doðranta.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Við höfum öll verið dálítið ringluð þessa síðastliðnu viku vegna þess að yndislegu Westertoren kirkjuklukkurnar okkar hafa verið teknar niður og sendar í málmbræðslu vegna stríðsins, svo að við vitum ekki nákvæmlega hvað tímanum líður, hvort heldur er að nóttu eða degi. Ég el enn með mér vonir um að þeir komi með eitthvað í staðinn, gert úr tini eða kopar eða einhverju slíku, til þess að minna nágrennið á klukkuna.“

mánudagur, 13. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjötti liður

Þá er komið að sjötta lið bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Svar við fimmta lið barst fljótt og vel, en textabrotið var úr ljóðabókinni Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Stúlkan með sólgleraugun sté fram úr rúminu sínu hinum megin við ganginn og gekk af stað með útrétta handleggina í áttina að grátinum: – Þér eruð í uppnámi, get ég gert eitthvað fyrir yður? spurði hún þar sem hún gekk til hennar og þreifaði með báðum höndum á liggjandi fólkinu. Háttprýðin bauð henni að kippa að sér höndunum tafarlaust og heilinn gaf henni þessa skipun afdráttarlaust, en hendurnar hlýddu ekki, snertingin varð bara mýkri, varla annað en létt stroka með fingurgómunum yfir þykkt og hlýtt teppið. – Get ég gert eitthvað fyrir yður, spurði stúlkan aftur og núna dró hún loksins til sín hendurnar, lyfti þeim uns þær hurfu inn í steindauða hvítu, umkomulausar. Læknisfrúin var enn snöktandi og fór fram úr rúminu, faðmaði stúlkuna að sér: – Þetta er ekki neitt, ég varð allt í einu svo niðurdregin, sagði hún.“

sunnudagur, 12. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fimmti liður

Þá er komið að fimmta lið bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við fjórða lið var Gvendur bóndi á Svínafelli eftir J. R. R. Tolkien.

Og við vindum okkur bara beint í fimmta lið.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„hann ítrekar að drekinn lækni einsemdina, ég
segi: ég er hér
en
drekinn gerir hann heyrnardaufan og málstola
og sjúklegan í sumarbirtunni, ég er með tálkn sem
víbra eins og dauðateygjur, ég sá það fyrir
því pabbi minn segir að allt fallegt sé
spillandi eða

kannski sagði hann það aldrei“


föstudagur, 10. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórði liður

Þá er komið að fjórða lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Eins og áður þurfa svör að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Rétt svar við þriðja lið er auðvitað að textabrotið er úr Hinu stórkostlega leyndarmáli Heimsins og er eftir Steinar Braga. Rétt svar hefur enn ekki borist við öðrum lið en við hvetjum ykkur eindregið til þess að halda áfram að giska.

En er þá komið að fjórða lið getraunarinnar:

 Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Bóndinn spratt á bak merinni. Drekinn tók til fótanna og merin líka, því að hún hafði fælst. Drekinn brokkaði másandi og blásandi yfir akra og engi. Merin fylgdi fast á hæla hans. Bóndinn skammaðist og öskraði eins og hann væri á veðreiðum og sífellt veifaði hann brandinum Sporðbíti. Því hraðar sem drekinn hljóp því ringlaðari varð hann og hræddari og sífellt neyddist hann til að auka hraðann.“


fimmtudagur, 9. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þriðji liður

Þá er komið að þriðja lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Ekki hefur borist rétt svar við lið tvö frá því í gær, þar sem spurt var um söguna af Gunnþóru sem mjaðmarbraut sig í frekjukasti, svo þið hafið enn tækifæri til að svara þar.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, þriðji liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

"Svipurinn á andliti herra Saunders tók að molna - andlit hans geiflaðist, herptist og var allt í senn: undrandi, sakbitið, reiðilegt og bernskt. Ég sá glitta í litla drenginn er leitað hafði móður sinnar þegar upp komu vandræði, en núna var móðir hans, að því gefnu að hún væri ekki farþegi á skipinu, víðs fjarri. Hann stóð snöggt á fætur, gekk yfir að rimlatjöldunum, svipti þeim upp og starði út á Esplanöðuna. Að liðnum nokkrum mínútum af íhugun og mettaðri þögn sneri hann sér við og ávarpaði Stein:
"Þér spilið skítuga en kannski virði ég það við yður. Ég skal segja allt af létta, hafið ekki áhyggjur. Ég játa mig sigraðan. Þér gætuð kannski byrjað á að upplýsa mig hvernig... Var það Irene?"
"Ah," sagði Steinn og brosti. "Núna eruð þér forvitnir. Ég skal upplýsa yður... Ungfrú Betty sagði ekkert. Það sem kom upp um yður var öllu smærra að vöxtum, eða jafn smátt og langanir sumra viðstaddra.""

miðvikudagur, 8. janúar 2014

Bókmenntagetraun, annar liður

Þá er komið að öðrum lið (af fjórtán) í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Í verðlaun er eins og fyrr sagði sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Textabrotið frá því í gær var, eins og glöggir lesendur voru fljótir að uppgötva, úr Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur.

Nú kemur í ljós hvort þið getið jafn auðveldlega svarað öðrum lið.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, annar liður: 

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Í hvert sinn sem ég henti mér í gólfið sagði pabbi mér sömu söguna. Þetta var sagan af henni Gunnþóru. Gunnþóra reyndi alla ævi að sveigja veröldina að eigin frekju og meinlokum. Hún hafði vanið sig á að kasta sér í gólfið ef hún fekk ekki vilja sínum framgengt. Þegar hún var áttatíu og sjö ára gömul kastaði hún sér í gólfið í síðasta sinn og mjaðmarbrotnaði illa. Vildi ég enda eins og hún Gunnþóra?“


þriðjudagur, 7. janúar 2014

Druslubækur og doðrantar kynna: Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta!

Druslubækur og doðrantar óska lesendum gleðilegs nýs árs. Við vonum að hið liðna hafi verið ykkur ánægjulegt.

Við ætlum að hefja nýtt lestrarár með æsispennandi bókmenntagetraun í mörgum liðum og verðlaunin eru vegleg, nefnilega sæti á bókmenntanámskeiði hjá Endurmenntun. Það eru auðvitað engar aðrar en við sjálfar sem kennum námskeiðið (eða réttara sagt hluti okkar, þær Kristín Svava, Salka og Hildur). Námskeiðið hefst fimmtudaginn 30. janúar og þar verða nokkrar vel valdar jólabækur lesnar og ræddar út frá öllum mögulegum vinklum, fræðilegum jafnt sem ófræðilegum. Námskeiðið heitir Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi og það má lesa meira um það hér.

Þar sem við erum fjórtán sem hér skrifum þá verður getraunin í fjórtán liðum. Hver okkar mun velja textabrot úr einhverri bók og lesendur eiga að giska á bæði verk og höfund þess í athugasemdakerfi síðunnar. Sá eða sú sem oftast giskar á rétt svar vinnur getraunina og þar með sæti á námskeiðinu, sem við lofum að verður skemmtilegt. Athugið því að svör þurfa að vera undir réttu nafni þess sem giskar svo við getum reiknað saman stig.

En vindum okkur bara beint í getraunina.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, fyrsti liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur verksins?

„Nei litla heimska dýrið sleppur ekki. Stóra stóra dýrið eltir það lengi enn - eltir það að gamni sínu. Stóra dýrið er ekkert þreytt og það getur hlaupið miklu miklu harðara ef það vill, en það er bara að skemmta sér við að hræða litla dýrið og gera það dauðþreytt. Litla dýrið hleypur miklu harðara en það getur af því að það er svo hrætt - svo ógurlega hrætt við stóra dýrið. En það er alveg sama hvað það hleypur, það á sér engrar undankomu von. Stóra dýrið nær í það með stóru sterku klónum þegar það vill.“

mánudagur, 30. desember 2013

Morð, spenna, tár og veður

er „augað“ ekki orðið dáldið
þreytt sem kápumynd?


Larsson á góðri stund
Ég hef lengi verið mikill aðdáandi Åsa Larsson og dálítið-dapurlegu-en-þó-skemmtilegu reyfara hennar. Fyrir það fyrsta er hún með frumlegar og áhugaverðar aðalsöguhetjur sem þróast og eru ekki fullkomlega fyrirsjáanlegar. Þar ber fyrst að nefna lögfræðinginn Rebecku Martinsson sem var áður heilmikið númer hjá stórri lögfræðistofu í Stokkhólmi en vegna persónulegra aðstæðna er hún nú flutt aftur á heimaslóðirnar í Kiruna, fyrrum yfirmanni sínum og ástmanni til mikils ama. Fórnargjöf Móloks (langsóttur titill verð ég að segja) er fimmta bókin um hana og þó að bækurnar séu allar sjálfstæðar þá mæli ég með því að þær séu lesnar frá byrjun...eða í öllu falli allar lesnar til að skilja til fulls persónuna - og svo líka af því þær eru spennandi og skemmtilegar. Til að ljóstra ekki upp um neitt læt ég nægja að segja að Rebecka hafi í fortíðinni orðið fyrir áfalli sem breytti afstöðu hennar til lífsins og í raun henni sjálfri – sem er líka þægileg tilbreyting frá lögreglumönnum (eða öðrum sem leysa glæpamál í reyfurum) sem spretta iðulega alheilir upp í bókarlok og hrista af sér skelfingu síðustu 300 blaðsíðna eins og kátir hundar hrista af sér vatn.

sunnudagur, 22. desember 2013

A gruffalo! Whit, dae ye no ken?

Nýlega áskotnuðust mér óvæntur happafengur, tvær afar skemmtilegar barnabækur. Aðra þeirra hafði ég reyndar lesið áður en á öðrum tungumálum. Þetta voru bækurnar "The Gruffalo" og "The Gruffalo's Wean" eftir Juliu Donaldson og Axel Scheffler - á skosku.

Mörg börn og foreldrar þekkja bækurnar um the Gruffalo, sem í skemmtilegri þýðingu Þórarins Eldjárn heitir Greppikló. Greppikló er skrítið og skemmtilegt skrímsli sem kemst í kynni við brögðótta mús. Eftir fyrri bókinni hefur verið gerð teiknimynd sem var sýnd í íslensku sjónvarpi fyrir einhverjum jólum síðan; ekki veit ég hvort myndin eftir seinni bókinni hefur verið sýnd hér en hún er allavega líka til.

Greppikló hefur líka komið út á rússnesku
Greppiklóarbækurnar eru ætlaðar ungum börnum og texti Juliu Donaldson sem er að mestu leyti í bundnu formi einkennist af rími og skemmtilegri hrynjandi. Myndirnar eftir Axel Scheffler eru fallegar, líflegar og uppfullar af húmor; líkt og Áslaug Jónsdóttir og félagar gera í skrímslabókunum vinsælu varpar textinn gjarnan óvæntu ljósi á myndirnar og öfugt. Lesandinn fær að sjá hvernig í pottinn er búið á undan persónum.

Skosku, eða Scots, má ekki rugla saman við skoska gelísku, sem er keltneskt tungumál sem u.þ.b. eitt prósent skosku þjóðarinnar talar. Scots er ýmist flokkað sem tungumál eða sem mállýska/afbrigði af ensku, sumsé skosk enska. Talið er að einn af hverjum þremur Skotum hafi vald á að tala skosku en mun fleiri skilja hana. Innan skoskunnar er svo hellingur af mállýskum og svæðisbundnum sérkennum. Eitthvað er enn gefið út af bókum á skosku og margir nútímahöfundar sem skrifa á ensku nota eitthvað úr skoskunni. Þegar leikrit eftir undirritaða var sett upp með skoskum leikurum var til dæmis önnur persónan þýdd yfir á skoska mállýsku á meðan hin talar "flatari" ensku. Í skosku (og skoskri ensku almennt) er fullt af orðum sem eiga meira skylt við íslensku og norræn mál en enskuna. Mér reyndist oft auðveldara að skilja skosku orðin heldur en enskum og bandarískum vinum mínum. Skoska er blæbrigðarík og það er einhver innbyggður húmor í málinu; ég á mjög skemmtilega bók þar sem safnað hefur verið saman vísum og leikjaþulum frá Skotlandi þar sem smellið rím og óvænt málnotkun eru á hverju strái.

laugardagur, 21. desember 2013

Útlenskar gauksklukkur, gaddfreðnar tertur og kennaraefni sem hefðu betur sleppt því að sofa við opinn glugga

Ég varð fyrir nokkru áfalli um daginn þegar ég komst að því að Þórdís Gísladóttir ljóðskáld og barnabókahöfundur, sem ég stóð í þeirri trú að þekkti allar barnabækur sem hefðu komið út á Íslandi frá upphafi vega, hafði aldrei heyrt um Klukkuþjófinn klóka. Öfugt við margar af mínum góðu meðbloggurum er ég lítil IBBY-týpa í mér, en sumar barnabækur sitja í minninu fyrir að hafa verið skemmtilegri en aðrar. Það var lítil saga af skólastjóranum í Klukkuþjófnum klóka sem rifjaðist upp fyrir mér þegar við Þórdís vorum að fara að sofa í heimavistarlegu herbergi í Finnlandi og ræddum hvort við ættum ekki að opna glugga fyrir nóttina:

„Þegar minnst var á þá ósvinnu að opna glugga ef veðrið var gott, sagði hann ætíð sömu söguna um bekkjarfélaga sinn í Kennaraskólanum, sem hafði alltaf sofið við opinn glugga og einn morguninn fannst hann dauður í rúmi sínu með snjóskafl á brjóstinu. Það hafði fennt inn um gluggann um nóttina og á bringu hins sofandi kennaraefnis.“

(Við opnuðum nú samt.)

Höfundur Klukkuþjófsins klóka er Guðmundur Ólafsson, leikari og rithöfundur, sem alls hefur gefið út eina unglingabók og fimm barnabækur. Þekktastur er hann fyrir bækurnar um Emil og Skunda, sem kvikmyndin Skýjahöllin var gerð eftir, en þótt ég hefði ósköp gaman af þeim var það alltaf Klukkuþjófurinn sem átti hjarta mitt. Það segir kannski eitthvað um mig sem lesanda; Klukkuþjófurinn gengur mikið til út á stuð og sniðugheit, en Emil og Skundi er meiri þroskasaga. Það fór ekki sérlega vel í mig sem barn, og gerir reyndar ekki enn, þegar persónur sögunnar læra af mistökum sínum og lesandinn á helst að gera það líka.

Tvær góðar nóvellur

Nýlega kom út hjá Máli og menningu fyrsta bók Halldórs Armands Ásgeirssonar, Vince Vaughn í skýjunum, sem inniheldur tvær nóvellur. Sú fyrri er samnefnd bókinni og segir frá menntaskólanemanum og sundlaugarsumarstarfsmanninum Söru. Sú seinni heitir Hjartað er jójó og er frásögn Þóris, lottókynnis í sjónvarpinu.

Báðar gerast nóvellurnar að stærstum hluta í Reykjavík og tímarammi beggja spannar fáeinar vikur. Á yfirborðinu eru sögurnar og aðalpersónur þeirra annars nokkuð ólíkar, auk þess sem við kynnumst Söru í frásögn alviturs sögumanns á meðan Þórir segir frá í fyrstu persónu. Bæði verða þau fyrir einhvers konar vitrun, sem verður ekki betur séð en hafi verið ætluð þeim einum og sem kemur til með að hafa töluverð áhrif á líf þeirra, en nálgast þó þessar vitranir og tilheyrandi afleiðingar með ólíku móti hvort um sig. Á meðan Þórir er sannfærður um það frá byrjun að honum hafi verið falin mikilvæg skilaboð til umheimsins er það fyrst eftir viðbrögð annarra að Söru fer að detta í hug að hennar upplifun hafi kannski verið eitthvað merkileg. Þrátt fyrir sterka sannfæringu þarf Þórir líka að hafa töluvert meira fyrir því en Sara að miðla boðskapnum sem hann telur sig hafa að flytja, og þegar athyglin loks næst er hún ekki beinlínis af þeim toga sem hann hafði séð fyrir sér. Þórir er eldhress á yfirborðinu en í raun félagslega einangraður; þráir nánd í samskiptum en veit ekki hvernig hann ætti að bera sig að við að nálgast aðra. Í vitrun hans birtist nokkuð sem hann telur eiga almennt erindi, eitthvað sem fólk gæti sameinast um, en það gengur ekki eftir. Þetta er þó einmitt það sem gerist í tilfelli Söru, án þess að hún hafi séð það fyrir eða vonast eftir því sjálf. Með öðrum orðum birtist afar tilviljunarkennt samband milli persónulegrar sannfæringar og viðleitni annars vegar og viðbragða umhverfisins hins vegar.

Af tilgangi og merkingu hausatalninga


Um daginn birti ég hér niðurstöður óvísindalegrar könnunar minnar á kyni höfunda uppáhaldsbóka (í grófum dráttum) kvenna annars vegar og karla hins vegar. Sumir brugðust við þessari talningu með því að hlaupa í vörn og fara að útskýra hvernig kvenmannsleysi á þeirra listum væri sko alls ekki til komið vegna fordóma gagnvart kvenrithöfundum eða bókum eftir konur. Jafnframt fékk ég ýmsar spurningar, t.d. um það hvað mér fyndist þá ásættanlegt kynjahlutfall höfunda sem fólk les eða hvort ég væri virkilega að reyna að neyða fólk til að lesa eitthvað annað en það langar til að lesa, birta falsaða vinsældalista eða þar fram eftir götunum. Af þessu tilefni tel ég rétt að koma á framfæri eftirfarandi atriðum:

fimmtudagur, 19. desember 2013

Gott myndasögustöff frá Norðurlöndunum (hinum sko)

Alltaf við og við man ég hvað bókasafnið í Norræna húsinu er mér mikil uppspretta gleði og þá fer ég margar ferðir í röð, yfirleitt alveg þangað til ég fer til útlanda, gleymi að skila bókum og þarf að biðja bóngott foreldri um að skila þeim áður en sektin skellur á. Núna er Norræna hússhrina í gangi hjá mér og ég hef nælt mér í nokkrar góðar skruddur síðustu vikurnar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á myndasögum er ekki slæm hugmynd að kíkja í Norræna húsið og skoða úrvalið. Síðasta mánuðinn hefur verið þar afar girnileg útstilling með myndasögum norrænna kvenhöfunda, en einn af eftirlætisbókaflokkunum mínum er einmitt sænska serían um Johönnu eftir Li Österberg og Patrik Rochling (sá hinn síðarnefndi er raunar ekki kona, en hann er mjög töff). Johönnu kynntist ég í bókasafni Norræna hússins þegar ég byrjaði að lesa safnbækurnar Allt för konsten sem eru gefnar út í Svíþjóð og innihalda úrval norrænna myndasagna. Fyrsta bókin kom út 1998 og nú eru þær orðnar tíu, mjög djúsí bækur sem hafa kynnt mig fyrir ýmsum spennandi höfundum. Eins og títt er um safnrit tengi ég mismikið við höfundana en í hverju bindi hafa verið einhverjar sögur sem mér finnst alveg frábærar. Ég fékk nr. 7 og 8 lánaðar á bókasafninu um daginn og nú vantar mig bara tvær síðustu til að hafa lesið allar. Ég held þær séu allar uppseldar hjá útgefanda en eru eflaust til á alls kyns bókasöfnum á Norðurlöndunum. Það er Optimal Press sem gefur út Allt för konsten; sérhæfð forlög með svona katalóg vekja alltaf með mér ákveðinn pirring yfir að við skulum vera dvergþjóð þar sem ekkert þrífst nema það almenna.
Það var einmitt önnur bók frá Optimal Press sem ég féll algjörlega fyrir núna í haust. Í Norræna húsinu fékk ég að láni dönsku myndasöguna Glimt (las hana reyndar á sænsku undir heitinu Glimtar) eftir Rikke Bakman, sem er núna nýja uppáhalds mín.

miðvikudagur, 18. desember 2013

Doctor Sleep, nýlegt framhald The Shining, veldur druslubókadömu ekki vonbrigðum

Falleg, jólarauð kápa.
Í haust kom út ný skáldsaga eftir Stephen King, Doctor Sleep, sem er framhald einhverrar bestu hryllingssögu allra tíma, The Shining. Ég hafði beðið bókarinnar með töluverðri eftirvæntingu, endurlas The Shining til að vera sem undirbúnust fyrir lesturinn og keypti mér meira að segja nýja útgáfu sem hafði að geyma brot úr fyrstu köflum framhaldsins óútgefna á lokablaðsíðunum. Það var vel við hæfi þar sem Doctor Sleep hefst árið 1981, ekki svo löngu eftir að Overlook-hótelið brennur til grunna. Lesendum er þá gefin svolítil hugmynd um afdrif mæðginanna Danny og Wendy Torrence í kjölfar hryllilegra atburða fyrri bókarinnar, en svo er fókusinn færður alveg yfir á Danny þegar hann er vaxinn úr grasi. Það kemur kannski ekki á óvart að draugar fortíðarinnar – sama hvaða skilning maður leggur í þau orð – skuli fylgja söguhetjunni okkar út fyrir lóðarmörk hótelsins óhugnanlega. Danny Torrence er semsagt ekki sá heilsteypti fullorðni einstaklingur sem við hefðum ef til vill vonast til að hinn ungi og afar viðkunnanlegi „doc“ yrði einhvern daginn, heldur flakkar hann einn milli bandarískra borga þar sem hann fær iðulega ráðningu á hjúkrunar- og elliheimilum um skeið, eða þangað til hann hættir að mæta sökum drykkju og ólifnaðar. Þá bíður hans enn ein rútuferðin, enn ein borgin, enn meiri þynnka og vesen.

fimmtudagur, 12. desember 2013

Karlar lesa ekki kerlingar

Mál málanna á Facebook undanfarna daga hefur verið að telja upp tíu bækur sem hafa haft áhrif á líf viðkomandi. Ég hef séð lista frá ýmsum vinum mínum og líka vinum þeirra. Eitt helsta einkenni þessara lista kemur svo sem ekki á óvart: karlar lesa helst ekki bækur eftir konur, alla vega ekki þannig að þeir telji bækur þeirra hafa haft áhrif á sig. Nú veit ég að það er ekki alltaf að marka yfirsýn sem verður til við að renna yfir hlutina, þannig er hægt að upplifa kynjaslagsíðu án þess að hún sé til staðar rétt eins og mögulegt er að einhverjir taki ekki eftir slagsíðu sem er til staðar. Ég ákvað því að safna saman upplýsingum í snyrtilegt Excelskjal og greina tölurnar. Ég tíndi til 20 konur og 20 karla, sem ýmist eru vinir mínir á Facebook eða vinir vina minna, og kyngreindi listana þeirra. Val mitt var svo sem ekki hávísindalegt, þetta var það sem ég fann á veggjum vina minna eða vina þeirra og ég hætti þegar ég var komin með 20 af hvoru kyni.

Alls voru tilnefningar 417 (nokkrir nefndu aðeins fleiri en tíu bækur og örfáir færri). Ég tala um tilnefningar því margir nefndu auðvitað sömu bækurnar. Tilnefningar eftir karlkyns höfunda voru 309, eða 74%, og eftir kvenkyns höfunda 108, eða 26%. Hjá körlum voru tilnefningar 192 eftir karla og 21 eftir konur, þ.e. 90% og 10%. Hjá konum voru tilnefningar 117 og 86, eða 58% og 42%.

Tíu af körlunum tuttugu nefndu enga bók eftir konu. Tveir nefndu fimm af hvoru kyni. Gaman er að segja frá því að þessir tveir voru báðir með mér í BA-námi í heimspeki fyrir nokkuð löngu og þeir eru báðir að norðan. Þeir átta karlar sem eftir standa nefna ýmist eina eða tvær bækur eftir konur. Bækur norrænu barnabókahöfundanna Astrid Lindgren og Tove Jansson eru greinilega körlum hugstæðastar af bókum eftir konur þar sem um er að ræða bækur eftir þær í ellefu tilfellum af tuttugu og einu. Þessi blinda á bókmenntir kvenna kemur svo sem ekki á óvart. Ég man eftir strákum sem voru með mér í menntaskóla sem töldu sig vel lesna og sem tóku það sérstaklega fram að þeir læsu aldrei bækur eftir konur.

Engin af konunum nefndi aðeins bækur eftir karla en ein nefndi eingöngu bækur eftir konur. Þrjár í viðbót nefndu fleiri bækur eftir konur en karla og sex kvennanna skiptu tilnefningum jafnt milli kynja. Hinar tíu konurnar nefndu allar fleiri bækur eftir karla en konur. Konan sem nefndi aðeins bækur eftir konur fékk eftirfarandi athugasemd við listann (frá karlmanni): „Bara konur - sama og flestar aðrar konur hér á FB“. Einmitt, þvílík ósvífni að nefna bara bækur eftir konur!

Meðal karlanna sem nefndu engar eða sárafáar bækur eftir konur eru þjóðþekktir rithöfundar, menn í störfum við bókaútgáfu og bókaumfjöllun og menn sem eru yfirlýstir femínistar eða stuðningsmenn kvennabaráttu. Mér finnst það ekki í lagi. Vissulega eru svona listar ekki settir fram af einhverri stórkostlegri alvöru en ég fellst samt ekki á að það skipti ekki máli hvernig þeir eru samansettir. Það skiptir máli hverju maður hampar sem merkilegu og mikilvægu, jafnvel þótt það sé hluti af leik. Val okkar á hinum ýmsu hlutum hefur áhrif á aðra í kringum okkur, það hvernig þeir upplifa heiminn og það smitar út frá sér. Þetta gildir ekki síst ef viðkomandi er stöðu sinnar vegna talinn meira marktækur en meðaljóninn um viðkomandi efni.